Monthly Archives: June 2012

Óréttlæti sem verður að leiðrétta

Grein þessi birtist upphaflega í Morgunblaðinu en er hér endurbirt með leyfi höfundar.

Þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum eftir kosningar 2013 bíða mörg verkefni, stór og smá. Sum erfið og flókin, en önnur einföld. Mikilvægasta verkefnið er að koma hjólum atvinnulífsins af stað, örva fjárfestingu og blása almenningi bjartsýni í brjóst. En til að vel takist til verður að ganga hreint til verks og leiðrétta ranglæti sem viðgengst í samfélaginu.

Óréttlæti er víða og hægt er að nefna mörg dæmi. Við skulum fara yfir eitt þeirra, með dæmisögu.

Jafnaldrar

Gunnar og Sigurður eiga fátt sameiginlegt annað en vera fæddir árið 1955. Gunnar ákvað að fara í iðnskóla. Hann lauk sveinsprófi í rafvirkjun og hlaut síðar meistararéttindi. Sigurður valdi bóknámið. Eftir menntaskóla lagði hann stund á háskólanám og lauk BS-prófi í stjórnmálafræði. Gunnar stofnaði fyrirtæki en Sigurður starfaði í nokkur ár hjá ríkisstofnun en snéri sér síðan að stjórnmálum. Sigurð vantaði tvö ár í þrítugt þegar hann tók sæti á Alþingi.
Í þrjátíu ár hefur Gunnar rekið rafverktakafyrirtæki með nokkra menn í vinnu. Það hafa skipst á skin og skúrir í rekstrinum. Þegar vel hefur gengið hefur Gunnar lagt fé til hliðar – keypt verðbréf og þá ekki síst ríkisskuldabréf og fyrir nokkrum árum litla íbúð. Þá hefur hann greitt tilskilið lágmark í lífeyrissjóð. Hann á íbúðarhús sitt skuldlaust, fyrirtækið er skuldlítið og sparifé er í verðbréfum og á bundnum reikningum. Samkvæmt skattframtali námu eignirnar nær 200 milljónum króna. Vegna þessa þarf Gunnar að greiða 1,5 milljónir króna ásamt eiginkonu sinni í auðlegðarskatt. Þá greiðir Gunnar 20% fjármagnstekjuskatt.

Gunnar hefur velt því fyrir sér hvort ekki sé rétt að setjast í helgan stein þegar hann verður sextugur. Byrja að lifa lífinu, sinna áhugamálunum að ógleymdri fjölskyldunni. Draumurinn kann að vera lengra undan.

Síðustu ár hefur Gunnar fengið tilkynningu frá lífeyrissjóðnum um að lífeyrisréttindi hans hafi verið skert um fjórðung. Auðlegðarskatturinn og fjármagnstekjuskatturinn hafa gert það að verkum að stór hluti eignatekna hefur verið gerður upptækur. Gunnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi hreinlega ekki efni á því að njóta ævistarfsins á komandi árum, enda treystir hann því ekki að auðlegðarskatturinn sé tímabundinn, eins og lofað hefur verið, eða að fjármagnstekjuskatturinn lækki og miðist við raunávöxtun fjármuna.

Helsta eignin skattlaus

Sigurður hefur verið skynsamur í fjármálum í þau þrjátíu ár sem hann hefur setið á þingi. Þau hjón eiga ágætt einbýlishús, sumarhús fyrir austan fjall og skulda lítið. Þau eiga á annan tug milljóna í sparifé en greiða aðeins nokkra tugi þúsunda í fjármagnstekjuskatt vegna 200 þúsund króna frítekjumarks. Samkvæmt skattframtali eru eignir þeirra metnar á tæpar 100 milljónir. Sigurður og eiginkona hans greiða því ekki auðlegðarskatt. Hans helsta eign, eftir öll árin á þingi, – um 200 milljóna króna lífeyrisréttindi – er undanþegin auðlegðarskatti. Og ólíkt Gunnari hefur Sigurður ekki þurft að sætta sig við skert lífeyrisréttindi enda á ábyrgð ríkissjóðs.
Sigurður hefur eins og Gunnar stefnt að því að setjast í helgan stein skömmu eftir að hann nær sextugu.
Aðstæður Gunnars og Sigurðar eru því ólíkar. Það sem meira er; Gunnar sér ekki annað en að hann, starfsmenn hans og afkomendur verði – um ókomin ár – að greiða sérstakt álag í formi hærri skatta til að standa undir hundraða milljarða lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs.

