Monthly Archives: October 2012

Í vítahring frekjunnar

Samtök skattgreiðenda hafa fjallað um tillögu Einars K. Guðfinnssonar og fleiri þingmanna um að jafna rafmagnskostnað til húsahitunar milli landsvæða með skattlagningu á 90% neytenda (sjá einnig á skattgreidendur.blog.is). Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, fjallar einnig um þetta í grein í Viðskiptablaði Morgunblaðsins fimmtudaginn 25. október sl.:

„Fyrri hluta vikunnar hefur netið logað út af fyrirhuguðum breytingum á lögum um niðurgreiðslu ríkisins á húshitunarkostnaði í sumum sveitum. Í umræðunni hafa heyrst ótal rök úr öllum áttum: sumir réttlæta styrkinn með því að það sé þjóðhagslega mikilvægt að styrkja byggð á sumum svæðum. Aðrir benda á að þó að húshitun sé dýrari á ákveðnum stöðum þá séu aðrir kostnaðarliðir heimilisins lægri. Enn aðrir taka þann pól í hæðina að auðlindir landsins séu sameiginlegar og líta svo á að styrkþegarnir fái að njóta þessara auðlinda á sanngjarnan hátt. Enginn skortur er síðan á hefðbundnum ríg milli sveitalubbanna annars vegar og latte-lepjandi stuttbuxnaguttanna í borginni hins vegar, með tilheyrandi gífuryrðum og skítkasti.

Eitt hefur þó ekki verið nefnt í þessu nýjasta rifrildi: hversu lögmæt er sú krafa að ríkið taki frá einum til að gefa öðrum?

Löglegur þjófnaður

Franski stjórnspekingurinn og hagfræðingurinn Frédéric Bastiat skrifaði um þetta fyrirbæri árið 1850, og eiga orð hans brýnt erindi við Íslendinga árið 2012:

Ásgeir Þ. Ingvarsson blaðamaður

„En hvernig þekkjum við löglegan þjófnað? Það er ekki svo flókið. Sjáðu hvort lögin taka frá sumum einstaklingum eitthvað sem tilheyrir þeim, og gefa öðrum sem það tilheyrir ekki. Sjáðu hvort lögin hygla einum borgara á kostnað annars, með því að fremja verknað sem borgarinn sjálfur gæti ekki framið án þess að gerast sekur um glæp.

Slík lög þarf að nema úr gildi án tafar, því þau eru ekki aðeins ill í sjálfu sér, heldur einnig frjór jarðvegur fyrir frekari illsku því lögin kalla á að svarað sé í sömu mynt. Ef slík lög – jafnvel bara eitt afmarkað tilfelli – eru ekki numin úr gildi munu þau dreifa úr sér, margfaldast og þróast í heilt kerfi.”  (lausleg þýðing.)

Ef íslensk stjórnmálaumræða er skoðuð sést að við erum löngu föst í þessum vítahring sem Bastiat varaði við. Við búum við kerfi þar sem tekið er frá öllum, og gefið til allra. Ef borgarbúar fjargviðrast yfir húshitunarstyrkjum, landbúnaðargreiðslum, eða ójafnri skiptingu fiskveiðikvóta æsast íbúar landsbyggðarinnar yfir Hörpu-bruðli eða ójöfnu aðgengi skattgreiðenda að dýrum þjónustustofnunum á SV-horninu. Báðir aðilar í deilunni telja sig hlunnfarna á alla mögulega vegu og þvingaða til að halda hinum hópnum uppi.

Þeir sem hæst kalla eftir gjöfum frá ríkinu ættu að hafa það hugfast að ríkið galdrar ekki verðmæti út úr engu og það sem ríkið gefur einum hefur verið tekið af einhverjum öðrum með valdi. Þeir sem krefjast gjafanna ættu að íhuga það vel og vandlega hversu mikla heimtingu þeir eiga á að aðrir íbúar landsins bæti þeim upp fyrir að eitthvað er svona eða hinsegin. Þætti tilfærslan réttmæt, siðleg og lögleg ef ríkið væri ekki milliliður?

