Monthly Archives: July 2012

Fjármálareglur ríkisins?

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, spyr á Facebook síðu sinni:

„Ríkið hefur nú sett sveitarfélögum fjármálareglur. Það er hið besta mál. Á sama tíma (árið 2011) voru gjöld ríkisins 90 þúsund milljónum meiri en tekjurnar. Það er hið versta mál. Hver á að setja ríkinu fjármálareglur sem farið verður eftir?”

Augljósa svarið við þessari spurningu er: Stjórnarskráin. En í stjórnarskránni eru hvergi að finna neina varnagla við umsvifum og eyðslu ríkisins.

Og í tillögu stjórnlagaráðs, sem kjörið var af minnihluta Alþings, er enga varnagla að finna. Þvert á móti skuldbindur tillaga þess ríkið til margsvíslegra útláta en beinlínis bannar þjóðaratkvæðagreiðslur um skattamál:

„67. gr.
Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt  ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að  krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðrétt­arskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þess skal gætt að frum­varp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr.

Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um  form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímalengd til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra,  hverju megi til kosta við kynningu, hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum  Alþingis, svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu.”

Hvers vegna kjósendum er óheimilt að greiða atkvæði um skattamál er óskiljanlegt. Og af hverju ríkinu eru engin takmörk sett eða fjármálareglur er enn óskiljanlegra. Í tillögu stjórnlagaráðs er þannig kveðið á um sjálfbærni þegar kemur að auðlindum og náttúru, en ekkert um sjálfbærni í rekstri ríkisins. Sjálfbærni virðist aldrei eiga við þegar stjórnmálamenn ganga freklega á hagsmuni komandi kynslóða með því að eyða skatttekjum þeirra fyrirfram.

 

 

 

 

lesa áfram

Vörn velferðarkerfsins er uppstokkun í ríkisrekstri

Grein þessi eftir Óla Björn Kárason birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. júlí 2012, og má einnig finna á vef Óla www.t24.is:

Í hugum margra stjórnmálamanna er hægt að sinna verkefnum og leysa flest vandamál með því að auka framlög úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Rökin eru sótt í kistu fræðimanna sem mæla velferð þjóðfélaga út frá því hversu stórum hluta landsframleiðslu er varið af hinu opinbera í heilbrigðis- og menntakerfið, í eftirlitsstofnanir og umhverfisvernd, í opinbera stjórnsýslu eða aðra samneyslu. Því stærri hluti sem rennur í gegnum hið opinbera því meiri er velferðin, samkvæmt hugmyndafræði þessara fræðimanna.

Stjórnmálamenn sem hafa tekið ástfóstri við hugmyndirnar hafa ekki sérstakar áhyggjur af því hvernig opinberum fjármunum er varið enda stendur áhugi þeirra til þess að auka útgjöld en ekki draga úr þeim. Kannski er það þess vegna sem þeir sjá ekkert óeðlilegt við að afgreiða fjáraukalög sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Á síðasta ári nam halli á ríkissjóði 89,4 milljörðum króna eða liðlega 52 milljörðum króna hærri fjárhæð en samþykkt fjárlög gerðu ráð fyrir. Liðlega 10 mánuðir voru liðnir af árinu þegar Alþingi afgreiddi fjáraukalög fyrir árið 2011. Þá var reiknað með að hallinn yrði „aðeins” 46,4 milljarðar króna. Aðeins nokkrum vikum fyrir lok ársins var fjármálastjórn ríkisins ekki betri en svo að halli ríkissjóðs var vanmetinn um liðlega 42 milljarða króna.

Fjármálaráðherra lætur eins og ekkert sé eðlilegra en að afgreiða lánsfjárlög vísvitandi með tugmilljarða skekkju. Í viðtali við fréttastofu ríkisins sagði ráðherrann að það hafi verið „samdóma álit manna að setja ekki inn ákveðna upphæð“ þar sem ekki hafi verið vitað hversu hár reikningurinn vegna SpKef yrði. Skattgreiðendur hafa ríka ástæðu til að hafa áhyggjur af fjármálastjórn ríkisins, þegar fjármálaráðherra telur réttlætanlegt að samþykkja fjáraukalög með þeirri vissu að þau séu röng. Hvað kemur í veg fyrir að slíkur ráðherra leggi fram og berjist fyrir samþykkt fjárlagafrumvarps sem byggir á röngum forsendum, feluleik og vanáætlunum, ekki síst á kosningaári?

Reikningur framtíðarinnar

Það er óskiljanlegt hvernig fjármálaráðherra treystir sér til þess að fullyrða að aukinn vaxtakostnaður samfara hækkandi skuldum ríkissjóðs hafi ekki áhrif á fjárlög. Engum fjármálaráðherra hefur áður komið til hugar að halda slíku fram. Á liðnu ári námu lántökur ríkissjóðs nær 160 milljörðum króna umfram afborganir og þar af voru rúmlega 84 milljarðar erlend lán. Ríkisstjórninni hefur því ekki tekist að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs né koma í veg fyrir hækkandi vaxtakostnað á komandi árum (þó fjármagnskostnaði ríkisins sé haldið niðri með gjaldeyrishöftum). Og gatið hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins heldur áfram að stækka. Hækkandi lífeyrisskuldbindingar, aukin skuldasöfnun og hærri vaxtakostnaður, eru ekki annað en reikningur til framtíðar. Sá reikningur verður ekki greiddur nema með hærri sköttum og/eða niðurskurði í opinberri þjónustu.

