Monthly Archives: December 2012

Umfjöllun um ráðstefnu Samtakanna um valkortakerfið

Umfjöllun Morgunblaðsins

Ráðstefna Samtakanna um sænska valkortakerfið í grunnskólanum og stöðu sjálfstæðra skóla á Íslandi þótti takast mjög vel og miklar umræður urðu í lok ráðstefnunnar. Vonandi er að halda megi þessari umræðu í gangi. Ljóst virðist vera að kerfið hefur gefist vel í Svíþjóð og einnig í því bæjarfélagi á Íslandi, sem kemst næst því að vinna út frá sömu hugmynd, þ.e. að „fé fylgi barni”, en ekki skóla.

Eins og búast mátti við sýndi ríkisfjölmiðillinn ráðstefnunni lítinn áhuga, en Viðskiptablaðið tók viðtal við Odd Eiken og birti 22. nóvember. Morgunblaðið ræddi við Eiken og annan íslensku fyrirlesaranna, Sölva Sveinsson, og birti frétt 24. nóvember.

Samtökin hafa dreift ítarefni til ráðstefnugesta og er öllum velkomið að senda það öllum sem áhuga hafa. Vinsamlega sendið tölvupóst á uppl@skattgreidendur.is. Þá er sjálfsagt að flytja sveitarstjórnum eða öðrum áhugahópum upplýsingar um sænska valkortakerfið með fyrirlestri eða spjalli.

Fyrirlestrarnir eru einnig aðgengilegir á YouTube ásamt glærum sem þeim fylgdu.

Umfjöllun Viðskiptablaðsins

Umræðan um sænska valkortakerfið á mikið erindi við íslenskt samfélag. Gæði og kostnaður íslenska grunnskólans er ekki einkamál hins opinbera eða starfsmanna skólans.  Og opna þarf á umræðuna um nýjar hugmyndir. Sveitarstjórn Tálknafjarðar hefur samið við Hjallastefnuna um rekstur grunnskólans á staðnum í, að því er virðist, almennri sátt við kennara og foreldra, í tilraun til að bæta skólastarfið. En viðbrögð ráðuneytis og Kennarasambands Íslands vita ekki á gott, en gott svar ritstjóra Fréttablaðsins er rétt að vekja athygli á.

 

Vikulega birtir Viðskiptablaðið pistil undir nafni Týs og 22. nóvember fjallaði pistillinn um ráðstefnuna:

„Ávísun á gæði

Týr er nokkuð ánægður með framtak Samtaka skattgreiðenda sem á morgun munu standa fyrir málþingi um breytt rekstrarform grunnskóla. Odd Eiken  mun kynna kosti og galla hins svokallaða ávísunarkerfis, en hann var ráðuneytisstjóri sænska menntamála-ráðuneytisins þegar þess konar kerfi var innleitt þar í landi fyrir um 20 árum.

Týr á ekki von á því að vel verði tekið í slíkar hugmyndir hér á landi, og þá síst af þeim sem nú fara með völdin. Einkarekstur er skammaryrði í augum vinstri manna sem telja einhverra hluta vegna að allt sem viðkemur menntun, sem og heilbrigðisþjónustu, sé á hendi hins opinbera. Það má enginn „græða“ á því að mennta eða lækna.

Týr veit vel að hugmyndafræðilegur ágreiningur um kosti og galla einkareksturs verður ekki leystur í fljótu bragði. En Týr vill til gamans velta upp einni spurningu. Hvaða starfsstéttir þjóðfélagsins eru það sem kvarta hvað mest undan kjörum sínum? Hvaða starfsstéttir boða flest verkföll og standa oftast í stappi við vinnuveitanda sinn um kaup og kjör?

Fyrir utan starfsstéttir í opinberum heilbrigðisrekstri eru kennarar þar ofarlega á lista.

Það að kennari fari af launaskrá hjá  hinu opinbera yfir á launaskrá hjá  einkaaðila gerir viðkomandi ekki að  verri kennara. Íslendingar verja gífurlegu fjármagni úr vösum skattgreiðenda í menntun íslenskra ungmenna.  Hér minnir á að magn er ekki það sama og gæði enda sýna tölur að íslensk börn eru ekki betur menntuð en önnur börn í Evrópu.

Ávísunarkerfið er ekki óþekkt á Íslandi, enda var kerfið innleitt í Garðabæ í bæjarstjóratíð Ásdísar Höllu Bragadóttur fyrir rúmum áratug. Týr hefur ekki orðið var við annað en að Garðbæingar séu almennt ánægðir með kerfið, að hafa val fyrir börnin sín og geta um leið sett ákveðna kröfu á bæði kennara og skólastjórnendur um gæði.

