Tag: hallarekstur

Sannleikurinn um ríkisfjármálin

Grein þessi eftir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, birtist upphaflega í Morgunblaðinu 14. desember 2012.
Fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra ritar reglulega greinar um það sem hann telur vera glæsilegan árangur í ríkisfjármálum. Nýjasta greinin í þessari röð birtist í Fréttablaðinu í fyrradag (12. des. 2012). Þar er sem fyrr miklast af árangri liðinna ára og eina ferðina enn boðuð „tímamót í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs“.

Sem betur fer þurfa landsmenn ekki að búa við túlkun Steingríms Sigfússonar á hagtölum um ríkisreksturinn. Þessi gögn liggja fyrir í greinargóðu formi í útgáfum og á heimasíðu Hagstofu Íslands. Væntanlega endurspegla þessi gögn þann veruleika sem Steingrímur biður um að í heiðri sé hafður í grein sinni. Hins vegar bregður svo við að sú saga sem þessi gögn segja er ekki í góðu samræmi við túlkun Steingríms.

Veruleikinn

Allan stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar, frá 2009 og fram á þennan dag, hefur ríkissjóður verið rekinn með mjög miklum halla. Þessi ferill er rakinn í mynd 1 sem er meðfylgjandi. Þar kemur fram að fyrstu tvö stjórnarár ríkisstjórnarinnar, 2009 og 2010, var hallinn langt yfir 100 milljörðum hvort ár eða 8-9% af vergri landsframleiðslu (sbr. mynd 2). Öfugt við það sem Steingrímur gefur í skyn í línuritinu í grein sinni er það ekki svo að hallinn hafi minnkað á árinu 2010, fyrsta heila árinu í hans ráðherratíð. Þvert á móti hækkaði hann um 20 milljarða kr. eða um meira en 1% af vergri landsframleiðslu (VLF). Halli ríkissjóðs sem hlutfall af VLF óx sömuleiðis úr 8,3% í 9,4% (sbr. mynd 2).Frá árinu 2011 hefur hallinn vissulega farið lækkandi. Sú lækkun hefur hins vegar verið fjarska hægfara. Árið 2011 var hallinn á rekstri ríkissjóðs t.d. yfir 90 milljarðar kr. og næstum 6% af VLF (myndir 1 og 2). Jafnvel á yfirstandandi ári, fjórða árinu frá hruni, mælist hallinn fyrstu þrjá ársfjórðungana um 35 milljarðar kr. og stefnir í yfir 50 milljarða á árinu í heild eða um 3% af VLF.

Öfugt við það sem gefið er í skyn í grein Steingríms eru þessar hallatölur ríkissjóðs háar í samanburði við það sem tíðkast í öðrum Evrópuríkjum. Að meðaltali frá árinu 2009 til 2011 (eða áætlunar 2012) eru þær talsvert yfir meðallagi Evrópuríkjanna (OECD, Economic Outlook 2012). Það er heldur ekki rétt sem fullyrt er í grein Steingríms að „hvergi í okkar heimshluta þar sem ríkissjóðir hafi lent í vanda vegna efnahagskreppu [hafi] náðst viðlíka árangur síðastliðið ár eins og á Íslandi“. Samkvæmt hagtölum frá OECD (Economic Outlook 2012) mun t.d. afkoma ríkissjóðs Írlands batna mun meira frá 2011 til 2012 en ríkissjóðs Íslands. Allmörg önnur lönd eru talin munu ná „viðlíka“ árangri.

