Grein þessi birtist upphaflega í Morgunblaðinu en er hér endurbirt með leyfi höfundar.

Þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum eftir kosningar 2013 bíða mörg verkefni, stór og smá. Sum erfið og flókin, en önnur einföld. Mikilvægasta verkefnið er að koma hjólum atvinnulífsins af stað, örva fjárfestingu og blása almenningi bjartsýni í brjóst. En til að vel takist til verður að ganga hreint til verks og leiðrétta ranglæti sem viðgengst í samfélaginu.

Óréttlæti er víða og hægt er að nefna mörg dæmi. Við skulum fara yfir eitt þeirra, með dæmisögu.

Jafnaldrar

Gunnar og Sigurður eiga fátt sameiginlegt annað en vera fæddir árið 1955. Gunnar ákvað að fara í iðnskóla. Hann lauk sveinsprófi í rafvirkjun og hlaut síðar meistararéttindi. Sigurður valdi bóknámið. Eftir menntaskóla lagði hann stund á háskólanám og lauk BS-prófi í stjórnmálafræði. Gunnar stofnaði fyrirtæki en Sigurður starfaði í nokkur ár hjá ríkisstofnun en snéri sér síðan að stjórnmálum. Sigurð vantaði tvö ár í þrítugt þegar hann tók sæti á Alþingi.
Í þrjátíu ár hefur Gunnar rekið rafverktakafyrirtæki með nokkra menn í vinnu. Það hafa skipst á skin og skúrir í rekstrinum. Þegar vel hefur gengið hefur Gunnar lagt fé til hliðar – keypt verðbréf og þá ekki síst ríkisskuldabréf og fyrir nokkrum árum litla íbúð. Þá hefur hann greitt tilskilið lágmark í lífeyrissjóð. Hann á íbúðarhús sitt skuldlaust, fyrirtækið er skuldlítið og sparifé er í verðbréfum og á bundnum reikningum. Samkvæmt skattframtali námu eignirnar nær 200 milljónum króna. Vegna þessa þarf Gunnar að greiða 1,5 milljónir króna ásamt eiginkonu sinni í auðlegðarskatt. Þá greiðir Gunnar 20% fjármagnstekjuskatt.

Gunnar hefur velt því fyrir sér hvort ekki sé rétt að setjast í helgan stein þegar hann verður sextugur. Byrja að lifa lífinu, sinna áhugamálunum að ógleymdri fjölskyldunni. Draumurinn kann að vera lengra undan.

Síðustu ár hefur Gunnar fengið tilkynningu frá lífeyrissjóðnum um að lífeyrisréttindi hans hafi verið skert um fjórðung. Auðlegðarskatturinn og fjármagnstekjuskatturinn hafa gert það að verkum að stór hluti eignatekna hefur verið gerður upptækur. Gunnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi hreinlega ekki efni á því að njóta ævistarfsins á komandi árum, enda treystir hann því ekki að auðlegðarskatturinn sé tímabundinn, eins og lofað hefur verið, eða að fjármagnstekjuskatturinn lækki og miðist við raunávöxtun fjármuna.

Helsta eignin skattlaus

Sigurður hefur verið skynsamur í fjármálum í þau þrjátíu ár sem hann hefur setið á þingi. Þau hjón eiga ágætt einbýlishús, sumarhús fyrir austan fjall og skulda lítið. Þau eiga á annan tug milljóna í sparifé en greiða aðeins nokkra tugi þúsunda í fjármagnstekjuskatt vegna 200 þúsund króna frítekjumarks. Samkvæmt skattframtali eru eignir þeirra metnar á tæpar 100 milljónir. Sigurður og eiginkona hans greiða því ekki auðlegðarskatt. Hans helsta eign, eftir öll árin á þingi, – um 200 milljóna króna lífeyrisréttindi – er undanþegin auðlegðarskatti. Og ólíkt Gunnari hefur Sigurður ekki þurft að sætta sig við skert lífeyrisréttindi enda á ábyrgð ríkissjóðs.
Sigurður hefur eins og Gunnar stefnt að því að setjast í helgan stein skömmu eftir að hann nær sextugu.
Aðstæður Gunnars og Sigurðar eru því ólíkar. Það sem meira er; Gunnar sér ekki annað en að hann, starfsmenn hans og afkomendur verði – um ókomin ár – að greiða sérstakt álag í formi hærri skatta til að standa undir hundraða milljarða lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs.

Skilaboð til ungs fólks

Er nema von að Gunnar hafi ekki fagnað þegar elsta dóttirin tilkynnti að hún ætlaði að byggja upp eigið fyrirtæki strax að loknu prófi í rafmagnsverkfræði? Í huga Gunnars er slíkt fjárhagslegt glapræði. Hann benti dóttur sinni á að öll skynsamleg rök stæðu til þess að fá góða vinnu hjá hinu opinbera. Fá þokkaleg laun og lífeyrisréttindi með ábyrgð launagreiðenda.
Þessi litla dæmisaga dregur fram það ranglæti sem er fólgið í auðlegðarskattinum og þeirri misskiptingu sem er á milli þeirra sem eiga lífeyriseign í almennum lífeyrissjóðum og hafa lagt fé til hliðar með öðrum hætti og þeirra sem eru tryggir með góða raunávöxtun ríkistryggðrar lífeyriseignar. En hún dregur einnig annað fram, því verið er að senda ungu athafnasömu fólki skilaboð:
Ekki reyna að standa á eigin fótum. Slíkt sýnir lítil hyggindi. Veljið fremur öryggið hjá Stóra-Bróður.

Við sitjum því á tímasprengju

Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs nema um 400 milljörðum króna og eftir 2020 verður ríkissjóður að greiða tugi milljarða á hverju ári (fyrir utan iðgjöld) til að standa við skuldbindingar sínar. Engir aðrir en skattgreiðendur greiða, beint eða óbeint, í formi hærri skatta, dýrari og/eða minni þjónustu. Á sama tíma er ómeðvitað eða meðvitað verið að beina ungu fólki frá einkaframtakinu og yfir til hins opinbera. Allir vita hvernig þá fer.
Eitt mikilvægasta hlutverk nýrrar ríkisstjórnar er að leiðrétta mismunun í lífeyrisréttindum landsmanna en um leið afnema eignaupptökuskattinn sem kallaður er auðlegðarskattur í lagagreinum.
Við kjörborðið munu kjósendur gera kröfu til þess að ranglæti sé leiðrétt.