Þeir sem telja sig vera að bera samlanda sína í öðrum landsfjórðungum á herðunum hljóta svo vitaskuld að kalla á minni ríkisafskipti og aukið frelsi. Hvernig væri að fólk bæri sjálft allan kostnaðinn (og ávinninginn) af því hvar það kýs að búa og við hvað það kýs að starfa? Ef eitthvað er að marka umræðuna úr báðum þrasfylkingunum þessa síðustu daga myndi þar með renna upp mikið gullaldarskeið bæði í borg og í dreifbýli.”

lesa áfram

Hóf í skattheimtu

Sigríður Andersen, lögmaður, hefur mikið fjallað um skattamál í greinaskrifum sínum. Þessi grein, sem upphaflega birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2012, er gott innlegg í umræðuna um einfalt og gegnsætt skattkerfi svo og umfjöllun um skattahækkanir sem nú eru í bígerð á ferðaþjónustuna:

„Skattlagningu er ekki einvörðungu stillt í hóf með því að skatthlutföll séu lág, þótt það sé að sjálfsögðu nauðsynleg forsenda. Í hóflegri skattheimtu felst einnig að jafnræði sé með skattgreiðendum, þeir greiði sambærilega skatta af sambærilegum tekjum, neyslu eða starfsemi. Til að skattheimta teljist hófstillt þarf að lokum að gefa skattgreiðendum eðlilegt svigrúm til að laga sig að íþyngjandi breytingum. Stundum vegast á þessi tvö síðarnefndu sjónarmið um jafnræði og svigrúm. En þegar svigrúminu sleppir tekur jafnræðið við.

Nú virðast stjórnvöld vera að átta sig á því að misháir skattar eru ósanngjarnir. Veitingahús á hóteli innheimtir 7% virðisaukaskatt (vsk.) af ferðamönnum sem þar borða líkt og hótelið sjálft innheimtir í dag af gistingunni. Verslun á hótelinu sem nánast eingöngu selur ferðamönnum íslenskar lopapeysur og útskorna lunda þarf að leggja 25,5% vsk. ofan á vörurnar. Önnur verslun á sama stað sem selur sömu ferðamönnum bækur og blöð þarf hins vegar ekki að innheimta nema 7% vsk. ofan á sína sölu. Öll þessi fyrirtæki sinna ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti en með þeim er þó ekki jafnræði. Önnur dæmi má einnig nefna. Sá sem selur hljómdiska leggur 7% vsk. á sína verslun en sá sem selur mynddiska 25,5%.

Mikilvægt er að hafa í huga að jafnræði má ekki aðeins ná fram með því að hækka skatta á þá sem minnst greiða heldur – þingmenn, ekki hætta að lesa – einnig með því að lækka skattana á þá sem hæst greiða. Árið 2007 var 14% vsk. þrepið lagt niður og margt af því sem áður bar 14% vsk. fellt í 7% þrepið. Með því var ekki aðeins afnumið verulegt ójafnræði meðal skattgreiðenda í ákveðnum greinum, eftirminnilegar voru t.d. flóknar reglur um sölu veitinga og þjónustu á veitingahúsum, heldur var einfaldað til muna allt eftirlit með skattheimtunni. Þessi fækkun vsk. þrepanna árið 2007 var jákvætt skref sem slíkt þótt vissulega megi halda því fram að með breikkun bilsins á milli skattþrepanna sem eftir stóðu hafi ójafnræði aukist almennt.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar nú boðað að vsk. á gistingu hækki í 25,5%. Er um það vísað til þess að ósanngjarnt sé að þessi þáttur ferðaþjónustu beri ekki sama skatt og t.d. leiðsögn í rútu. Undir þetta sjónarmið ríkisstjórnarinnar má vissulega taka. En verða menn þá ekki að líta til allra annarra þátta ferðaþjónustunnar? Og af hverju að einskorða sig við ferðaþjónustuna? Stefnir ríkisstjórnin að frekari samræmingu virðisaukaskattsins? Það væri þá fagnaðarefni. Hins vegar, fyrir utan vankanta á tæknilegri útfærslu ríkisstjórnarinnar á þessari tilteknu skattahækkun, þá er það einfaldlega rangt að samræma allt á hinn versta veg. Það á að lækka hið almenna vsk. þrep úr 25,5% í t.d. 15% og hækka um leið 7% þrepið í það sama. Það er raunhæf tekjuöflun fyrir ríkissjóð og viðráðanleg skattbyrði sem hvetur ekki til undanskota. Í framhaldinu yrði það svo verðugt verkefni stjórnmálamanna að færa það skatthlutfall niður. Fátt kæmi ferðaþjónustunni betur. Og það sem mest er um vert er að jafnræði meðal allra skattgreiðenda verður ekki betur náð.”