Gríðarlegur hallarekstur ríkissjóðs eru alvarleg tíðindi fyrir komandi kynslóðir, líkt og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur réttilega haldið fram. Hann hefur bent á að umsvifum ríkisins sé haldið uppi með hallarekstri og það sé gríðarlegt ábyrgðarleysi að bregðast ekki við með því að skera niður í rekstri ríkisins. Þessi ummæli hafa vakið hörð viðbrögð hjá varðmönnum ríkisstjórnarinnar og talsmönnum þess að velferð skuli mæld á stiku ríkisútgjalda sem hlutfall af landsframleiðslu. Slíkir menn vilja ekki horfast í augu við undirliggjandi vanda. Þeir gleðjast miklu fremur yfir því að skattbyrði þeirra sem lægri hafa launin hafi minnkað, – engu skiptir þó bagginn hafi orðið léttari vegna lækkandi launa. Það skiptir ekki máli þar sem skattbyrði hinna hærri launuðu hefur aukist sem þó hefur skilað ríkissjóði lægri skatttekjum. Velferðin er einnig mæld í auknum jöfnuði, þar sem allir eru verr settir en áður.

Fátt kemur í veg fyrir það að ríkisstjórnarflokkarnir afgreiði fjárlög fyrir komandi ár með óskhyggju að leiðarljósi, sjálfsblekkingum og villandi upplýsingum. Þingmenn og ráðherrar sem sjá ekkert athugavert við að samþykkja fjáraukalög, sem þeir vita að eru röng, munu aldrei standast þá freistingu að berja í gegn falleg kosningafjárlög sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum.

Stöðva verður blæðinguna

Að loknum kosningum mun ný ríkisstjórn taka við völdum og hennar bíða mörg og erfið verkefni. Koma verður böndum á ríkisfjármálin og stöðva blæðinguna. Þar eru tvær leiðir. Annars vegar að auka tekjurnar með því að örva atvinnulífið – hleypa nýju súrefni inn í fyrirtækin með lægri sköttum, afnámi gjaldeyrishafta og einfaldara regluverki. Og hins vegar með því að skera niður í rekstri ríkisins samhliða því að endurskipuleggja reksturinn frá grunni.

Stjórnmálamenn hafa axlað þá ábyrgð að skilgreina hlutverk ríkisins á hverjum tíma og marka því verkefni. Þó að of djúpt sé tekið í árinni að halda því fram að þeir hafi ekki staðið undir ábyrgðinni, þar sem vel flestir stjórnmálaflokkar hafa með einum eða öðrum hætti ákveðna stefnu, er engu að síður ljóst að þeir hafa í mörgu litið framhjá stefnunni sem haldið er að kjósendum. Þetta á ekki síst við um þá sem hafa barist gegn auknum umsvifum hins opinbera. Þeir hafa með samningum þurft að gefa eftir í stefnumálum sínum í samstarfi við aðra flokka. Auk þess eru talsmenn takmarkaðra ríkisafskipta oft veikir fyrir þegar kemur að úthlutun fjármuna til kjördæma þeirra eða til eigin hugðarefna.

Vörn fyrir velferðarkerfið

Óhætt er að fullyrða að almenn samstaða sé um það hér á landi að  ríkið haldi ekki aðeins uppi lögum og reglu og tryggi varnir landsins, heldur tryggi einnig að börn og unglingar hljóti almenna góða menntun, sjúklingum sé veitt góð aðhlynning og síðast en ekki síst að þeim sem minna mega sín sé hjálpað til sjálfshjálpar, tryggi að þeir sem ekki geta, hafi til hnífs og skeiðar með mannlegri reisn.

Ágreiningurinn snýr fremur að því hvernig þessum verkefnum er best sinnt. Útgjaldasinnar mega ekki til þess hugsa að róttæk uppstokkun verði gerð á skipulagi ríkisins. Allt tal um hagræðingu og uppskurð ríkisrekstrar er eitur í beinum útgjaldasinna. Þess vegna er farið af hörku í formann Sjálfstæðisflokksins.

Það væri hins vegar fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins að benda ekki á að í óefni stefnir í fjárhag ríkisins. Verði haldið áfram á sömu braut mun velferðarkerfið stöðvast af sjálfu sér. Uppstokkun í ríkisrekstrinum er því varnaraðgerð fyrir velferðarkerfi samtímans um leið og hagsmunir komandi kynslóða eru varðir.

lesa áfram

Hæstu álögðum gjöldum einstaklings sóað á rúmum sólarhring

Ríkisskattstjóri hefur af smekkvísi sent fjölmiðlum lista yfir þá 50 einstaklinga sem hæst greiða gjöldin fyrir skattárið 2011. Sá sem þar trónir á toppnum og hvers nafns, heimilisfangs og kennitölu Ríkisskattstjóri sendi öllum fjölmiðlum greiðir alls kr.: 185.366.305.-

Þetta er feykihá fjárhæð og má samfélagið vera þessum einstakling þakklátt fyrir hans framlag til samneyslunnar.

