Monthly Archives: March 2013

Þarna leynist allur sprotinn

Viðtal í Viðskiptablaði Morgunblaðsins,  21. febrúar 2012 við formann Samtaka skattgreiðenda, Skafta Harðarson:

Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Að mati Skafta Harðarsonar er margt sem gerir íslenskum smáfyrirtækjum og einyrkjum erfiðara fyrir. Hann segir að hið opinbera gæti víða rutt hindrunum úr vegi ef viljinn væri til staðar. „Þegar litið er yfir þetta svið sést að það er tilfinnanlegur skortur á hagsmunasamtökum lítilla fyrirtækja og einyrkja þvert á allar starfsgreinar. Það er því miður þannig að þessi hópur á sér ekki sterka talsmenn á opinberum vettvangi og hagsmunir bæði samtaka atvinnuveitenda og verkalýðs eru á marga vegu samtvinnaðir hagsmunum stórra fyrirtækja – stundum á kostnað þeirra litlu.”
Skafti, sem er formaður Samtaka skattgreiðenda, bendir á að litlu fyrirtækin eru mjög mikilvæg fyrir verðmæta- og atvinnusköpun, en þau eru líka lyillinn að uppbyggingu í efnahagslífinu. „Sjaldnast setjast frumkvöðlar niður og ákveða að stofna stórfyrirtæki næsta dag. Öll stærstu og stöndugustu fyrirtæki landsins eiga uppruna sinn í einstaklingum eða litlum hópi athafnamanna sem komu sér saman um að gera góða hugmynd að veruleika. Stundum verður útkoman smár en stöndugur rekstur, en stundum gerist það að úr verður stórfyrirtæki. Þarna leynist allur sprotinn sem við eigum til að byggja upp atvinnulífið og ná okkur upp úr lægð og atvinnuleysi.”
Ríkið skilur lítið eftir
Nefna má fjölmargt sem breyta mætti til batnaðar og nefnir Skafti t.d. að litlu fyrirtækin finni oft mun meira fyrir hárri skattlangingu hins opinbera en þeir stóru. „Engum hópi manna held ég að sé jafn sýnileg þessi óhóflega áþján og einyrkjum. Hjá stærri fyrirtækjum vilja menn stundum missa sjónar á því sem einyrkinn sér svo glögglega þegar hann útbýr reikninginn handa viðskiptavini sinum og ekki nema 30% sitja eftir. Restin fer í virðisaukaskatt, tryggingagjald, lífeyrisskuldbindingar og tekjuskatt,” segir Skafti en bendir á að það sé ekki bara upphæð skattanna sem gerir erfitt fyrir.
„Það væri t.d. til mikils að vinna að bjóða upp á þægilegri skil á ýmsum skattgreiðslum til ríkisins. Ef það hendir t.d. smáfyrirtæki að viðskiptavinur greiðir ekki útskrifaðan reikning þá þarf fyrirtækið samt sem áður að fjármagna allar greiðslur til ríkisins eins og þær koma fram á reikningnum. Ef VSK-tímabilin yfir árið eru fleiri eru meiri líkur á að þessi fyrirtæki þurfi að fjármagna hegðunina hjá óskilvísum viðskiptavinum. Stórfyrirtæki eiga mun auðveldara með að takast á við slík útgjöld á meðan þau geta nánast riðið litlum fyrirtækjum að fullu. Að fækka skiladögum fyrir minni aðila úr sex niður í fjóra á ári væri strax mikil framför.”
Skafti bendir líka á að hægt sé að leita leiða til að spara litlu aðilunum skriffinnsku og umstang. „Mjög væri til bóta ef að skilagreinarnar fyrir lífeyrissjóð, verkalýðsfélag og launaskatt væru sameinaðar. Það myndi spara mörgum stanslausar eyðublaðaútfyllingar og útreikninga.”

Myllusteinar á fyrstu árunum

Síðan eru reglur sem virðast hafa verið settar fyrir góðan ásetning en reynast verða þess valdandi að erfiðara er en ella að koma sprotafyrirtækjum á laggirnar. „Skyldugreiðslur í lífeyrissjóð eru gott dæmi. Frumkvöðullinn er skikkaður til að láta þessi 12% af tekjum sínum af hendi þó svo að hann væri vafalítið að fjárfesta betur með því að leggja upphæðina inn í uppbyggingu rekstrarins.”

Af sama toga eru reglurnar sem skikka aðstandendur sprota til að greiða tekjuskatt m.v. sérstök tekjuviðmið, jafnvel þó að nýstofnað fyrirtækið sé ekki farið að skila hagnaði. „Að þessu leyti er skattaumhverfið mjög ólíkt því sem þekkist t.d. í Bandaríkjunum. Á Íslandi geta frumkvöðlar og starfsmenn þeirra ekki gefið vinnu sína í reksturinn í skiptum fyrir hluti í fyrirtækinu sem síðan verða verðmætir seinna meir. Jafnvel þó að engin séu launin verða þeir samt að greiða launaskattinn.”

lesa áfram

Áhugaverður alþjóðlegur samanburður

Að undanförnu hefur nokkuð verið fjalla um skattamál í viðskiptablaði Morgunblaðsins. Þar mátti meðal annars sjá umfjöllun um rannsókn sem endurskoðunarskrifstofan PWC, gerði árið 2011. Þar er borin saman hversu mikil fyrirhöfn það er fyrir ímyndað fyrirtæki að að standa skil á öllum sköttum og gjöldum. Þetta setur áhugaverða vídd inn í skattaumræður með þvi að bæta við þeim mikla kostnaði sem kemur með því að fylgja öllum reglunum í þaula. Rannsóknin ekur  til fjölda landa, eins og sjá má hér .

Almennt virðist samband milli þess að lönd með hærri skatta gera líka fyrirtækjum erfitt fyrir um að uppfylla þau skilyrði sem nauðsynlegt er til að skila skattaupplýsingum o.s.frv.. Ísland fær ekkert sérlega góða einkunn á þessu prófi þó menn vilji stundum meina að skattkerfið okkar sé svo einfalt og aðgengilegt.

 

lesa áfram

Góð heimsókn frá bresku samtökunum

Matthew Elliott

Nú í vor heldur Mattew Elliott, framkvæmdastjóri Samtaka skattgreiðenda í Bretlandi, fyrirlestur um starf samtakanna, baráttuna fyrir skattalækkunum og niðurskurði útgjalda hins opinbera. Að komu hans standa Samtök skattgreiðenda í samstarfi við RNH og er fyrirlestur Matthew Elliott þáttur í verkefninu „Evrópa, islands og framtíð kapítalismans”, sem RNH hefur skipulagt í samstarfi við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna. Nánari tímasetning verður gefin síðar. Búið var að tímasetja fyrirlestur hans þann 8. apríl nk. en því miður hefur hann orðið að fresta komu sinni. Nánar síðar. Samtök skattgreiðenda í Bretlandi  voru stofnuð snemma árs 2004 af Matthew Elliott og Andrew Allum. Samtökunum óx fljótt fiskur um hrygg og reka öfluga skrifstofu í London og eiga yfir 65.000 manns hafa skráð sig til þáttöku í starfi samtakanna. Á undanförnum árum hafa samtökin gefið út bækur og bæklinga og haldið úti öflugri heimasíðu og starfsmenn og fulltrúar verið duglegir við að koma sjónarmiðum samtakanna á framfæri í fjölmiðlum. Matthew Elliott skrifaði einnig athyglisverða bók með David Craig, The Great European Rip-Off, How the Corrupt, Wasteful EU is Taking Control of Our Lives. Bókin kom út 2009.

lesa áfram

efst