Leiktöld fjárlaga

Það er eftirtektarvert að frá árinu 2010 hafa fjárlög undantekningarlaust gert ráð fyrir miklu minni halla á rekstri ríkissjóðs en í raun hefur orðið. Þessu er lýst í mynd 1, þar sem halli á rekstri ríkissjóðs samkvæmt fjárlögunum er sýndur við hliðina á rauntölunum. Eins og sjá má er munurinn ærinn – hallinn er oft meiri en tvöföld áætlun fjárlaga – og skiptir tugum milljarða og nokkrum hundraðshlutum af VLF.Spurnin er hvað valdi. Nærtækt er að túlka þetta sem aðhaldsleysi í framkvæmd fjárlaga, sem er ekki í samræmi við þá mynd sem Steingrímur vil fá okkur til að trúa. Það er einnig hugsanlegt að þetta vanmat á hallanum sé gert viljandi til að blekkja löggjafann og almenna kjósendur. Hver sem ástæðan er má ljóst vera að svona mikil frávik eru stjórnarfarslega skaðleg og geta seint talist til fyrirmyndar í ríkisrekstri.

Hættulegur hallarekstur

Það sem af er stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar, þ.e. frá árinu 2009 og út þriðja ársfjórðung 2012, nemur samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs mældur á verðlagi hvers árs um 400 milljörðum króna (Hagstofan, Þjóðhagsreikningar 2012:3 og 2012:15). Þessi uppsafnaði halli hefur eðli málsins samkvæmt bæst við mjög alvarlega skuldastöðu ríkissjóðs. Þróun hinnar hreinu skuldastöðu sem hlutfalls af VLF samkvæmt fyrrgreindum gögnum Hagstofunnar er nánar lýst í mynd 3. Eins og sjá má hefur skuldastaðan vaxið hröðum skrefum og nam í árslok 2011 yfir 55% af VLF. Vegna hallarekstrar ríkissjóðs á árinu 2012 hafa þessar skuldir enn aukist. Rétt er að taka það skýrt fram að í þessum tölum vantar ýmsar þekktar skuldbindingar ríkissjóðs, m.a. vegna lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ábyrgða á sjóðum og stofnunum, t.a.m. Íbúðalánasjóðs.Þessi mikla hækkun í hreinni skuldastöðu ríkissjóðs er mikið áhyggjuefni af a.m.k. þremur ástæðum.

Í fyrsta lagi fylgir henni vaxtakostnaður upp á tugi milljarða sem rýrir getu ríkissjóðs til að sinna mikilvægum málefnum samfélagsins, þar með töldum velferðarmálum í framtíðinni.

Í öðru lagi bætast hinar auknu ríkisskuldir ofan á mjög erfiða skuldastöðu þjóðarinnar í heild. Þær veikja lánstraust þjóðarinnar út á við og hækka þar með vaxtakröfuna á Ísland erlendis. Skuldasöfnun íslenska ríkisins er að áliti sérfræðinga ein af helstu ástæðunum fyrir því að alþjóðleg matsfyrirtæki hafa ekki fengist til að hækka mat sitt á lánshæfi Íslands og skuldatryggingarálagið á ríkissjóð erlendis hefur sorglega lítið lækkað.

Í þriðja lagi er þessi mikla skuldasöfnun ríkisins bein ógn við getu þjóðarinnar til að komast með sæmilega heilli há út úr þeirri fjárhagskreppu sem hún hefur verið í. Áætlun sú um endurreisn íslensks efnahags sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórnin komu sér saman um í nóvember 2008 byggðist á tveimur meginstoðum; (i) myndarlegum hagvexti og (ii) aðhaldi í ríkisrekstri og hallalausum ríkisrekstri innan fárra ára. Þetta var í áætluninni taldið forsenda fyrir því að Ísland kæmist út úr skuldakreppunni. Hagvöxtur hefur því miður reynst mun hægari en að var stefnt í þessari áætlun. Eins og rakið hefur verið hefur einnig verulega skort á að markmiðunum í ríkisfjármálum hafi verið náð.

Lokaorð

Hinn mikli hallarekstur ríkissjóðs undanfarin fjögur ár felur í sér verulega ógn við efnahagslega velferð íslensku þjóðarinnar á komandi árum. Framvinda frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2013 á Alþingi og reynslan af fjárlögum undanfarandi ár bendir því miður ekki til þess að nú séu að verða þau tímamót í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs sem Steingrímur Sigfússon hefur kynnt. Þvert á móti bendir allt til þess að þessi síðustu fjárlög núverandi ríkisstjórnar muni skerða enn frekar það svigrúm sem þjóðin hefur til að losa sig úr skuldafjötrum og skapa hér velferð á varanlegum grunni.

Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

lesa áfram

Skuldir ríkisins á rauðu ljósi

Sigurður Már Jónsson, blaðamaður, skrifaði þessa grein á mbl.is þann 22. október sl. Hann er ekki einn um það að hafa áhyggjur af skuldsetningu ríkis og sveitarfélaga, en víkur hér einnig að umræðu um stjórnarskrá. En í tillögum stjórnlagaráðs er ríkinu engin takmörk sett í hallarekstri og skuldsetningu en margar greinar sem skuldbinda ríkið um stórkostlega útgjöld. En látum Sigurð tala:

„Þeir finnast sem töldu það verðskulda svo sem eina spurningu í kosningu um stjórnarskrá að víkja að rekstri ríkissjóðs. Þá hugsanlega með það í huga að vernda almenning fyrir miskunnarlausri skattaáþján samfara gengdarlausri skuldasöfnun og hallarekstri hins opinbera. Nokkuð sem við sjáum glögglega eiga sér stað í dag. Engum blöðum er um það að fletta að mesta áhyggjuefnið er hvernig skuldir hafa hlaðist upp hjá ríkssjóði samhliða umtalsverðum skattahækkunum. Þegar síðasta áfall dundi yfir kom það okkur til góða að ríkissjóður var hallalaus. Nú getur hann ekki þolað nein áföll. Því miður er það svo að einkaskuldir hafa breyst í opinberar skuldir þrátt fyrir fyrirheit um annað.

 

Sigurður Már Jónsson

Margir stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafa undanfarið haldið því fram að kreppan sem hófst 2008 sé liðin hjá. Þeir eru hins vegar fjölmargir sem halda því fram að bólan hafi í raun ekki sprungið, heldur hafi hún aðeins færst til. Þetta hafi gerst með hækkandi skuldsetningu ríkja samhliða björgun banka. Ísland í dag er skýrt dæmi um þetta. Margt í skuldastöðu hins opinbera hlýtur að vekja áhyggjur.

Lánshæfismatsfyrirtækin með viðvaranir

Fyrir skömmu upplýstist að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs mun lækka í bókum lánshæfismatsfyrirtækisins Standard & Poor´s (S&P) og fara niður í spákaupmennskuflokk ef skuldir hins opinbera aukast. Að mati S&P gæti það gerst í kjölfar óhagstæðrar niðurstöðu Icesave málaferlanna eða ef kostnaður vegna endurreisnar fjármálakerfisins þ.m.t. Íbúðalánasjóðs fari úr böndunum, en S&P telur ljóst að ríkið þurfi að setja aukið fé inn í Íbúðarlánasjóð sem þegar er búin að fá 30 milljarða framlag frá ríkissjóði. Þá hefur S&P einnig áhyggjur af veikingu krónunnar í kjölfar haftaafléttingar en slíkt myndi hindra efnahagsbatann, stöðva vöxt innlendrar eftirspurnar og verða til þess að vanskil myndu aukast í bönkunum. Þetta er í samræmi við álit annarra matsfyrirtækja.

Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs hefur um skeið verið á stöðugum horfum, hjá bæði S&P og Fitch Ratings. Moody´s er eina matsfyrirtækið sem er með lánshæfismat ríkissjóðs á neikvæðum horfum, en lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs hjá fyrirtækinu fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri og erlendri mynt eru Baa3 og P-3 fyrir skammtímaskuldbindingar. Allt hefur þetta áhrif til þess að ríkissjóður sæki ekki svo glatt lánsfé á skaplegum kjörum.