En öllu þessu fé sóaði ríkið á innan við 25 klukkutímum í greiðslu vaxta af skuldum ríkissjóðs. Alls námu vextirnir 65,6 milljörðum árið 2011. Skattar þessa rausnarlega einstaklings dugðu því fyrir vöxtum ríkissjóðs í rétt rúman sólarhring. Þá voru aðeins eftir 364 dagar …

 

lesa áfram

Ríkisskattstjóri brýtur trúnað – ályktun Samtakanna

Á stjórnarfundi Samtaka skattgreiðenda í dag, 25. júlí 2012, var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Ríkisskattstjóri brýtur trúnað

Samtök skattgreiðenda mótmæla því að Ríkisskattstjóri skuli birta sérstaklega og senda fjölmiðlum lista yfir þá 50 einstaklinga sem bera hæsta álagninu opinberra gjalda fyrir árið 2011.

Tekjur og skattar einstaklinga eru trúnaðarmál og trúnaður  á að ríkja milli framteljanda og skattayfirvalda. Sérstakt er að Persónuvernd skuli ekki mótmæla þessu trúnaðarbroti  opinberrar stofnunar. Um tímabundna framlagningu álagningaskrár gildir það sama. Engum ber sérstakur réttur til að hnýsast í  álagningu annarra en sinnar eigin.

Að þessu sinni gengur Ríkisskattstjóri lengra en nokkru sinni fyrr. Nú er sendur út listi til fjölmiðla þar sem  taldir eru upp þeir 50 einstaklingar sem hæsta álagningu bera og tiltekið heimilisfang þeirra og kennitala. Er það ósmekklegt og getur beinlínis  ógnað öryggi viðkomandi. Og ekki bætir úr skák að Ríkisskattstjóri sendir frá sér rangan lista í upphafi.  Er embættinu sýnilega ekki einu sinni treystandi til að senda frá sér réttar upplýsingar.

Listi eins og sá sem Ríkisskattstjóri sendir frá sér er aðeins til þess fallinn að ala á öfund og illmælgi í garð þess hóps skattgreiðenda sem mest greiða  til samfélagsins. Þakka ber framlag þessara einstaklinga í stað þess að hegna þeim með þeirri óumbeðnu athygli sem að þeim er beint.

Ef álögð gjöld á einstaklinga teljast ekki einkamál og trúnaðar ekki beri að gæta trúnaðar um meðferð þeirra hlýtur að mega spyrja hvers vegna hið opinbera birtir ekki lista yfir þá einstaklinga sem hæstar greiðslur hafa þegið frá hinu opinbera. Þannig yrði öllum opinn aðgangur að skrá yfir bótaþega hins opinbera og Tryggingastofnun gæti jafnframt  sent  fjölmiðlum lista yfir 50 hæstu bótaþegana hvers árs.

Stjórn Samtaka skattgreiðenda

lesa áfram

Talnaleikur prófessorsins

Vefþjóðviljinn (www.andriki.is) fjallar hér aðeins um talnaleik félagsfræðiprófessorsins Stefáns Ólafssonar. Stefán hefur verið duglegur við að reyna að sannfæra Íslendinga um að Íslendingum eigi að líða betur yfir tekjusamdrætti og aukinn skattheimtu þar sem hinir tekjuhærri hafi orðið fyrir meiri tekjusamdrætti en aðrir. En eins og venjulega þegar Stefán Ólafssonar fer með tölur þá er ástæða til að staldra við og skoða betur forsendur og niðurstöður:

Laugardagur 21. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 203. tbl. 16. árg.

Í nýrri grein á Eyjunni sem ber yfirskriftina „Skattbyrði ríka fólksins – fyrir og eftir hrun“ sýnir Stefán Ólafsson prófessor grafið hér að neðan og segir það til marks um raunverulegar skattgreiðslur ríkasta fólksins fyrir og eftir hrun.

Við þetta er ýmislegt að athuga. Hér ægir saman launatekjum og alls kyns fjármagnstekjum; vaxtatekjum, húsaleigutekjum, arðgreiðslum. Vextir voru mjög háir og aðrar fjármagnstekjur einnig á árunum fyrir 2008. Það er megin skýringin á því hve hratt skattbyrðin lækkar á þeim árum, því rétt eins og nú greiða einstaklingar lægra skatthlutfall af fjármagnstekjum en launatekjum þótt í tilfelli arðs hafi fyrirtækin einnig greitt tekjuskatt áður en arður er greiddur út.

Þessi þróun hafði þegar snúist við áður en vinstri stjórnin tók við völdum 2009. Það skýrist án efa að mestu af lækkandi fjármagnstekjum en ekki stjórnarskiptunum.

Í grein Stefáns vantar einnig sárlega upplýsingar um hvað þessar skattgreiðslur hinna ríkustu skila ríkinu í heild? Eru 17% 2007 minni en 31% árið 2010%? Ef marka má tölur úr Tíund fyrr á árinu greiddu hinir tekjuhæstu færri krónur í skatt árið 2010 en 2007. Telur Stefán Ólafsson það ánægjuefni fyrir ríkissjóð að færri krónur skili sér?

Slíkur fögnuður virðist á sama misskilningi byggður og þegar prófessorinn taldi það ánægjulegt að kjör hinna fátækustu höfðu rýrnað því tekjur hinna ríkustu hefðu dregist meira saman. Má þó öllum vera ljóst að mann með 200 þúsund krónur í laun getur munað meira um 20 þúsund króna tap (10%) en mann með 2 milljónir um 500 þúsund króna tap (25%). Annar þarf að skera niður við sig í mat og öðrum lífsnauðsynjum en hinn að fresta bílakaupum, ferðalögum og fjárfestingum.

