Góður fyrirlestur Lawson

Fyrirlestur prófessor Robert Lawson um atvinnufrelsi mánudaginn 28. júlí var vel sóttur og aðeins fjallað um hann í kjölfarið. Þannig

Umfjöllun Viðskiptablaðsins

birti Viðskiptablaðið grein um fyrirlestur Lawson og Sigríður Andersen fjallaði um hann í pistli sínum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þessa umfjöllun má lesa með því að stækka myndir sem er að finna með þessum pistli.

Þá var fjallað um fyrirlesturinn heimasíðu RNH:

„Þau gögn, sem útvega má með víðtækum mælingum á atvinnufrelsi í 150 löndum og sambandi atvinnufrelsis við lífskjör og farsæld fólks í þessum löndum, styðja afdráttarlaust kenninguAdams Smiths: Auðlegð þjóðanna skapast við verkaskiptingu og frjáls viðskipti. Þegar menn keppa að eigin hag, vinna þeir um leið að almannahag, hvort sem þeir ætla sér það eða ekki. Þessu hélt bandaríski hagfræðiprófessorinn Robert Lawson, einn af höfundum árlegrar mælingar á atvinnufrelsi, index of economic freedom, fram í fyrirlestri á fjölmennum fundi RNH og Samtaka skattgreiðenda mánudaginn 28. júlí 2014. Tilefni fundarins var, að hundrað ár eru liðin, frá því að heimsstyrjöldin fyrri skall á 28. júlí 1914, en þá riðaði til falls það skipulag, sem Adam Smith hafði mælt fyrir og skilgreint, heimskapítalisminn, kerfi verkaskiptingar og frjálsra viðskipta. En þrátt fyrir að heimskapítalisminn veiktist verulega í heimsstyrjöldunum tveimur og í heimskreppunni, stóð hann þessi áföll af sér og styrktist verulega síðustu áratugi 20. aldar.

Lawson skýrði, hvernig vísitala atvinnufrelsis væri sett saman, og brá upp nokkrum línuritum úr nýjustu mælingu atvinnufrelsis, sem gerð verður opinber haustið 2014. Þar er hagkerfum heims árið 2011 skipt í fjóra hluta eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er þar. Lífskjör — eins og þau mælast í vergri landsframleiðslu á mann — eru að meðaltali langbest í frjálsasta hlutanum og langlökust í ófrjálsasta hlutanum. Hið sama er að segja um lífskjör fátækustu eða tekjulægstu 10%: Þau eru þrátt fyrir allt langskást í frjálsasta hlutanum. Lífslíkur eru líka lengstar í frjálsasta hlutanum og hagvöxtur örastur. Sagan jafnt og reynslan sýndu, að hér væri ekki aðeins um að ræða fylgni, heldur líka orsakasamband: Þegar þjóðir verða

Grein Sigríðar Andersen

frjálsar, komast þær í álnir og geta fyrir vikið útrýmt margvíslegu böli, sem stafar af skorti lífsgæðanna. Lawson kvað áhyggjuefni, að atvinnufrelsi á Íslandi hefði minnkað verulega. Árið 2004 var íslenska hagkerfið hið frjálsasta á Norðurlöndum, en árið 2011 mældist það hið ófrjálsasta. Lawson benti á, að öll gögn um mælingu ársins 2013 á atvinnufrelsi árið 2010 væru aðgengileg á heimasíðu verkefnisins og að öll gögn um mælingu ársins 2014 á atvinnufrelsi árið 2011 yrðu sett þangað í haust. Fyrirlestur Lawsons var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.”

Loks fjallaði stutt blogg Skafta Harðarsonar á Eyjunni um fyrirlestur Lawson og leggur aðeins út frá mælingum á atvinnufrelsi þjóð heimsins.

lesa áfram

Samtökin auglýsa fyrir komandi kosningar

Nú fyrir kosningar hafa Samtök skattgreiðenda safnað fé til að vekja athygli á baráttu sinni fyrir lægri sköttun, betri ráðstöfun skattfjár og mikilvægi þess að skuldir hins opinbera verði greiddar niður.