lesa áfram

Að stela frá komandi kynslóðum

Óli Björn Kárason skrifar pistla í Morgunblaðið á miðvikudögum sem margir hverjir hafa fjallað um skattamál. Hér má lesa einn þeirra, en allt of fáir eru til að vekja athygli á því fullkomna siðleysi sem ríkir í því að við eyðum framtíðar skatttekjum næstu kynslóða með látlausri skuldsetningu hins opinbera:

„Fátt er gleðilegra en fæðing barns. En það er skuggi yfir gleðinni.

Um leið og barn fæðist er hengdur á það þungur skuldabaggi sem að óbreyttu mun þyngjast eftir því sem barnið eldist. Við sem eldri erum höfum ákveðið að færa barninu 2,4 milljóna króna skuld í vöggugjöf vegna þess að við lifum um efni fram. Við höfum ekki treyst okkur til að taka til og neita okkur um ýmislegt sem við höfum ekki efni á. Okkur finnst þægilegra að senda reikninginn til komandi kynslóða. Þar sannast hið fornkveðna að börnunum stafar mest hætta af fordæmum hinna fullorðnu.

Óli Björn Kárason

Í óseðjandi hungri okkar og löngun til að byggja tónlistarhús, bora jarðgöng, viðhalda dýrri utanríkisþjónustu, rándýru stjórnkerfi, kollvarpa stjórnarskránni og dæla peningum í eitthvað sem kallast grænt hagkerfi, dugar ekki að skuldsetja komandi kynslóðir. Því er talið nauðsynlegt að seilast dýpra í vasa þeirra sem eldri eru og þá ekki síst þeirra sem lokið hafa góðu ævistarfi. Í leit að réttlætingu er skatturinn kallaður auðlegðarskattur, sem hefur yfir sér miklu jákvæðara yfirbragð en réttnefnið; eignaupptökuskattur.

Óréttlátur skattur

Frá því að sitjandi ríkisstjórn, sem kennir sig við norræna velferð, tók við völdum hafa verið gerðar yfir 100 breytingar á skattkerfinu. Skattar hækkaðir og nýir lagðir á. Réttlæti og sanngirni hefur ekki verið í för með ríkisstjórninni. Búið er að rústa skattkerfinu og innleiða einhvern ranglátasta skatt sem þekkist. Eitt fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að afnema eignaupptökuskattinn og í framhaldinu að einfalda allt skattkerfið. Flókið skattkerfi er ávísun á misrétti en einfalt kerfi er besta trygging fyrir meiri jöfnuði allra.

Auðlegðarskatturinn var innheimtur í fyrsta skipti árið 2010 vegna tekjuársins 2009. Þá skilaði skatturinn 3,8 milljörðum í ríkissjóð. Í fyrstu var almenningi talin trú um að skatturinn væri tímabundinn en nauðsynlegur vegna þrenginga í efnahag ríkisins. Líkt og oftast þegar skattar eru sagðir tímabundnir, eru þeir framlengdir og á stundum hækkaðir. Vinstristjórnin hefur ekki í hyggju að standa við fyrirheit um tímabundna skattheimtu heldur þvert á móti hafa skrúfurnar verið hertar svo um munar með álagningu viðbótarskatts á eignir. Samkvæmt álagningu þessa árs skilar eignaupptökuskatturinn um átta milljörðum króna í ríkissjóð og hefur því meira en tvöfaldast frá því hann var fyrst lagður á.

Eldra fólk og sjálfstæðir atvinnurekendur

Samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra standa liðlega 5.200 einstaklingar undir hinum svokallaða auðlegðarskatti. Þetta þýðir að meðaltali um 1,5 milljónir króna. Margir þeirra sem horfa á upptöku eigna sinna í formi beinnar skattheimtu, eru tekjulitlir eða jafnvel tekjulausir. Þeir eiga ekki annan kost en að stofna til skulda eða selja eignir til að standa skil á skattinum.