Samkeppni er alltaf góð. Því er ekkert öðruvísi farið með menntun. Það á að vera markmið allra sem starfa í menntageiranum að vilja gera betur í dag en í gær. Til þess þarf hvatningu, nýja hugsun og framsækni. Ekkert af því er í boði hjá ríkinu. Þar er aðeins boðið upp á fastráðningu og taxtalaun óháð áhuga, getu eða dugnaði. Aðhaldið er ekkert, en kjarabaráttan heldur áfram.”

 

lesa áfram

Umfjöllun um fyrirlestur Dr. Mitchell

Umfjöllun í Viðskiptablaðinu

Töluverð umfjöllun var í fjölmiðlum um fyrirlestur Dr. Daniel Mitchell um stighækkandi tekjuskatt og eignaskatt, eða „The Case for the FlatTax”. Þannig birti Morgunblaðið viðtal við Dr. Mitchell 20. nóvember, og úrdrátt úr því var að finna á mbl.is og Viðskiptablaðið skömmu síðar eða 29. nóvember. Þá skrifaði Óli Björn Kárason, blaðamaður, ágæta grein um erindið í Morgunblaðið 21. nóvember, en greinina má lesa í heild sinni hér á vefnum.

Þá er fjallað um fyrirlesturinn á vefsíðu RNH, en hér má nálgast upptöku af fyrirlestrinum þar og einnig hér á heimasíðu Samtakanna.

Furðugrein lögfræðings

En eins og við mátt búast var ekki öll umfjöllun um fyrirlestur Mitchells á jákvæðum nótum. Þannig birtist í Fréttablaðinu 8. desember grein eftir Finn Þór Vilhjálmsson, lögfræðing, um fyrirlesturinn, eða öllu heldur um viðtal Morgunblaðsins við Mitchell, enda sótti Finnur Þór ekki fyrirlesturinn.

Greinin fjallar heldur ekkert um málefnið, heldur tekur fyrir með málskrúð og aulahúmor ýmislegt sem viðkom Dr. Mitchell og þeim sem að heimsókn hans stóðu.

Umfjöllun í Morgunblaðinu

Það er kaldhæðnislegt að lögfræðingurinn birtir mynd af sér með greininni þar sem hann stillir sér upp við mikið bókasafn, svona eins og til að undirstrika grundvöll eigin þekkingar og visku. En greinin ber þess öll merki að engin tilraun er til að kynna sér frumgögn þess sem um er fjallað og það af síður tilraun til rökræðu um viðfangsefnið. Andstætt því sem ætla mætti af góðum lögfræðing. Ástæða er til að hafa áhyggjur af málatilbúnaði Finns almennt ef þetta eru vinnubrögðin. Og sérkennilegt að birtingar skuli ekki hafa verið óskað í DV þar sem hann hefði örugglega fengið strax inni, enda hæg heimatökin. Reyndar ber greinin mikil ættarmerki frá DV.

 

 

lesa áfram

Hagvöxtur og skattaglaðir stjórnmálamenn

Grein þessi eftir Óla Björn Kárason fjallar um inntak erindis Dr. Daniel Mitchell, sem hann flutti þann 16. nóvember 2012, fyrir frumkvæði Rannsóknaseturs um nýsköpun og hagvöxt og Samtaka skattgreiðenda. Greinin birist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember, en hefur einnig verið birt á vef höfundar, www.t24.is.

 

„Skattaglaðir stjórnmálamenn og fræðimenn hefðu haft gott af því að hlusta á fyrirlestur sem dr. Daniel Mitchell hélt síðastliðinn föstudag um neikvæð áhrif stighækkandi tekjuskatts. Þeir hefðu þá hugsanlega áttað sig betur á neikvæðu samhengi á milli skattheimtu og efnahagslegra framfara. Einhverjir þeirra hefðu jafnvel skilið þær mótsagnir sem fólgnar eru í skattagleðskap ríkisstjórnarinnar.

Í einu orðinu halda hinir skattaglaðværu því fram að hægt sé að hafa áhrif á hegðun almennings og í hinu að skattar hafi lítil eða engin áhrif. Þannig sé rétt að hækka skatta og gjöld á áfengi, tóbak, sykur og aðra óhollustu til að draga úr neyslu og þar með auka velferð og tryggja betra heilsufar þjóðar. Því hærri skattar og gjöld, því minni neysla. En svo snúa glaðværir talsmenn skattheimtunnar við blaðinu og halda því fram að beinir skattar á laun og fyrirtæki hafi lítil eða engin áhrif. Fólk haldi áfram að vinna og afla jafnmikilla (jafnvel meiri) tekna þótt skattar hækki stöðugt. Með öðrum orðum: Hægt sé að draga úr eftirspurn eftir ákveðnum vörum og þjónustu með skattlagningu en skattar á laun og vinnu hafi ekki áhrif.

