Monthly Archives: September 2013

Stefnir í 462 milljóna tap af rekstri Hörpu

Fréttablaðið flytur miklar og jákvæðar fréttir af rekstri Hörpu þriðjudaginn 24. september. Þannig niðurgreiddu skattgreiðendur taprekstur upp á um 584 milljónir árið 2012, en nú er útlit fyrir að tapið verði aðeins 462 milljónir á þessu ári, sem forstjórinn er vel sáttur við.

Það má jafnvel reikna sig til þess að raunverulegt tap af rekstri Hörpu sé enginn ef tekið er tillit til framlags eigenda (skattgreiðenda) upp á 160 milljónir í ár (og næstu tvö ár) og þess að af húsinu skulu greidd fasteignagjöld upp á 355 milljónir. Ef þetta tvennt er lagt saman er bara eiginlega ekkert tap af rekstri hússins!

Og auðvitað þarf ekki að geta þess að fastar leigutekjur upp á 190 milljónir koma að stærstum hluta frá skattgreiðendum og auðvitað allur byggingakostnaður hússins upp á um milljarð á ári og næstu 33 árin eða svo.

Vandamál Hörpu verða ekki leyst á forsendum hins opinbera. Nauðsynlegt er að leita einkaaðila sem vilja taka að sér reksturinn, skattgreiðendum að skaðlausu. Héðanaf er ólíklegt að endurheima megi byggingakostnaðinn. Sá myllusteinn mun hanga um háls skattgreiðenda næstu áratugina. En stöðvar verður tafarlaust fjáraustrið í reksturinn.

 

lesa áfram

Embættismenn í stað heilbrigðisstarfsmanna

Í Morgunblaðinu föstudaginn 20. september er forsíðufrétt um Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá því í apríl um breytingar á fjölda ríkisstarfsmanna í kjölfar efnahagshrunsins. Niðurstaðan kemur óneitanlega á óvart; ársverkum hjá ríkinu fjölgaði um 198 frá 2007 til 2011, en á sama tíma voru ríkisútgjöld skorin niður um (aðeins) 27 milljarða króna. Minna um fjárfestingar en meiru eytt í embættismannakerfið.

Ekki kemur á óvart að að ársverkum fækkaði um 345,7 hjá Landsspítalanum, en undrunarefni að þeim fjölgaði hjá umhverfisráðuneytinu um 107,3 á sama tíma. Fullkomlega galin forgangsröðun. Skýrsluna má finna í heild sinni hér.

 

lesa áfram

Matthew Elliott frá TaxPayers´ Alliance til Íslands

Fyrirlestur í Háskóla Íslands

Matthew Elliott annar stofnanda TaxPayers´ Alliance í Bretlandi (samtök skattgreiðenda) kemur til Íslands þann 19. september nk. og heldur m.a. fyrirlestur í Lögbergi, Háskóla Íslands, stofu 101, föstudaginn 20. september kl. 12 – 13. Sá fyrirlestur fjallar um viðspyrnuna sem nú er veitt gegn auknum útgjöldum hins opinbera og síhækkandi sköttum og hvernig samtökin hafa hrist upp í bresku stjórnmálum.

Frekari fundir eru fyrirhugaðir, en Matthew er Samtökum skattgreiðenda mikill fengur, eins og lesa má um hér að neðan.

Um Matthew Elliott

Matthew Elliott fæddist í Leeds á Englandi og ólst þar upp. Hann fluttist til London 1997 til að stunda nám við London Scool of Economics þaðan sem hann útskrifaðist með fyrstu einkunn í stjórnsýslu. Eftir útskrift vann hann fyrir ýmsa þingmenn bæði á Breska þinginu og Evrópuþinginu í Brussel. Hann hefur skrifað fjórar bækur í samstarfi við aðra um opinber útgjöld: The Bumper Book of Government Waste (Harriman House, 2006); The Bumper Book of Government Waste (Harriman House, 2008); The Great European Rip-Off ; How the Corrupt, Wasteful EU is Taking Control of Our Lives (Random House, 2009) og Fleeced! (Constable, 2009). Hann var kosinn Fellow of the Royal Society of Arts í júní 2007 og situr í ráðgjafanefnd fyrir The New Culture Forum.

Matthew kom á fót Samtökum Skattgreiðenda 2004 (TaxPayers’ Alliance). TPA eru óháð grasrótarsamtök sem berjast fyrir lægri sköttum og betri nýtingu skattpenings. TPA eru talin áhrifamesti þrýstihópur í Bretlandi og hefur, samkvæmt The Guardian, meira en 65,000 fylgismenn, 15 kynningarfulltrúa í fullu starfi og hafa náð að skapa sér mikinn sýnileika í fjölmiðlum. Matthew starfaði sem framkvæmdastjóri samtakanna frá upphafi þar til í júlí 2012.

Matthew stofnaði Big Brother Watch árið 2009. Samtökin berjast fyrir borgaralegum réttindum og persónufrelsi einstaklinga. BBW er nú leiðandi rödd í þeirri umræðu vegna rannsókna sinna á þessu sviði og skeleggrar baráttu. Hann var fenginn til að stýra baráttu samtakanna NO to AV gegn breytingum á kosningalöggjöfinni vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi 2011. Fóru leikar þannig að breytingunni var hafnað með afgerandi mun (67.9% gegn 32.1%). Hafði einn álitsgjafi á orði: „þessi kosningabarátta leggur grunn að nýju módeli fyrir framtíðina. Elliott leiddi hjá sér umræðu álitsgjafanna og keyrði kosningabaráttuna á rödd fólksins en ekki stórborgarelítunnar.“

Matthew er eftirsóttur sem pólitískur strategisti og hefur ferðast víða í slíkum erindagjörðum, m.a. til Hvíta Rússlands, Georgíu, Ghana og Serbíu. Hann er stjórnarmaður í Wess Digital auk þess að vera framkvæmdastjóri fyrir Business for Britain. En BfB eru samtök lobbyista sem vinna fyrir hönd breskra viðskiptajöfra sem vilja ná betri árangri í samningum sínum við Evrópusambandið.

BBC hefur kynnt Matthew Elliott sem „einn af áhrifamestu lobbyistum í Westminster“  og Tim Montgomerie hjá ConservativeHome telur Matthew „hugsanlega áhrifamesta pólitíska kosningastjórann sem fram hefur komið meðal núlifandi kynslóða í Bretlandi.“ Árið 2010 var hann á lista Total Politics sem einn af topp 25 pólitískum áhrifamönnum í Bretlandi.

lesa áfram

efst