Monthly Archives: February 2014

15.000 glasamottum dreift á veitingahús

Samtök skattgreiðenda hafa boðað til blaðamannafundar þar sem vakin verður athygli á átaki sem hefst þann 1. mars og í fréttatilkynningunni sagði m.a.:

„Um 15.000 glasamottum verður dreift á veitinga- og skemmtistaði í Reykjavík og nágrenni og á nokkrum stöðum úti á landi. Glasamotturnar vekja athygli á hárri skattlagningu hins opinbera á bjór. Þá verður þess einnig minnst að 25 ár eru liðin frá afnámi banns við sölu bjórs á Íslandi.

Með þessu átaki er ekki aðeins ætlunin að vekja athygli á þeirri staðreynd að ríkið tekur til sín að meðaltali 75% af smásöluverði bjórs sem seldur er í verslunum ÁTVR og í kringum 50% af smásöluverði á veitingahúsum. Markmiðið er líka að vekja athygli á tilraun hins opinbera til að stjórna neyslu og lífsstíl fólks með skattlagningu, regluverki, innflutnings- höftum o.s.frv. Stjórnmálamenn, embættismenn og sérfræðingar á vegum hins opinbera geta ekki metið hvað einstaklingnum er fyrir bestu hverju sinni og þaðan af síður hvað veitir honum ánægju og lífsfyllingu.

Samtök skattgreiðenda opna sérstaka Facebook síðu um herferðina, þá verður sérstök umfjöllun á heimsíðunni skattgreidendur.is og ný undirsíða þar sem hægt er að senda þingmönnum ósk um lækkun á áfengisgjaldi af bjór og minni afskiptum af neyslu og lífsstíl fólks; www.bjormottan.is. Á Twitter má fylgjast með fréttum af gangi mála undir @bjormottan og er fólk hvatt til að taka þátt í umræðu á netinu undir #bjormottan.”

Sjá einnig upplýsingar á síðu átaksins.

lesa áfram

Fyrirlestur Matthew Elliott á netinu

Föstudaginn 20. september 2013 hélt Matthew Elliott fyrirlestur í Lögbergi, Háskóla Íslands, um viðspyrnuna gegn auknum ríkisafskiptum og ríkisútgjöldum. Elliott er annar stofnanda bresku skattgreiðendasamtakanna, Taxpayers´ Alliance. Nánari upplýsingar hér neðar á síðunni um Elliott og bresku samtökin.

Samtök skattgreiðenda tóku upp og lét þýða fyrirlestur Elliott og hér má sjá hann í heild á YouTube:

Þá var Matthew Elliott líka í viðtali við Gunnlaug Snæ Gunnlaugsson á sjónvarpsstöðinni ÍNN og það viðtal má sjá hér:

lesa áfram

Bannað að byggja ódýrt og smátt

Um fátt er meira fjallað þessa dagana en skort á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega er aðkallandi þörf fyrir byggingu lítilla íbúða til útleigu eða sölu fyrir yngra fólk. En vandinn er sá að slíkar íbúðir er bannað að byggja. Byggingarreglugerðin beinlínis fyrirskrifar rýmisstærðir og kostnað við margvíslega frágang, sem lítið sem ekkert hefur með öryggi að gera, en hækkar verulega verð íbúðarhúsnæðis. Hér má sjá grein í Viðskiptablaðinu um það hvers vegna ekki er hægt að byggja IKEA íbúðir á Íslandi.

Á sama tíma hafa yfirvöld í Reykavík ákveðið að fyrst og fremst skuli byggt á dýrustu lóðum á Íslandi, í eldri hluta Reykjavíkur, og þar með hækkar íbúðaverðið enn frekar.

Engu er líkara en að kynslóð sem fyrir löngu hefur komið undir sig fótunum vilji leggja næstu kynslóðum fjötur um fót við að komast á sama stað í lífinu. Og í engu er tekið tillit til þess að yngri kynslóðin hefur ekki sömu gildi og sú eldri. Nú eignast fólk börn síðar á ævinni, eldhúsið er ekki lengur íverustaður fjölskyldunnar með sama hætti og áður var. Og yngra fólk veita varla hvað Ríkissjónvarpið er, þaðan af síður að það hangi í stofunni til að horfa á dagskrá þess.

Hvers vegna má ekki byggja upp ódýrar íbúðir fyrir þá sem þess óska. Þá sem vilja e.t.v. ekki eignast húsnæðið, en eru tilbúnir til að leigja 30 – 50 m2 miðsvæðis á Reykjavíkursvæðinu? Algild hönnun er einn þáttur sem veruleg áhrif hefur á kostnað bygginga. Ekki er það hreyfihömluðum eða fötluðum til bóta að draga úr möguleikum á að fólk geti leigt eða eignast ódýrt húsnæði, vegna kröfu um svokallaða algilda hönnun. Eðlilegast er að haldið verði í eldri kröfur hvað þetta varðar.

