Monthly Archives: April 2013

Hann er fundinn!

Sjálfstæðisflokkurinn var með spurningu nýlega í þjóðarpúls Capacent þar sem spurt var: Finnst þér að skattar á Íslandi séu almennt of háir eða of lágir? Skemmst er frá að segja að 81,8% aðspurðra töldu skattana heldur of háa eða allt of háa, 16,0% að þeir væru hvorki né, en 2,2 % að þeir væru heldur of lágir. 0,1% taldi skattana vera allt of lága, eða 1 af þeim 936 sem tóku afstöðu. Telja má líklegt að þessi eini hafi svarað þessu til í kaldhæðni, eða að tilviljun hafi ráðið því að þeir fundu þann eina sem er þessarar skoðunar fyrir utan Indriða H. Þorláksson. Nema auðvitað þeir hafi einfaldlega fyrir tilviljun dregið út í hringipottinn Indriða sjálfan.

Í könnuninni vekur athygli að niðurstaðan er mjög skýr óháð kyni, aldri, búsetu og menntun.

lesa áfram

Stjórnmálaflokkar á spenanum

Viðskiptablaðið fjallar um þá miklu óvirðingu sem skattgreiðendum er sýnd með niðurgreiðslu á stjórnmálaflokkum í frétt á vefnum þann 22. apríl 2013. Reiknaður er ríkisstyrkur stjórnmálaflokkanna á næsta kjörtímabili miðað við niðurstöður skoðanakönnunar MMR frá 18. apríl sl.

Flokkarnir yrðu á spenanum upp á minnst 41,8 milljón (Dögun) og mest 319 milljónir (Framsókn). Frétt Viðskiptablaðsins má lesa í heild sinni hér. Ekki er nema von að ný framboð eigi erfitt uppdráttar þegar flokkar á þingi hafa úthlutað sjálfum sér hundruði milljóna króna á kjörtímabilinu og takmarka jafnframt hámark þess sem ný framboð geta sótt sér í fjárstyrk til stuðningsaðila sinna. Ef þetta væru fyrirtæki á markaði væri fyrir löngu búið að siga Samkeppniseftirlitinu á markaðsráðandi flokka.

lesa áfram

Samtökin auglýsa fyrir komandi kosningar

Nú fyrir kosningar hafa Samtök skattgreiðenda safnað fé til að vekja athygli á baráttu sinni fyrir lægri sköttun, betri ráðstöfun skattfjár og mikilvægi þess að skuldir hins opinbera verði greiddar niður.

Stuðningsaðilar hafa brugðist vel við og næstu tíu dögum verður auglýst í blöðum, vefmiðlum og í útvarpi.

Kjósendur þurfa að veita flokkunum aðhald og snúa umræðunni frá óraunhæfum yfirboðum til raunhæfra aðgerða til að auka hagvöxt, fjölga störfum í gegnum auknar fjárfestingar og til breyttrar forgangsröðunar í útgjöldum hins opinbera. Og breytingar á skattkerfinu eru forsenda aukinnar verðmætasköpunar.

 

lesa áfram

Ræktun eða rányrkja

Samtök atvinnulífsins tóku saman skýrslu um skattstofna atvinnulífsins og gáfu út í nóvember 2012 og má finna á vef þeirra. Skýrsluna kalla SA því ágæta nafni Ræktun eða rányrkja og má nálgast hér.

Skýrslan fjallar um breytingar á skattkerfinu frá 2008 og til útgáfudags og hversu skaðleg áhrif margra þessara breytinga hafi haft og muni hafa, en í inngangsorðum skýrslunnar segir m.a.:

Það er mikilvægt fyrir þjóðina að rekstur hins opinbera sé hagkvæmur. Skattheimtu er ekki hægt að þenja út fyrir tiltekin mörk án þess að hún rýri sjálfa skattstofnana. Forsendur varanlegrar tekjuaukningar ríkissjóðs eru auknar fjárfestingar sem leiða til aukinnar verðmætasköpunar og fjölgunar starfa þannig að fleiri fyrirtæki og einstaklingar greiði skatta en færri þiggi bætur og styrki.

