Hvað tekur við næstu fjögur árin?

Samtök skattgreiðenda hafa látið útbúa stutt myndbönd og auglýsingar sem minna á skattagleði núverandi stjórnarandstöðuflokka þegar þeir réðu ríkjum 2009 – 2013. Og þessir flokkar lofa nú tugum ef ekki hundruðum milljarða í aukin útgjöld. Þau útgjöld mun þurfa að fjármagna. Ert þú aflögufær?

lesa áfram

Er eitthvað „samnings” við búvörusamninginn?

Opinn morgunverðarfundur um nýgerða búvörusamninga verður haldinn þriðjudaginn 1. mars nk. Á fundinum verður sjónum beint að samningunum séð frá hagsmunum íslenskra neytenda. Að fundinum standa Samtök verslunar og þjónustu, Félag atvinnurekenda, Viðskiptaráð Íslands, Neytendasamtökin, ASÍ, Félag eldri borgara, Samtök skattgreiðenda og Öryrkjabandalag Íslands.

Fundurinn verður haldinn á Grand Hóteli. Morgunmatur frá kl.8.00. Dagskrá hefst kl. 8.30 og stendur til kl. 10.00. Enginn aðgangseyrir.

Dagskrá:

Daði Már Kristófersson dósent í hagfræði og forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands
Er hagsmuna neytenda gætt í nýjum búvörusamningum?

Umræður og fyrirspurnir.

VIÐ PALLBORÐ SITJA:
Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ
Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda
Teitur Atlason, varaformaður Neytendasamtakanna
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni

Fundarstjóri: Margrét Sanders, formaður SVÞ

NM73908-Búvörusamningur1-600x675

lesa áfram

Harpa á framfæri skattgreiðenda

Um rekstur Hörpu var fjallað í Kastljósi Ríkisútvarpsins þann 2. september sl. Brynja Þorgeirsdóttir flutti þar inngang að umfjölluninni og segir frá því að á aðeins fjórum árum hafa tapast 1.900 milljónir í rekstri hússins. Þrátt fyrir það kaus hún að tala um að rekstur Hörpu sé nú „í járnum”. En um það orðasamband segir málfarsbankinn:„Orðasambandið standa/vera í járnum merkir: vega salt, vera jafnt (svo að tvísýnt er um úrslit), vera svipað.”

Þannig virðist sá skilningur flestra á orðasambandinu vera réttur að „í járnum” þýði að litlu megi muni á hvern veg fari. En rekstur Hörpu er þá engan veginn í járnum því þrátt fyrir auknar tekjur og aukinn fjölda gesta fer rekstrarkostnaðurinn líka hækkandi og bullandi tap er niðurstaðan, ár eftir ár.

Samkvæmt upplýsingum Kastljóss námu rekstrartekjurnar 941 milljón árið 2014, en útgjöldin voru gott betur hærri, eða 1.490 milljónir, eða halli upp á 549 milljónir króna. Þessi halli tekur ekki einu sinni tillit til árlegrar afborgunar lána sem tekin voru til að klára húsið, en þar er um að ræða u.þ.b. 1.000 milljónir króna árlega til ársins 2046. Hið eiginlega tap árið 2014 er því 1.549 milljónir króna. Fróðlegt er að rifja upp orð stjórnarformanns hússins árið 2010, en hann fullyrti að húsið yrði ekki baggi á skattgreiðendum og myndu standa undir rekstrarkostnaði sem og afborgunum af lánum. En kannski telja rekstraraðilar hússins árlegt framlag ríkis og Reykjavíkurborgar sem tekjur hússins þó útgjöld skattgreiðenda séu.

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, tekur undir það sjónarmið fyrrum stjórnarformanns hússins að húsið skuli og eigi að standa undir rekstrarkostnaði og að sjálfsagt sé að gera þá kröfu. Hins vegar sé það engan veginn eðlilegt að húsið greiði þá fasteignaskatta sem á það hefur verið lagt, né heldur ræðir hann afborganir af lánum. En skattgreiðendur eiga að reikna sér til tekna einhverjar ímyndaðar 5.000 milljónir króna í gjaldeyrisöflun sem beinlínis megi eigna tilvist hússins. Rétt eins og einhver geti fullyrt að þessar tekjur, eða gjaldeyrir, hefði ekki komið til án hússins. Hvergi er rætt um hversu neikvæðar afleiðingar Harpan kann að hafa haft á aðra valkosti fyrir ráðstefnur og tónleikahald.