Í sögulegu yfirliti á skattbyrði einstakra hópa er einnig rétt að hafa hugfast að hinir ríkustu eru ekki alltaf þeir sömu. Fólk flyst á milli tekjuhópa. Tekjur listamanna og íþróttamanna geta til að mynda rokkað mjög mikið. Tónsmíðar, bókarskrif og strangar íþróttaæfingar skila skyndilega miklum tekjum eftir margra ára streð á lágum launum. Há skatthlutföll eru þessu fólki sérlega óhagstæð.

Stefán kallar tekjuhæsta hópinn hverju sinn ríkasta fólkið. En oft þurfa menn að efna til mikilla skulda til að hafa miklar tekjur. Í tekjuhæsta hópnum getur því hæglega leynst eignalaust og stórskuldugt fólk. Er það Stefáni virkilega fagnaðarefni að skattbyrði slíkra skuldugra heimila hafi aukist?

 

 

lesa áfram

Stjórnmálaflokkar á framfæri ríkisins

Grein eftir Óla Björn Kárason, blaðamann. Áður birt í Morgunblaðinu og á vef Óla, T24.is.

„Íslenskir stjórnmálaflokkar eru á framfæri hins opinbera. Frá árinu 2007 hafa íslenskir skattgreiðendur verið látnir standa undir a.m.k. 2.300 milljónum króna vegna starfsemi stjórnmálaflokka. Fyrir sömu fjárhæð væri hægt að reka Heilbrigðisstofnunina Vestmannaeyjum í rúmlega þrjú ár, Menntaskólann á Akureyri í tæp fimm ár eða Landgræðslu ríkisins í fjögur ár.

Samkvæmt yfirliti Ríkisendurskoðunar fengu þeir stjórnmálaflokkar sem átt hafa fulltrúa á Alþingi liðlega tvö þúsund milljónir króna úr ríkissjóði frá árinu 2007 til 2011. Þetta jafngildir því að hver einstaklingur með atkvæðisrétt í alþingiskosningunum 2009, hafi þurft að greiða um 9.900 krónur. Þessu til viðbótar fengu stjórnmálaflokkarnir yfir 220 milljónir króna í styrki frá sveitarfélögunum á árunum 2007 til 2010 samkvæmt ársreikningum flokkanna.

Alþingi samþykkti í desember 2006 lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda [nr. 162/2006]. Með lögunum voru stjórnmálaflokkar settir á jötu ríkisins, þó þeir hafi fram að þeim tíma fengið töluverðan stuðning frá ríkinu.

Í 3. gr. laganna segir að árlega skuli „úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni“.  Hver stjórnmálaflokkur fær greitt í hlutfalli við atkvæðamagn. Því meira fylgi því hærri er ríkisstyrkurinn. Þá geta stjórnmálasamtök sem bjóða fram í öllum kjördæmum sótt um sérstakan styrk úr ríkissjóði.

Auk þessa er árlega veitt fé úr ríkissjóði til starfsemi þingflokka á Alþingi. Greidd er jöfn fjárhæð fyrir hvern þingmann. Þá fá flokkar í stjórnarandstöðu sérstaka greiðslu.

Lögin skylda sveitarfélög með fleiri en 500 íbúa til að styrkja stjórnmálasamtök sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða a.m.k. 5% atkvæða í kosningum.

Dregið úr áhrifum

Lögin setja stjórnmálaflokkum miklar skorður. Komið er í veg fyrir að flokkar afli sér fjárhagsstuðnings með sama hætti og áður, en þess í stað er þeim tryggður aðgangur að sameiginlegum sjóði landsmanna – ríkiskassanum og sveitarsjóðum.

Ákvæði laganna styrkja stöðu starfandi stjórnmálaflokka en gera nýjum flokkum erfiðara fyrir og jafnvel útiloka ný stjórnmálasamtök.  Um leið eru stjórnmálaflokkarnir (eða réttara sagt forystumenn þeirra) gerðir óháðari eigin flokksmönnum. Með öðrum orðum; dregið er úr áhrifum almennra flokksmanna.

Lögin ganga gegn hugmyndum um skoðanafrelsi. Kjósandi sem berst gegn Sjálfstæðisflokknum er skyldaður til að greiða til flokksins og fjármagna starfsemi hans. Kjósandi Sjálfstæðisflokksins, sem telur hugmyndafræði Vinstri grænna hættulega, er einnig gert að styrkja starfsemi VG.  Það er eitthvað öfugsnúið við það að neyða mann til að styrkja félagsskap sem gengur gegn öllu því sem hann trúir. Þeir fjölmörgu sem nú standa að stofnun nýrra stjórnmálasamtaka sem stefna að framboði til Alþingis, eru með lögunum neyddir til að tryggja fjárhag þeirra flokka sem eru þegar með fulltrúa á þingi.

Vörn valdsins

Ríkisrekstur stjórnmálanna er mikilvæg vörn valdsins. Hér gildir sama lögmálið og á markaði. Einkarekin fyrirtæki eiga litla möguleika í samkeppni við ofurvald ríkisins sem getur stöðugt gengið í vasa skattgreiðenda. Ríkisrekstur stjórnmálanna kemur í veg fyrir eða torveldar að til verði ný samtök sem skora sitjandi stjórnmálaflokka á hólm. Og þegar það tekst að stofna ný stjórnmálasamtök, er staðan ójöfn – jafnvel óvinnandi.

