Monthly Archives: August 2014

Regluverk má ekki hamla nýsköpun

Í frétt í Morgunblaðinu 1. ágúst sl. er fjallað um áhyggjur leigubílstjóra vegna þess sem þeir kalla „skutlsíður” á netinu. Þar mun vera að um að ræða einhvers konar síður þar sem einstaklingar bjóðast til, gegn gjaldi, að flytja fólk á milli staða.

Frétt Morgunblaðsins – nýtt frumvarp í smíðum

Ekki skal sagt til um það hér, hvort um sé að ræða löglega eða ólöglega starfsemi, en um er ræða svipaða þróun og átt hefur sér stað í útleigu herbergja og íbúða, til ferðamanna. Þetta er angi af jákvæðri alþjóðlegri þróun þar sem tæknin er að gera einstaklingum og litlum fyrirtækjum mögulegt að keppa við stórfyrirtæki og „gömlu” viðskiptamódelin.

Einstaklingar og fjölskyldur taka sig til og reyna að nýta betur fjárfestingu sína í farartækjum og húsnæði með því að leigja öðrum afnot, tímabundið, af eignum sínum. Og hvað er annað en gott um að það segja?

Með nútímatækni (netinu, tölvum og síðast en ekki síst, snjallsímum) hefur tekist að minnka stórlega kostnað við að koma á viðskiptasambandi milli einstaklinga og fyrirtækja um allan heim. Síður á borð við airbnb.com og uber.com gera fólki mögulegt að leigja húsnæði og komast á milli staða með ódýrari og einfaldari hætti en áður var. Og  það er mikilvægt að stjórnvöld hamli ekki þessari jákvæðu þróun.

Samgöngustofa segir nú nýtt frumvarp í smíðum sem taki á svokölluðum „skutlsíðum”. Vonandi er að á þeim sé „tekið” með raunverulega hagsmuni neytenda í huga, ekki hagsmunum þeirra sem fyrir eru á markaði eða þeirra sem vonast til að komast inn. Eða hvers vegna þarf regluverk að taka til skutlþjónustu hótela, bifreiðaverkstæða o.s.frv. að öðru leyti en því að krefjast þess að ökumaður sé með bílpróf og faratækið að fullu tryggt? Sama á við um mikið af þeirri þjónustu sem einstaklingar bjóða hvorum öðrum á netinu – regluverk þarf ekki til, aðeins almennar algildar reglur.

R Street, bandarísk hugveita, hefur sett upp 5 meginreglur sem styðjast þarf við þegar setja á starfsemi sem þessari regluverk. Í stuttu máli þá eru þessar meginreglur:

  1. Fara varlega í allt regluverk – stíga létt til jarðar
  2. Nota tryggingar til að stýra, frekar en lög og regluverk
  3. Minnka áherslu á leyfisveitingar
  4. Leyfa markaðnum sjálfum að leita jafnvægis
  5. Gæta hlutleysis gagnvart mismunandi viðskiptafyrirkomulagi

Athugun R Street má lesa í heild hér. Vonandi er að Samgöngustofa hafi reglur sem þessar í huga þegar nýtt frumvarp sem tekur til fólksflutninga er í smíðum og létti á þeim reglum sem í dag gilda þar um, neytendum til hagsbóta.

 

lesa áfram

Góður fyrirlestur Lawson

Fyrirlestur prófessor Robert Lawson um atvinnufrelsi mánudaginn 28. júlí var vel sóttur og aðeins fjallað um hann í kjölfarið. Þannig

Umfjöllun Viðskiptablaðsins

birti Viðskiptablaðið grein um fyrirlestur Lawson og Sigríður Andersen fjallaði um hann í pistli sínum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þessa umfjöllun má lesa með því að stækka myndir sem er að finna með þessum pistli.

Þá var fjallað um fyrirlesturinn heimasíðu RNH:

„Þau gögn, sem útvega má með víðtækum mælingum á atvinnufrelsi í 150 löndum og sambandi atvinnufrelsis við lífskjör og farsæld fólks í þessum löndum, styðja afdráttarlaust kenninguAdams Smiths: Auðlegð þjóðanna skapast við verkaskiptingu og frjáls viðskipti. Þegar menn keppa að eigin hag, vinna þeir um leið að almannahag, hvort sem þeir ætla sér það eða ekki. Þessu hélt bandaríski hagfræðiprófessorinn Robert Lawson, einn af höfundum árlegrar mælingar á atvinnufrelsi, index of economic freedom, fram í fyrirlestri á fjölmennum fundi RNH og Samtaka skattgreiðenda mánudaginn 28. júlí 2014. Tilefni fundarins var, að hundrað ár eru liðin, frá því að heimsstyrjöldin fyrri skall á 28. júlí 1914, en þá riðaði til falls það skipulag, sem Adam Smith hafði mælt fyrir og skilgreint, heimskapítalisminn, kerfi verkaskiptingar og frjálsra viðskipta. En þrátt fyrir að heimskapítalisminn veiktist verulega í heimsstyrjöldunum tveimur og í heimskreppunni, stóð hann þessi áföll af sér og styrktist verulega síðustu áratugi 20. aldar.

Lawson skýrði, hvernig vísitala atvinnufrelsis væri sett saman, og brá upp nokkrum línuritum úr nýjustu mælingu atvinnufrelsis, sem gerð verður opinber haustið 2014. Þar er hagkerfum heims árið 2011 skipt í fjóra hluta eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er þar. Lífskjör — eins og þau mælast í vergri landsframleiðslu á mann — eru að meðaltali langbest í frjálsasta hlutanum og langlökust í ófrjálsasta hlutanum. Hið sama er að segja um lífskjör fátækustu eða tekjulægstu 10%: Þau eru þrátt fyrir allt langskást í frjálsasta hlutanum. Lífslíkur eru líka lengstar í frjálsasta hlutanum og hagvöxtur örastur. Sagan jafnt og reynslan sýndu, að hér væri ekki aðeins um að ræða fylgni, heldur líka orsakasamband: Þegar þjóðir verða

Grein Sigríðar Andersen

frjálsar, komast þær í álnir og geta fyrir vikið útrýmt margvíslegu böli, sem stafar af skorti lífsgæðanna. Lawson kvað áhyggjuefni, að atvinnufrelsi á Íslandi hefði minnkað verulega. Árið 2004 var íslenska hagkerfið hið frjálsasta á Norðurlöndum, en árið 2011 mældist það hið ófrjálsasta. Lawson benti á, að öll gögn um mælingu ársins 2013 á atvinnufrelsi árið 2010 væru aðgengileg á heimasíðu verkefnisins og að öll gögn um mælingu ársins 2014 á atvinnufrelsi árið 2011 yrðu sett þangað í haust. Fyrirlestur Lawsons var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.”

Loks fjallaði stutt blogg Skafta Harðarsonar á Eyjunni um fyrirlestur Lawson og leggur aðeins út frá mælingum á atvinnufrelsi þjóð heimsins.

lesa áfram

efst