Skattalegt umhverfi í landinu á að miða að því að ná fram sem mestri hagkvæmni. Skattkerfið á fyrst og fremst að vera skilvirkt tekjuöflunartæki ríkissjóðs og sveitarfélaga. Það á að vera gegnsætt og laust við flækjur, skattstofnar eiga að vera breiðir og skattprósentur fáar og lágar. Með því móti er dregið úr hvata til undanskota. Markmiðum um jafnari tekjuskiptingu verður best náð með aðgerðum á útgjaldahlið. Þannig fæst m.a. skýrari mynd af kostnaði við tekjujöfnun. Þetta er niðurstaða alþjóðastofnana á borð við OECD og AGS og var mjög vel lýst í skýrslu skattasérfræðinga AGS um skattkerfið á Íslandi í júní 2010.

lesa áfram

Sannleikurinn um ríkisfjármálin

Grein þessi eftir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, birtist upphaflega í Morgunblaðinu 14. desember 2012.
Fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra ritar reglulega greinar um það sem hann telur vera glæsilegan árangur í ríkisfjármálum. Nýjasta greinin í þessari röð birtist í Fréttablaðinu í fyrradag (12. des. 2012). Þar er sem fyrr miklast af árangri liðinna ára og eina ferðina enn boðuð „tímamót í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs“.

Sem betur fer þurfa landsmenn ekki að búa við túlkun Steingríms Sigfússonar á hagtölum um ríkisreksturinn. Þessi gögn liggja fyrir í greinargóðu formi í útgáfum og á heimasíðu Hagstofu Íslands. Væntanlega endurspegla þessi gögn þann veruleika sem Steingrímur biður um að í heiðri sé hafður í grein sinni. Hins vegar bregður svo við að sú saga sem þessi gögn segja er ekki í góðu samræmi við túlkun Steingríms.

Veruleikinn

Allan stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar, frá 2009 og fram á þennan dag, hefur ríkissjóður verið rekinn með mjög miklum halla. Þessi ferill er rakinn í mynd 1 sem er meðfylgjandi. Þar kemur fram að fyrstu tvö stjórnarár ríkisstjórnarinnar, 2009 og 2010, var hallinn langt yfir 100 milljörðum hvort ár eða 8-9% af vergri landsframleiðslu (sbr. mynd 2). Öfugt við það sem Steingrímur gefur í skyn í línuritinu í grein sinni er það ekki svo að hallinn hafi minnkað á árinu 2010, fyrsta heila árinu í hans ráðherratíð. Þvert á móti hækkaði hann um 20 milljarða kr. eða um meira en 1% af vergri landsframleiðslu (VLF). Halli ríkissjóðs sem hlutfall af VLF óx sömuleiðis úr 8,3% í 9,4% (sbr. mynd 2).Frá árinu 2011 hefur hallinn vissulega farið lækkandi. Sú lækkun hefur hins vegar verið fjarska hægfara. Árið 2011 var hallinn á rekstri ríkissjóðs t.d. yfir 90 milljarðar kr. og næstum 6% af VLF (myndir 1 og 2). Jafnvel á yfirstandandi ári, fjórða árinu frá hruni, mælist hallinn fyrstu þrjá ársfjórðungana um 35 milljarðar kr. og stefnir í yfir 50 milljarða á árinu í heild eða um 3% af VLF.

Öfugt við það sem gefið er í skyn í grein Steingríms eru þessar hallatölur ríkissjóðs háar í samanburði við það sem tíðkast í öðrum Evrópuríkjum. Að meðaltali frá árinu 2009 til 2011 (eða áætlunar 2012) eru þær talsvert yfir meðallagi Evrópuríkjanna (OECD, Economic Outlook 2012). Það er heldur ekki rétt sem fullyrt er í grein Steingríms að „hvergi í okkar heimshluta þar sem ríkissjóðir hafi lent í vanda vegna efnahagskreppu [hafi] náðst viðlíka árangur síðastliðið ár eins og á Íslandi“. Samkvæmt hagtölum frá OECD (Economic Outlook 2012) mun t.d. afkoma ríkissjóðs Írlands batna mun meira frá 2011 til 2012 en ríkissjóðs Íslands. Allmörg önnur lönd eru talin munu ná „viðlíka“ árangri.

