Það virðist fátt sem ekki er hægt að réttlæta í nafni „byggðastefnu”. Ekki hefðu þó margir látið sér til hugar koma að niðurgreiddar utanlandsferðir teldust þar með. En nú hefur nefnd á vegum hins opinbera (ef marka má Fréttablaðið) fundið flugfélag sem er tilbúið til að fljúga milli Egilsstaða og Gatwick svo fremi að ríkið leggi félaginu til fé. Og þeirri hugmynd virðist vel tekið.

Fréttablaðið forsíða 22. sept. 2015

Fréttablaðið forsíða 22. sept. 2015

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar tekur undir þesssa hugmynd, rétt eins og aðrar hugmyndir sem veita ferðaþjónustunni sérstakar ívilnanir umfram aðrar atvinnugreinar.

Forsvarsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar átti sig ekki á því að sjálfsprottin atvinnugrein eins og ferðamannaiðnaðurinn á mikið að þakka takmörkuðum afskiptum ríkisins af greininni. Þessari atvinnugrein, eins og öðrum, vegnar best þegar almennt skilyrði eru góð s.s. lágir skattar, atvinnufrelsi og hófstillt regluverk. Að taka vel hugmyndum um að skekkja samkeppnisstöðu með sérstökum ívilnunum er auðvitað til þess fallið að grafa undan heilindum í málflutningi samtakanna.

En kannski má skoða þessa afstöðu í ljósi sjónarmiða sömu samtaka um lægri skatta á þjónustu þeirra og vörur (umfram aðrar greinar), viðhald ferðamannastaða á kostnað skattgreiðenda og ívilnana fyrir stórar bílaleigur svo einhvers sé getið.