Tag: atvinnufrelsi

Atvinnurekendur gegn atvinnufrelsi

Enn einu sinni er það að koma í ljós hversu skammsýnir atvinnurekendur eru þegar kemur að hagsmunum þeirra sjálfra. Vilhjálmur Árnason og fleiri þingmenn hafa lagt fram frumvarp til laga sem leggur niður einkasölu ÁTVR á áfengi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að heimilt verði að selja áfengi í t.d. matvöruverslunum með ákveðnum skilyrðum og stuðla þannig að auknu frelsi í verslun, betra aðgengi neytenda að vörunni, og ýmsum öðrum jákvæðum hliðarverkunum sem vel eru tíundaðir í greinargerð með frumvarpinu.

Borist hafa nokkrar umsagnir um frumvarpið og eins og búast má við þegar rætt er um áfengi mótmæla Landlæknir, Barnarverndarstofa, IOGT o.fl. þessari breytingu og þá á grundvelli aukins aðgengis sem allir fullyrða að muni auka neysluna. Rannsóknir sem slíkar fullyrðingar styðja eru þó ekki tíundaðar til stuðnings. Og aldrei er á því tæpt að áfengi er auðvitað flestum gleðigjafi, meðan öðrum verður hált á svellinu.

Það er sérkennilegra að umsögn Félags atvinnurekenda (áður FÍS) er einnig neikvæð og tekur aðeins mið af skammtímahagsmunum þröngs hóps innan þess félags sem flytur inn áfengi og líkar vel náðarfaðmur ríkisins í þessum efnum, enda gott að sitja að kjötkötlunum. En sér ekki meirihluti félagsmanna þá miklu hagsmuni sem fólgnir eru í að koma ríkinu úr þessari verslun sem annarri? Eða hvers vegna ekki aftur Viðtækjaverslun ríkisins? Þessi eru lokaorð umsagnarinnar:

„Félagið leggur því ekki til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt, heldur að málið verði tekið upp að nýju í heild og horft til mun fleiri þátta en þegar þetta frumvarp var samið. Þá er þess farið á leit að  sú endurskoðun verði unnin í samráði meðal annars við innflytjendur og framleiðendur áfengis, atvinnufyrirtæki sem eiga mikilvægra hagsmuna að gæta að ekki séu gerðar vanhugsaðar breytingar  á starfsumhverfi þeirra. Það er hins vegar ljóst að til staðar er ómarkvisst og gerræðislegt bann við áfengisauglýsingum sem vert er að nema úr gildi nú þegar.”

Dapurt að sjá atvinnurekendasamtök berjast gegn auknu atvinnufrelsi. Hvernig á að taka mark á kröfum slíkra samtaka um frelsi á öðrum sviðum marktækar? Í þessu máli eiga hagsmunir almennings, neytenda, að ganga fyrir, og um leið hagsmunir atvinnurekenda – frelsi leiðir til jákvæðrar niðurstöðu til lengri tíma litið. Að einhverjir tilteknir framleiðendur eða innflytjendur muni þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum skiptir hér engu máli.

Hér má lesa umsögn Samtaka skattgreiðenda um frumvarpið.

lesa áfram

Góður fyrirlestur Lawson

Fyrirlestur prófessor Robert Lawson um atvinnufrelsi mánudaginn 28. júlí var vel sóttur og aðeins fjallað um hann í kjölfarið. Þannig

Umfjöllun Viðskiptablaðsins

birti Viðskiptablaðið grein um fyrirlestur Lawson og Sigríður Andersen fjallaði um hann í pistli sínum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þessa umfjöllun má lesa með því að stækka myndir sem er að finna með þessum pistli.

Þá var fjallað um fyrirlesturinn heimasíðu RNH:

„Þau gögn, sem útvega má með víðtækum mælingum á atvinnufrelsi í 150 löndum og sambandi atvinnufrelsis við lífskjör og farsæld fólks í þessum löndum, styðja afdráttarlaust kenninguAdams Smiths: Auðlegð þjóðanna skapast við verkaskiptingu og frjáls viðskipti. Þegar menn keppa að eigin hag, vinna þeir um leið að almannahag, hvort sem þeir ætla sér það eða ekki. Þessu hélt bandaríski hagfræðiprófessorinn Robert Lawson, einn af höfundum árlegrar mælingar á atvinnufrelsi, index of economic freedom, fram í fyrirlestri á fjölmennum fundi RNH og Samtaka skattgreiðenda mánudaginn 28. júlí 2014. Tilefni fundarins var, að hundrað ár eru liðin, frá því að heimsstyrjöldin fyrri skall á 28. júlí 1914, en þá riðaði til falls það skipulag, sem Adam Smith hafði mælt fyrir og skilgreint, heimskapítalisminn, kerfi verkaskiptingar og frjálsra viðskipta. En þrátt fyrir að heimskapítalisminn veiktist verulega í heimsstyrjöldunum tveimur og í heimskreppunni, stóð hann þessi áföll af sér og styrktist verulega síðustu áratugi 20. aldar.

