Sannleikurinn um ríkisfjármálin

Grein þessi eftir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, birtist upphaflega í Morgunblaðinu 14. desember 2012.
Fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra ritar reglulega greinar um það sem hann telur vera glæsilegan árangur í ríkisfjármálum. Nýjasta greinin í þessari röð birtist í Fréttablaðinu í fyrradag (12. des. 2012). Þar er sem fyrr miklast af árangri liðinna ára og eina ferðina enn boðuð „tímamót í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs“.

Sem betur fer þurfa landsmenn ekki að búa við túlkun Steingríms Sigfússonar á hagtölum um ríkisreksturinn. Þessi gögn liggja fyrir í greinargóðu formi í útgáfum og á heimasíðu Hagstofu Íslands. Væntanlega endurspegla þessi gögn þann veruleika sem Steingrímur biður um að í heiðri sé hafður í grein sinni. Hins vegar bregður svo við að sú saga sem þessi gögn segja er ekki í góðu samræmi við túlkun Steingríms.

Veruleikinn

Allan stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar, frá 2009 og fram á þennan dag, hefur ríkissjóður verið rekinn með mjög miklum halla. Þessi ferill er rakinn í mynd 1 sem er meðfylgjandi. Þar kemur fram að fyrstu tvö stjórnarár ríkisstjórnarinnar, 2009 og 2010, var hallinn langt yfir 100 milljörðum hvort ár eða 8-9% af vergri landsframleiðslu (sbr. mynd 2). Öfugt við það sem Steingrímur gefur í skyn í línuritinu í grein sinni er það ekki svo að hallinn hafi minnkað á árinu 2010, fyrsta heila árinu í hans ráðherratíð. Þvert á móti hækkaði hann um 20 milljarða kr. eða um meira en 1% af vergri landsframleiðslu (VLF). Halli ríkissjóðs sem hlutfall af VLF óx sömuleiðis úr 8,3% í 9,4% (sbr. mynd 2).Frá árinu 2011 hefur hallinn vissulega farið lækkandi. Sú lækkun hefur hins vegar verið fjarska hægfara. Árið 2011 var hallinn á rekstri ríkissjóðs t.d. yfir 90 milljarðar kr. og næstum 6% af VLF (myndir 1 og 2). Jafnvel á yfirstandandi ári, fjórða árinu frá hruni, mælist hallinn fyrstu þrjá ársfjórðungana um 35 milljarðar kr. og stefnir í yfir 50 milljarða á árinu í heild eða um 3% af VLF.

Öfugt við það sem gefið er í skyn í grein Steingríms eru þessar hallatölur ríkissjóðs háar í samanburði við það sem tíðkast í öðrum Evrópuríkjum. Að meðaltali frá árinu 2009 til 2011 (eða áætlunar 2012) eru þær talsvert yfir meðallagi Evrópuríkjanna (OECD, Economic Outlook 2012). Það er heldur ekki rétt sem fullyrt er í grein Steingríms að „hvergi í okkar heimshluta þar sem ríkissjóðir hafi lent í vanda vegna efnahagskreppu [hafi] náðst viðlíka árangur síðastliðið ár eins og á Íslandi“. Samkvæmt hagtölum frá OECD (Economic Outlook 2012) mun t.d. afkoma ríkissjóðs Írlands batna mun meira frá 2011 til 2012 en ríkissjóðs Íslands. Allmörg önnur lönd eru talin munu ná „viðlíka“ árangri.

Leiktöld fjárlaga

Það er eftirtektarvert að frá árinu 2010 hafa fjárlög undantekningarlaust gert ráð fyrir miklu minni halla á rekstri ríkissjóðs en í raun hefur orðið. Þessu er lýst í mynd 1, þar sem halli á rekstri ríkissjóðs samkvæmt fjárlögunum er sýndur við hliðina á rauntölunum. Eins og sjá má er munurinn ærinn – hallinn er oft meiri en tvöföld áætlun fjárlaga – og skiptir tugum milljarða og nokkrum hundraðshlutum af VLF.Spurnin er hvað valdi. Nærtækt er að túlka þetta sem aðhaldsleysi í framkvæmd fjárlaga, sem er ekki í samræmi við þá mynd sem Steingrímur vil fá okkur til að trúa. Það er einnig hugsanlegt að þetta vanmat á hallanum sé gert viljandi til að blekkja löggjafann og almenna kjósendur. Hver sem ástæðan er má ljóst vera að svona mikil frávik eru stjórnarfarslega skaðleg og geta seint talist til fyrirmyndar í ríkisrekstri.

