Tag: auðlegðarskattur

Auðlindaskattur og auðlegðarskattur óskynsamlegir

Auðlindaskattur í sjávarútvegi er óheppilegur, ef setja á hann á til að tryggja skynsamlega nýtingu fiskistofna, því að það mun aldrei takast. Hagsmunaaðilar munu aldrei samþykkja hann. Horfur á samkomulagi við hagsmunaaðila væru miklu vænlegri, þegar aflaheimildum væri í upphafi úthlutað ókeypis í samræmi við aflareynslu. Og auðlindaskattur er líka óheppilegur, ef setja á hann á til að gera hugsanlegan fiskveiðiarð upptækan, því að hagsmunaaðilarnir skapa þennan arð, og hann myndi minnka við auðlindaskatt. Kerfi framseljanlegra og einstaklingsbundinna aflakvóta hvetti til fjárfestinga og nýsköpunar. Hins vegar er allt í lagi að leggja á veiðigjald til að standa undir kostnaði við stjórnun og eftirlit með fiskveiðum. Prófessor Corbett Grainger frá Háskólanum í Wisconsin-ríki kynnti þessar niðurstöður úr rannsóknum sínum á fjölmennri málstofu RNH og Samtaka skattgreiðenda 24. október 2014, þar sem Skafti Harðarson var fundarstjóri og dr. Birgir Þór Runólfsson umsegjandi.

Ragnar Árnason, prófessor í Háskóla Íslands, ræddi um mælingar á tekjudreifingu. Hann kvað þær ósjaldan svo ófullkomnar, að fráleitt væri að reisa kröfur um stórkostlegar skattabreytingar — til dæmis sérstakan skatt á stóreignamenn eða hátekjufólk — á þeim. Gini-stuðullinn, sem oft væri notaður, vegna þess að hann væri einfaldur í notkun, veitti svipaðar upplýsingar um tekjudreifingu og sú lýsing á hesti um hann, að hesturinn væri brúnn á litinn. Einn Gini-stuðull væri til fyrir margar ólíkar og misjafnar tekjudreifingar. Ragnar sýndi fram á, að Gini-stuðull fyrir tiltekið land myndi hækka, ef háskólanemum og ellilífeyrisþegar fjölgar hlutfallslega vegna aukinnar háskólamenntunar og lengri meðalaldurs, en hvort tveggja væri jafnan talið æskilegt. Einsársmælikvarðar eins og Gini-stuðullinn væru ófullkomnir, því að miða þyrfti við ævitekjur hvers manns, sem væri breytilegar, stundum lágar (á meðan hann væri námsmaður og lífeyrisþegi), en stundum háar (þegar hann væri á hátindi orku og aflagetu um miðjan aldur). Vísaði Ragnar til ritgerða um þetta í bókinni Tekjudreifingu og sköttum, sem nýútkomin er hjá Almenna bókafélaginu.

Hannes H. Gissurarson, prófessor í Háskóla Íslands, taldi ýmsar veilur vera í umtöluðu verki Thomasar Pikettys, Fjármagni á 21. öld. Tölur Pikettys um eignadreifingu hefðu sumar reynst rangar, en ef til vill væri rétt, að tölur um tekjudreifingu á Vesturlöndum sýndu, að úr henni hefði teygst upp á við, ríku fólki hefði fjölgað og það orðið ríkara. En tekjudreifing í heiminum í heild væri orðin jafnari. Skýringin á þessari þróun væri hnattvæðingin: Kínverskir og indverskir verkamenn veittu starfsbræðrum sínum harða samkeppni, en jafnframt hefði fólk með einstæða og ófjölfaldanlega hæfileika (afburðastjórnendur, kvikmyndastjörnur, íþróttahetjur, uppfinningamenn) eignast miklu stærri markað fyrir þjónustu sína og öðlast ofurtekjur. Ekkert væri heldur að ójafnri tekjudreifingu, væri hún tekjudreifing samkvæmt frjálsu vali. Það væri síðan ekki eins víst og Piketty héldi, að fjármagn ávaxtaðist ætíð hraðar en hagvöxtur. Fjármagn hlæðist ekki upp, heldur dreifðist með tímanum (eins og skáldsögur Balzacs, sem Piketty vitnaði óspart í, sýndu), og hagvöxtur gæti haldið áfram að vera ör, væri sköpunarmáttur kapítalismans nýttur.