Svipað má segja um sjálfstæða atvinnurekandann, sem af dugnaði og áræði hefur byggt upp fyrirtæki. Stærsti hluti ævisparnaðarins er bundinn í fyrirtækinu. Þetta var fjármálaráðherra norrænu velferðarstjórnarinnar – skattmanni – fyllilega ljóst. Því var talið nauðsynlegt að endurmeta verðmæti fyrirtækja í þeim tilgangi að ná meiri fjármunum inn í að því er virðist botnlausan ríkiskassann. Sérstök viðbót við eignaupptökuskattinn var sögð sjálfsögð. Margir sjálfstæðir atvinnurekendur eiga ekki annan kost en að ganga á eigið fé til að greiða það sem krafist er. Eftir stendur veikara fyrirtæki og fátækari atvinnurekandi. Hver skyldi hagnast á því?

Eldri hjónin sem neyddust til að innleysa eignir eða stofna til skulda og sjálfstæði atvinnurekandinn sem varð nauðugur viljugur að ganga á eigið fé, til að standa undir álögðum sköttum, horfa upp á enn meira óréttlæti.

Þegar Alþingi samþykkti hina óréttlátu skattheimtu, bitu þingmenn höfuðið af skömminni með því að tryggja að eignir upp á hundruð milljóna væru undanþegnar skattinum. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þeir sem gert hafa þingmennsku að ævistarfi eiga sinn ævisparnað fyrst og fremst í formi mikilla lífeyrisréttinda sem ríkið ábyrgist. Þess vegna hafa lífeyrisréttindi ekki verið skattlögð en annar ævisparnaður er hægt og bítandi gerður upptækur.

…verra þeirra réttlæti

„Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti,“ sagði Jón Hreggviðsson. Varla er hægt að lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum betur. Í mörg ár hefur flestum verið ljóst það óréttlæti sem hefur viðgengist í lífeyrismálum landsmanna. Í stað þess að leiðrétta mismuninn ákváðu stjórnvöld í nafni velferðar að auka ranglætið enn frekar með eignaupptökuskattinum.

Skattheimtumaðurinn fylgist vel með. Hann mætir við vöggu hvítvoðungsins til að afhenda honum skuldabagga og truflar síðan rólegt ævikvöld gamalla hjóna með því að krefja þau um hluta þess sem þau hafa eignast á langri ævi. Þess á milli eltist skattmann við sjálfstæða atvinnurekandann til þess eins að veikja undirstöður atvinnulífsins.

Komandi kosningar til Alþingis snúast ekki aðeins um að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað heldur ekki síður að leiðrétta augljóst ranglæti.”

 

lesa áfram

Vinna „dýrt jaðarsport”?

Sigríður Andersen, lögmaður, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, 27. október, um áhrif jaðarskatta á hvata fólks til vinnu. Greinin er endurbirt hér í heild sinni:

„Á dögunum setti ég fram tvö dæmi hér í Morgunblaðinu um hvað stendur eftir þegar menn bæta við sig 10 þúsund króna tekjum með útseldri vinnu. Í vissum tilvikum getur það farið allt niður í 2.549 krónur sem menn fá í vasann. Hin 7.451 krónan fer í virðisaukaskatt, tryggingagjald, iðgjöld í sameignarsjóð, tekjuskatt og bótaskerðingu. Þetta óæskilega samspil skatta- og bótakerfa hefur stundum verið nefnt jaðaráhrif. Jaðaráhrifin koma fram á viðbótartekjur manna eftir að persónuafsláttur hefur verið fullnýttur og tekjur eru orðnar nægar til að skerða barna- og vaxtabætur.

Ég fékk mikil viðbrögð við þessum dæmum og jafnvel óskir um að reikna út fleiri tilvik. Nú er það út af fyrir sig áhyggjuefni þegar menn geta ekki með einföldum hætti áttað sig á raunverulegri skattheimtu og þar með raunverulegum tekjum sínum. Hið flókna kerfi sem við búum við í dag dregur bersýnlega úr tilfinningu manna fyrir kjörum sínum.