Leiktöld fjárlaga

Það er eftirtektarvert að frá árinu 2010 hafa fjárlög undantekningarlaust gert ráð fyrir miklu minni halla á rekstri ríkissjóðs en í raun hefur orðið. Þessu er lýst í mynd 1, þar sem halli á rekstri ríkissjóðs samkvæmt fjárlögunum er sýndur við hliðina á rauntölunum. Eins og sjá má er munurinn ærinn – hallinn er oft meiri en tvöföld áætlun fjárlaga – og skiptir tugum milljarða og nokkrum hundraðshlutum af VLF.Spurnin er hvað valdi. Nærtækt er að túlka þetta sem aðhaldsleysi í framkvæmd fjárlaga, sem er ekki í samræmi við þá mynd sem Steingrímur vil fá okkur til að trúa. Það er einnig hugsanlegt að þetta vanmat á hallanum sé gert viljandi til að blekkja löggjafann og almenna kjósendur. Hver sem ástæðan er má ljóst vera að svona mikil frávik eru stjórnarfarslega skaðleg og geta seint talist til fyrirmyndar í ríkisrekstri.

Hættulegur hallarekstur

Það sem af er stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar, þ.e. frá árinu 2009 og út þriðja ársfjórðung 2012, nemur samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs mældur á verðlagi hvers árs um 400 milljörðum króna (Hagstofan, Þjóðhagsreikningar 2012:3 og 2012:15). Þessi uppsafnaði halli hefur eðli málsins samkvæmt bæst við mjög alvarlega skuldastöðu ríkissjóðs. Þróun hinnar hreinu skuldastöðu sem hlutfalls af VLF samkvæmt fyrrgreindum gögnum Hagstofunnar er nánar lýst í mynd 3. Eins og sjá má hefur skuldastaðan vaxið hröðum skrefum og nam í árslok 2011 yfir 55% af VLF. Vegna hallarekstrar ríkissjóðs á árinu 2012 hafa þessar skuldir enn aukist. Rétt er að taka það skýrt fram að í þessum tölum vantar ýmsar þekktar skuldbindingar ríkissjóðs, m.a. vegna lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ábyrgða á sjóðum og stofnunum, t.a.m. Íbúðalánasjóðs.Þessi mikla hækkun í hreinni skuldastöðu ríkissjóðs er mikið áhyggjuefni af a.m.k. þremur ástæðum.

Í fyrsta lagi fylgir henni vaxtakostnaður upp á tugi milljarða sem rýrir getu ríkissjóðs til að sinna mikilvægum málefnum samfélagsins, þar með töldum velferðarmálum í framtíðinni.

Í öðru lagi bætast hinar auknu ríkisskuldir ofan á mjög erfiða skuldastöðu þjóðarinnar í heild. Þær veikja lánstraust þjóðarinnar út á við og hækka þar með vaxtakröfuna á Ísland erlendis. Skuldasöfnun íslenska ríkisins er að áliti sérfræðinga ein af helstu ástæðunum fyrir því að alþjóðleg matsfyrirtæki hafa ekki fengist til að hækka mat sitt á lánshæfi Íslands og skuldatryggingarálagið á ríkissjóð erlendis hefur sorglega lítið lækkað.