Stjórnmálaflokkar keppa á markaði hugmynda. Fyrir frjálst samfélag er lífsnauðsynlegt að sú samkeppni sé heiðarleg og sanngjörn. Lög um fjármál stjórnmálasamtaka ganga þvert á jafnræði. En fáir eru til að gagnrýna ríkjandi fyrirkomulag. Mér segir svo hugur að eitthvað yrði sagt ef svipuð staða væri uppi í atvinnulífinu. Tökum dæmi:

Fjórir aðilar skipta með sér matvörumarkaðinum. Þeir keppa sín á milli en árlega fá þeir greiddan sérstakan styrk frá skattgreiðendum. Styrkurinn skiptist á milli keppinautanna í réttu hlutfalli við markaðshlutdeild. Því stærri sem hlutdeildin er, því hærri er styrkurinn.

Ungur fullhugi, með hugmyndir um nýja þjónustu á lægra verði, vill hasla sér völl í samkeppninni við þá sem fyrir eru á markaði. Vegna ríkisstyrkja er nær vonlaust að fara í samkeppnina – til þess er forgjöf þeirra sem fyrir eru á markaði of mikil. En í æðum hans rennur kaupmannsblóð og hann vill starfa við að selja almenningi matvöru. Hann á þann eina kost að ráða sig sem verslunarstjóra hjá einni matvörukeðjunni og sætta sig við það skipulag og starfshætti sem þar tíðkast. Afleiðingin er sú að neytendur fá aldrei að njóta nýrrar þjónustu eða lægra verðs. Þeir fjórir matvörurisar sem fyrir eru þurfa heldur ekki að huga að því bjóða upp á nýjungar  – þeir eru áhyggjulausir í vernduðu umhverfi.

Hið sama gerist þegar stjórnmálastarfsemi er sett á jötu hins opinbera. Samkeppni hugmynda er takmörkuð og kjósendur sitja uppi með sárt enni.”

 

lesa áfram

Auðlegðarskattur- skattheimta eða eignaupptaka?

Grein eftir Hróbjart Jónatansson, hæstaréttarlögmann. Birtist upphaflega í Viðskiptablaðinu 8. desember 2011.

Samkvæmt gildandi skattalögum heimtir ríkið svonefndan auðlegðarskatt í 3 ár, frá 2009 til og með 2012 en í honum felst skylda til að greiða ríkissjóði 1,5 % af eignum einstaklinga yfir 75 milljónum króna en 100 milljónum þegar hjón eiga í hlut. Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að framlengja töku auðlegðarskattsins og hækka hann og því er tilefni til að velta fyrir sér eðli skattheimtu af þessu tagi og hvort hún samrýmist stjórnarskrá íslenska lýðveldisins um friðhelgi eignaréttar og jafnrétti. Hér skal ekki fjallað um efnahagsleg áhrif auðlegðarskatts, utan þess að nefna að löngu er sýnt fram á að skattheimta af þessu tagi leiðir til fjárflótta og hefur neikvæðar efnahagslegar afleiðingar til lengri tíma.

Það er viðurkennd grundvallarregla í lýðræðisþjóðfélagi sem byggir á stjórnarskrárbundnum mannréttindum að löggjafar- og framkvæmdavaldi ríkisins eru sett ákveðin mörk og skilyrði um löglega beitingu opinbers valds. Af henni leiðir að skattlagningarvald ríkisins, líkt og annað opinbert vald, afmarkast af samspili þeirra réttinda sem ríkið hefur til að stjórna með valdi, annars vegar, og þeirra réttinda sem þegnarnir hafa til þess að ráðstafa sér og sínum eignum, hins vegar.

Í 77.gr. stjórnarskrárinnar segir að skattamálum skuli skipa með lögum og ekki megi leggja skatt á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu til sem ráða skattskyldu. Hugtakið „skattur“ er þó ekki skilgreint í stjórnarskránni og kemur því ekki fram þar hvaða skilning stjórnarskrárgjafinn lagði í hugtakið þegar ákvæðið var sett. Segja má að skatthugtakið tengist að öllu jöfnu skyldubundum framlögum til hins opinbera sem stofnast vegna vinnu, erfða eða annarra tilvika þegar skattþegni áskotnast fjárhagsleg verðmæti af einhverju tagi. Í skatti felst því hlutdeild ríkisins í tekjum fólks hvaðan sem þær eru sprottnar, hvort heldur eru launa- eða fjármagnstekjur ellegar fyrir arf, happdrættisþátttöku, skaðabótaskyldan verknað svo dæmi séu nefnd. Í öllum þessum tilvikum heldur skattþegninn eftir meginhlutanum af þeirri eignaaukningu sem honum áskotnast. Skattar af bifreiðum og fasteignum grundvallast á tiltekinni þjónustu eða notkun á eignunum.

Auðlegðarskattur á Íslandi er frábrugðinn þeirri skattlagningu sem að framan er lýst, á þann hátt að hann grundvallast ekki á eignaaukningu sem skattþegninn fær í einu eða öðru formi, eða fyrir þjónustu eða notkun eignar, heldur miðast hann við eignirnar sem slíkar án tillits til arðs eða tekna. Þannig felur auðlegðarskatturinn í sér í raun eignaupptöku ríkisins í tilteknum mæli á hverju ári.  Í núverandi löggjöf er ríkinu gert kleift að taka til sín eignir fólks umfram lögbundið fríeignamark á tilteknum árafjölda. Er því eðlilegt að íhuga hvort að skattheimta af þessu tagi samrýmist stjórnarskrárbundinni eignavernd og jafnrétti.

