Grein eftir Sigurð Má Jónsson, blaðamann Morgunblaðsins. Birtist fyrst á mbl.is 19. júlí 2012.

“Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2011 hefur nú verið birt og hlýtur að vera vonbrigði fyrir þá sem virtust farnir að trúa því að mestu snillingar hagsögu Íslands stýrðu efnahagsmálunum í dag. Tekjujöfnuður ársins 2011 varð neikvæður um hvorki meira né minna en 89 milljarða króna en áætlanir gerðu ráð fyrir að hann yrði neikvæður um 46 milljarða og var því raunútkoman 43 milljörðum króna verri en gert var ráð fyrir í heildarfjárheimildum ársins. Ef við förum aftur í fjárlögin sjálf þá átti hallinn á rekstri ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum ársins 2011 að vera 36,4 milljarðar.

Þessi tekjuhalli sem nú birtist svo óvænt er um 18% af heildartekjum ársins og hvorki meira né minna en 5,5% af landsframleiðslu. Skyldi skipta máli að AGS sleppti tökum á ríkisstjórninni á síðasta ári? Í útskriftarræðunni (sem fjármálaráðherra skrifaði) í ágúst í fyrra sagði:

,,Samstarf Íslands og AGS  hefur vakið athygli fyrir árangur á meginsviðum. Stöðugleiki í hagkerfi náðist eftir „hinn fullkomna storm” en þannig lýsti AGS stöðunni á Íslandi í október 2008. Fjármálakerfi hefur verið reist að nýju, ríkisfjármál aðlöguð að gjörbreyttum aðstæðum og endunýjaður aðgangur ríkisins að alþjóðlegum mörkuðum var staðfestur í velheppnuðu skuldabréfaútboði í júní. Meginmarkmið efnahagsáætlunarinnar hafa náðst.”

,,Ríkisfjármálin aðlöguð að gerbreyttum aðstæðum”, sögðu menn kotrosknir en nú sést að engin innistæða var fyrir því. Þegar síðasta uppgjör er skoðað sést að gjöldin voru hvorki meira né minna en 49 milljörðum króna hærri. Skipti þá litlu að tekjurnar væru 6 milljörðum hærri. Eina huggunin er að þetta var verra árið á undan þegar tekjujöfnuðurinn var neikvæður um litla 123 milljarða króna! Á þessum tveimur árum var þannig tekjujöfnuður ríkissjóðs neikvæður um 212 milljarða króna. Frumjöfnuður síðasta árs er neikvæður um 43 milljarða króna en gert var ráð fyrir að hann yrði neikvæður um rúman 1 milljarð króna. Það er einfalt reikningsdæmi; reyndin var 43 sinnum hærri en áætlunin!

Enn er hruninu kennt um

En nú er okkur sagt að þessi frávik frá áætlunum skýrist að langstærstu leyti af óreglulegum liðum og einsskiptis kostnaði sem ekki var gert ráð fyrir og ,,…tengist að hluta uppgjöri við hrunið 2008.” En er verið að skrifa reikninga á hrunið – tæplega fjórum árum seinna. Hvenær ætlar núverandi ríkisstjórn að hafa þann manndóm að taka ábyrgð á eigin fjárlögum? Í tilkynningu með ríkisreikningi nú segir að mestu muni um gjaldfærslur vegna SpKef sparisjóðs upp á 20 milljarða króna. Þá námu niðurfærslur eignarhluta hjá Byggðastofnun um 7 milljörðum króna og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins um 5 milljörðum króna en þær skýrast af  afskriftum vegna tapreksturs þeirra undanfarin ár. Þá er gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga tæpum 5 milljörðum króna umfram áætlun og afskriftir skattkrafna um 5 milljarða króna.

Samtals er þetta 42 milljarðar af halla upp á 89 milljarða. Það óundirbúna skýrir þannig ekki helminginn af framúrkeyrslunni sem segir auðvitað að ríkisreksturinn er stjórnlaus. Ekkert hefur verið gert í raunverulegum niðurskurði eins og áður hefur verið vikið af hér. Reksturinn er rekin stjórnlaus áfram og næstu ríkisstjórn væntanlega ætlað að taka við gjaldþrota ríkissjóði. Er þetta efnahagssnillin sem verið er að hrósa sér yfir? Er hægt að fá sérfræðinga AGS aftur til Íslands, útskriftin virðist ekki hafa tekist.”

 

Sigurður Már Jónsson skrifaði bókina Icesave samningarnir: Afleikur aldarinnar? sem Almenna bókafélagið gaf út í lok síðasta árs. Bókin er spennandi lesning um eitt mesta deilumál síðari ára á Íslandi.