Í þriðja lagi er þessi mikla skuldasöfnun ríkisins bein ógn við getu þjóðarinnar til að komast með sæmilega heilli há út úr þeirri fjárhagskreppu sem hún hefur verið í. Áætlun sú um endurreisn íslensks efnahags sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórnin komu sér saman um í nóvember 2008 byggðist á tveimur meginstoðum; (i) myndarlegum hagvexti og (ii) aðhaldi í ríkisrekstri og hallalausum ríkisrekstri innan fárra ára. Þetta var í áætluninni taldið forsenda fyrir því að Ísland kæmist út úr skuldakreppunni. Hagvöxtur hefur því miður reynst mun hægari en að var stefnt í þessari áætlun. Eins og rakið hefur verið hefur einnig verulega skort á að markmiðunum í ríkisfjármálum hafi verið náð.

Lokaorð

Hinn mikli hallarekstur ríkissjóðs undanfarin fjögur ár felur í sér verulega ógn við efnahagslega velferð íslensku þjóðarinnar á komandi árum. Framvinda frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2013 á Alþingi og reynslan af fjárlögum undanfarandi ár bendir því miður ekki til þess að nú séu að verða þau tímamót í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs sem Steingrímur Sigfússon hefur kynnt. Þvert á móti bendir allt til þess að þessi síðustu fjárlög núverandi ríkisstjórnar muni skerða enn frekar það svigrúm sem þjóðin hefur til að losa sig úr skuldafjötrum og skapa hér velferð á varanlegum grunni.

Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

lesa áfram

Háir skattar og skuldavandi heimilanna

Grein eftir Ragnar Árnason, prófessor, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. apríl 2013:

Í dag, næstum fjórum og hálfu ári, eftir hið mikla áfall í fjármálakerfinu í október 2008, er fjöldi íslenskra heimila enn í alvarlegum skuldavanda. Lánaformum hefur verið kennt um þennan vanda; framan af einkum hinum svokölluðum myntkörfulánum og nú upp á síðkastið verðtryggðum lánum. Þetta eru nærtækar og ekki óeðlilegar skýringar. Fyrir liggur að gengi krónunnar féll verulega á árunum 2008 og 2009 og verðbólgan tók stökk upp á við. Hvort tveggja hlaut að valda umræddum heimilum verulegum búsifjum.

Gengislækkanir og verðbólga eru ekki nýnæmi

Á hinn bóginn má ekki gleyma því að gengislækkanir og verðbólga hafa verið landlæg fyrirbæri á Íslandi áratugum saman. Gengið hefur iðulega fallið meira og verðbólga verið hraðari á árum áður, jafnvel eftir að verðtrygging varð almenn. Eitt af mörgum dæmum um þetta eru árin rétt fyrir og um 1990 en þá var verðbólga miklu meiri en nú og gengið féll þá einnig mjög mikið. Þá kom hins vegar ekki upp svipaður skuldavandi heimila.

Því má ljóst vera að það hljóta að vera aðrir þættir en verð- eða gengistryggingin ein sem valda því að heimilin eiga nú í svona miklum skuldavanda. Augljósar ástæður eru miklar lækkanir annars vegar í ráðstöfunartekjum heimilanna og hins vegar í fasteignaverði. Í þessari grein er því haldið fram að hinar miklu skattahækkanir undanfarin ár eigi verulegan þátt í hvoru tveggja.

Ráðstöfunartekjur heimilanna

Samkvæmt opinberum gögnum Hagstofunnar hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna lækkað mjög verulega frá árinu 2008. Á árinu 2011, hinu nýjasta í gagnaröð Hagstofunnar, var kaupmáttur ráðstöfunartekna hvorki meira né minna en 24% eða næstum fjórðungi minni en hann var á árinu 2007. Á árinu 2012 er líklegt að hann hafi verið um 20% lægri (sjá meðfylgjandi línurit). Þessi lækkun ráðstöfunartekna stafar auðvitað fyrst og fremst af lækkun raunlauna og minnkaðri atvinnu, en hún stafar einnig af aukinni skattheimtu.