Ólíklegt að skuldir verði greiddar niður

Ekkert bendir til þess að ríkissjóður geti farið að greiða niður skuldir á næstunni eins og einstaka greiningaraðilar hafa verið að gæla við. Ekki nema þá með sölu á eignum en ekkert hefur verið upplýst um hvernig því verður háttað. Pólitísk stemmning fyrir slíku virðist ekki mikil.

Ein af hverjum sex krónum sem fóru úr ríkiskassanum á fyrri hluta ársins voru notuð til að þjónusta lán. Því miður virðist ríkissjóður vera að festast í eftirhrunsstöðu sem felur í sér að stöðugt hallar undan fæti. Þó að skuldir margra ríkja séu meiri en skuldir Íslands þá skapar gjaldmiðillinn og uppgjör bankahrunsins mikla óvissu sem mun hafa áhrif á greiðslugetu  ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðlum.

Vandanum vísað á næstu ríkisstjórn

Gert er ráð fyrir að verulegur halli verði á ríkissjóði á árinu 2012, eða um 21 milljarðar króna og handbært fé frá rekstri verði neikvætt um 42 milljarða króna. Stefnt var að því samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 að frumjöfnuður ársins verði jákvæður, sem er mikilvægt skref í átt til sjálfbærra ríkisfjármála, þótt frumjöfnuðurinn dugi ekki enn fyrir nettó fjármagnsgjöldum eins og greiningardeild Arion banka benti á nýlega. Kosningafjárlög eru framundan og ekki verður séð að ríkisstjórnin ætli að hefja aðlögun útgjalda að tekjum. Líklega er hugmyndin sú að láta næstu ríkisstjórn glíma við slíkt. Það þarf ekki að taka fram hve miklu skiptir að safna afgangi af ríkisrekstrinum sem fyrst og greiða niður skuldir; annars er hætta á að vaxtagreiðslurnar haldi áfram vaxa, éti upp stóran hluta ríkisútgjaldanna og þau verði á endanum ósjálfbær. “

lesa áfram

Enn hækkar reikningurinn fyrir Hörpuna

Nú kemur fram í fréttum að búist er við hallarekstur á Hörpunni upp á 405 miljónir króna. Sjá frétt á vísir.is hér að neðan. Bjóst einhver við öðrum? Í fréttinni kemur jafnframt fram að hallinn verður ekki rakinn, nema að hluta, til fasteignagjalda af húsinu. Gjalda sem virtust koma flatt upp á rekstraraðila hússins. Þannig áttu skattgreiðendur ekki aðeins að greiða niður rekstur hússins um tæpan milljarð á ári, heldur einnig gefa eftir eðlilega skatta af húsinu. Skatta sem allir samkeppnisaðilar þess þurfa að greiða.

 

 

 

lesa áfram

Vörn velferðarkerfsins er uppstokkun í ríkisrekstri

Grein þessi eftir Óla Björn Kárason birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. júlí 2012, og má einnig finna á vef Óla www.t24.is:

Í hugum margra stjórnmálamanna er hægt að sinna verkefnum og leysa flest vandamál með því að auka framlög úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Rökin eru sótt í kistu fræðimanna sem mæla velferð þjóðfélaga út frá því hversu stórum hluta landsframleiðslu er varið af hinu opinbera í heilbrigðis- og menntakerfið, í eftirlitsstofnanir og umhverfisvernd, í opinbera stjórnsýslu eða aðra samneyslu. Því stærri hluti sem rennur í gegnum hið opinbera því meiri er velferðin, samkvæmt hugmyndafræði þessara fræðimanna.

Stjórnmálamenn sem hafa tekið ástfóstri við hugmyndirnar hafa ekki sérstakar áhyggjur af því hvernig opinberum fjármunum er varið enda stendur áhugi þeirra til þess að auka útgjöld en ekki draga úr þeim. Kannski er það þess vegna sem þeir sjá ekkert óeðlilegt við að afgreiða fjáraukalög sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Á síðasta ári nam halli á ríkissjóði 89,4 milljörðum króna eða liðlega 52 milljörðum króna hærri fjárhæð en samþykkt fjárlög gerðu ráð fyrir. Liðlega 10 mánuðir voru liðnir af árinu þegar Alþingi afgreiddi fjáraukalög fyrir árið 2011. Þá var reiknað með að hallinn yrði „aðeins” 46,4 milljarðar króna. Aðeins nokkrum vikum fyrir lok ársins var fjármálastjórn ríkisins ekki betri en svo að halli ríkissjóðs var vanmetinn um liðlega 42 milljarða króna.

