Málstofa um tekjudreifingu og skatta

Föstudaginn 24. október kl. 16 verður málstofa RNH um „Tekjudreifingu og skatta“ í fundarsal Gamma á jarðhæð við Garðastræti 37. Þar mun prófessor Corbett Grainger frá Wisconsin-háskóla í Madison bera saman tvær lausnir á fiskveiðivandanum, skattlagningu eða úthlutun afnotaréttinda, prófessor Ragnar Árnason greina ýmsar mælingaskekkjur og hugsanavillur um tekjudreifingu og skattbyrði og prófessor Hannes H. Gissurarson gagnrýna kenningar franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys um sífellt breiðara bil milli ríkra og fátækra.

Málstofan er haldin í tilefni af því, að komið er út hjá Almenna bókafélaginu greinasafnið Tekjudreifing og skattar, sem sex íslenskir fræðimenn skrifa í, Ragnar Árnason, Birgir Þór Runólfsson, Axel Hall, Helgi Tómasson, Hannes H. Gissurarson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson. Einn samstarfsaðili RNH, RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, styrkti útkomu bókarinnar. Málstofan er haldin í samstarfi við Samtök skattgreiðenda. Eftir fyrirlestra og umræður verður móttaka frá 17.30 til 19.

Allt áhugafólk um tekjudreifingu og skatta er hvatt til að mæta.

lesa áfram

15.000 glasamottum dreift á veitingahús

Samtök skattgreiðenda hafa boðað til blaðamannafundar þar sem vakin verður athygli á átaki sem hefst þann 1. mars og í fréttatilkynningunni sagði m.a.:

„Um 15.000 glasamottum verður dreift á veitinga- og skemmtistaði í Reykjavík og nágrenni og á nokkrum stöðum úti á landi. Glasamotturnar vekja athygli á hárri skattlagningu hins opinbera á bjór. Þá verður þess einnig minnst að 25 ár eru liðin frá afnámi banns við sölu bjórs á Íslandi.

Með þessu átaki er ekki aðeins ætlunin að vekja athygli á þeirri staðreynd að ríkið tekur til sín að meðaltali 75% af smásöluverði bjórs sem seldur er í verslunum ÁTVR og í kringum 50% af smásöluverði á veitingahúsum. Markmiðið er líka að vekja athygli á tilraun hins opinbera til að stjórna neyslu og lífsstíl fólks með skattlagningu, regluverki, innflutnings- höftum o.s.frv. Stjórnmálamenn, embættismenn og sérfræðingar á vegum hins opinbera geta ekki metið hvað einstaklingnum er fyrir bestu hverju sinni og þaðan af síður hvað veitir honum ánægju og lífsfyllingu.

Samtök skattgreiðenda opna sérstaka Facebook síðu um herferðina, þá verður sérstök umfjöllun á heimsíðunni skattgreidendur.is og ný undirsíða þar sem hægt er að senda þingmönnum ósk um lækkun á áfengisgjaldi af bjór og minni afskiptum af neyslu og lífsstíl fólks; www.bjormottan.is. Á Twitter má fylgjast með fréttum af gangi mála undir @bjormottan og er fólk hvatt til að taka þátt í umræðu á netinu undir #bjormottan.”

Sjá einnig upplýsingar á síðu átaksins.

lesa áfram

Ríkisskattstjóri brýtur trúnað – ályktun Samtakanna

Á stjórnarfundi Samtaka skattgreiðenda í dag, 25. júlí 2012, var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Ríkisskattstjóri brýtur trúnað

Samtök skattgreiðenda mótmæla því að Ríkisskattstjóri skuli birta sérstaklega og senda fjölmiðlum lista yfir þá 50 einstaklinga sem bera hæsta álagninu opinberra gjalda fyrir árið 2011.

Tekjur og skattar einstaklinga eru trúnaðarmál og trúnaður  á að ríkja milli framteljanda og skattayfirvalda. Sérstakt er að Persónuvernd skuli ekki mótmæla þessu trúnaðarbroti  opinberrar stofnunar. Um tímabundna framlagningu álagningaskrár gildir það sama. Engum ber sérstakur réttur til að hnýsast í  álagningu annarra en sinnar eigin.

Að þessu sinni gengur Ríkisskattstjóri lengra en nokkru sinni fyrr. Nú er sendur út listi til fjölmiðla þar sem  taldir eru upp þeir 50 einstaklingar sem hæsta álagningu bera og tiltekið heimilisfang þeirra og kennitala. Er það ósmekklegt og getur beinlínis  ógnað öryggi viðkomandi. Og ekki bætir úr skák að Ríkisskattstjóri sendir frá sér rangan lista í upphafi.  Er embættinu sýnilega ekki einu sinni treystandi til að senda frá sér réttar upplýsingar.

Listi eins og sá sem Ríkisskattstjóri sendir frá sér er aðeins til þess fallinn að ala á öfund og illmælgi í garð þess hóps skattgreiðenda sem mest greiða  til samfélagsins. Þakka ber framlag þessara einstaklinga í stað þess að hegna þeim með þeirri óumbeðnu athygli sem að þeim er beint.

Ef álögð gjöld á einstaklinga teljast ekki einkamál og trúnaðar ekki beri að gæta trúnaðar um meðferð þeirra hlýtur að mega spyrja hvers vegna hið opinbera birtir ekki lista yfir þá einstaklinga sem hæstar greiðslur hafa þegið frá hinu opinbera. Þannig yrði öllum opinn aðgangur að skrá yfir bótaþega hins opinbera og Tryggingastofnun gæti jafnframt  sent  fjölmiðlum lista yfir 50 hæstu bótaþegana hvers árs.

Stjórn Samtaka skattgreiðenda

lesa áfram

efst