Málstofan var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Vakti hún mikla athygli fjölmiðla. Viðskiptablaðið og Morgunblaðið birtu bæði fréttir um, að hún stæði fyrir dyrum, og Morgunblaðið birti frásögn af henni og viðtöl við frummælendur.

Glærur fyrirlesaranna má finna vef RNH, en þar birtist þessi frásögn af fundinum upphaflega.

lesa áfram

Skattadagur Deloitte

Á skattadegi Deloitte, sem haldinn var föstudaginn 10. janúar, flutti Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, erindi um skattastefnu núverandi ríkisstjórnar, stjórnarsáttmálann, og breytingar sem þegar er búið að gera á skattalögum. Þá fjallaði hann einnig um hvað væri framundan. Hann fjallaði um þær smávægilegu skattalækkanir sem finna má í fjárlagafrumvarpinu 2014. Segja má að ríkisstjórnin geti helst státað sig af því að framlengja ekki tímabundna auðlegðarskattinn en hann er lagður á í síðasta sinn fyrir árið 2013.

Nefndi Bjarni lækkun tekjaskatts, tryggingargjalds og breytingar á veiðigjöldum. Hjálagt má finna glærur Völu Valtýsdóttur, sviðsstjóra skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, en hún fjallaði um skattabreytingarnar og áhrif þeirra á fólk og fyrirtæki. Í yfirliti hennar má sjá hvers konar hænuskref hafa verið tekin í þá veru að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki.  Tekjuskattur lækkar í fyrsta þrepi um  0,04%, um 0,48% í öðru þrepi og loks hækkar hann um 0,02% í þriðja og efsta þrepinu, þar sem jaðaráhrif eru mest fyrir.

Þá minntist Bjarni í erindi sínu á að breytingar hefðu verið gerðar á álagningu stimpilgjalda, en flokkur hans hefur margsinnis ályktað um niðurfellingu þess gjalds. Breytingarnar snúast ekki einu sinni um að minnka þann tekjustofn sem stimpilgjaldið er, heldur aðeins breyta því af hvaða stofni gjaldið er tekið. Stimpilgjaldið á hins vegar að skila því sama í ríkissjóð og áður.

Á vef Ríkisskattstjóra má einnig finna upplýsingar um staðgreiðslu skatta 2014 og svo má einnig sjá til samanburðar staðgreiðsluna 2013.

Áhugaverðari voru orð Bjarna um hugmyndir um fækkun þrepa í tekjuskatti, svo og breytingar á tollum og vörugjöldum og eitt þrep í virðisaukaskatti. Vonandi verða orð að gerðum, en fjárlögin 2014 gefa ekki neinar góðar vonar þar um.

lesa áfram

Að stela frá komandi kynslóðum

Óli Björn Kárason skrifar pistla í Morgunblaðið á miðvikudögum sem margir hverjir hafa fjallað um skattamál. Hér má lesa einn þeirra, en allt of fáir eru til að vekja athygli á því fullkomna siðleysi sem ríkir í því að við eyðum framtíðar skatttekjum næstu kynslóða með látlausri skuldsetningu hins opinbera:

„Fátt er gleðilegra en fæðing barns. En það er skuggi yfir gleðinni.

Um leið og barn fæðist er hengdur á það þungur skuldabaggi sem að óbreyttu mun þyngjast eftir því sem barnið eldist. Við sem eldri erum höfum ákveðið að færa barninu 2,4 milljóna króna skuld í vöggugjöf vegna þess að við lifum um efni fram. Við höfum ekki treyst okkur til að taka til og neita okkur um ýmislegt sem við höfum ekki efni á. Okkur finnst þægilegra að senda reikninginn til komandi kynslóða. Þar sannast hið fornkveðna að börnunum stafar mest hætta af fordæmum hinna fullorðnu.

Óli Björn Kárason

Í óseðjandi hungri okkar og löngun til að byggja tónlistarhús, bora jarðgöng, viðhalda dýrri utanríkisþjónustu, rándýru stjórnkerfi, kollvarpa stjórnarskránni og dæla peningum í eitthvað sem kallast grænt hagkerfi, dugar ekki að skuldsetja komandi kynslóðir. Því er talið nauðsynlegt að seilast dýpra í vasa þeirra sem eldri eru og þá ekki síst þeirra sem lokið hafa góðu ævistarfi. Í leit að réttlætingu er skatturinn kallaður auðlegðarskattur, sem hefur yfir sér miklu jákvæðara yfirbragð en réttnefnið; eignaupptökuskattur.