Stuðningsaðilar hafa brugðist vel við og næstu tíu dögum verður auglýst í blöðum, vefmiðlum og í útvarpi.

Kjósendur þurfa að veita flokkunum aðhald og snúa umræðunni frá óraunhæfum yfirboðum til raunhæfra aðgerða til að auka hagvöxt, fjölga störfum í gegnum auknar fjárfestingar og til breyttrar forgangsröðunar í útgjöldum hins opinbera. Og breytingar á skattkerfinu eru forsenda aukinnar verðmætasköpunar.

 

lesa áfram

Þarna leynist allur sprotinn

Viðtal í Viðskiptablaði Morgunblaðsins,  21. febrúar 2012 við formann Samtaka skattgreiðenda, Skafta Harðarson:

Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Að mati Skafta Harðarsonar er margt sem gerir íslenskum smáfyrirtækjum og einyrkjum erfiðara fyrir. Hann segir að hið opinbera gæti víða rutt hindrunum úr vegi ef viljinn væri til staðar. „Þegar litið er yfir þetta svið sést að það er tilfinnanlegur skortur á hagsmunasamtökum lítilla fyrirtækja og einyrkja þvert á allar starfsgreinar. Það er því miður þannig að þessi hópur á sér ekki sterka talsmenn á opinberum vettvangi og hagsmunir bæði samtaka atvinnuveitenda og verkalýðs eru á marga vegu samtvinnaðir hagsmunum stórra fyrirtækja – stundum á kostnað þeirra litlu.”
Skafti, sem er formaður Samtaka skattgreiðenda, bendir á að litlu fyrirtækin eru mjög mikilvæg fyrir verðmæta- og atvinnusköpun, en þau eru líka lyillinn að uppbyggingu í efnahagslífinu. „Sjaldnast setjast frumkvöðlar niður og ákveða að stofna stórfyrirtæki næsta dag. Öll stærstu og stöndugustu fyrirtæki landsins eiga uppruna sinn í einstaklingum eða litlum hópi athafnamanna sem komu sér saman um að gera góða hugmynd að veruleika. Stundum verður útkoman smár en stöndugur rekstur, en stundum gerist það að úr verður stórfyrirtæki. Þarna leynist allur sprotinn sem við eigum til að byggja upp atvinnulífið og ná okkur upp úr lægð og atvinnuleysi.”
Ríkið skilur lítið eftir
Nefna má fjölmargt sem breyta mætti til batnaðar og nefnir Skafti t.d. að litlu fyrirtækin finni oft mun meira fyrir hárri skattlangingu hins opinbera en þeir stóru. „Engum hópi manna held ég að sé jafn sýnileg þessi óhóflega áþján og einyrkjum. Hjá stærri fyrirtækjum vilja menn stundum missa sjónar á því sem einyrkinn sér svo glögglega þegar hann útbýr reikninginn handa viðskiptavini sinum og ekki nema 30% sitja eftir. Restin fer í virðisaukaskatt, tryggingagjald, lífeyrisskuldbindingar og tekjuskatt,” segir Skafti en bendir á að það sé ekki bara upphæð skattanna sem gerir erfitt fyrir.
„Það væri t.d. til mikils að vinna að bjóða upp á þægilegri skil á ýmsum skattgreiðslum til ríkisins. Ef það hendir t.d. smáfyrirtæki að viðskiptavinur greiðir ekki útskrifaðan reikning þá þarf fyrirtækið samt sem áður að fjármagna allar greiðslur til ríkisins eins og þær koma fram á reikningnum. Ef VSK-tímabilin yfir árið eru fleiri eru meiri líkur á að þessi fyrirtæki þurfi að fjármagna hegðunina hjá óskilvísum viðskiptavinum. Stórfyrirtæki eiga mun auðveldara með að takast á við slík útgjöld á meðan þau geta nánast riðið litlum fyrirtækjum að fullu. Að fækka skiladögum fyrir minni aðila úr sex niður í fjóra á ári væri strax mikil framför.”
Skafti bendir líka á að hægt sé að leita leiða til að spara litlu aðilunum skriffinnsku og umstang. „Mjög væri til bóta ef að skilagreinarnar fyrir lífeyrissjóð, verkalýðsfélag og launaskatt væru sameinaðar. Það myndi spara mörgum stanslausar eyðublaðaútfyllingar og útreikninga.”

