Vaxtahringekjur

Grein þessi eftir Arnar Sigurðsson, fjáfesti, birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2012. Grein sem vísað er til eftir Sigríði Andersen má finna á heimsíðu Sigríðar, www.sigridurandersen.is, en upphaflega birtust greinar hennar í Fréttablaðinu 8. nóvember og  13. nóvember. Grein Arnars er hér endurbirt með leyfi höfundar.

„Nýverið birti einn af frambærilegri frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Andersen, grein undir fyrirsögninni „Jóhönnulánin“ (http://www.sigridurandersen.is/site/?p=713). Sigríður bendir réttilega á þá hryggilegu staðreynd að þegar öllum mátti ljóst vera að framundan væri djúp verðleiðrétting á fasteignum og gengi krónunnar með tilheyrandi verðbólguskoti um mitt ár 2008 greip þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, til þess að auðvelda grunlausum að steypa sér í skuldafen hjá Íbúðalánasjóði. Því miður eru hins vegar fleiri sorglegar hliðar á inngripum stjórnmálamanna á fjármálamarkaði sem byggjast á „einföldum kosningaskilaboðum“ sem sneydd eru allri grunnhugsun. Ef vaxta- og húsaleigubætur gætu gengið upp í hagfræðilegum skilningi væri full ástæða til að taka upp Nóbelsverðlaun í greininni og veita þau fyrstu til Íslands.

Hér á landi er rekin hávaxtastefna sem ætlað hefur verið það vafasama hlutverk að halda aftur af kaupgleði almennings. Til að milda þá þensluskerðingu dælir hins vegar ríkið um þriðjungi vaxtakostnaðar heimilanna aftur til baka! Eftir sitja fyrirtækin í landinu með háa vaxtabyrði sem heldur aftur af atvinnuuppbyggingu. Til að fjármagna vaxtabæturnar gefur ríkið svo út skuldabréf sem aftur eykur eftirspurn eftir fjármagni sem einnig stuðlar að hærra vaxtastigi. Önnur vaxtahringekja fáránleikans eru s.k. húsaleigubætur. Eins og flestum ætti að vera ljóst ræðst húsaleiga af framboði og eftirspurn auk vaxtastigs. Húsaleigubætur gera ekkert annað en að valda aukinni eftirspurn í húsnæði og þar með hækkun á húsaleigu. Afleiðingin er að hinar rangnefndu „bætur“ renna til leigusala en ekki leigutaka eins og að var stefnt. Góður ásetningur stjórnmálamanna er ekki einungis til ófarnaðar fyrir þá sem njóta eiga því vaxtahringekjurnar eru jafnframt hrikalegur kostnaður fyrir skattgreiðendur.

Eins og margoft hefur verið bent á er Íbúðalánasjóður eins og sjálfsmorðssprengjuvesti á íslensku efnahagslífi. Sjóðurinn er afleitur valkostur fyrir lántakendur, með hæstu raunvexti á byggðu bóli og því algerlega óskiljanlegt hvers vegna starfseminni er haldið áfram. Þrátt fyrir vaxtaokrið hafa skattgreiðendur einnig þurft að leggja sjóðnum nú þegar til meðgjöf sem nemur andvirði útrásarhallarinnar Hörpu og furðuhljótt hefur verið um. Nú virðist hins vegar vanta vel á annað hundrað milljarða til að sjóðurinn geti staðið í skilum. Meðvirkir stjórnmálamenn allra flokka virðast ætla að taka á því vandamáli af svipaðri festu og skuldavanda Orkuveitunnar á sínum tíma og gott ef sumir myndu ekki bara vilja að sjóðurinn borgaði út arð til eiganda síns sem n.k. lýtaaðgerð á ríkisreikningnum að ekki sé nú minnst á þá hugmynd að hinn gjaldþrota sjóður geti greitt úr skuldavanda heimilanna!