Hækkun skatta

Skattar hafa sem kunnugt er verið stórhækkaðir frá árinu 2008. Þessar hækkanir taka til nánast allra opinberra gjalda, allt frá útsvarinu og ýmsum sérstökum gjöldum til sveitarfélaga, til virðisaukaskatts, tekjuskatts og aragrúa sérgjalda sem renna í ríkissjóð. Þessi aukna skattheimta hefur m.a. haft tvennt í för með sér. Í fyrsta lagi hefur hún lækkað þann hluta af tekjum heimilanna sem unnt er að ráðstafa til að greiða vexti og afborganir af lánum. Hins vegar hefur hún dýpkað og framlengt kreppuna.

Hinir hækkuðu skattar koma auðvitað mismunandi niður á heimilunum, ekki síst þegar tekið er tillit til þeirra millifærslna sem hluti þeirra er notaður í. Ekki er fjarri lagi að ætla að þau heimili sem hafa um eða yfir meðaltekjur greiði nú að jafnaði 10% hærri hluta tekna sinna í skatta. Þessir auknu skattar gætu því hæglega samsvarað hálfri til einni milljón króna á ári fyrir þessi heimili að jafnaði. Þá upphæð er með öðrum orðum ekki lengur unnt að nota til að borga af lánum og munar um minna.

Skattar og tekjur heimilanna

Kreppan sem hófst árið 2008 hefur reynst miklu langvinnari en reiknað var með í upphafi. Samkvæmt áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda frá nóvember 2008 hefði henni átt að vera á lokið árið 2012. Á því ári reyndist verg landsframleiðsla hins vegar enn 5,2% minni en hún var 2007 (sjá meðfylgjandi línurit). Jafnframt eru hagvaxtarhorfur á komandi árum nú taldar slakar.

Ástæðan fyrir þessum dapurlega árangri er öðru fremur röð mistaka í efnahagsstjórninni sem ekki var séð fyrir er hinar upphaflegu áætlanir voru gerðar. Ein þessara mistaka eru hinar miklu skattahækkanir. Skattahækkanirnar hafa dregið úr framtaki, fjárfestingum og einkaneyslu sem eru hefðbundnir aflvakar hagvaxtar. Allt þetta hefur verið í sögulegu lágmarki undanfarin ár. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er jafnvel vafasamt að þær fjárfestingar sem í hefur verið lagt undanfarin fjögur ár hafi dugað fyrir afskriftum og rýrnun þeirra fjármuna sem til eru. Þá þarf ekki að orðlengja það að framlenging kreppunnar og þar með lítill kaupmáttur og brottflutningur fólks frá landinu hefur þrýst fasteignaverði lengra niður og komið í veg fyrir að það hækkaði með eðlilegum hætti.

Lokaorð

Þannig sjáum við að skattahækkanirnar stuðla að skuldavanda heimilanna með a.m.k. þrennum hætti. Í fyrsta lagi lækka þær beinlínis ráðstöfunartekjur flestra heimila. Í öðru lagi hafa þær framlengt kreppuna og lækkað þannig raunlaun heimilanna umfram það sem að öðrum kosti hefði orðið. Í þriðja lagi hefur framlenging kreppunnar og hið dauðyflislega ástand í hagkerfinu haldið fasteignaverði lengur niðri en efni stóðu til.

Allt hefur þetta bitnað illilega á skuldugum heimilum og aukið á vanda þeirra. Erfitt er að segja til um það hversu sterk þessi skattaáhrif eru. Af ofangreindu er þó fullvíst að þau eru veruleg. Það sorglegasta er að þessi aukni vandi skuldugra heimila sem stafar af skattahækkunum var alger óþarfi. Hann er afleiðing rangrar efnahagsstefnu sem gripið var til af fyrirhyggjuleysi og að því er virðist fyrst og fremst til þess að fullnægja úreltum kreddum. Öll þjóðin borgar brúsann og því miður er hvað minnst borð fyrir báru hjá skuldugum heimilum.

lesa áfram

Endurreisn skattkerfisins

Eftir Óla Björn Kárason, blaðamann

Mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum verður endurreisn skattkerfisins úr rústum liðlega fjögurra ára vinstri stjórnar. Hátt á annað hundrað breytingar hafa eyðilagt skattkerfið, gert það ógagnsærra og ranglátara. Sá sem tekur við lyklavöldunum í fjármálaráðuneytinu verður að vinda ofan af skattahækkunum síðustu ára samhliða því að einfalda kerfið. Hvernig til tekst mun ráða mestu um það hvort Íslendingum tekst að vinna sig út úr efnahagslegum þrengingum.