Skilaboð til ungs fólks

Er nema von að Gunnar hafi ekki fagnað þegar elsta dóttirin tilkynnti að hún ætlaði að byggja upp eigið fyrirtæki strax að loknu prófi í rafmagnsverkfræði? Í huga Gunnars er slíkt fjárhagslegt glapræði. Hann benti dóttur sinni á að öll skynsamleg rök stæðu til þess að fá góða vinnu hjá hinu opinbera. Fá þokkaleg laun og lífeyrisréttindi með ábyrgð launagreiðenda.
Þessi litla dæmisaga dregur fram það ranglæti sem er fólgið í auðlegðarskattinum og þeirri misskiptingu sem er á milli þeirra sem eiga lífeyriseign í almennum lífeyrissjóðum og hafa lagt fé til hliðar með öðrum hætti og þeirra sem eru tryggir með góða raunávöxtun ríkistryggðrar lífeyriseignar. En hún dregur einnig annað fram, því verið er að senda ungu athafnasömu fólki skilaboð:
Ekki reyna að standa á eigin fótum. Slíkt sýnir lítil hyggindi. Veljið fremur öryggið hjá Stóra-Bróður.

Við sitjum því á tímasprengju

Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs nema um 400 milljörðum króna og eftir 2020 verður ríkissjóður að greiða tugi milljarða á hverju ári (fyrir utan iðgjöld) til að standa við skuldbindingar sínar. Engir aðrir en skattgreiðendur greiða, beint eða óbeint, í formi hærri skatta, dýrari og/eða minni þjónustu. Á sama tíma er ómeðvitað eða meðvitað verið að beina ungu fólki frá einkaframtakinu og yfir til hins opinbera. Allir vita hvernig þá fer.
Eitt mikilvægasta hlutverk nýrrar ríkisstjórnar er að leiðrétta mismunun í lífeyrisréttindum landsmanna en um leið afnema eignaupptökuskattinn sem kallaður er auðlegðarskattur í lagagreinum.
Við kjörborðið munu kjósendur gera kröfu til þess að ranglæti sé leiðrétt.

 

lesa áfram

Skattgreiðendur kaupa hús og gefa hús

Blogg Skafta Harðarsonar af Eyjunni 12. júní 2012 um sérkennileg fasteignaumsvif Reykjavíkurborgar:

Reykjavíkurborg ákvað í síðustu viku að kaupa Alliance húsið að Grandagarði 2 á heilar 340 miljónir króna. Þessi gjörningur á kostnað skattgreiðenda er nánast óskiljanlegur. Eigandi hússins hafði gert samning við Sögusagnið um sölu þess, en Reykjavíkurborg gekk inn í samninginn og leigir síðan Sögusafninu til 25 ára. Hvers vegna að skipta sér með þessum hætti af sölu hússins? Og auk þess ætlar Borgin, rétt eins og það sé eitthvert fasteignafélag, að gera húsið upp að utan. Allt í boði skattgreiðenda.

Þá hyggst Reykjavíkurborg gefa Rithöfundasambandinu Gunnarshús af litlu tilefni. Ef til vill er skynsamlegt að borgin losi sig við Gunnarshús, en hvers vegna var það ekki boðið til sölu með kvöðum um varðveislu þess? Er sjálfsagt að gefa Fámennum hagsmunasamtökum eignir borgarinnar?

Hvers vegna fengu Reykavískir skattgreiðendur ekki að greiða atkvæði um þessa húsagjörninga? Er aðeins heimilt að efna til íbúakosningu um það sem engu máli skiptir? Hvort mála skuli frekar vegasaltið eða róluna í ár?