Stundum er sagt að Íslendingar þurfi ráðamenn með kjark og þor til að taka á aðsteðjandi vanda. Engar slíkar forsendur þarf til að taka á vanda Íbúðalánasjóðs, einungis lítilsháttar skynsemi. Loka þarf sjóðnum í núverandi mynd með því að setja hann í hefðbundna slitameðferð eins og gert var með föllnu bankana. Nægt framboð er af lánsfé á almennum markaði auk þess sem ESA hefur nú þegar úrskurðað að núverandi rekstur sé skýrt samkeppnisbrot á fjármálamarkaði og að endurgreiða þyrfti frekari ríkisaðstoð við sjóðinn.”

 

lesa áfram

Ráðalaus Íbúðalánasjóður

Grein eftir Arnar Sigurðsson, fjárfesti, sem upphaflega birtist í Viðskiptablaðinu 19. september 2012, og er hér endurbirt með leyfi höfundar. Viðskiptablaðið hefur ítrekað fjallað um vanda Íbúðalánasjóðs, í fréttum, leiðara og umfjöllun undir nafni Óðins.

„Albert Einstein skilgreindi geðveilu sem háttalag þar sem sama aðgerð væri endurtekinn í sífellu í von um breytta niðurstöðu. Ef áætlanir stjórnvalda hér á landi ná fram að ganga um að sökkva 14,5 milljörðum af almannafé í óstöðvandi fjárþörf Íbúðalánasjóðs, á eftir 30 milljörðum sem brunnið hafa upp á síðustu tveimur árum, mætti ætla að einnhverskonar veila gangi laus í íslenska stjórnarráðinu. Sögnin að ráða hefur m.a. þá merkingu að stjórna og að hafa ráð tiltæk í hugtakinu úrræði ef vanda ber að höndum. Ráða-menn standa undir hvorugri skilgreiningunni ef einu úrræðin eru að ausa almannafé á vandamál og hækka skatta í stað þess að fyrirbyggja framtíðarvandamál sem þó hefur verið varað við árum saman. Löngu hefur verið vitað í hvað stefndi með Íbúðalánasjóð sem talinn er vera rekinn með ríkisábyrgð. Sem betur fer er hinsvegar hvergi til stafkrókur í lögum frá Alþingi þess efnis að skuldbindingar sjóðsins séu á ábyrgð ríkissjóðs enda hefur sjóðurinn aldrei greitt lögbundið gjald vegna ríkisábyrgðar. Í “Skýrslu nefndar um endurskoðun ríkisábyrgða og tillögur til breytinga” frá árinu 1997 kemur reyndar fram það: “…sjónarmið að ef til vill ættu aðilar í þessari stöðu að greiða ábyrgðargjald til ríkissjóðs vegna skuldbindinga sinna…… Meirihluti nefndarinnar leit hinsvegar svo á að slíkt kæmi ekki til greina þar sem með því væri óbeint verið að viðurkenna ríkisábyrgð auk þess sem grundvöll til slíkrar innheimtu skorti, væri ekki um ótvíræða ríkisábyrgð að ræða”

Einu gildir hvort vænhæfni sérfræðinga er um að kenna eða hvort illmögulegt sé að rýna í framtíðina, niðurstaðan er sú sama að ófarir skattgreiðenda virðast alltaf óvæntar. Þrátt fyrir vandlega úttekt árið 2006 sem unnin var af hópi “sérfræðinga” komst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að:

“Ólíklegt er að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs stefni niður fyrir áskilin hlutföll í fyrirsjáanlegri framtíð. Vegna þessa er líka ólíklegt að reyna muni á ríkisábyrgð á skuldbindingum sjóðsins”

Að sögn sjóðsins er talið að leiða megi almennt af íslenskri lögskipan að Íbúðalánasjóður sem stofnun í eigu ríkisins njóti ótakmarkaðrar ábyrgðar, t.d. sé kveðið á um það í gjaldþrotalögum að sjóðurinn geti ekki orðið gjaldþrota. Þannig megi ætla að ríkissjóður sem eigandi beri ótakmarkaða ábyrgð á sjóðnum.