Auk dæmanna sem ég hef þegar nefnt má skoða aðstæður fólks með frekar lágar tekjur, til dæmis hjón með 200 þúsund króna tekjur hvort á mánuði. Þau hjón eru bæði í lægsta tekjuskattsþrepinu 37,2%. En ef annað þeirra bætir við sig vinnu á laugardegi, sem það innheimtir 10 þúsund krónur fyrir, er hugsanlegt að ráðstöfunartekjur þeirra hækki aðeins um 3.141 krónu. Fólk með tekjur í lægri kantinum lendir þarna í nær 70% skatti. Þessu hefði ég aldrei trúað nema með því að leggjast yfir skatta- og bótakerfið. Forsendur fyrir þessu má finna á vef mínum, www.sigridur.is, en einnig er rétt að benda á afar gagnlegar reiknivélar á vef ríkisskattstjóra þar sem menn geta séð áhrifin af hjúskaparstöðu, tekjum, eignum, skuldum, vaxtagjöldum og fjölskyldustærð á barna- og vaxtabætur. Í þessu kerfi er nefnilega búið að tengja marga þætti saman sem gerir það auðvitað mjög flókið.

Þessi flækja hefur versnað til muna á undanförnum árum með þrepaskiptingu tekjuskatts, að því ógleymdu að allir þeir skattar sem hér koma við sögu hafa hækkað og þar með þessi jaðaráhrif.

Það er alltaf þörf á nýjum störfum og verðmætasköpun í þjóðfélagi en sjaldan þó líkt og þegar efnahagsleg áföll hafa riðið yfir. Menn með nýjar hugmyndir verða að hafa svigrúm til að afla sjálfum sér og öðrum lífsviðurværis. Háu skattarnir bitna ekki aðeins á þeim sem fyrir þeim verða með beinum hætti heldur einnig hinum sem verða af nýjum tækifærum.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn gangi fúsir til verka þegar skattheimta keyrir úr hófi með þeim hætti sem þessi dæmi bera með sér. Jaðaráhrif skatta og skerðinga eru orðin nær óbærileg. Hárgreiðslukonan, forritarinn, endurskoðandinn, kvikmyndagerðarmaðurinn og löndunargengið verða að hafa sæmilega ástæðu til að halda áfram að sinna sínu.

Það gengur ekki að vinna fólks sé gerð að dýru jaðarsporti.”

Hér til hliðar á síðu Samtakanna má finna tengil á reiknivél skattstjóra og þannig sjá hversu þungt jaðarskattar vega miðað við mismunandi forsendur Sigríðar Andersen.

lesa áfram

Frumvarp um skattahækkun

Á mbl.is má sjá í dag frétt sem er gott dæmi um hvernig allri umræðu er snúið á hvolf. Hvernig tungumál Orwells í bókinni 1984 er orðin fyrirmynd í stjórnmálaumræðu. Stríð er friður og ánauð frelsi. Nú heitir frumvarp um hækkun skatta af rafmagni fyrir þorra heimila „Frumvarp um lækkun húshitunarkostnaðar”!

Tilgangur frumvarpsins er að lækka kostnað við húshitun með rafmagni með jöfnunargjaldi sem allir notendur rafmagns munu væntanlega greiða. Þannig á að niðurgreiða kostnað fólks við frjálsa búsetuákvörðun. Að sjálfsögðu er þetta því ákvörðun um aukna almenna skattlagningu sem færa skal fólki sem eins konar verðlaun fyrir búsetu þess. Rétt eins og húshitunarkostnaður sé það eina sem ræður búsetuákvörðun fólks, eða skapi einhvern rétt til þess að krefja aðra um greiðslu kostnaðar af þeirri búsetu.

Og hvernig væri að blaðamenn kölluðu hlutina réttu nafni?

Þá er rétt að benda á að skattur af því tagi sem hér er lagt til að verði settur á (jöfnunargjald) virkar letjandi fyrir sveitarfélög til að leita eigin leiða til að lækka húshitunarkostnað íbúa sinna. Hvers vegna að fjárfesta í borunum, virkjunum o.s.frv. þegar einfaldlega er hægt að láta aðra borga þennan kostnað fyrir sig?

lesa áfram

Kostar ný byggingarreglugerð íbúðakaupendur milljarða?

Fáir efast um að einhverjar reglur þurfi að setja um byggingar húsa, s.s. um lágmarks burðarþol, eldvarnir o.s.frv. Þetta er öðru fremur gert í gegnum byggingarreglugerð, sem er á ábyrgð Mannvirkjastofnunar, en stofnunin heyrir nú undir Umhverfisráðuneytið. Nú um áramótin tekur gildi ný byggingarreglugerð sem hljótt hefur farið nema innan þröngra faghópa. Ljóst er að með setningu nýju reglugerðarinnar mun byggingakostnaður hækka verulega. Samhliða því er frelsi neytenda til að velja sér húsnæði eftir eigin höfði hvað varðar fyrirkomulag og útlit stórlega skert.