Við Íslendingar vitum af eigin reynslu að með því að skattleggja minna er hægt að fá meira. Við vitum að með því að hætta að refsa fyrir velgengni með ofursköttum, eykst velmegun almennings og hagsæld verður meiri. Ráðstöfunartekjur hækka og fyrirtækin styrkjast og dafna.

Lægri skattar og auknar tekjur

Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir umfangsmiklum breytingum á skattkerfinu eftir flokkurinn settist í ríkisstjórn árið 1991. Tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja var lækkaður, aðrir skattar ýmist lækkaðir eða felldir niður.

Þrátt fyrir umfangsmiklar skattalækkanir jukust skatttekjur ríkissjóðs verulega. Frá 1991 til 2007 tvöfölduðust tekjurnar að raunvirði. Með meiri hófsemd í skattheimtu styrktust tekjustofnar ríkisins og gáfu meira af sér. Þetta sést vel á því að tekjuskattur fyrirtækja var 50% árið 1985 en var kominn niður í 18% árið 2003. En skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hækkuðu engu að síður úr 0,9% í 1,5%.

Skatttekjur í tíð íhaldsins

Því miður hafa vinstri menn aldrei skilið einfalt lögmál: Því meira sem eitthvað er skattlagt því minna færðu af því. Að sama skapi: Því meira sem velgengni er skattlögð því minni verður velgengnin.

Vítamínsprauta

Íslenskt efnahagslíf þarf vítamínsprautu. Með markvissum og skynsamlegum skrefum við lækkun skatta, afnámi gjaldeyrishafta og einfaldara regluverki er hægt á skömmum tíma að hefja sókn í atvinnumálum.

Uppstokkun skattkerfisins – endurreisn skattstofna ríkisins – á komandi kjörtímabili verður að taka mið af því að sníða viðskipta- og efnahagslífi þjóðarinnar umgjörð sem eflir en dregur ekki úr, eykur en kæfir ekki þrótt einstaklinga og fyrirtækja. Það verður að hverfa frá stefnu vinstri manna sem ekki mega sjá neitt hreyfast án þess að vilja skattleggja það.

Skattur á vinnu

Samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs mun tryggingagjald – sem er í raun lítið annað en skattur á laun og störf – skila ríkissjóði um 70,6 milljörðum króna. Þetta eru liðlega 22 milljörðum króna hærri tekjur en árið 2008. Þrátt fyrir vilyrði hefur tryggingagjaldið ekki verið lækkað.

Óli Björn Kárason

Ofurskattur á laun og störf hefur dregið úr möguleikum fyrirtækja til að fjölga starfsmönnum og/eða hækka laun þeirra sem þegar eru í vinnu. Launamenn greiða þennan skatt með óbeinum hætti í formi færri starfa og lægri launa. Fyrirtækin bera skattinn og eru í spennitreyju. Afleiðingin er sú að afkoma fyrirtækjanna er verri sem hefur aftur áhrif á tekjur ríkisins. Og ríkissjóður verður af tekjum þar sem störfum fjölgar ekki. Atvinnuleysi er meira en ella og þar með útgjöld ríkisins hærri. Hringavitleysan er í fullum gangi.

Öll skynsamleg rök hníga að því að fyrsta skref nýrrar ríkisstjórnar við endurreisn skattstofna sé að lækka tryggingagjaldið verulega. Að því loknu á að endurskoða tekjuskattskerfið frá grunni, einfalda það, draga úr eða fella niður tekjutengingar og taka upp eina einfalda skattprósentu á komandi árum. Flókið tekjuskattskerfi með háum jarðarsköttum dregur ekki aðeins úr hvatanum til að afla sér tekna, heldur kemur ekki síst niður á þeim sem síst skyldi – launamönnum sem eru með lágar tekjur og takmarkaða möguleika til vinnu.