Í umfjöllun Kastljóss er þess sérstaklega getið að árið 2014 hafi alls 1.500.000 manns komið í Hörpu. Ekki bera að draga þá tölu í efa. En er þá ekki einfalt mál að krefja hvern gest um aðeins 500 krónur í viðbót fyrir heimsóknina í þetta verðlaunahús. Er það ekki endanlegur mælikvarði á hversu mikils við virði húsið hvað gestir þess eru tilbúnir til að borga? Þessi lítilsháttar hækkun myndi auka tekjur hússins um 750 milljónir króna á ári – hallareksturinn hyrfi og húsið gæti farið að létta undir með skattgreiðendum með því að standa undir hluta afborgunar lána.

lesa áfram

Ljúka námi um fertugt og skulda tugi milljóna

Í júlí sl. kom út ársskýrsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í fréttatilkynningu sem fylgdi skýrslunni á sínum tíma koma m.a. fram;

Meðalupphæð námslána fer hækkandi og er mesta fjölgunin í hópi námsmanna sem skulda meira en 12 m.kr. Þá hækkar meðalaldur greiðenda m.a. vegna þess að námsmenn fara í lengra nám og eru eldri þegar námið hefst. Þegar skoðuð eru lán þeirra 20 einstaklinga sem skulda mest og hafa lokið námi og hafið greiðslur, þá er samanlögð skuld 663 milljónir og er núvirði hennar áætlað um 80 milljónir eða um 12%. Hæsta lánið er 47,2 m.kr. Sá fimmtungur lánþega (20%) sem skuldar mest skuldar samtals um 102 milljarða eða tæplega helming af útlánum sjóðsins.

 

LÍN lagði um 7,6 milljarða í afskriftasjóð árið 2014 sem er töluverð hækkun frá árinu 2013 þegar framlagið var 2,8 milljarðar. Þetta er í fyrsta lagi vegna þess að hlutfall gjaldþrota jókst úr 0,15% í 0,30% á milli áranna 2013 og 2014. Í öðru lagi hefur meðalafborgun námslána farið lækkandi. Á móti þessu var hlutfall undanþága frá afborgun lægra en áður eða 4% í stað 5% á árinu áður. Samtals er afskriftarsjóður 41,5 milljarðar og hlutfall hans af heildarútlánum LÍN alls 19,6% í lok árs 2014.

Af þessu má ætla að lánasjóðurinn geri ráð fyrir að tæp 90% lána til þeirra sem mest skulda verði aldrei greidd og beri því nánast að skoða sem styrkveitingu. En þetta hlutfall hjá þeim sem minnst skulda er þveröfugt, þ.e. ætlað er að 90% muni innheimtast og styrkhlutfallið sé því aðeins 10%. Hversu eðlilegt er þetta og hvaða hvata skapar þetta kerfi?

Þá segir einnig;

Núvirt virði útlána LÍN er 38,5 milljörðum lægra en bókfært virði (þ.e. heildarútlán að fjárhæð 213 milljarðar að frádregnum 41, 5 milljörðum afskriftarreikningi), m.v. lok árs 2014. Núvirt virði lánasafnsins LÍN er því 133 milljarðar og endurspeglar munurinn á núvirði og bókfærðu virði þann viðbótarkostnað sem fylgir því að LÍN lánar til námsmanna á lægri vöxtum en vextir á fjármögnun sjóðsins. Þannig bera námslán 1% vexti en meðalávöxtunarkrafa lánsfjármögnunar LÍN var 3,79% á árinu 2014 en var 3,88% á árinu 2013.

Er ekki kominn tími til að breyta fyrirkomulagi námslána og viðurkenna að hluti lánanna eru hreinir styrkir? Eðlilegra væri líklega að styrkja námsmenn að hluta, en færa námslánin til annarra fjármálastofnana. Núverandi styrkir eru fólgnir annars vegar í niðurgreiðslu vaxta og hins vegar í takmörkun á endurgreiðslu að teknu tilliti til tekna. Þannig yrðu hvatar í kerfinu betri og námsval og námstími betur ígrundað á grundvelli mögulegrar umbunar til framtíðar. Umræða um breytt fyrirkomulag er þegar farin af stað og er það vel.