Óréttlátur skattur

Frá því að sitjandi ríkisstjórn, sem kennir sig við norræna velferð, tók við völdum hafa verið gerðar yfir 100 breytingar á skattkerfinu. Skattar hækkaðir og nýir lagðir á. Réttlæti og sanngirni hefur ekki verið í för með ríkisstjórninni. Búið er að rústa skattkerfinu og innleiða einhvern ranglátasta skatt sem þekkist. Eitt fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að afnema eignaupptökuskattinn og í framhaldinu að einfalda allt skattkerfið. Flókið skattkerfi er ávísun á misrétti en einfalt kerfi er besta trygging fyrir meiri jöfnuði allra.

Auðlegðarskatturinn var innheimtur í fyrsta skipti árið 2010 vegna tekjuársins 2009. Þá skilaði skatturinn 3,8 milljörðum í ríkissjóð. Í fyrstu var almenningi talin trú um að skatturinn væri tímabundinn en nauðsynlegur vegna þrenginga í efnahag ríkisins. Líkt og oftast þegar skattar eru sagðir tímabundnir, eru þeir framlengdir og á stundum hækkaðir. Vinstristjórnin hefur ekki í hyggju að standa við fyrirheit um tímabundna skattheimtu heldur þvert á móti hafa skrúfurnar verið hertar svo um munar með álagningu viðbótarskatts á eignir. Samkvæmt álagningu þessa árs skilar eignaupptökuskatturinn um átta milljörðum króna í ríkissjóð og hefur því meira en tvöfaldast frá því hann var fyrst lagður á.

Eldra fólk og sjálfstæðir atvinnurekendur

Samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra standa liðlega 5.200 einstaklingar undir hinum svokallaða auðlegðarskatti. Þetta þýðir að meðaltali um 1,5 milljónir króna. Margir þeirra sem horfa á upptöku eigna sinna í formi beinnar skattheimtu, eru tekjulitlir eða jafnvel tekjulausir. Þeir eiga ekki annan kost en að stofna til skulda eða selja eignir til að standa skil á skattinum.

Svipað má segja um sjálfstæða atvinnurekandann, sem af dugnaði og áræði hefur byggt upp fyrirtæki. Stærsti hluti ævisparnaðarins er bundinn í fyrirtækinu. Þetta var fjármálaráðherra norrænu velferðarstjórnarinnar – skattmanni – fyllilega ljóst. Því var talið nauðsynlegt að endurmeta verðmæti fyrirtækja í þeim tilgangi að ná meiri fjármunum inn í að því er virðist botnlausan ríkiskassann. Sérstök viðbót við eignaupptökuskattinn var sögð sjálfsögð. Margir sjálfstæðir atvinnurekendur eiga ekki annan kost en að ganga á eigið fé til að greiða það sem krafist er. Eftir stendur veikara fyrirtæki og fátækari atvinnurekandi. Hver skyldi hagnast á því?

Eldri hjónin sem neyddust til að innleysa eignir eða stofna til skulda og sjálfstæði atvinnurekandinn sem varð nauðugur viljugur að ganga á eigið fé, til að standa undir álögðum sköttum, horfa upp á enn meira óréttlæti.

Þegar Alþingi samþykkti hina óréttlátu skattheimtu, bitu þingmenn höfuðið af skömminni með því að tryggja að eignir upp á hundruð milljóna væru undanþegnar skattinum. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þeir sem gert hafa þingmennsku að ævistarfi eiga sinn ævisparnað fyrst og fremst í formi mikilla lífeyrisréttinda sem ríkið ábyrgist. Þess vegna hafa lífeyrisréttindi ekki verið skattlögð en annar ævisparnaður er hægt og bítandi gerður upptækur.

…verra þeirra réttlæti

„Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti,“ sagði Jón Hreggviðsson. Varla er hægt að lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum betur. Í mörg ár hefur flestum verið ljóst það óréttlæti sem hefur viðgengist í lífeyrismálum landsmanna. Í stað þess að leiðrétta mismuninn ákváðu stjórnvöld í nafni velferðar að auka ranglætið enn frekar með eignaupptökuskattinum.