Þessi tilvísun til gjalþrotalaganna stenst hisvegar ekki því sérstaklega er kveðið á um í 5. gr. að ekki sé hægt að taka stofnun til gjaldþrotaskipta ef ríkið ábyrgist skuldir.

Með lögum um ríkisábyrgðir er ekki almenn heimild til slíkrar afleiddar ríkisábyrgðar heldur einmitt kveðið á um að sérstaka lagaheimild þurfi til að virkja ríkisábyrgð, 1tl. 3. gr. Í lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 sem taka til ÍLS er ekkert vikið að ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Jafnframt er það ekki meginregla ísl. réttar að ríkið sé ábyrgt fyrir skuldbindingum sjálfstæðra stofnana. Á þetta hefur ekki reynt þannig að augljóslega getur ekki getur verið um meginreglu að ræða.

Samkvæmt lögum 121/1997 um ríkisábyrgðir er skýrt kveðið á um að “Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum”

Samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar frá því í janúar á þessu ári segir m.a. að”..stjórnarskráin krefst þess í reynd að lagaheimild sé fyrir ríkisábyrgðum og annars konar skuldbindingum ríkisins, eins og gildir um lántökur. Hefur framkvæmdin enda verið með þeim hætti.” Engu að síður kemst stofnunin að þeirri ályktun í úttekt á Íbúðalánasjóði að ríkisábyrgð tryggi lánveitendum sjóðsins fullar endurheimtur.

Það er því síður en svo ljóst að ófrávikjanleg ríkisábyrgð hvíli á öllum skuldbindingum sjóðsins og skiptir engu þó starfsmenn hans hafi hingað til staðið í annari trú og sett slík ákvæði inn í skráningarlýsingu skuldabréfa sjóðsins. Embættismenn geta aldrei gefið út ríkisábyrgð, einungis Alþingi. Óljóst orðalag í C hluta fjárlaga um ríkisábyrgðir byggt á útgáfuáætlun sjóðsins hverju sinni geta vart kallast skýr ríkisábyrgð á t.d. skuldbindingu um að ekki megi greiða upp útgefin skuldabréf.

Eins og áður hefur verið vikið að er rekstur Íbúðalánasjóðs slæmur kostur fyrir lántakendur því vextir sjóðsins eru þeir hæstu í heimi en afleitur kostur fyrir skattgreiðendur sem þurfa að dæla í hítina tugum milljarða til að halda stofnuninni ofanjarðar. En hvað er til ráða?

Með því að dæla stöðugt almannafé í Íbúðalánasjóð er í raun verið að tryggja lánveitendum íbúðalánasjóðs, nokkurs konar “áhyggjulaust ævikvöld” með hámarks arðsemi af glannalegri útlánastarfsemi sjóðsins. Nærtækast væri að loka fyrir ný útlán frá sjóðnum í núverandi mynd og kanna með hvaða hætti, lánveitendur tækju á sig hluta af neikvæðri afkomu sjóðsins. Fjárfestar myndu þannig uppskera eins og til hefur verið sáð með tíð og tíma þar til skuldabréf sjóðsins verða komin á gjalddaga árið 2044. Með því að taka af allan vafa um ríkisábyrgð, myndi skuldastaða ríkissjóðs batna um hátt í 1.000 milljarða og lánshæfismat ríkissjóðs batna.