Í 72. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að eignarétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta eign sína af hendi nema almenningsþörf krefji, lög mæli fyrir um það og fullt verði komi fyrir. Hvaða þýðingu hefur þetta ákvæði í þessu samhengi? Er auðlegðarskattur brot á ákvæðinu um friðhelgi eignaréttarins eða er hann eðlileg skattheimta sem á sér langa sögu? Í 65. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um jafnrétti í öllu tilliti milli fólks, karla og kvenna.

Eðli auðlegðarskattsins kemur skýrt í ljós ef skattprósentan er aukin úr 1,5% á ári í t.d. 25% svo dæmi sé tekið en þá tekur ríkið eignirnar til sín á 4 árum í stað lengri tíma. Í þessu samhengi fer ekkert á milli mála að eignaupptaka á sér í raun stað undir merkjum skattheimtu. Það er því enginn eðlismunur á því hvort að ríkið taki eignir á 4 árum eða 50 árum heldur aðeins stigsmunur á því hversu lengi ríkið er gera eignirnar upptækar.

Eignaskattar tilheyra fortíðinni víðast hvar í Evrópu. Árið 1994 lýsti þýski stjórnlagadómstóllinn  eignaskatt ólögmætan þar sem skattheimtan tók ekki tillit til tekna viðkomandi skattþegns og því fælist í skattinum ólögmæt eignaupptaka. Í framhaldinu var skatturinn aflagður þar í landi. Þar sem skatturinn er enn við lýði er hann jafnan tengdur tekjum viðkomandi, þ.e.a.s. eignaskatturinn takmarkast að hámarki við tiltekinn hundraðshluta launa viðkomandi.  Má sem dæmi nefna að á Spáni er í gildi tímabundinn eignaskattur til 2ja ára sem þó verður aldrei hærri en 60% af tekjum hvers árs. Þessi tenging við tekjur skattgreiðandans setur skattheimtuna í viðurkennt tekjusamhengi og er því síður metið sem eignaupptaka sem sé andstæð stjórnlögum.

Auðlegðarskatturinn á Íslandi tekur hins vegar ekkert tillit til tekna skattþegans  og er því af sama toga og t.d. eignaskattar sem kommúnistar settu á víða í Austur Evrópu, eftirstríðsáranna. Þá var aðferðin sú að hækka eignaskatta og hirða svo eignirnar af fólki þegar skattar fóru í vanskil. Auðlegðarskattur á slíkum forsendum er auðvitað ekkert annað en eitt form á eignaupptöku. Sambærilegt blasir við sumum Íslendingum s.s. þeim sem eiga eignir en hafa litlar tekjur. Taka má dæmi um aldraðan einstakling, sem ekki er lengur á vinnumarkaði, hann á e.t.v. verðmæta fasteign sem í núverandi árferði gefur ekki af sér tekjur en telst vera auðlegðarskattstofn upp á 150 milljónir króna. Ríkið krefst þess að fá 1,5-2% af verðmæti eignarinnar á hverju ári eða kr. 2.250.000-3.000.000. Ef viðkomandi einstaklingur á ekki laust fé til að greiða skattinn fer ríkið í innheimtuaðgerðir til að knýja greiðsluna fram með fyrirsjáanlegum afleiðingum, eignin verður seld á uppboði til að ríkið fái sitt og hann sviptur eigninni. Spyrja má hvort einhver munur sé þá á íslenskum sósíalisma árið 2011, annars vegar og austur evrópskum sósíalisma eftirstríðsáranna, hins vegar?

Það er augljóst að lítið virði er í stjórnarskrárákvæðinu um friðhelgi eignaréttarins ef auðlegðarskattur er talinn lögleg skattheimta, án nokkurs tillits til tekna viðkomandi einstaklings. Þá er eignaupptakan orðin leyfileg að hætti sósíalismans. Að því er jafnréttið varðar, þá er ljóst að með því að mismuna fólki eftir sambúðarformi, þá er höggvið nærri hinu stjórnarskrárbundna jafnrétti. Af hverju er frítekjumark einstaklinga í óvígðri sambúð hærra en fólks í hjónabandi?

Að mínu viti ríkir a.m.k. verulegur vafi um lögmæti auðlegðarskattsins eins og hann er settur fram og því nauðsynlegt að fá dómstóla til að skera úr því  hvar valdmörkin séu á milli réttmætrar og óréttmætrar eignaupptöku.

lesa áfram

Efnahagssnillingar sýna bókhaldið

Grein eftir Sigurð Má Jónsson, blaðamann Morgunblaðsins. Birtist fyrst á mbl.is 19. júlí 2012.

“Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2011 hefur nú verið birt og hlýtur að vera vonbrigði fyrir þá sem virtust farnir að trúa því að mestu snillingar hagsögu Íslands stýrðu efnahagsmálunum í dag. Tekjujöfnuður ársins 2011 varð neikvæður um hvorki meira né minna en 89 milljarða króna en áætlanir gerðu ráð fyrir að hann yrði neikvæður um 46 milljarða og var því raunútkoman 43 milljörðum króna verri en gert var ráð fyrir í heildarfjárheimildum ársins. Ef við förum aftur í fjárlögin sjálf þá átti hallinn á rekstri ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum ársins 2011 að vera 36,4 milljarðar.

