Sigríður Andersen, lögmaður, hefur mikið fjallað um skattamál í greinaskrifum sínum. Þessi grein, sem upphaflega birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2012, er gott innlegg í umræðuna um einfalt og gegnsætt skattkerfi svo og umfjöllun um skattahækkanir sem nú eru í bígerð á ferðaþjónustuna:

„Skattlagningu er ekki einvörðungu stillt í hóf með því að skatthlutföll séu lág, þótt það sé að sjálfsögðu nauðsynleg forsenda. Í hóflegri skattheimtu felst einnig að jafnræði sé með skattgreiðendum, þeir greiði sambærilega skatta af sambærilegum tekjum, neyslu eða starfsemi. Til að skattheimta teljist hófstillt þarf að lokum að gefa skattgreiðendum eðlilegt svigrúm til að laga sig að íþyngjandi breytingum. Stundum vegast á þessi tvö síðarnefndu sjónarmið um jafnræði og svigrúm. En þegar svigrúminu sleppir tekur jafnræðið við.

Nú virðast stjórnvöld vera að átta sig á því að misháir skattar eru ósanngjarnir. Veitingahús á hóteli innheimtir 7% virðisaukaskatt (vsk.) af ferðamönnum sem þar borða líkt og hótelið sjálft innheimtir í dag af gistingunni. Verslun á hótelinu sem nánast eingöngu selur ferðamönnum íslenskar lopapeysur og útskorna lunda þarf að leggja 25,5% vsk. ofan á vörurnar. Önnur verslun á sama stað sem selur sömu ferðamönnum bækur og blöð þarf hins vegar ekki að innheimta nema 7% vsk. ofan á sína sölu. Öll þessi fyrirtæki sinna ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti en með þeim er þó ekki jafnræði. Önnur dæmi má einnig nefna. Sá sem selur hljómdiska leggur 7% vsk. á sína verslun en sá sem selur mynddiska 25,5%.

Mikilvægt er að hafa í huga að jafnræði má ekki aðeins ná fram með því að hækka skatta á þá sem minnst greiða heldur – þingmenn, ekki hætta að lesa – einnig með því að lækka skattana á þá sem hæst greiða. Árið 2007 var 14% vsk. þrepið lagt niður og margt af því sem áður bar 14% vsk. fellt í 7% þrepið. Með því var ekki aðeins afnumið verulegt ójafnræði meðal skattgreiðenda í ákveðnum greinum, eftirminnilegar voru t.d. flóknar reglur um sölu veitinga og þjónustu á veitingahúsum, heldur var einfaldað til muna allt eftirlit með skattheimtunni. Þessi fækkun vsk. þrepanna árið 2007 var jákvætt skref sem slíkt þótt vissulega megi halda því fram að með breikkun bilsins á milli skattþrepanna sem eftir stóðu hafi ójafnræði aukist almennt.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar nú boðað að vsk. á gistingu hækki í 25,5%. Er um það vísað til þess að ósanngjarnt sé að þessi þáttur ferðaþjónustu beri ekki sama skatt og t.d. leiðsögn í rútu. Undir þetta sjónarmið ríkisstjórnarinnar má vissulega taka. En verða menn þá ekki að líta til allra annarra þátta ferðaþjónustunnar? Og af hverju að einskorða sig við ferðaþjónustuna? Stefnir ríkisstjórnin að frekari samræmingu virðisaukaskattsins? Það væri þá fagnaðarefni. Hins vegar, fyrir utan vankanta á tæknilegri útfærslu ríkisstjórnarinnar á þessari tilteknu skattahækkun, þá er það einfaldlega rangt að samræma allt á hinn versta veg. Það á að lækka hið almenna vsk. þrep úr 25,5% í t.d. 15% og hækka um leið 7% þrepið í það sama. Það er raunhæf tekjuöflun fyrir ríkissjóð og viðráðanleg skattbyrði sem hvetur ekki til undanskota. Í framhaldinu yrði það svo verðugt verkefni stjórnmálamanna að færa það skatthlutfall niður. Fátt kæmi ferðaþjónustunni betur. Og það sem mest er um vert er að jafnræði meðal allra skattgreiðenda verður ekki betur náð.”