Fjármálaráðherra lætur eins og ekkert sé eðlilegra en að afgreiða lánsfjárlög vísvitandi með tugmilljarða skekkju. Í viðtali við fréttastofu ríkisins sagði ráðherrann að það hafi verið „samdóma álit manna að setja ekki inn ákveðna upphæð“ þar sem ekki hafi verið vitað hversu hár reikningurinn vegna SpKef yrði. Skattgreiðendur hafa ríka ástæðu til að hafa áhyggjur af fjármálastjórn ríkisins, þegar fjármálaráðherra telur réttlætanlegt að samþykkja fjáraukalög með þeirri vissu að þau séu röng. Hvað kemur í veg fyrir að slíkur ráðherra leggi fram og berjist fyrir samþykkt fjárlagafrumvarps sem byggir á röngum forsendum, feluleik og vanáætlunum, ekki síst á kosningaári?

Reikningur framtíðarinnar

Það er óskiljanlegt hvernig fjármálaráðherra treystir sér til þess að fullyrða að aukinn vaxtakostnaður samfara hækkandi skuldum ríkissjóðs hafi ekki áhrif á fjárlög. Engum fjármálaráðherra hefur áður komið til hugar að halda slíku fram. Á liðnu ári námu lántökur ríkissjóðs nær 160 milljörðum króna umfram afborganir og þar af voru rúmlega 84 milljarðar erlend lán. Ríkisstjórninni hefur því ekki tekist að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs né koma í veg fyrir hækkandi vaxtakostnað á komandi árum (þó fjármagnskostnaði ríkisins sé haldið niðri með gjaldeyrishöftum). Og gatið hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins heldur áfram að stækka. Hækkandi lífeyrisskuldbindingar, aukin skuldasöfnun og hærri vaxtakostnaður, eru ekki annað en reikningur til framtíðar. Sá reikningur verður ekki greiddur nema með hærri sköttum og/eða niðurskurði í opinberri þjónustu.

Gríðarlegur hallarekstur ríkissjóðs eru alvarleg tíðindi fyrir komandi kynslóðir, líkt og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur réttilega haldið fram. Hann hefur bent á að umsvifum ríkisins sé haldið uppi með hallarekstri og það sé gríðarlegt ábyrgðarleysi að bregðast ekki við með því að skera niður í rekstri ríkisins. Þessi ummæli hafa vakið hörð viðbrögð hjá varðmönnum ríkisstjórnarinnar og talsmönnum þess að velferð skuli mæld á stiku ríkisútgjalda sem hlutfall af landsframleiðslu. Slíkir menn vilja ekki horfast í augu við undirliggjandi vanda. Þeir gleðjast miklu fremur yfir því að skattbyrði þeirra sem lægri hafa launin hafi minnkað, – engu skiptir þó bagginn hafi orðið léttari vegna lækkandi launa. Það skiptir ekki máli þar sem skattbyrði hinna hærri launuðu hefur aukist sem þó hefur skilað ríkissjóði lægri skatttekjum. Velferðin er einnig mæld í auknum jöfnuði, þar sem allir eru verr settir en áður.

Fátt kemur í veg fyrir það að ríkisstjórnarflokkarnir afgreiði fjárlög fyrir komandi ár með óskhyggju að leiðarljósi, sjálfsblekkingum og villandi upplýsingum. Þingmenn og ráðherrar sem sjá ekkert athugavert við að samþykkja fjáraukalög, sem þeir vita að eru röng, munu aldrei standast þá freistingu að berja í gegn falleg kosningafjárlög sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum.

