Á skattadegi Deloitte, sem haldinn var föstudaginn 10. janúar, flutti Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, erindi um skattastefnu núverandi ríkisstjórnar, stjórnarsáttmálann, og breytingar sem þegar er búið að gera á skattalögum. Þá fjallaði hann einnig um hvað væri framundan. Hann fjallaði um þær smávægilegu skattalækkanir sem finna má í fjárlagafrumvarpinu 2014. Segja má að ríkisstjórnin geti helst státað sig af því að framlengja ekki tímabundna auðlegðarskattinn en hann er lagður á í síðasta sinn fyrir árið 2013.

Nefndi Bjarni lækkun tekjaskatts, tryggingargjalds og breytingar á veiðigjöldum. Hjálagt má finna glærur Völu Valtýsdóttur, sviðsstjóra skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, en hún fjallaði um skattabreytingarnar og áhrif þeirra á fólk og fyrirtæki. Í yfirliti hennar má sjá hvers konar hænuskref hafa verið tekin í þá veru að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki.  Tekjuskattur lækkar í fyrsta þrepi um  0,04%, um 0,48% í öðru þrepi og loks hækkar hann um 0,02% í þriðja og efsta þrepinu, þar sem jaðaráhrif eru mest fyrir.

Þá minntist Bjarni í erindi sínu á að breytingar hefðu verið gerðar á álagningu stimpilgjalda, en flokkur hans hefur margsinnis ályktað um niðurfellingu þess gjalds. Breytingarnar snúast ekki einu sinni um að minnka þann tekjustofn sem stimpilgjaldið er, heldur aðeins breyta því af hvaða stofni gjaldið er tekið. Stimpilgjaldið á hins vegar að skila því sama í ríkissjóð og áður.

Á vef Ríkisskattstjóra má einnig finna upplýsingar um staðgreiðslu skatta 2014 og svo má einnig sjá til samanburðar staðgreiðsluna 2013.

Áhugaverðari voru orð Bjarna um hugmyndir um fækkun þrepa í tekjuskatti, svo og breytingar á tollum og vörugjöldum og eitt þrep í virðisaukaskatti. Vonandi verða orð að gerðum, en fjárlögin 2014 gefa ekki neinar góðar vonar þar um.