En það er gott til þess að vita að fyrir húsagjöfinni og húsakaupunum hafði þegar verið safnað með hærri sköttum, sameiningu skóla, fleiri lokuðum skipulagsdögum á leikskólum borgarinnar, sparnaði við gatnagerð og hreinsun í borginni.

lesa áfram

Umfjöllun um grein í Tíund

Fjölmiðlar hafa fjallað nokkuð um grein í Páls Kolbeins, starfsmanns Ríkisskattstjóra, í blaðinu Tíund. Greinin heitir Hrunið og skattarnir og ber saman skattgreiðslur mismunandi tekjuhópa fyrir og eftir hrun, og fleiri þætti. Athyglisvert er að í grein Páls kemur skýrt fram þvílík eignaupptaka svokallaður auðlegðarskattur er. Hópur fólks greiðir meira í þennan skatt en sem nemur tekjum þess, þ.e. skattlagning tekna er þannig yfir 100% í raun. Dæmi eru um að eldra fólk með takmörkuð eða engin lífeyrisréttindi, en skuldlaust húsnæði og einhverjar peningalegir eignir, greiði auðlegðarskattinn. Þannig greiða slíkir einstaklingar skatt af því sem ætlað var sem lífeyris í ellinni. Ef þetta er sjálfsagt hvers vegna eru lífeyrisréttindi þá ekki almennt skattlögð? Og hverjir eru það sem best og mest lífeyrisréttindi eiga?

Um atriði úr grein Páls má lesa á mbl.is, dv.is og ruv.is og er fróðlegt að sjá mismunandi áherslur miðlanna.

En fjallað er um fleiri þætti í greininni á öllum helstu miðlum og er því fróðlegt fyrir áhugafólk að lesa greinina sjálfa í Tíund. Segja má að greinilega komi fram það sem helst skiptir máli: tekjur hafa lækkað frá hruni og skattar hækkað. Slæmt blanda fyrir allan almenning sem hefur þurft að þola skerðingu launa vegna samdráttar í atvinnulífinu og síðan einnig hækkaðar skattaálögur.

 

 

 

lesa áfram

Morgunblaðið: Skattfé fólksins

Fjallað var um Samtök skattgreiðenda í leiðara Morgunblaðsins þann 11. júní 2012. Leiðarinn hljóðar svo:

Segja má að ekki sé seinna vænna að hér á landi taki til starfa samtök skattgreiðenda, en frá því var greint í Morgunblaðinu á laugardag að slík samtök hefðu verið stofnuð. Skafti Harðarson, einn forsvarsmanna Samtaka skattgreiðenda, segir að ætlunin sé að samtökin beiti sér fyrir „betri ráðstöfun ríkisfjár, lægri skattheimtu, sanngjarnari og gegnsærri skattheimtu og síðast en ekki síst að beita okkur gegn reglugerðarveldi ríkisins“.

Félagsskapur af þessu tagi er starfandi víða um heim og veitir hinu opinbera mikilvægt aðhald. Um þessar mundir er sérstaklega brýn þörf fyrir slíkt félag hér á landi þegar horft er til þess hvert viðhorf ríkisvaldsins og flestra sveitarfélaganna er til skattheimtu.

Sveitarfélögin gleymast stundum í þessu sambandi, en þau hafa orðið æ umsvifameiri á undanförnum árum og taka til að mynda til sín um helming staðgreiðslu einstaklinga þegar tillit hefur verið tekið til persónufrádráttarins. Mörg þeirra hafa reist sér hurðarás um öxl og setja útsvarið þess vegna í efstu mörk og jafnvel rúmlega það þau sem í mestar ógöngur eru komin.

Önnur virðast telja sjálfsagt að nýta sér allt það svigrúm sem lög leyfa til að hækka skatta í stað þess að líta á það sem keppikefli að íbúarnir búi við sem lægstar álögur. Það er til að mynda af sem áður var að Reykjavíkurborg hafi skattlagningu sína við lægstu leyfilegu mörk, það tímabil leið undir lok þegar vinstrimenn náðu völdum í borginni og tókst að sitja þar óslitið í nokkur kjörtímabil.