Verkefnin við að endurheimta skattstofna eru fleiri. Nauðsynlegt er að gjörbreyta og grisja frumskóg tolla og vörugjalda. Markmiðið er ekki síst að færa verslunina aftur heim til Íslands og skjóta þannig styrkari stoðum undir mikilvæga atvinnugrein. Ríkissjóður mun þegar upp er staðið njóta góðs af.

Ranglæti sem verður að leiðrétta

Ekki verður því haldið fram að réttlæti og sanngirni hafi verið með í för þegar ríkisstjórnin rústaði skattkerfinu. Innleiðing eignaupptökuskatts – sem vinstri menn kalla auðlegðarskatt – er bein árás á eldra fólk og sjálfstæða atvinnurekandann. Margir eiga ekki annan kost en að stofna til skulda eða selja eignir til að standa skil á skattinum. Sjálfstæðir atvinnurekendur hafa þurft að ganga á eigið fé til að greiða eignaupptökuskattinn og eftir stendur veikara fyrirtæki.

Eignaupptökuskatturinn er siðferðilega ranglátur og því getur ný ríkisstjórn ekki vikið sér undan því að afnema skattinn.

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur dæmi um þau mörgu verkefni sem bíða nýrrar ríkisstjórnar. Hvort hafist verður handa við að endurreisa skattstofna ríkisins ræðst af því hvort stefna Sjálfstæðisflokksins í skattamálum fær að ráða för eða hvort hugmyndafræði vinstri manna verður fylgt áfram næstu fjögur árin. Reynslan síðustu ár gefur ágæta vísbendingu um hvernig staðan verður eftir fjögur ár nái vinstri menn að halda leik sínum áfram.

Áður birt í Morgunblaðinu 27. mars 2013 og á vef Óla Björns www.t24.is.

 

lesa áfram

Hver er hlutur þinn í skuldum hins opinbera?

RSE, Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, hefur látið útbúa reiknivél þar sem finna má út, gróflega, hver hlutdeild þín er í skuldum hins opinbera. Að sjálfsögðu skuldar yngra fólks meira en þeir eldri.

Mörgum stjórnmálamönnum er gjarnt að tala um sjálfbærni þegar kemur að umhverfismálum. Hjá þeim sömu aðilum virðist hins vegar sjálfbærni ekki eiga upp á pallborðið þegar kemur að skuldum hins opinbera og stöðu heimilanna.

Það virðist því í lagi að ganga á framtíðartekjur komandi kynslóða og skerða lífgæði þeirra með óhóflegri eyðslu samtímans, en ekki hrófla við steini til að byggja í haginn fyrir framtíðina.

Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur, sem er einn þeirra sem standa að RSE, skrifar grein í Fréttablaðið 17. apríl, 2013, sem ber yfirskriftina Skuldir í dag eru skattar á morgun, og hann segir:

Helsta auðlind Íslands er þjóðin sjálf. Öfugt við gömlu Evrópu, þar sem fleiri verða á eftirlaunum árið 2020 en vinna, er íslenska þjóðin enn að vaxa og dafna og vinnusemi landsmanna er mikil. Framtíðin stendur og fellur með því hvort svo verði áfram.

Íslenska ríkið er mjög skuldsett og skuldar um 2.100 milljarða króna. Mikið af þessum skuldum komu til við að greiða fyrir þjónustu og framkvæmdir sem ekkert nýtast komandi kynslóðum. Það má því segja að um sé að ræða skuldir sem eldri kynslóðir tóku, á kostnað hinna yngri. Skuldir ríkisins hverfa ekki, og ríki geta ekki farið á hausinn, heldur þarf við þjóðargjaldþrot að endursemja við kröfuhafa. Þannig voru skuldir Sovétríkjanna, eftir hrun þeirra, losaðar af Eystrasaltsríkjunum, Georgíu og Aserbaídsjan og Rússland tók þær yfir, eftir að endursamið hafði verið um fjárhæð og afborganir við lánardrottna. Enn eru útistandandi skuldir Napeóleons sem franska ríkið þarf að greiða af.