Hér má sjá merkilega tölfræði úr skýrslunni sem sýnir vel hversu langt er hægt að ganga – á mynd 2 sést t.d. að meðalaldur þeirra sem enn eru í námi og skulda mest er 33 – 42 ár og samkvæmt reglum lánasjóðsins eru sáralitlar líkur á að þessi lán fáist endurgreidd nema að litlu leyti.

Mynd 1

Mynd 1

Mynd 2

Mynd 2

lesa áfram

Aðeins 3,8% telja skatta of lága

Í Viðskiptablaðinu 15. október er birt niðurstaða könnunar sem blaðið gerði þar sem spurt var: Þykir þér sú upphæð sem þú greiðir í skatta og lág, hæfileg eða of há? Niðurstaðan þarf ekki að koma á óvart, en 67,3% telja að skattarnir sem þeir greiða séu of háir.

Skoðanakönnun VB
En hvernig væri þá niðurstaðan ef skattgreiðendum væri raunverulega kunnugt um hversu háa skatta þeir greiða? Sýnilegar skattgreiðslur eru aðeins hluti þess sem hið opinbera tekur til sín og ráðstafar fyrir hönd okkar allra. Þannig sýslar hið opinbera með nánast helming þjóðartekna. Og skattar sem hlutdeild af vergri þjóðarframleiðslu hafa farið vaxandi síðustu þrjú ár.

Það er kappsmál fyrir skattgreiðendur að skattar verði gerðir sýnilegri og þrýstingur aukist þannig á stjórnmálamenn að fara betur með og draga út útgjöldum.

En merkasta niðurstaða þessarar könnunar er þó sú að aðeins 3,8% aðspurðra telja skatta og lága og gefur það von um að mikil samstaða sé meðal kjósenda um að skattar beri frekar að lækka en hækka. Reyndar kemur í ljós að hæsta hlutfall þeirra sem telja skatta of lága er að finna í aldurshópnum 18 – 24 ára, en stærstur hluti þess aldurshóps er við nám og greiðir því nánast enga skatta!

lesa áfram

Ríkisreikningur 2014 – enn aukast útgjöldin

Ríkisreikningur 2014 er kominn út. Nálgast má útgáfuna hér á vef Fjársýslu ríkisins. Ekki er líklegt að útgáfan teljist léttur skemmtilestur, en fróðlegt er þó að líta á hversu víða ríkið kemur við í útgjöldum. Lítinn árangur er að sjá af starfi allra þeirra sem áhuga hafa á „hagræðingu” hjá hinu opinbera.

Strax má sjá á töflu yfir fjármál ríkissjóðs 2014 og 2013 að tekjur hafa aukist mikið og útgjöldin ekki síður. Ástæða er til að fagna jákvæðri niðurstöðu, en hins vegar hafa áhyggjur af því að sú niðurstaða er fyrst og fremst fengin með hærri skatttekjum, ekki með samdrætti eða aðhaldi.

Yfirlit 1. Fjármál ríkissjóðs 2014 og 2013

Yfirlit 1. Fjármál ríkissjóðs 2014 og 2013

Og hér má einnig sjá að umfang ríkissjóðs sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu er að aukast verulega. Ætla mætti að ríkisstjórn mið- og hægriflokks væri á annarri vegferð en hér getur að líta.

Lykilstærðir í fjármálum ríkissjóðs 1995 - 2014

Lykilstærðir í fjármálum ríkissjóðs 1995 – 2014

lesa áfram

Niðurgreiðsla farseðla til útlanda?

Það virðist fátt sem ekki er hægt að réttlæta í nafni „byggðastefnu”. Ekki hefðu þó margir látið sér til hugar koma að niðurgreiddar utanlandsferðir teldust þar með. En nú hefur nefnd á vegum hins opinbera (ef marka má Fréttablaðið) fundið flugfélag sem er tilbúið til að fljúga milli Egilsstaða og Gatwick svo fremi að ríkið leggi félaginu til fé. Og þeirri hugmynd virðist vel tekið.

Fréttablaðið forsíða 22. sept. 2015

Fréttablaðið forsíða 22. sept. 2015

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar tekur undir þesssa hugmynd, rétt eins og aðrar hugmyndir sem veita ferðaþjónustunni sérstakar ívilnanir umfram aðrar atvinnugreinar.

Forsvarsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar átti sig ekki á því að sjálfsprottin atvinnugrein eins og ferðamannaiðnaðurinn á mikið að þakka takmörkuðum afskiptum ríkisins af greininni. Þessari atvinnugrein, eins og öðrum, vegnar best þegar almennt skilyrði eru góð s.s. lágir skattar, atvinnufrelsi og hófstillt regluverk. Að taka vel hugmyndum um að skekkja samkeppnisstöðu með sérstökum ívilnunum er auðvitað til þess fallið að grafa undan heilindum í málflutningi samtakanna.

En kannski má skoða þessa afstöðu í ljósi sjónarmiða sömu samtaka um lægri skatta á þjónustu þeirra og vörur (umfram aðrar greinar), viðhald ferðamannastaða á kostnað skattgreiðenda og ívilnana fyrir stórar bílaleigur svo einhvers sé getið.

lesa áfram

Breytingar á birtingu álagningaskrár?

Sigríður Á. Andersen og Birgir Ármannsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt. Breytingin tekur sérstaklega á birtingu álagningaskrár. Með þessu frumvarpi eru settar verulegar takmarkanir á birtingu skrárinnar og í frumvarpinu segir m.a.:

„Hverjum manni, átján ára eða eldri, skal veittur aðgangur að upplýsingum um allt að þrjá aðra gjaldendur úr hverri skattskrá. Skal ríkisskattstjóri halda skrá um þær óskir sem berast um aðgang samkvæmt þessari málsgrein, en honum er óheimilt að veita öðrum en skattrannsóknarstjóra aðgang að þeirri skrá. Skattrannsóknarstjóra er óheimilt að veita öðrum þær upplýsingar er hann fær samkvæmt þessari grein.
Óheimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta sem veittar eru skv. 3. mgr. án samþykkis hlutaðeigandi skattaðila. Ríkisskattstjóra, innheimtumönnum ríkissjóðs og ríkisendurskoðanda er óheimilt að veita persónugreinanlegar upplýsingar úr álagningarskrá og skattskrá, í heild eða hluta, umfram það sem skýr lagaákvæði heimila.”

Með þessu er ekki verið að stöðva að fullu aðgang almennings að álagningaskránni, en því settar verulegar skorður. Þannig verður ekki hægt að gera sér að féþúfu birtingu upplýsinga úr skattskránni með þeim ósmekklega hætti sem gert hefur verið um langt árabil.

Í greinargerð frumvarpsins segir einnig m.a.:

„Fyrir utan þau mannréttindi sem einstaklingum eru tryggð í stjórnarskrá, um friðhelgi einkalífs, hafa einstaklingar af því margvíslegan ama að upplýsingar um laun þeirra séu birt opinberlega. Umfjöllun í fjölmiðlum um kjör nafngreindra einstaklinga vegur ekki aðeins að einkalífi viðkomandi heldur einnig allrar fjölskyldu hans og kann t.d. að ganga gegn hagsmunum sem börnum eru sérstaklega tryggðir með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. áskilnað sáttmálans um lagavernd gegn gerræðislegum afskiptum af einkalífi fjölskyldu barns. Þá er sala á upplýsingum úr álagningarskrá til fyrirtækja, sem hefur viðgengist um árabil, til þess fallin að draga mjög úr samningsstöðu launamanna við viðsemjendur sína er þeir skipta um vinnu. “

lesa áfram

Gagnlegar upplýsingar um skatta

Á hverju ári gefur skatta- og lögfræðisvið KPMG út bækling um skatta, eða upplýsingar um skattmál einstaklinga og rekstraraðila. Hér má nálgast skattabæklinginn 2014.

Mikinn fróðleik er að finna í þessari tæplega 50 síðna handbók. Það er þarft verkað reyna að koma á framfæri upplýsingum úr skattalögum á skiljanlegu og einföldu máli.