Skattheimtumaðurinn fylgist vel með. Hann mætir við vöggu hvítvoðungsins til að afhenda honum skuldabagga og truflar síðan rólegt ævikvöld gamalla hjóna með því að krefja þau um hluta þess sem þau hafa eignast á langri ævi. Þess á milli eltist skattmann við sjálfstæða atvinnurekandann til þess eins að veikja undirstöður atvinnulífsins.

Komandi kosningar til Alþingis snúast ekki aðeins um að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað heldur ekki síður að leiðrétta augljóst ranglæti.”

 

lesa áfram

Auðlegðarskattur- skattheimta eða eignaupptaka?

Grein eftir Hróbjart Jónatansson, hæstaréttarlögmann. Birtist upphaflega í Viðskiptablaðinu 8. desember 2011.

Samkvæmt gildandi skattalögum heimtir ríkið svonefndan auðlegðarskatt í 3 ár, frá 2009 til og með 2012 en í honum felst skylda til að greiða ríkissjóði 1,5 % af eignum einstaklinga yfir 75 milljónum króna en 100 milljónum þegar hjón eiga í hlut. Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að framlengja töku auðlegðarskattsins og hækka hann og því er tilefni til að velta fyrir sér eðli skattheimtu af þessu tagi og hvort hún samrýmist stjórnarskrá íslenska lýðveldisins um friðhelgi eignaréttar og jafnrétti. Hér skal ekki fjallað um efnahagsleg áhrif auðlegðarskatts, utan þess að nefna að löngu er sýnt fram á að skattheimta af þessu tagi leiðir til fjárflótta og hefur neikvæðar efnahagslegar afleiðingar til lengri tíma.

Það er viðurkennd grundvallarregla í lýðræðisþjóðfélagi sem byggir á stjórnarskrárbundnum mannréttindum að löggjafar- og framkvæmdavaldi ríkisins eru sett ákveðin mörk og skilyrði um löglega beitingu opinbers valds. Af henni leiðir að skattlagningarvald ríkisins, líkt og annað opinbert vald, afmarkast af samspili þeirra réttinda sem ríkið hefur til að stjórna með valdi, annars vegar, og þeirra réttinda sem þegnarnir hafa til þess að ráðstafa sér og sínum eignum, hins vegar.

Í 77.gr. stjórnarskrárinnar segir að skattamálum skuli skipa með lögum og ekki megi leggja skatt á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu til sem ráða skattskyldu. Hugtakið „skattur“ er þó ekki skilgreint í stjórnarskránni og kemur því ekki fram þar hvaða skilning stjórnarskrárgjafinn lagði í hugtakið þegar ákvæðið var sett. Segja má að skatthugtakið tengist að öllu jöfnu skyldubundum framlögum til hins opinbera sem stofnast vegna vinnu, erfða eða annarra tilvika þegar skattþegni áskotnast fjárhagsleg verðmæti af einhverju tagi. Í skatti felst því hlutdeild ríkisins í tekjum fólks hvaðan sem þær eru sprottnar, hvort heldur eru launa- eða fjármagnstekjur ellegar fyrir arf, happdrættisþátttöku, skaðabótaskyldan verknað svo dæmi séu nefnd. Í öllum þessum tilvikum heldur skattþegninn eftir meginhlutanum af þeirri eignaaukningu sem honum áskotnast. Skattar af bifreiðum og fasteignum grundvallast á tiltekinni þjónustu eða notkun á eignunum.

Auðlegðarskattur á Íslandi er frábrugðinn þeirri skattlagningu sem að framan er lýst, á þann hátt að hann grundvallast ekki á eignaaukningu sem skattþegninn fær í einu eða öðru formi, eða fyrir þjónustu eða notkun eignar, heldur miðast hann við eignirnar sem slíkar án tillits til arðs eða tekna. Þannig felur auðlegðarskatturinn í sér í raun eignaupptöku ríkisins í tilteknum mæli á hverju ári.  Í núverandi löggjöf er ríkinu gert kleift að taka til sín eignir fólks umfram lögbundið fríeignamark á tilteknum árafjölda. Er því eðlilegt að íhuga hvort að skattheimta af þessu tagi samrýmist stjórnarskrárbundinni eignavernd og jafnrétti.