Raunsætt verður líklega að líta sem svo á að þrátt fyrir hrakfarirnar með Íbúðalánasjóð og þá staðreynd að flestir lántakendur kvarti undan hinu verðtryggða útlánakerfi hins opinbera, mun pólitískur rétttrúnaður tryggja að áfram verði ástundaður ríkisrekstur á þessu sviði. Nærtækt væri að stofna nýjan heildsölubanka án ríkisábyrgðar sem þjónusta myndi bankastofnanir sem afgreiddu lánin gegn fyrsta veðrétti en framseldu svo veð í útlánasöfnum sínum til hins nýja heildsölubanka. Þar með yrði líka komist hjá brotum á EES samningnum en núverandi rekstur Íbúðalánasjóðs er skýrt samkeppnisbrot samkvæmt niðurstöðu ESA. Hugsanlega yrði eigendum þeirra skuldabréfa sem sjóðurinn hefur gefið út boðið að skipta út eldri bréfum fyrir hin nýju á lægri kröfu eða sæta uppgreiðslu ella miðað við nafnvexti bréfana 3,75%. Hér væri því um afar áþekka aðgerð að ræða og þegar húsbréfakerfinu var breytt í íbúðabréf.

Miðað við ávöxtunarkröfu á markaði í dag mætti ætla að nýr heildsölubanki myndi geta boðið mun hagstæðari lán en áður og því ætti breytingin að ganga vel í lántakendur auk þess sem girt væri fyrir tugmilljarða meðgjöf með sjóðnum í framtíðinni.

Vissulega munu hagsmunaaðilar reka upp ramakvein enda hafa núverandi skuldabréf verið gulls ígildi fyrir fjárfesta árum saman og tryggt mönnum auðvelda ávöxtun. Um það bil 70% af verðtryggðum skuldabréfum íbúðalánasjoðs eru í eigu lífeyrissjóða sem líklega myndu ekki tapa á breytingunni. Það littla tap sem slíkir aðilar myndu þurfa að taka á sig með framangreindri breytingu væri þó ekki nema brot af þeirri áhyggjulausu ávöxtun sem þeir hafa fengið á silfurfati á undangengnum árum.

Samandregið hefðu ofangreindar breytingar eftirfarandi afleiðingar í för með sér:

  • Tugmilljarða sparnaður fyrir skattgreiðendur.
  • Tæplega 1000M minni skuldabyrði á efnahagsreikningi ríkissjóðs (vegna óljósrar ábyrgðar).
  • Bætt lánshæfismat ríkissjóðs.
  • Vaxtalækkun á nýjum fasteignalánum.
  • Samkeppnisárekstrar milli ÍLS og viðskiptabanka úr sögunni sem og kærumál vegna brota á EES samningnum.
  • Góður grunnur til að minnka vægi verðtryggingar.
  • Svigrúm fyrir lægri stýrivexti og betra miðlunarferli peningastefnu Seðlabankans.
  • Hefðbundin útlánastarfsemi fjármálafyrirtækja yrði með eðlilegri og líklega hagkvæmari hætti fyrir neytendur.

Verðtryggð velferðarstefna fjármagnseigenda á kostnað skattgreiðenda hlýtur að vera komin á leiðaranda.”

lesa áfram

Íbúðalánasjóður sekkur

Arnar Sigurðsson, fjárfestir, hefur ítrekað vakið athygli á vanda Íbúðlánasjóðs, en það var fyrst í lok árs 2012, sem fjölmiðlar almennt fóru að fjalla um risavaxinn vanda sjóðsins. Búið er að plástra stöðu hans lítilsháttar, en fyrirsjáanlegt að skattgreiðendur verði í framtíðinni látnir axla miklar byrgðar af slælegum rekstri sjóðsins.

Arnar skrifaði í Morgunblaðinu 31. maí 2012 þessa grein um Íbúðalánasjóð:

„Ronald Reagan sagði eitt sinn að níu hræðilegustu orðin í enskri tungu væru „I‘m from the government and I‘m here to help.“ Líklega eiga þau orð hvergi betur við en með „hjálp“ þá sem Íbúðalánasjóður veitir Íslendingum.

Viðskiptablaðið hafði nýverið eftir nýjasta fjármálaráðherranum, Oddnýju Harðardóttur, undarlega frétt sem lítið fór fyrir, þess efnis að „Ekki væri búið að ákveða hvenær Íbúðalánasjóði verður lagt til aukafé, sem sjóðurinn þarf á að halda.“ Á heimasíðu sjóðsins kemur hinsvegar fram að hann „er fjárhagslega sjálfstæður og stendur undir lánveitingum og rekstri með eigin tekjum“.