Mótsögnin ætti að vera öllum augljós, jafnvel hinum skattglöðustu í hópi stjórnmálamanna og fræðimanna.

Enginn skilningur

Enginn skilningur er innan sósíalískrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna á samhengi skatta, ríkisútgjalda og hagvaxtar. Skattahækkanir síðustu ára á fyrirtæki og almenning eru byggðar á þeirri trú að ná verði fram einhverju sem kallast „félagslegt réttlæti“. Í reynd hefur „réttlætið“ ekki falist í öðru en að jafna tekjur niður á við í stað þess að auka tækifæri þeirra sem hafa minna á milli handanna til að afla sér meiri tekna.

Innan ríkisstjórnarinnar eru fyrirtæki tortryggð og litið er á vöxt efnahagslífsins, sem er forsenda bættra lífskjara, sem eitthvað af hinu illa. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lýsti því yfir á flokksráðsfundi VG 2010, að kapítalismi, „sem gerir ráð fyrir endalausum hagvexti“, leiði mannkynið til glötunar. Er nema von að ungliði innan VG leggi til „að á Íslandi sé aðeins starfrækt ein matvöruverslun og hún sé á vegum ríkisins“ og þar með verði engin samkeppni, „bara skýrar reglur og lýðræðisleg stjórnun“.

Ekki hefur Árni Páll Árnason, sem sækist eftir að verða leiðtogi Samfylkingarinnar, mikið jákvæðara viðhorf til atvinnulífsins. Á ársfundi ASÍ 2009 talaði Árni Páll sem félagsmálaráðherra um „óforskammaða kapítalista“ og „ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvald“.

Ólína Þorvarðardóttir, samherji Árna Páls í Samfylkingunni, hefur lagt til að lagður verði allt að 80% tekjuskattur á „ofurlaun“. Þar með bauð hún betur en Lilja Mósesdóttir, sem boðaði 60-70% skattþrep á tekjur yfir eina milljón á mánuði. Þá var Lilja enn félagi í VG og Ögmundur Jónasson tók undir hugmyndir hennar.

Skattagleðin kann sér engin takmörk.

Innbyggður hemill

Flestum hagfræðingum hefur verið það lengi ljóst að samhengi er á milli útgjalda ríkisins og hagvaxtar. Útgjöld til að standa undir grunnstoðum samfélagsins auka hagvöxt en gangi hið opinbera of langt í útgjöldum dregur úr hagvexti – samband útgjalda og hagvaxtar verður neikvætt.

Uppbygging skattkerfisins hefur veruleg áhrif á þróun ríkisútgjalda. Á meðan eitt kerfi kallar á síaukna skattheimtu og þar með aukin umsvif ríkisins hamlar annað gegn hækkandi sköttum. Stighækkandi tekjuskattur, þ.e. því hærri tekjur, því hærri hundraðshluta af launum þarf viðkomandi að greiða, er ávísun á aukna skattheimtu og þar með hærri ríkisútgjöld. Það er enginn innbyggður hemill á skattheimtuna og þar með ríkisútgjöldin. Flatur tekjuskattur – ein ákveðin prósenta óháð tekjum – hamlar hins vegar gegn útþenslu ríkisins enda er það pólitískt erfiðara fyrir skattaglaða stjórnmálamenn að hækka skattprósentuna sem allir þurfa að greiða. Þeir ná ekki að reka fleyg á milli skattgreiðenda með sama hætti og þeir geta ef tekjuskattur er stighækkandi. Auk þessa er flatur tekjuskattur ólíklegri til að hafa skaðleg áhrif á efnahagslífið en stighækkandi skattur sem dregur úr löngun einstaklinga til efnahagslegra umsvifa, þar sem afraksturinn verður hlutfallslega æ minni.

Áhrif á hagvöxt

Hvernig staðið er að skattlagningu hefur því bein áhrif á hagvöxt. Flöt, einföld og hófsöm skattlagning hefur jákvæð áhrif á efnahagslífið og hagvöxtur verður meiri en ella. Fyrir Íslendinga skiptir þetta gríðarlega miklu máli. Takist ekki að rífa upp hagvöxt hér á landi munu lífskjör taka litlum breytingum á komandi áratugum. Þannig mun það taka 70 ár að tvöfalda landsframleiðsluna ef hagvöxtur er að meðaltali 1% á ári. Takist okkur hins vegar að tryggja 3% vöxt efnahagslífsins mun það taka tæp 25 ár að tvöfalda íslenska hagkerfið og aðeins 18 ár ef hagvöxtur er að meðaltali 4%.

Af þessu sést hve miklu það skiptir fyrir almenning að hjól atvinnulífsins fari aftur af stað og hagvöxtur nái að festa sig í sessi. Þar skiptir hvert prósentustig gríðarlega miklu. Þetta er spurning um þróun lífskjara hér á landi.”

lesa áfram

efst