Sigríður Á. Andersen og Birgir Ármannsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt. Breytingin tekur sérstaklega á birtingu álagningaskrár. Með þessu frumvarpi eru settar verulegar takmarkanir á birtingu skrárinnar og í frumvarpinu segir m.a.:

„Hverjum manni, átján ára eða eldri, skal veittur aðgangur að upplýsingum um allt að þrjá aðra gjaldendur úr hverri skattskrá. Skal ríkisskattstjóri halda skrá um þær óskir sem berast um aðgang samkvæmt þessari málsgrein, en honum er óheimilt að veita öðrum en skattrannsóknarstjóra aðgang að þeirri skrá. Skattrannsóknarstjóra er óheimilt að veita öðrum þær upplýsingar er hann fær samkvæmt þessari grein.
Óheimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta sem veittar eru skv. 3. mgr. án samþykkis hlutaðeigandi skattaðila. Ríkisskattstjóra, innheimtumönnum ríkissjóðs og ríkisendurskoðanda er óheimilt að veita persónugreinanlegar upplýsingar úr álagningarskrá og skattskrá, í heild eða hluta, umfram það sem skýr lagaákvæði heimila.”

Með þessu er ekki verið að stöðva að fullu aðgang almennings að álagningaskránni, en því settar verulegar skorður. Þannig verður ekki hægt að gera sér að féþúfu birtingu upplýsinga úr skattskránni með þeim ósmekklega hætti sem gert hefur verið um langt árabil.

Í greinargerð frumvarpsins segir einnig m.a.:

„Fyrir utan þau mannréttindi sem einstaklingum eru tryggð í stjórnarskrá, um friðhelgi einkalífs, hafa einstaklingar af því margvíslegan ama að upplýsingar um laun þeirra séu birt opinberlega. Umfjöllun í fjölmiðlum um kjör nafngreindra einstaklinga vegur ekki aðeins að einkalífi viðkomandi heldur einnig allrar fjölskyldu hans og kann t.d. að ganga gegn hagsmunum sem börnum eru sérstaklega tryggðir með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. áskilnað sáttmálans um lagavernd gegn gerræðislegum afskiptum af einkalífi fjölskyldu barns. Þá er sala á upplýsingum úr álagningarskrá til fyrirtækja, sem hefur viðgengist um árabil, til þess fallin að draga mjög úr samningsstöðu launamanna við viðsemjendur sína er þeir skipta um vinnu. “