Í frétt í Morgunblaðinu 1. ágúst sl. er fjallað um áhyggjur leigubílstjóra vegna þess sem þeir kalla „skutlsíður” á netinu. Þar mun vera að um að ræða einhvers konar síður þar sem einstaklingar bjóðast til, gegn gjaldi, að flytja fólk á milli staða.

Frétt Morgunblaðsins – nýtt frumvarp í smíðum

Ekki skal sagt til um það hér, hvort um sé að ræða löglega eða ólöglega starfsemi, en um er ræða svipaða þróun og átt hefur sér stað í útleigu herbergja og íbúða, til ferðamanna. Þetta er angi af jákvæðri alþjóðlegri þróun þar sem tæknin er að gera einstaklingum og litlum fyrirtækjum mögulegt að keppa við stórfyrirtæki og „gömlu” viðskiptamódelin.

Einstaklingar og fjölskyldur taka sig til og reyna að nýta betur fjárfestingu sína í farartækjum og húsnæði með því að leigja öðrum afnot, tímabundið, af eignum sínum. Og hvað er annað en gott um að það segja?

Með nútímatækni (netinu, tölvum og síðast en ekki síst, snjallsímum) hefur tekist að minnka stórlega kostnað við að koma á viðskiptasambandi milli einstaklinga og fyrirtækja um allan heim. Síður á borð við airbnb.com og uber.com gera fólki mögulegt að leigja húsnæði og komast á milli staða með ódýrari og einfaldari hætti en áður var. Og  það er mikilvægt að stjórnvöld hamli ekki þessari jákvæðu þróun.

Samgöngustofa segir nú nýtt frumvarp í smíðum sem taki á svokölluðum „skutlsíðum”. Vonandi er að á þeim sé „tekið” með raunverulega hagsmuni neytenda í huga, ekki hagsmunum þeirra sem fyrir eru á markaði eða þeirra sem vonast til að komast inn. Eða hvers vegna þarf regluverk að taka til skutlþjónustu hótela, bifreiðaverkstæða o.s.frv. að öðru leyti en því að krefjast þess að ökumaður sé með bílpróf og faratækið að fullu tryggt? Sama á við um mikið af þeirri þjónustu sem einstaklingar bjóða hvorum öðrum á netinu – regluverk þarf ekki til, aðeins almennar algildar reglur.

R Street, bandarísk hugveita, hefur sett upp 5 meginreglur sem styðjast þarf við þegar setja á starfsemi sem þessari regluverk. Í stuttu máli þá eru þessar meginreglur:

  1. Fara varlega í allt regluverk – stíga létt til jarðar
  2. Nota tryggingar til að stýra, frekar en lög og regluverk
  3. Minnka áherslu á leyfisveitingar
  4. Leyfa markaðnum sjálfum að leita jafnvægis
  5. Gæta hlutleysis gagnvart mismunandi viðskiptafyrirkomulagi

Athugun R Street má lesa í heild hér. Vonandi er að Samgöngustofa hafi reglur sem þessar í huga þegar nýtt frumvarp sem tekur til fólksflutninga er í smíðum og létti á þeim reglum sem í dag gilda þar um, neytendum til hagsbóta.