En forstjóri Mannvirkjastofnunar, Björn Karlsson, sá ástæðu til að fagna þessar nýju byggingarreglugerð í grein í Fréttablaðinu 15. mars á þessu ári, en formaður Samtaka skattgreiðenda, svaraði Birni með grein í sama blaði þann 21. mars sl., sem lauk á þessu orðum:

„Byggingarreglugerðin hin nýja mun seinka endurreisn nýbyggingamarkaðarins og gera þeim erfiðara fyrir sem huga að fyrstu íbúðakaupum eða vilja stækka við sig. Engir gæta hagsmuna íbúðakaupenda. Ekkert heyrist frá verklýðsfélögunum, opinberum talsmönnum neytenda, Neytendastofu eða Neytendasamtökunum. Enda er þau hluti af kerfinu, ekki gagnrýnendur þess.”

Í framhaldi af þessum greinaskrifum skrifuðu Samtökin Mannvirkjastofnun og vildu fá að sjá hversu mætti búast við að kostnaður við nýbyggingar ykist við setningu reglugerðarinnar. Hér að neðan má sjá bæði bréf Samtakanna og svar Mannvirkjastofnunar. Í ljós kemur að stofnunin hefur enga tilraun gert til einföldustu útreikninga á þessu sviði. En slíkt dæmi hefur hins vegar framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Hannarr, Sigurður Ingólfsson,  komið með í grein í Morgunblaðinu 19. júlí sl. og birt var með leyfi höfundar hér á heimasíðu Samtakanna.

Loks vekur athygli að í bréfi Mannvirkjastofnunar er sagt að leitað hafi verið umsagnar Neytendasamtakanna. Þessu hafnar Jóhannes Gunnarsson í bréfi til Samtaka skattgreiðenda þann 28. ágúst sl. og segir:

„Neytendasamtökin tóku ekki þátt í samningu þessarar reglugerðar. Við könnumst heldur ekki við að hafa fengið hana til umsagnar.”

Lesið bréf Samtakanna og svar Mannvirkjastofnunar með því að smella á tenglana.

 

 

lesa áfram

10.000 kall handa hverjum?

Frábæra umfjöllun og mynd er að finna á vef Sigríðar Andersen um nýja 10.000 króna seðilinn, en hún birti einnig grein í Morgunblaðinu í síðustu viku um málið

Á vef hennar  fer að finna þennan pistil samfara myndinni af seðlinum:

 

“Stjórnvöld hafa boðað útgáfu 10 þúsund króna seðils.

Hér eru tvö dæmi um að hvaða gerist þegar menn reyna að skapa verðmæti í þjóðfélaginu í dag og selja út vinnu sína fyrir 10 þúsund krónur.

Annars vegar er um að ræða heimili þar sem hjón hafa 400 þúsund krónur hvort í laun eða samtals 800 þúsund, eiga fjögur börn á heimili og skulda 20 milljónir króna vegna í húsnæðis. Þegar annað hjónanna selur vinnu sína fyrir 10 þúsund krónur til viðbótar er hirtur af fjárhæðinni virðisaukaskattur, tryggingagjald, iðgjöld í lífeyrissjóð, tekjuskattur (46,20%) og að lokum skerðast vaxta- og barnabætur um 15% af hinum auknu tekjum. Eftir stendur þá aðeins 2.941 króna.

Hins vegar er um að ræða eina fyrirvinnu með 950 þúsund krónur í heildartekjur en maki er alveg tekjulaus. Þau eiga einnig fjögur börn og skulda 20 milljónir króna vegna húsnæðis. Þegar fyrirvinnan selur vinnu sína fyrir 10 þúsund krónur til viðbótar er hirtur af fjárhæðinni virðisaukaskattur, tryggingagjald, iðgjöld í lífeyrissjóð, tekjuskattur (40,24%) og að lokum skerðast vaxta- og barnabætur um 15% af hinum auknu tekjum. Eftir standa þá aðeins2.549 krónur, líkt og sjá má á myndinni hér að ofan.

Forsendur fyrir þessum dæmum má finna hér.”

lesa áfram

efst