Sambærileg staða er nú uppi hjá ríkinu. Eftir að árangur hafði náðst í lækkun skatta með því að byrðum var létt af almenningi og atvinnulífið gert samkeppnishæfara komust að völdum þeir sem telja að háir skattar séu í sjálfum sér æskilegir. Þeim er það sérstakt kappsmál að innheimta eins mikla skatta og mögulegt er og vilja skilja eins lítið eftir hjá fólki og fyrirtækjum og nokkur kostur er.

Almenningur finnur þetta vel um hver mánaðamót og í hverri ferð út í matvöruverslun eða á bensínstöð. Fjárfestar og atvinnulíf finna þetta einnig og svo finnur almenningur aftur fyrir því þegar atvinnulífið koðnar niður vegna skattheimtu.

Ágætt dæmi um þetta viðhorf vinstrimanna til skattheimtu birtist nú í umræðunni um veiðigjöld, en þar er keppst við að leggja svo miklar álögur á fyrirtækin að þau rétt lifi af. Og ákafi stjórnvalda í að hækka skatta er meira að segja svo mikill að skattheimtan á að vera mun meiri en fyrirtækin þola með þeim afleiðingum að stór hluti þeirra er í mikilli hættu, með tilheyrandi afleiðingum fyrir almenning og þjóðfélagið allt.

Þessi afstaða vinstrimanna, að best sé að hafa alla skatta eins háa og mögulegt er, hefur þær afleiðingar að hjól efnahagslífsins snúast hægar og stærri hluti þess leitar undir yfirborðið. Þess vegna verða háu skattarnir gjarnan til þess að minna innheimtist en með lægri sköttum og allir verða verr settir en áður.

En hugmyndin um háu skattana er líka röng vegna þess að hið opinbera á að leitast við að gera það sem það þarf að gera fyrir sem minnst fé og skilja sem mest eftir hjá almenningi. Hið opinbera á ekki að taka skatta af fólki komist það hjá því. Þetta er sú einfalda staðreynd sem vinstristjórnir átta sig ekki á.

lesa áfram

Er þitt sveitarfélag vel rekið?

Samtök skattgreiðenda leita áhugasamra samstarfsmanna um land allt. Rík ástæða er til að huga jafnt að umsvifum sveitarfélaga sem ríkisins. Sveitarfélög á landinu er misvel rekin, eins og gengur, en hin síðari ár hefur athygli verið vakin á erfiðri skuldastöðu margra þeirra. Skuldastöðu sem óábyrg fjármálastjórn stjórnmálamanna má um kenna og ónógu aðhaldi skattgreiðenda (kjósenda). Nú blasir einnig við að áfallnar lífeyrisskuldbindingar munu gera mörgum sveitarfélögum erfitt um vik í framtíðinni ef ekki kemur til aukið aðhald í rekstri, auknar skatttekjur (auðvelda leiðin) eða einhliða breytingar á lífeyriskjörum opinberra starfsmanna.

Samtök skattgreiðenda hafa áhuga á að starfa í öllum sveitarfélögum landsins með grasrótarhópum sem skoða rekstur í heimahéraði og koma með ábendingar um hvað betur megi fara.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga má finna greinargóðar upplýsingar um rekstur sveitarfélaganna og góða samanburðartöflu með sundurliðun á rekstri sem tiltekur krónur á íbúa. Sá samanburður er góður til að átta sig á rekstrarútgjöldum til einstakra þátta.

Frekari sundurliðun má síðan fá úr rekstrarreikning viðkomandi sveitarfélags, eða óska frekari upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga. Ef þú hefur áhuga á að vinna með Samtökum skattgreiðenda þá skráðu þig á vefnum og sendu okkur jafnframt tölvupóst í netfang uppl@skattgreidendur.is.

Glansmyndir stjórnmálamanna af rekstri eigin sveitarfélags eru sjaldnast sannar. Þeim hættir til að framreiða tölur og upplýsingar þannig að við blasi aðeins betri hliðin.

 

lesa áfram

Hughreystandi bók (fyrir stjórnmálamenn)

Bandalag skattgreiðenda í Bretlandi, The Taxapayers´ Alliance, hefur staðið fyrir útgáfu bóka, jafnt sem ógrynni greina um skattamál. Árið 2010 gáfu samtökin t.d. út í samstarfi við Biteback útgáfuna bókina:

How to cut public spending (and still win  an election) sem ritstýrt er af Matthew Sinclair, framkvæmdastjóra The Taxpayers´ Alliance.