Í 72. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að eignarétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta eign sína af hendi nema almenningsþörf krefji, lög mæli fyrir um það og fullt verði komi fyrir. Hvaða þýðingu hefur þetta ákvæði í þessu samhengi? Er auðlegðarskattur brot á ákvæðinu um friðhelgi eignaréttarins eða er hann eðlileg skattheimta sem á sér langa sögu? Í 65. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um jafnrétti í öllu tilliti milli fólks, karla og kvenna.

Eðli auðlegðarskattsins kemur skýrt í ljós ef skattprósentan er aukin úr 1,5% á ári í t.d. 25% svo dæmi sé tekið en þá tekur ríkið eignirnar til sín á 4 árum í stað lengri tíma. Í þessu samhengi fer ekkert á milli mála að eignaupptaka á sér í raun stað undir merkjum skattheimtu. Það er því enginn eðlismunur á því hvort að ríkið taki eignir á 4 árum eða 50 árum heldur aðeins stigsmunur á því hversu lengi ríkið er gera eignirnar upptækar.

Eignaskattar tilheyra fortíðinni víðast hvar í Evrópu. Árið 1994 lýsti þýski stjórnlagadómstóllinn  eignaskatt ólögmætan þar sem skattheimtan tók ekki tillit til tekna viðkomandi skattþegns og því fælist í skattinum ólögmæt eignaupptaka. Í framhaldinu var skatturinn aflagður þar í landi. Þar sem skatturinn er enn við lýði er hann jafnan tengdur tekjum viðkomandi, þ.e.a.s. eignaskatturinn takmarkast að hámarki við tiltekinn hundraðshluta launa viðkomandi.  Má sem dæmi nefna að á Spáni er í gildi tímabundinn eignaskattur til 2ja ára sem þó verður aldrei hærri en 60% af tekjum hvers árs. Þessi tenging við tekjur skattgreiðandans setur skattheimtuna í viðurkennt tekjusamhengi og er því síður metið sem eignaupptaka sem sé andstæð stjórnlögum.

Auðlegðarskatturinn á Íslandi tekur hins vegar ekkert tillit til tekna skattþegans  og er því af sama toga og t.d. eignaskattar sem kommúnistar settu á víða í Austur Evrópu, eftirstríðsáranna. Þá var aðferðin sú að hækka eignaskatta og hirða svo eignirnar af fólki þegar skattar fóru í vanskil. Auðlegðarskattur á slíkum forsendum er auðvitað ekkert annað en eitt form á eignaupptöku. Sambærilegt blasir við sumum Íslendingum s.s. þeim sem eiga eignir en hafa litlar tekjur. Taka má dæmi um aldraðan einstakling, sem ekki er lengur á vinnumarkaði, hann á e.t.v. verðmæta fasteign sem í núverandi árferði gefur ekki af sér tekjur en telst vera auðlegðarskattstofn upp á 150 milljónir króna. Ríkið krefst þess að fá 1,5-2% af verðmæti eignarinnar á hverju ári eða kr. 2.250.000-3.000.000. Ef viðkomandi einstaklingur á ekki laust fé til að greiða skattinn fer ríkið í innheimtuaðgerðir til að knýja greiðsluna fram með fyrirsjáanlegum afleiðingum, eignin verður seld á uppboði til að ríkið fái sitt og hann sviptur eigninni. Spyrja má hvort einhver munur sé þá á íslenskum sósíalisma árið 2011, annars vegar og austur evrópskum sósíalisma eftirstríðsáranna, hins vegar?

Það er augljóst að lítið virði er í stjórnarskrárákvæðinu um friðhelgi eignaréttarins ef auðlegðarskattur er talinn lögleg skattheimta, án nokkurs tillits til tekna viðkomandi einstaklings. Þá er eignaupptakan orðin leyfileg að hætti sósíalismans. Að því er jafnréttið varðar, þá er ljóst að með því að mismuna fólki eftir sambúðarformi, þá er höggvið nærri hinu stjórnarskrárbundna jafnrétti. Af hverju er frítekjumark einstaklinga í óvígðri sambúð hærra en fólks í hjónabandi?

Að mínu viti ríkir a.m.k. verulegur vafi um lögmæti auðlegðarskattsins eins og hann er settur fram og því nauðsynlegt að fá dómstóla til að skera úr því  hvar valdmörkin séu á milli réttmætrar og óréttmætrar eignaupptöku.

lesa áfram

top