Fáir efast um að einhverjar reglur þurfi að setja um byggingar húsa, s.s. um lágmarks burðarþol, eldvarnir o.s.frv. Þetta er öðru fremur gert í gegnum byggingarreglugerð, sem er á ábyrgð Mannvirkjastofnunar, en stofnunin heyrir nú undir Umhverfisráðuneytið. Nú um áramótin tekur gildi ný byggingarreglugerð sem hljótt hefur farið nema innan þröngra faghópa. Ljóst er að með setningu nýju reglugerðarinnar mun byggingakostnaður hækka verulega. Samhliða því er frelsi neytenda til að velja sér húsnæði eftir eigin höfði hvað varðar fyrirkomulag og útlit stórlega skert.

En forstjóri Mannvirkjastofnunar, Björn Karlsson, sá ástæðu til að fagna þessar nýju byggingarreglugerð í grein í Fréttablaðinu 15. mars á þessu ári, en formaður Samtaka skattgreiðenda, svaraði Birni með grein í sama blaði þann 21. mars sl., sem lauk á þessu orðum:

„Byggingarreglugerðin hin nýja mun seinka endurreisn nýbyggingamarkaðarins og gera þeim erfiðara fyrir sem huga að fyrstu íbúðakaupum eða vilja stækka við sig. Engir gæta hagsmuna íbúðakaupenda. Ekkert heyrist frá verklýðsfélögunum, opinberum talsmönnum neytenda, Neytendastofu eða Neytendasamtökunum. Enda er þau hluti af kerfinu, ekki gagnrýnendur þess.”

Í framhaldi af þessum greinaskrifum skrifuðu Samtökin Mannvirkjastofnun og vildu fá að sjá hversu mætti búast við að kostnaður við nýbyggingar ykist við setningu reglugerðarinnar. Hér að neðan má sjá bæði bréf Samtakanna og svar Mannvirkjastofnunar. Í ljós kemur að stofnunin hefur enga tilraun gert til einföldustu útreikninga á þessu sviði. En slíkt dæmi hefur hins vegar framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Hannarr, Sigurður Ingólfsson,  komið með í grein í Morgunblaðinu 19. júlí sl. og birt var með leyfi höfundar hér á heimasíðu Samtakanna.

Loks vekur athygli að í bréfi Mannvirkjastofnunar er sagt að leitað hafi verið umsagnar Neytendasamtakanna. Þessu hafnar Jóhannes Gunnarsson í bréfi til Samtaka skattgreiðenda þann 28. ágúst sl. og segir:

„Neytendasamtökin tóku ekki þátt í samningu þessarar reglugerðar. Við könnumst heldur ekki við að hafa fengið hana til umsagnar.”

Lesið bréf Samtakanna og svar Mannvirkjastofnunar með því að smella á tenglana.