Hættulegur hallarekstur

Það sem af er stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar, þ.e. frá árinu 2009 og út þriðja ársfjórðung 2012, nemur samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs mældur á verðlagi hvers árs um 400 milljörðum króna (Hagstofan, Þjóðhagsreikningar 2012:3 og 2012:15). Þessi uppsafnaði halli hefur eðli málsins samkvæmt bæst við mjög alvarlega skuldastöðu ríkissjóðs. Þróun hinnar hreinu skuldastöðu sem hlutfalls af VLF samkvæmt fyrrgreindum gögnum Hagstofunnar er nánar lýst í mynd 3. Eins og sjá má hefur skuldastaðan vaxið hröðum skrefum og nam í árslok 2011 yfir 55% af VLF. Vegna hallarekstrar ríkissjóðs á árinu 2012 hafa þessar skuldir enn aukist. Rétt er að taka það skýrt fram að í þessum tölum vantar ýmsar þekktar skuldbindingar ríkissjóðs, m.a. vegna lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ábyrgða á sjóðum og stofnunum, t.a.m. Íbúðalánasjóðs.Þessi mikla hækkun í hreinni skuldastöðu ríkissjóðs er mikið áhyggjuefni af a.m.k. þremur ástæðum.

Í fyrsta lagi fylgir henni vaxtakostnaður upp á tugi milljarða sem rýrir getu ríkissjóðs til að sinna mikilvægum málefnum samfélagsins, þar með töldum velferðarmálum í framtíðinni.

Í öðru lagi bætast hinar auknu ríkisskuldir ofan á mjög erfiða skuldastöðu þjóðarinnar í heild. Þær veikja lánstraust þjóðarinnar út á við og hækka þar með vaxtakröfuna á Ísland erlendis. Skuldasöfnun íslenska ríkisins er að áliti sérfræðinga ein af helstu ástæðunum fyrir því að alþjóðleg matsfyrirtæki hafa ekki fengist til að hækka mat sitt á lánshæfi Íslands og skuldatryggingarálagið á ríkissjóð erlendis hefur sorglega lítið lækkað.

Í þriðja lagi er þessi mikla skuldasöfnun ríkisins bein ógn við getu þjóðarinnar til að komast með sæmilega heilli há út úr þeirri fjárhagskreppu sem hún hefur verið í. Áætlun sú um endurreisn íslensks efnahags sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórnin komu sér saman um í nóvember 2008 byggðist á tveimur meginstoðum; (i) myndarlegum hagvexti og (ii) aðhaldi í ríkisrekstri og hallalausum ríkisrekstri innan fárra ára. Þetta var í áætluninni taldið forsenda fyrir því að Ísland kæmist út úr skuldakreppunni. Hagvöxtur hefur því miður reynst mun hægari en að var stefnt í þessari áætlun. Eins og rakið hefur verið hefur einnig verulega skort á að markmiðunum í ríkisfjármálum hafi verið náð.

Lokaorð

Hinn mikli hallarekstur ríkissjóðs undanfarin fjögur ár felur í sér verulega ógn við efnahagslega velferð íslensku þjóðarinnar á komandi árum. Framvinda frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2013 á Alþingi og reynslan af fjárlögum undanfarandi ár bendir því miður ekki til þess að nú séu að verða þau tímamót í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs sem Steingrímur Sigfússon hefur kynnt. Þvert á móti bendir allt til þess að þessi síðustu fjárlög núverandi ríkisstjórnar muni skerða enn frekar það svigrúm sem þjóðin hefur til að losa sig úr skuldafjötrum og skapa hér velferð á varanlegum grunni.

Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

lesa áfram

Hver er hlutur þinn í skuldum hins opinbera?

RSE, Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, hefur látið útbúa reiknivél þar sem finna má út, gróflega, hver hlutdeild þín er í skuldum hins opinbera. Að sjálfsögðu skuldar yngra fólks meira en þeir eldri.

Mörgum stjórnmálamönnum er gjarnt að tala um sjálfbærni þegar kemur að umhverfismálum. Hjá þeim sömu aðilum virðist hins vegar sjálfbærni ekki eiga upp á pallborðið þegar kemur að skuldum hins opinbera og stöðu heimilanna.

Það virðist því í lagi að ganga á framtíðartekjur komandi kynslóða og skerða lífgæði þeirra með óhóflegri eyðslu samtímans, en ekki hrófla við steini til að byggja í haginn fyrir framtíðina.

Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur, sem er einn þeirra sem standa að RSE, skrifar grein í Fréttablaðið 17. apríl, 2013, sem ber yfirskriftina Skuldir í dag eru skattar á morgun, og hann segir:

Helsta auðlind Íslands er þjóðin sjálf. Öfugt við gömlu Evrópu, þar sem fleiri verða á eftirlaunum árið 2020 en vinna, er íslenska þjóðin enn að vaxa og dafna og vinnusemi landsmanna er mikil. Framtíðin stendur og fellur með því hvort svo verði áfram.

Íslenska ríkið er mjög skuldsett og skuldar um 2.100 milljarða króna. Mikið af þessum skuldum komu til við að greiða fyrir þjónustu og framkvæmdir sem ekkert nýtast komandi kynslóðum. Það má því segja að um sé að ræða skuldir sem eldri kynslóðir tóku, á kostnað hinna yngri. Skuldir ríkisins hverfa ekki, og ríki geta ekki farið á hausinn, heldur þarf við þjóðargjaldþrot að endursemja við kröfuhafa. Þannig voru skuldir Sovétríkjanna, eftir hrun þeirra, losaðar af Eystrasaltsríkjunum, Georgíu og Aserbaídsjan og Rússland tók þær yfir, eftir að endursamið hafði verið um fjárhæð og afborganir við lánardrottna. Enn eru útistandandi skuldir Napeóleons sem franska ríkið þarf að greiða af.

Skuldir í arf

Unga fólkið á Íslandi fær skuldir í arf. Þær nema um 21 milljón króna á hvern þeirra 100 þúsund einstaklinga sem eru á aldrinum 15-25 ára. Þetta eru skuldir sem þarf að greiða af í gegnum skatta. Þessi greiðslubyrði bætist á unga fólkið sem á þegar í erfiðleikum með að verða sér úti um heimili, sem kosta um það bil sömu fjárhæð. Unga fólkið er því að borga af tveimur húsum, ef svo má segja, þegar það flytur að heiman og fer að afla tekna. En annað húsið fær það aldrei að sjá eða koma í.

Í Evrópu og eldri samfélögum er ungt fólk farið að flytja annað, frekar en að taka á sig skuldabyrði eldri kynslóða. Það þarf að fyrirbyggja þá hættu hér á landi, það er frumskilyrði hagsældar á Íslandi.

Vefsíðan rikid.is er ný vefsíða Rannsóknarseturs um samfélags- og efnahagsmál. Þar getur fólk reiknað út skattbyrði sína og hlut í að greiða niður áfallnar skuldir á næstu árum. Eins er hægt að skoða ríkisreikninginn og skera niður, eða bæta við útgjaldaflokka, til að átta sig betur á því hvað fylgir því að vera skattborgari á Íslandi.

Það er von okkar að þessi vefur sé innlegg í upplýsta umræðu um ríkisfjármál á Íslandi. Sterkasta vopnið gegn umframkeyrslu stjórnvalda er að kjósendur veiti stjórnmálamönnunum aðhald. Þá er von til þess að loks fari einhverjir stjórnmálamenn að lofa því að spara en ekki bara að eyða.

 

lesa áfram

efst