Fleira fróðlegt lesefni er að finna á vef KPMG undir „Útgefið efni”, en gott dæmi um flækjustig íslenska skattkerfisins er bæklingur KPMG „Starfstengd hlunnindi og styrkir 2013″ – alls 32 blaðsíður.

lesa áfram

Auðlindaskattur og auðlegðarskattur óskynsamlegir

Auðlindaskattur í sjávarútvegi er óheppilegur, ef setja á hann á til að tryggja skynsamlega nýtingu fiskistofna, því að það mun aldrei takast. Hagsmunaaðilar munu aldrei samþykkja hann. Horfur á samkomulagi við hagsmunaaðila væru miklu vænlegri, þegar aflaheimildum væri í upphafi úthlutað ókeypis í samræmi við aflareynslu. Og auðlindaskattur er líka óheppilegur, ef setja á hann á til að gera hugsanlegan fiskveiðiarð upptækan, því að hagsmunaaðilarnir skapa þennan arð, og hann myndi minnka við auðlindaskatt. Kerfi framseljanlegra og einstaklingsbundinna aflakvóta hvetti til fjárfestinga og nýsköpunar. Hins vegar er allt í lagi að leggja á veiðigjald til að standa undir kostnaði við stjórnun og eftirlit með fiskveiðum. Prófessor Corbett Grainger frá Háskólanum í Wisconsin-ríki kynnti þessar niðurstöður úr rannsóknum sínum á fjölmennri málstofu RNH og Samtaka skattgreiðenda 24. október 2014, þar sem Skafti Harðarson var fundarstjóri og dr. Birgir Þór Runólfsson umsegjandi.

Ragnar Árnason, prófessor í Háskóla Íslands, ræddi um mælingar á tekjudreifingu. Hann kvað þær ósjaldan svo ófullkomnar, að fráleitt væri að reisa kröfur um stórkostlegar skattabreytingar — til dæmis sérstakan skatt á stóreignamenn eða hátekjufólk — á þeim. Gini-stuðullinn, sem oft væri notaður, vegna þess að hann væri einfaldur í notkun, veitti svipaðar upplýsingar um tekjudreifingu og sú lýsing á hesti um hann, að hesturinn væri brúnn á litinn. Einn Gini-stuðull væri til fyrir margar ólíkar og misjafnar tekjudreifingar. Ragnar sýndi fram á, að Gini-stuðull fyrir tiltekið land myndi hækka, ef háskólanemum og ellilífeyrisþegar fjölgar hlutfallslega vegna aukinnar háskólamenntunar og lengri meðalaldurs, en hvort tveggja væri jafnan talið æskilegt. Einsársmælikvarðar eins og Gini-stuðullinn væru ófullkomnir, því að miða þyrfti við ævitekjur hvers manns, sem væri breytilegar, stundum lágar (á meðan hann væri námsmaður og lífeyrisþegi), en stundum háar (þegar hann væri á hátindi orku og aflagetu um miðjan aldur). Vísaði Ragnar til ritgerða um þetta í bókinni Tekjudreifingu og sköttum, sem nýútkomin er hjá Almenna bókafélaginu.

Hannes H. Gissurarson, prófessor í Háskóla Íslands, taldi ýmsar veilur vera í umtöluðu verki Thomasar Pikettys, Fjármagni á 21. öld. Tölur Pikettys um eignadreifingu hefðu sumar reynst rangar, en ef til vill væri rétt, að tölur um tekjudreifingu á Vesturlöndum sýndu, að úr henni hefði teygst upp á við, ríku fólki hefði fjölgað og það orðið ríkara. En tekjudreifing í heiminum í heild væri orðin jafnari. Skýringin á þessari þróun væri hnattvæðingin: Kínverskir og indverskir verkamenn veittu starfsbræðrum sínum harða samkeppni, en jafnframt hefði fólk með einstæða og ófjölfaldanlega hæfileika (afburðastjórnendur, kvikmyndastjörnur, íþróttahetjur, uppfinningamenn) eignast miklu stærri markað fyrir þjónustu sína og öðlast ofurtekjur. Ekkert væri heldur að ójafnri tekjudreifingu, væri hún tekjudreifing samkvæmt frjálsu vali. Það væri síðan ekki eins víst og Piketty héldi, að fjármagn ávaxtaðist ætíð hraðar en hagvöxtur. Fjármagn hlæðist ekki upp, heldur dreifðist með tímanum (eins og skáldsögur Balzacs, sem Piketty vitnaði óspart í, sýndu), og hagvöxtur gæti haldið áfram að vera ör, væri sköpunarmáttur kapítalismans nýttur.

Málstofan var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Vakti hún mikla athygli fjölmiðla. Viðskiptablaðið og Morgunblaðið birtu bæði fréttir um, að hún stæði fyrir dyrum, og Morgunblaðið birti frásögn af henni og viðtöl við frummælendur.

Glærur fyrirlesaranna má finna vef RNH, en þar birtist þessi frásögn af fundinum upphaflega.

lesa áfram

efst