Framangreind lýsing um sjálfstæði er því ámóta trúverðug og að forsetaframboð Þóru og Svavars sé óháð Fréttastofu RÚV, svo dæmi sé tekið af handahófi.

Ef svonefndur „tilgangur“ sjóðsins er skoðaður kemur í ljós að starfsmenn hans hyggjast „stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

Arnar Sigurðsson, mynd úr Viðskiptablaðinu

Leið Íbúðalánasjóðs til heljar er vitaskuld vörðuð góðum ásetningi eins og „öryggi, jafnrétti, möguleika og viðráðanleg kjör“. Íbúðalánasjóður er hinsvegar ekkert annað en millilag, n.k. heildsala sem tekur peninga að láni og lánar út aftur, rétt eins og venjulegir bankar gera. Ef vaxtaþóknun sjóðsins er skoðuð mætti ætla að reksturinn ætti að vera vel „viðráðanlegur“ fyrir bankamenn hins opinbera en svo er hins vegar ekki. Vextir þeir sem sjóðurinn borgar eru u.þ.b. 2% en útlánin, þ.e. hin (ó)viðráðanlegu kjör“ til almennings eru hinsvegar 4,7%. Vaxtamunurinn samsvarar því ekki minna en 100% álagningu!

Þrátt fyrir vaxtaokrið er rekstur sjóðsins hinsvegar svo galinn að skattgreiðendur þurfa að leggja sjóðnum til tugi milljarða að auki. Verðtryggð útlán sem sjóðurinn veitir almenningi bera verðbólguáhættu, sem almenningur hefur enga forsendu til að meta, í ofanálag við hæstu raunvexti í heimi. Ein afleiðing er að vanskil við sjóðinn nema nú hvorki meira né minna en 160 milljörðum!

Þetta lánaform kennir sjóðurinn við „öryggi“ en lætur þess ógetið að um öryggi fjármagnseigenda sem lána sjóðnum er að ræða. Þegar öllu er á botninn hvolft kemur í ljós að Íbúðalánasjóður er slæmur kostur fyrir lántakendur en afleitur kostur fyrir skattgreiðendur en reksturinn einn og sér kostar yfir 2 milljarða á ári.

Sirkus fáránleikans nær þó fyrst hámarki þegar framkvæmd markmiðsins um að auðvelda fólki að kaupa fasteignir er skoðað. Sjóðurinn berst hatramlega gegn lækkun fasteigna- og leiguverðs með því að kaupa sjálfur u.þ.b. 2000 fasteignir þeirra sem ekki hafa staðið í skilum. Markmiðið með þessum uppkaupum er að halda uppi fasteignaverði og gengur sjóðurinn svo langt að leigja ekki út íbúðir á þeim stöðum þar sem „offramboð“ gæti verið til staðar að mati spákaupmanna sjóðsins.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að fasteignir vega um þriðjung í vísitölu neysluverðs og að hver prósenta í verðbólgu kostar almenning, beint og óbeint um 20 milljarða á ári. Gera má ráð fyrir að uppgreiðslur hjá sjóðnum aukist. Það kemur sjóðnum afar illa því til að tryggja velferð fjármagnseigenda er sjóðnum óheimilt að uppgreiða sín lán samsvarandi. Varlega áætlað þyrfti um 100 milljarða til að geta staðið straum af því misræmi sem framundan er.

Íbúðalánasjóður hefur nú þegar siglt á ísjaka eins og Titanic forðum. Almenningur getur treyst á að stjórnmálamenn munu fumlaust endurraða þilfarsstólunum eins og sést í hinni nýju fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar þar sem áætlað er að leggja sjóðnum til 2 milljarða í eigið fé en breyta engu að því er starfsemina varðar.”

 

lesa áfram

efst