Þessi tekjuhalli sem nú birtist svo óvænt er um 18% af heildartekjum ársins og hvorki meira né minna en 5,5% af landsframleiðslu. Skyldi skipta máli að AGS sleppti tökum á ríkisstjórninni á síðasta ári? Í útskriftarræðunni (sem fjármálaráðherra skrifaði) í ágúst í fyrra sagði:

,,Samstarf Íslands og AGS  hefur vakið athygli fyrir árangur á meginsviðum. Stöðugleiki í hagkerfi náðist eftir „hinn fullkomna storm” en þannig lýsti AGS stöðunni á Íslandi í október 2008. Fjármálakerfi hefur verið reist að nýju, ríkisfjármál aðlöguð að gjörbreyttum aðstæðum og endunýjaður aðgangur ríkisins að alþjóðlegum mörkuðum var staðfestur í velheppnuðu skuldabréfaútboði í júní. Meginmarkmið efnahagsáætlunarinnar hafa náðst.”

,,Ríkisfjármálin aðlöguð að gerbreyttum aðstæðum”, sögðu menn kotrosknir en nú sést að engin innistæða var fyrir því. Þegar síðasta uppgjör er skoðað sést að gjöldin voru hvorki meira né minna en 49 milljörðum króna hærri. Skipti þá litlu að tekjurnar væru 6 milljörðum hærri. Eina huggunin er að þetta var verra árið á undan þegar tekjujöfnuðurinn var neikvæður um litla 123 milljarða króna! Á þessum tveimur árum var þannig tekjujöfnuður ríkissjóðs neikvæður um 212 milljarða króna. Frumjöfnuður síðasta árs er neikvæður um 43 milljarða króna en gert var ráð fyrir að hann yrði neikvæður um rúman 1 milljarð króna. Það er einfalt reikningsdæmi; reyndin var 43 sinnum hærri en áætlunin!

Enn er hruninu kennt um

En nú er okkur sagt að þessi frávik frá áætlunum skýrist að langstærstu leyti af óreglulegum liðum og einsskiptis kostnaði sem ekki var gert ráð fyrir og ,,…tengist að hluta uppgjöri við hrunið 2008.” En er verið að skrifa reikninga á hrunið – tæplega fjórum árum seinna. Hvenær ætlar núverandi ríkisstjórn að hafa þann manndóm að taka ábyrgð á eigin fjárlögum? Í tilkynningu með ríkisreikningi nú segir að mestu muni um gjaldfærslur vegna SpKef sparisjóðs upp á 20 milljarða króna. Þá námu niðurfærslur eignarhluta hjá Byggðastofnun um 7 milljörðum króna og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins um 5 milljörðum króna en þær skýrast af  afskriftum vegna tapreksturs þeirra undanfarin ár. Þá er gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga tæpum 5 milljörðum króna umfram áætlun og afskriftir skattkrafna um 5 milljarða króna.

Samtals er þetta 42 milljarðar af halla upp á 89 milljarða. Það óundirbúna skýrir þannig ekki helminginn af framúrkeyrslunni sem segir auðvitað að ríkisreksturinn er stjórnlaus. Ekkert hefur verið gert í raunverulegum niðurskurði eins og áður hefur verið vikið af hér. Reksturinn er rekin stjórnlaus áfram og næstu ríkisstjórn væntanlega ætlað að taka við gjaldþrota ríkissjóði. Er þetta efnahagssnillin sem verið er að hrósa sér yfir? Er hægt að fá sérfræðinga AGS aftur til Íslands, útskriftin virðist ekki hafa tekist.”

 

Sigurður Már Jónsson skrifaði bókina Icesave samningarnir: Afleikur aldarinnar? sem Almenna bókafélagið gaf út í lok síðasta árs. Bókin er spennandi lesning um eitt mesta deilumál síðari ára á Íslandi.

lesa áfram

Umfjöllun um Samtökin hjá Vefþjóðviljanum

Vefþjóðviljinn (www.andriki.is) fjallar um Samtökin í pistli þann 19. júlí:

Fimmtudagur 19. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 201. tbl. 16. árg.

Björn Bjarnason ræddi hinn 11. júlí við Skafta Harðarson formann Samtaka skattgreiðenda í þætti sínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Samtök skattgreiðenda voru stofnuð í þeim tilgangi að veita stjórnmálamönnum aðhald og miðla upplýsingum um skattheimtu og rót hennar, útgjöld ríkis og sveitarfélaga. Á vefnum skattgreidendur.is geta menn kynnt sér starfsemi samtakanna. Skafti lagði áherslu á þau praktísku rök fyrir alla – þar sem talið þá stjórnmálamenn sem vilja hafa nægt fé í öll góðu málin sín – að of háir skattar geta dregið úr framtakssemi manna og á endanum skatttekjum hins opinbera. Það sé því öllum í hag að stilla sköttum í hóf. Jafnframt fór hann yfir athyglisverðan árangur samtaka sænskra skattgreiðenda.