Í bókinni er, eins og við er að búast, einblínt á hið opinbera í Bretlandi, en jafnframt tekin dæmi frá öðrum löndum. Sérstaklega er áhugaverð fyrir íslendinga grein eftir Jan Henriksson, sem starfaði sem ráðgjafi Göran Persson þegar hann tók við fjármálaráðuneytinu í sænsku ríkisstjórninni 1994. Á þeim tíma blasti við Svíium mikill fjárlagahalli, viðskiptahalli og verðbólga, sem tekið var á af krafti af sænskum krötum. Jan Henriksson bendir á 10 atriði sem séu nauðsynleg til að taka á niðurskurði í ríkisfjármálum.

Samtök skattgreiðenda hyggjast gefa íslenskum stjórnmálamönnum eintak þessarar bókar fyrir næstu kosningar. Viltu þú taka þátt í slíkri bókagjöf?  Láttu okkur vita í tölvupósti; uppl@skattgreidendur.is.

lesa áfram

Menntaskólinn Hraðbraut lokar

Nú virðist ljóst orðið að Menntaskólanum Hraðbraut verður lokað að loknu þessu skólaári. Hér var um að ræða merka tilraun til einkarekstrar á menntaskólastigi. Þar gat saman farið sparnaður nemenda í námi (í árum og tekjutapi) og sparnaður hins opinbera. En meint mistök stjórnenda skólans gáfu andstæðingum nýrra lausna í skólamálum  höggstað sem embættis- og stjórnmálamenn nýttu sér til að neita að framlengja þjónustusamning við skólann.

Til grundvallar ákvörðunar Menntamálaráðuneytisins lágu ekki faglegar ástæður, né heldur athugun á kostnaði við skólann fyrir hið opinbera. Var skólinn góð kaup fyrir skattgreiðendur? Og skilaði hann tilætluðum árangri fyrir nemendur sína? Og ef svo var, mátti þá ekki gefa eigendum og stjórnendum skólans tækifæri til að leiðrétta mistök sín?

lesa áfram

Bækur um hagfræði og skattamál

Fjöldi bóka hefur komið út á íslensku sem fjalla að hluta, eða í heild, um skattamál. Nokkrar bækur má nefna, en frekar verður fjallað um bækur, rannsóknir, greinar og aðra umfjöllun í pistlum hér á heimasíðu Samtakanna þegar fram í sækir.

Bækur sem kenna ætti í Hagfræði 101:

Ábyrgðarkver. Bankahrun og lærdómurinn um ábyrgð eftir Gunnlaug Jónsson

Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt

Áhrif skattahækkana á hagvöxt eftir Hannes H. Gissurarson

Umfjöllun um eitt stærsta mál Íslandssögunnar þegar íslensku skattgreiðendum var ætlað að taka á sig afleiðingarnar af gjaldþroti einkabanka:

Icesave samningarnir – Afleikur aldarinnar eftir Sigurð Má Jónsson

lesa áfram

Yfir 100 skattahækkanir frá 2007

Í upphafi árs greindi Morgunblaðið frá því að frá árinu 2008 hefðu orðið yfir 100 skattbreytingar á Íslandi. Allar þær breytingar voru til hækkunar og fjölgaði sköttum að sama skapi. Í fréttinni segir:

Á yfirliti sem Viðskiptaráð Íslands hefur tekið saman um breytingar á skattkerfinu frá 2007 sést að frá þeim tíma, á árunum 2008 til 2012, samkvæmt fjárlögum, hafa orðið eða verða 110 til 120 skattabreytingar.

Ljóst má vera af þessum fréttum að mikið verk er óunnið í lækkun skatta á Íslandi.

lesa áfram

Vefsíða opnuð

Samtök skattgreiðenda hafa opnað heimasíðu þar sem ætlunin er að halda utan um starfsemi félagsins. Reglulega verða færðar inn fréttir, skýrslur og annað efni. Einnig verður hægt að fylgjast með starfinu í gegnum Facebook síðu okkar.

lesa áfram

efst