… segir stjórnarformaður Hörpunna, Pétur J. Eiríksson, í viðtali við Morgunblaðið 26. júní. Reyndar segir hann orðrétt um þá skelfilegu stöðu að þurfa að borga fasteignagjöld af húsinu: „Það er sorglegt ef skattkerfið á að vera þannig að ekki sé hægt að byggja upp fyrsta flokks aðstöðu eins og þessa í landinu.”.

Samtök skattgreiðenda taka undir með Pétri hvað það varðar að skattkerfið á ekki að fyrirbyggja eðlilegan rekstur heimila og fyrirtækja í landinu og ekki hamla hvata til verðmætasköpunar. En mikið er þetta hjáróma kvörtun frá stjórnarfomanni félags sem er niðurgreitt um tæpan miljarð af skattfé á hverju ári, og verður svo næstu 34 ár. Hversu mikið meira vill hann fá í meðgjöf með því sem hann kallar „sjálfbæran rekstur”. Reyndar hefur Pétur gefið orðinu sjálfbærni alveg nýja merkingu.

Á Vefþjóðviljanum má lesa kjarnyrta umfjöllun um þessa nýjustu kröfu forsvarsmanna Hörpunnar á hendur skattgreiðendum:

 

Föstudagur 22. júní 2012

Vefþjóðviljinn 174. árg. 16. árg.

“Frekjan í þeim sem létu reisa fyrir sig tugmilljarða króna lúxustónlistarhöll – og ekki máttu heyra minnst á að hægt yrði á ósköpunum rétt á meðan fjármálaáfall reið yfir – virðist ekki eiga sér nein takmörk.

Nú eru þeir bálreiðir yfir fasteignamatinu á höllinni. Þeir heimta höll fyrir tugþúsundir milljóna og ekkert má til spara og höllin verður að rísa á dýrasta byggingarlandi landsins, nokkra metra frá Lækjartorgi, og svo heimta þeir tíu milljarða afslátt af fasteignamati.

Í fréttum í gær sagði forsvarsmaður félagsins sem rekur höllina að úr því að fasteignagjöldin verða svo hátt hlutfall af tekjum hússins þá kæmu einungis þrjár lausnir til greina. Hverjar ætli þær hafi verið?

Að höllin fengi rekstrarstyrk til að mæta fasteignagjöldunum, að ríkið tæki reksturinn yfir, að lögum um fasteignagjöld yrði breytt.

Ekki dettur þeim í hug að reyna að auka tekjurnar. Það má auðvitað ekki láta gestina borga meira. Eða þá sem leigja salina. Og ekki má skera niður í rekstrinum.

Nei, ábyrgðin á höllinni má aldrei vera á þeim sem heimtuðu að hún yrði byggð.”