Skafti ræddi einnig um hina ósýnilegu skattlagningu, þar sem fé er tekið af fólki með reglugerðum og tilskipunum. Hann nefndi dæmi af nýrri byggingareglugerð þar sem meðal annars er kveðið á um að öll þriggja hæða fjölbýlishús skuli hafa lyftu og alls kyns nýjar kröfur eru gerðar um stærð og tegundir herbergja. Skafti segir að í raun sé verið að fara fram á að allt húsnæði henti öllum og að ekki sé gert ráð fyrir að fólk geti flutt sig milli húsa eftir efnum og aðstæðum. Lokað er á möguleika ungs fólks að eignast ódýra fyrstu íbúð í lyftulausu húsu. Í þessu sambandi hlýtur að vakna sú spurning hvers fólk á efri hæð í tvíbýlishúsum eigi að gjalda. Hvers vegna drógu stjórnmálamenn mörkin við þriggja hæða hús þegar þeir skipuðu fyrir um lyftur? Er maður sem kemst ekki upp um þrjár hæðir í stiga líklegur til að komast upp um tvær?

lesa áfram

En þeir bjargarlausu?

Áhugaverðar vangaveltur frá Ásgeiri Ingvarssyni, blaðamanni, í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 19. júlí 2012:

„Kostir smærra ríkis fara ekki á milli mála. Með meira frelsi og meiri sjálfsábyrgð má reikna með auknum hagvexti og aukinni velsæld.

Margir vilja samt meina að ríkið verði að vera til staðar þegar kemur að þeim okkar sem geta enga björg sér veitt. Sum okkar veikjast, slasast, eða þurfa að glíma við fötlun af þeirri stærðargráðu að einstaklingurinn og hans nánustu gætu ekki með góðu móti ráðið við kostnaðinn sem af hlýst.

(Og það þó að kaupmáttur íslensks meðallaunamanns myndi u.þ.b. þrefaldast ef ríkið myndi hætta að pína okkur öll með sköttum sínum, reglum og gjöldum).

En þurfum við endilega ríkið til að tryggja hag þessa hóps samfélagsins? Getur góðmennskan og náungakærleikurinn ekki fundið sér annan farveg en hið opinbera?

Íslendingar eiga nokkrar hetjur, sem þrátt fyrir fötlun og erfið veikindi stíga fram og standa í endalausum slagsmálum við kerfið, reyna að fá upphæðir hækkaðar og glíma við vanhugsaðar reglur.

Það sem ég furða mig á er að þessar sömu hetjur okkar virðast alltaf á þeirri skoðun að lausnin sé einfaldlega að ríkið geri hlutina öðruvísi; að bæta megi kerfið í smáskömmtum með því að fara í blöðin, tæta í sig reglugerðir og tukta til pólitíkusa þegar svar mömmuríkisins er: „tölvan segir nei”.

Af hverju hvarflar ekki oftar að fólki að lausnin sé að taka hið opinbera einfaldlega út úr myndinni?

Óskilvirkni og ósanngirni

Ein sterkustu rökin ættu að vera þær mælingar sem sýna hvað umhyggja ríkisins er óskilvirk. Þannig hafa bandarískir rannsakendur, eins og James R. Edwards við Montana-háskóla, skrifað um að fyrir hvern dollar í skatt sem stjórnvöld þar í landi afla fyrir minni máttar rata aðeins 30 sent í hendur þeirra sem á að hjálpa.

Á meðan fara á bilinu 60-80 sent af hverjum dollar sem veittur er til einkarekinna góðgerðafélaga beint til þeirra bágstöddu. Ef sömu hlutföll eiga við á Íslandi myndi það þýða að fyrir sömu upphæð gætu einkarekin góðgerðafélög gert tvöfalt meira gagn en ríkið.

Hin rökin eru ekki síður sterk; að það er eðli mömmuríkisins að semja reglur sem eru langt frá því að ná utan um öll tilvik. Útkoman verður ömurleg ósanngirni, hindranir og óæskilegir hvatar. Útkoman verður að ótalmargir fá ekki það sem þeir svo réttilega þarfnast og eiga eðlilegt tilkall til. Útkoman verður ómanneskjulegt samfélag.

Nefnd manna tekur um það ákvörðun, yfir vínarbrauðum, hversu miklum fjármunum skal ráðstafað í málaflokkinn. Önnur nefnd, einnig mett af vínarbrauðum, lokuð inni í fundarherbergi, eins fjarri raunveruleika lífsins og fyrri nefndin, fær það verk að semja reglur til að útdeila peningunum og setja niður á blað forskrift sem leysa á allan vanda.

Auðvitað fellur fjöldi fólks milli þilja í regluverkinu og útkoman verður þvert á það sem til stóð: Tekjur umfram viðmið? Eignir umfram viðmið? Heldur þú að þú þurfir aðstoðarhund? Stoðtækin ekki á lager? Lyfin ekki á lista? Þarftu bað oftar en tvisvar í viku? Viltu ganga í venjulegan skóla? Ætlarðu með rafmagnshjólastólinn úr landi? Tölvan segir nei, nei og aftur nei.

Stóri munurinn á mömmuríkinu og góðgerð einstaklinga er einmitt þessi: að jafnvel þegar embættismaðurinn stendur frammi fyrir augljósri neyð og ranglæti getur hann alltaf sagt nei og skýlt sér á bak við einhverja klausu í reglugerð: Næsti takk!

En venjulegt fólk af holdi og blóði sem stendur frammi fyrir bjargarleysi samborgarans vill segja já, já og aftur já. Við þekkjum raunverulega þörf þegar við sjáum hana og gefum eins mikið og við getum. Við gefum þar til varla er nóg eftir handa okkur sjálfum nema til að eiga fyrir hafragraut fram að næsta launaseðli. Og þá gefum við meira.

Þegar ríkið smækkar fær mannshjartað að stækka, og það út af fyrir sig er eftirsóknarvert markmið.”

lesa áfram

efst