Lawson skýrði, hvernig vísitala atvinnufrelsis væri sett saman, og brá upp nokkrum línuritum úr nýjustu mælingu atvinnufrelsis, sem gerð verður opinber haustið 2014. Þar er hagkerfum heims árið 2011 skipt í fjóra hluta eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er þar. Lífskjör — eins og þau mælast í vergri landsframleiðslu á mann — eru að meðaltali langbest í frjálsasta hlutanum og langlökust í ófrjálsasta hlutanum. Hið sama er að segja um lífskjör fátækustu eða tekjulægstu 10%: Þau eru þrátt fyrir allt langskást í frjálsasta hlutanum. Lífslíkur eru líka lengstar í frjálsasta hlutanum og hagvöxtur örastur. Sagan jafnt og reynslan sýndu, að hér væri ekki aðeins um að ræða fylgni, heldur líka orsakasamband: Þegar þjóðir verða

Grein Sigríðar Andersen

frjálsar, komast þær í álnir og geta fyrir vikið útrýmt margvíslegu böli, sem stafar af skorti lífsgæðanna. Lawson kvað áhyggjuefni, að atvinnufrelsi á Íslandi hefði minnkað verulega. Árið 2004 var íslenska hagkerfið hið frjálsasta á Norðurlöndum, en árið 2011 mældist það hið ófrjálsasta. Lawson benti á, að öll gögn um mælingu ársins 2013 á atvinnufrelsi árið 2010 væru aðgengileg á heimasíðu verkefnisins og að öll gögn um mælingu ársins 2014 á atvinnufrelsi árið 2011 yrðu sett þangað í haust. Fyrirlestur Lawsons var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.”

Loks fjallaði stutt blogg Skafta Harðarsonar á Eyjunni um fyrirlestur Lawson og leggur aðeins út frá mælingum á atvinnufrelsi þjóð heimsins.

lesa áfram

Fyrirlestur: Lawson um atvinnufrelsi

Mánudagurinn 28. júlí 2014 er til merkis um mikinn áfanga í sögu mannkyns. Þá verða hundrað ár liðin frá því, að fyrri heimsstyrjöldin (sem þá var kallaður Norðurálfuófriðurinn mikli) skall á, 28. júlí 1914, þegar hin frjálslynda siðmenning Vesturlanda riðaði til falls og alræðissinnar, nasistar og kommúnistar, skiptu á milli sín Mið- og Austur-Evrópu. Öldin á undan hafði verið tímabil friðar, atvinnufrelsis, takmarkaðs ríkisvalds, örra framfara, traustra peninga og vonar í brjósti hundruð milljóna jarðarbúa um betri tíð.

Prófessor Robert Lawson, sem kennir hagfræði í Southern Methodist-háskólanum í Dallas í Texas, er einn af höfundum víðkunnrar rannsóknar á atvinnufrelsiEconomic Freedom of the World, sem kemur út árlega uppfærð með gögnum um atvinnulíf og frelsi í meira en 140 löndum. Mánudaginn 28. júlí ræðir hann, hvernig mæla á atvinnufrelsi og hvað má læra af þeirri mælingu, á fundi Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt (RNH) og Samtaka skattgreiðenda, sem haldinn verður á jarðhæð í Garðastræti 37 (í fundarsal Gamma). Hann fer ekki síst orðum um hina mannlegu vídd atvinnufrelsisins, svo sem bætta heilsu, aukið læsi og fjölgun tækifæra.

Fyrirlesturinn hefst kl. 16.30, en síðan verða umræður og á eftir því móttaka á staðnum. Þeir, sem vilja sækja málstofuna, eru vinsamlegast beðnir að láta af því vita í síðasta lagi á sunnudagskvöld í netfangið rnh@rnh.is eða með því að skrá sig á Facebook-síðu viðburðarins. Fyrirlesturinn er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

lesa áfram

top