Tag: bæjarstjóri

Fjármálareglur ríkisins?

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, spyr á Facebook síðu sinni:

„Ríkið hefur nú sett sveitarfélögum fjármálareglur. Það er hið besta mál. Á sama tíma (árið 2011) voru gjöld ríkisins 90 þúsund milljónum meiri en tekjurnar. Það er hið versta mál. Hver á að setja ríkinu fjármálareglur sem farið verður eftir?”

Augljósa svarið við þessari spurningu er: Stjórnarskráin. En í stjórnarskránni eru hvergi að finna neina varnagla við umsvifum og eyðslu ríkisins.

Og í tillögu stjórnlagaráðs, sem kjörið var af minnihluta Alþings, er enga varnagla að finna. Þvert á móti skuldbindur tillaga þess ríkið til margsvíslegra útláta en beinlínis bannar þjóðaratkvæðagreiðslur um skattamál:

„67. gr.
Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt  ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að  krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðrétt­arskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þess skal gætt að frum­varp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr.

Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um  form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímalengd til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra,  hverju megi til kosta við kynningu, hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum  Alþingis, svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu.”

Hvers vegna kjósendum er óheimilt að greiða atkvæði um skattamál er óskiljanlegt. Og af hverju ríkinu eru engin takmörk sett eða fjármálareglur er enn óskiljanlegra. Í tillögu stjórnlagaráðs er þannig kveðið á um sjálfbærni þegar kemur að auðlindum og náttúru, en ekkert um sjálfbærni í rekstri ríkisins. Sjálfbærni virðist aldrei eiga við þegar stjórnmálamenn ganga freklega á hagsmuni komandi kynslóða með því að eyða skatttekjum þeirra fyrirfram.

 

 

 

 

lesa áfram

Að skreyta sig með stolnum fjöðrum

Bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásgerður Halldórsdóttir, skrifar grein í Morgunblaðið í dag um eigið ágæti, annarra bæjarfulltrúa og bæjarstarfsmanna á Seltjarnarnesi. Hún segir í grein sinni: „Með samstilltu átaki bæjarstjórnar og starfsmanna Seltjarnarnesbæjar varð rekstur og afkoma árið 2011 mun betri en árið á undan. Reikningar bæjarins fyrir nýliðið ár gera ráð fyrir afgangi upp á 93 m. kr. en sambærileg tala fyrir árið 2010 var 1 m. kr.”

Sjálfshólið heldur síðan áfram í lengra máli, sem ekki er ástæða til að endurtaka hér. En í engu er getið þeirra sem stærstan þátt áttu í að bæta fjárhag bæjarins; skattgreiðenda. Bættur fjárhagur bæjarins grundvallast auðvitað á 7,3% hækkun útsvarsins sem samþykkt var í desember 2010. En þess er hvergi getið í umræddri grein. Tóku þeir ekki þátt í þessu samstillta átaki? Eða veit Ásgerður sem er að fæstir þeirra áttu von á skattahækkun frá þessum meirihluta.

Nú er Seltjarnarnesbær líklega ekki illa rekið sveitarfélag í samanburði við mörg önnur og lítt skuldsett. Yfirmenn þess telja sig e.t.v. hafa af einhverju að státa. En það er löngu kominn tími til að skattgreiðendur láta í sér heyra og bendi á að fjárhagsvandræði sveitarfélaga og ríkis er ekki tekjuvandamál. Það er útgjaldavandamál. Íslensk heimili og fyrirtæki hafa mörg hver orðið að skera niður kostnað til að standa undir eigin rekstri þegar tekjurnar hafa minnkað í kjölfar bankakreppunnar. En hið opinbera gerir hið gagnstæða; það hirðir stærri hluta tekna þessara sömu aðila og skammtar sér einfaldlega meiri tekjur. Stjórnmálamenn stæra sig síðan af bættum rekstri í kjölfarið. Það er sama hvort þeir heita Steingrímur J. eða Ásgerður. Þeir eiga ekki þakklæti skilið fyrir skattpíninguna.

Ætli rekstur heimila og fyrirtækja væri nokkuð vandamál ef þau ættu sér eilífa uppsprettu fjár úr annarra vösum?

lesa áfram

top