Skuldir í arf

Unga fólkið á Íslandi fær skuldir í arf. Þær nema um 21 milljón króna á hvern þeirra 100 þúsund einstaklinga sem eru á aldrinum 15-25 ára. Þetta eru skuldir sem þarf að greiða af í gegnum skatta. Þessi greiðslubyrði bætist á unga fólkið sem á þegar í erfiðleikum með að verða sér úti um heimili, sem kosta um það bil sömu fjárhæð. Unga fólkið er því að borga af tveimur húsum, ef svo má segja, þegar það flytur að heiman og fer að afla tekna. En annað húsið fær það aldrei að sjá eða koma í.

Í Evrópu og eldri samfélögum er ungt fólk farið að flytja annað, frekar en að taka á sig skuldabyrði eldri kynslóða. Það þarf að fyrirbyggja þá hættu hér á landi, það er frumskilyrði hagsældar á Íslandi.

Vefsíðan rikid.is er ný vefsíða Rannsóknarseturs um samfélags- og efnahagsmál. Þar getur fólk reiknað út skattbyrði sína og hlut í að greiða niður áfallnar skuldir á næstu árum. Eins er hægt að skoða ríkisreikninginn og skera niður, eða bæta við útgjaldaflokka, til að átta sig betur á því hvað fylgir því að vera skattborgari á Íslandi.

Það er von okkar að þessi vefur sé innlegg í upplýsta umræðu um ríkisfjármál á Íslandi. Sterkasta vopnið gegn umframkeyrslu stjórnvalda er að kjósendur veiti stjórnmálamönnunum aðhald. Þá er von til þess að loks fari einhverjir stjórnmálamenn að lofa því að spara en ekki bara að eyða.

 

lesa áfram

Hefur FME aldrei rangt fyrir sér?

Það er full ástæða til að koma upp sérstöku eftir með eftirlitsstofnunum. Á Eyjunni birtist þetta blogg eftir Skafta Harðarson sem vekur athygli á misbeitingu valds Fjármálaeftirlitsins undir fyrirsögninni Vald spillir og gerræðisvald gerspillir:

“Í bæði Viðskiptablaðinu og viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 21. mars 2013 má lesa umfjöllun um mál Ingólfs Guðmundssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Fjármálaeftirlitið vék honum úr starfi haustið 2010 og taldi hann vanhæfan.

En í málaferlum sem fylgdu í kjölfarið dæmdi Héraðsdómur Ingólfi í vil, og Hæstiréttur hafnaði áfrýjunarbeiðni FME. Þessu til viðbótar hefur umboðsmaður Alþingis úrskurðað að FME hafi brotið á Ingólfi.

En FME lætur sér ekki segjast og Ingólfur Guðmundsson hefur ekki verið beðinn afsökunar af hendi FME, hvað þá boðnar miskabætur. Ingólfur hyggst nú fara í skaðabótamál við FME.

Mál Ingólfs sýnir að opinberir starfsmenn eru auðvitað hvorki betri né verri en annað fólk, ekki nákvæmari, heiðarlegri eða betri en gengur og gerist. En þá skortir aðhald og sæta engu eftirliti sjálfir. Og vald spillir og gerræðisvald gerspillir eins og Acton lávarður orðaði það. Stofnanir með of mikil völd eru engum til góða. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri oftrú sem samtíminn hefur af opinberum eftirlitsrekstri, þrátt fyrir að reynslan sýni allt annað. Eftirlitsstofnanir misbeita valdi iðulega og eru tregar til að viðurkenna mistök og reynast á stundum ekki koma að nokkru gagni þegar á reynir og mestu máli skiptir.

Og hver á að sinna eftirliti með eftirlitsmönnunum? Enn einn umboðsmaðurinn?”

lesa áfram

efst