Stöðva verður blæðinguna

Að loknum kosningum mun ný ríkisstjórn taka við völdum og hennar bíða mörg og erfið verkefni. Koma verður böndum á ríkisfjármálin og stöðva blæðinguna. Þar eru tvær leiðir. Annars vegar að auka tekjurnar með því að örva atvinnulífið – hleypa nýju súrefni inn í fyrirtækin með lægri sköttum, afnámi gjaldeyrishafta og einfaldara regluverki. Og hins vegar með því að skera niður í rekstri ríkisins samhliða því að endurskipuleggja reksturinn frá grunni.

Stjórnmálamenn hafa axlað þá ábyrgð að skilgreina hlutverk ríkisins á hverjum tíma og marka því verkefni. Þó að of djúpt sé tekið í árinni að halda því fram að þeir hafi ekki staðið undir ábyrgðinni, þar sem vel flestir stjórnmálaflokkar hafa með einum eða öðrum hætti ákveðna stefnu, er engu að síður ljóst að þeir hafa í mörgu litið framhjá stefnunni sem haldið er að kjósendum. Þetta á ekki síst við um þá sem hafa barist gegn auknum umsvifum hins opinbera. Þeir hafa með samningum þurft að gefa eftir í stefnumálum sínum í samstarfi við aðra flokka. Auk þess eru talsmenn takmarkaðra ríkisafskipta oft veikir fyrir þegar kemur að úthlutun fjármuna til kjördæma þeirra eða til eigin hugðarefna.

Vörn fyrir velferðarkerfið

Óhætt er að fullyrða að almenn samstaða sé um það hér á landi að  ríkið haldi ekki aðeins uppi lögum og reglu og tryggi varnir landsins, heldur tryggi einnig að börn og unglingar hljóti almenna góða menntun, sjúklingum sé veitt góð aðhlynning og síðast en ekki síst að þeim sem minna mega sín sé hjálpað til sjálfshjálpar, tryggi að þeir sem ekki geta, hafi til hnífs og skeiðar með mannlegri reisn.

Ágreiningurinn snýr fremur að því hvernig þessum verkefnum er best sinnt. Útgjaldasinnar mega ekki til þess hugsa að róttæk uppstokkun verði gerð á skipulagi ríkisins. Allt tal um hagræðingu og uppskurð ríkisrekstrar er eitur í beinum útgjaldasinna. Þess vegna er farið af hörku í formann Sjálfstæðisflokksins.

Það væri hins vegar fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins að benda ekki á að í óefni stefnir í fjárhag ríkisins. Verði haldið áfram á sömu braut mun velferðarkerfið stöðvast af sjálfu sér. Uppstokkun í ríkisrekstrinum er því varnaraðgerð fyrir velferðarkerfi samtímans um leið og hagsmunir komandi kynslóða eru varðir.

lesa áfram

Skattdagurinn 9. júlí

Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) hefur reiknað út að við hættum loks að vinna fyrir hið opinbera þann 9. júlí í ár, 2012. Jafnframt vekja þeir athygli á að stærsti útgjaldaliður heimilanna er nú skattar og opinber gjöld! SUS hefur jafnframt í nokkur ár birt athyglisverðar tillögur um niðurskurð fjárlaga. Þannig er reynt að stuðla að umræða um nauðsynlegar aðgerðir til sparnaðar í rekstri hins opinbera.

Ungir Sjálfstæðismenn á að miðað við fjárlög 2012 er uppsafnaður halli á fjárlögum síðastliðin 5 ár alls 540 milljarðar króna. Og þessi hallarekstur tekur ekki til áfallinna skuldbindinga tímabilsins vegna lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, svo hallinn er í raun mun meiri.

Ánægjulegt er að sjá stjórnmálasamtök þora að koma með tillögur sem tilgreina hvað má skera niður. Ekki þarf að taka undir allar þeirra tillögur til að fagna umræðunni sem þær skapa.

 

 

lesa áfram

top