Myllusteinar á fyrstu árunum

Síðan eru reglur sem virðast hafa verið settar fyrir góðan ásetning en reynast verða þess valdandi að erfiðara er en ella að koma sprotafyrirtækjum á laggirnar. „Skyldugreiðslur í lífeyrissjóð eru gott dæmi. Frumkvöðullinn er skikkaður til að láta þessi 12% af tekjum sínum af hendi þó svo að hann væri vafalítið að fjárfesta betur með því að leggja upphæðina inn í uppbyggingu rekstrarins.”

Af sama toga eru reglurnar sem skikka aðstandendur sprota til að greiða tekjuskatt m.v. sérstök tekjuviðmið, jafnvel þó að nýstofnað fyrirtækið sé ekki farið að skila hagnaði. „Að þessu leyti er skattaumhverfið mjög ólíkt því sem þekkist t.d. í Bandaríkjunum. Á Íslandi geta frumkvöðlar og starfsmenn þeirra ekki gefið vinnu sína í reksturinn í skiptum fyrir hluti í fyrirtækinu sem síðan verða verðmætir seinna meir. Jafnvel þó að engin séu launin verða þeir samt að greiða launaskattinn.”

lesa áfram

Umfjöllun um Samtökin hjá Vefþjóðviljanum

Vefþjóðviljinn (www.andriki.is) fjallar um Samtökin í pistli þann 19. júlí:

Fimmtudagur 19. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 201. tbl. 16. árg.

Björn Bjarnason ræddi hinn 11. júlí við Skafta Harðarson formann Samtaka skattgreiðenda í þætti sínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Samtök skattgreiðenda voru stofnuð í þeim tilgangi að veita stjórnmálamönnum aðhald og miðla upplýsingum um skattheimtu og rót hennar, útgjöld ríkis og sveitarfélaga. Á vefnum skattgreidendur.is geta menn kynnt sér starfsemi samtakanna. Skafti lagði áherslu á þau praktísku rök fyrir alla – þar sem talið þá stjórnmálamenn sem vilja hafa nægt fé í öll góðu málin sín – að of háir skattar geta dregið úr framtakssemi manna og á endanum skatttekjum hins opinbera. Það sé því öllum í hag að stilla sköttum í hóf. Jafnframt fór hann yfir athyglisverðan árangur samtaka sænskra skattgreiðenda.

Skafti ræddi einnig um hina ósýnilegu skattlagningu, þar sem fé er tekið af fólki með reglugerðum og tilskipunum. Hann nefndi dæmi af nýrri byggingareglugerð þar sem meðal annars er kveðið á um að öll þriggja hæða fjölbýlishús skuli hafa lyftu og alls kyns nýjar kröfur eru gerðar um stærð og tegundir herbergja. Skafti segir að í raun sé verið að fara fram á að allt húsnæði henti öllum og að ekki sé gert ráð fyrir að fólk geti flutt sig milli húsa eftir efnum og aðstæðum. Lokað er á möguleika ungs fólks að eignast ódýra fyrstu íbúð í lyftulausu húsu. Í þessu sambandi hlýtur að vakna sú spurning hvers fólk á efri hæð í tvíbýlishúsum eigi að gjalda. Hvers vegna drógu stjórnmálamenn mörkin við þriggja hæða hús þegar þeir skipuðu fyrir um lyftur? Er maður sem kemst ekki upp um þrjár hæðir í stiga líklegur til að komast upp um tvær?

lesa áfram

Viðtal á ÍNN við formann Samtakanna

Í viðtalsþætti Björns Bjarnasonar á sjónvarpsstöðinni ÍNN var fulltrúi Samtaka skattgreiðenda, Skafti Harðarson. Þátturinn var upphaflega sendur út miðvikudaginn 9. júlí.