Og hvers vegna er það embættismanna að ákvarða með reglugerða að: „Innan íbúðar sem er 55 m2 að stærð eða stærri, skal minnst vera eitt svefnherbergi, ekki minna en 14 m2, auk stofu, ekki minni en 18 m2″? Eða þessar gullvægu ákvarðanir sem hópur embættismanna hefur örugglega legið yfir í lengri tíma: „Þegar eldhús íbúðar er sameinað stofu er heimilt að samnýta borðkrók.” og „Í íbúðum minni en 55 m2 þarf ekki að gera ráð fyrir rými fyrir uppþvottavél.” Og einnig: „Aðkoma að snyrtingu eða baðherbergi íbúðar skal ekki vera beint úr stofu, eldhúsi eða borðstofu, nema í íbúðum sem eru 55 m2 eða minni, né frá svefnherbergi, nema annað baðherbergi eða snyrting sé í íbúðinni.” Og jafnvel svalirnar á íbúðinni þinni eru mál embættismannanna: „Veggsvalir bygginga skulu vera a.m.k. 4,0 m2 að stærð og ekki mjórri en 1,6 m.” Lengi hefur líklega verið rifist um hvort þarna ætti að standa 1,6 eða 1,7 m. Byggingarreglugerðin verður seint kölluð skemmtilestur en ber hins vegar vitni um hversu forsjárhyggjan er komin út í fullkomnar öfgar.

Næsta skref hlýtur að vera að aðeins Mannvirkjastofnun verði heimilt að hanna íbúðir, svo smásmyglisleg er nýja byggingarreglugerðin.

Svo lengi sem íbúðarhúsnæði uppfyllir kröfur um öryggiskröfur verður ekki séð að það eigi að vera hins opinbera að ákvarða stærð eða gerð íbúðarhúsnæðis. Ekki verður séð að fyrirskrifaðar rýmisstærðir eða afskipti af fyrirkomulagi íbúða hafi nokkuð með neytendavernd eða öryggi að gera.

Þá hafa afskipti hins opinbera af lánasamningum, ábyrgðum o.fl. valdið því að erfiðara er en áður fyrir ungt fólk að fá lánað fyrir fyrstu fasteignakaupum. Og verði verðtrygging lána jafnvel bönnuð verður þeim gert enn erfiðara um vik enda ljóst að greiðslubyrðin þyngist þá verulega fyrstu (og oft erfiðustu) árin.

Það er eins og oftar þegar kemur að afskiptum hins opinbera af frjálsum samningum fólks, eða það sem ætlað er sem neytendavernd kemur beint í bakið á þeim sem vernda átti.

 

lesa áfram

Skattadagur Deloitte

Á skattadegi Deloitte, sem haldinn var föstudaginn 10. janúar, flutti Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, erindi um skattastefnu núverandi ríkisstjórnar, stjórnarsáttmálann, og breytingar sem þegar er búið að gera á skattalögum. Þá fjallaði hann einnig um hvað væri framundan. Hann fjallaði um þær smávægilegu skattalækkanir sem finna má í fjárlagafrumvarpinu 2014. Segja má að ríkisstjórnin geti helst státað sig af því að framlengja ekki tímabundna auðlegðarskattinn en hann er lagður á í síðasta sinn fyrir árið 2013.

Nefndi Bjarni lækkun tekjaskatts, tryggingargjalds og breytingar á veiðigjöldum. Hjálagt má finna glærur Völu Valtýsdóttur, sviðsstjóra skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, en hún fjallaði um skattabreytingarnar og áhrif þeirra á fólk og fyrirtæki. Í yfirliti hennar má sjá hvers konar hænuskref hafa verið tekin í þá veru að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki.  Tekjuskattur lækkar í fyrsta þrepi um  0,04%, um 0,48% í öðru þrepi og loks hækkar hann um 0,02% í þriðja og efsta þrepinu, þar sem jaðaráhrif eru mest fyrir.

Þá minntist Bjarni í erindi sínu á að breytingar hefðu verið gerðar á álagningu stimpilgjalda, en flokkur hans hefur margsinnis ályktað um niðurfellingu þess gjalds. Breytingarnar snúast ekki einu sinni um að minnka þann tekjustofn sem stimpilgjaldið er, heldur aðeins breyta því af hvaða stofni gjaldið er tekið. Stimpilgjaldið á hins vegar að skila því sama í ríkissjóð og áður.

Á vef Ríkisskattstjóra má einnig finna upplýsingar um staðgreiðslu skatta 2014 og svo má einnig sjá til samanburðar staðgreiðsluna 2013.

Áhugaverðari voru orð Bjarna um hugmyndir um fækkun þrepa í tekjuskatti, svo og breytingar á tollum og vörugjöldum og eitt þrep í virðisaukaskatti. Vonandi verða orð að gerðum, en fjárlögin 2014 gefa ekki neinar góðar vonar þar um.

lesa áfram

efst