Skoðið hér: Viðtal á ÍNN

lesa áfram

Morgunblaðið: Skattfé fólksins

Fjallað var um Samtök skattgreiðenda í leiðara Morgunblaðsins þann 11. júní 2012. Leiðarinn hljóðar svo:

Segja má að ekki sé seinna vænna að hér á landi taki til starfa samtök skattgreiðenda, en frá því var greint í Morgunblaðinu á laugardag að slík samtök hefðu verið stofnuð. Skafti Harðarson, einn forsvarsmanna Samtaka skattgreiðenda, segir að ætlunin sé að samtökin beiti sér fyrir „betri ráðstöfun ríkisfjár, lægri skattheimtu, sanngjarnari og gegnsærri skattheimtu og síðast en ekki síst að beita okkur gegn reglugerðarveldi ríkisins“.

Félagsskapur af þessu tagi er starfandi víða um heim og veitir hinu opinbera mikilvægt aðhald. Um þessar mundir er sérstaklega brýn þörf fyrir slíkt félag hér á landi þegar horft er til þess hvert viðhorf ríkisvaldsins og flestra sveitarfélaganna er til skattheimtu.

Sveitarfélögin gleymast stundum í þessu sambandi, en þau hafa orðið æ umsvifameiri á undanförnum árum og taka til að mynda til sín um helming staðgreiðslu einstaklinga þegar tillit hefur verið tekið til persónufrádráttarins. Mörg þeirra hafa reist sér hurðarás um öxl og setja útsvarið þess vegna í efstu mörk og jafnvel rúmlega það þau sem í mestar ógöngur eru komin.

Önnur virðast telja sjálfsagt að nýta sér allt það svigrúm sem lög leyfa til að hækka skatta í stað þess að líta á það sem keppikefli að íbúarnir búi við sem lægstar álögur. Það er til að mynda af sem áður var að Reykjavíkurborg hafi skattlagningu sína við lægstu leyfilegu mörk, það tímabil leið undir lok þegar vinstrimenn náðu völdum í borginni og tókst að sitja þar óslitið í nokkur kjörtímabil.

Sambærileg staða er nú uppi hjá ríkinu. Eftir að árangur hafði náðst í lækkun skatta með því að byrðum var létt af almenningi og atvinnulífið gert samkeppnishæfara komust að völdum þeir sem telja að háir skattar séu í sjálfum sér æskilegir. Þeim er það sérstakt kappsmál að innheimta eins mikla skatta og mögulegt er og vilja skilja eins lítið eftir hjá fólki og fyrirtækjum og nokkur kostur er.

Almenningur finnur þetta vel um hver mánaðamót og í hverri ferð út í matvöruverslun eða á bensínstöð. Fjárfestar og atvinnulíf finna þetta einnig og svo finnur almenningur aftur fyrir því þegar atvinnulífið koðnar niður vegna skattheimtu.

Ágætt dæmi um þetta viðhorf vinstrimanna til skattheimtu birtist nú í umræðunni um veiðigjöld, en þar er keppst við að leggja svo miklar álögur á fyrirtækin að þau rétt lifi af. Og ákafi stjórnvalda í að hækka skatta er meira að segja svo mikill að skattheimtan á að vera mun meiri en fyrirtækin þola með þeim afleiðingum að stór hluti þeirra er í mikilli hættu, með tilheyrandi afleiðingum fyrir almenning og þjóðfélagið allt.

Þessi afstaða vinstrimanna, að best sé að hafa alla skatta eins háa og mögulegt er, hefur þær afleiðingar að hjól efnahagslífsins snúast hægar og stærri hluti þess leitar undir yfirborðið. Þess vegna verða háu skattarnir gjarnan til þess að minna innheimtist en með lægri sköttum og allir verða verr settir en áður.

En hugmyndin um háu skattana er líka röng vegna þess að hið opinbera á að leitast við að gera það sem það þarf að gera fyrir sem minnst fé og skilja sem mest eftir hjá almenningi. Hið opinbera á ekki að taka skatta af fólki komist það hjá því. Þetta er sú einfalda staðreynd sem vinstristjórnir átta sig ekki á.

lesa áfram

efst