Tag: OECD

Sannleikurinn um ríkisfjármálin

Grein þessi eftir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, birtist upphaflega í Morgunblaðinu 14. desember 2012.
Fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra ritar reglulega greinar um það sem hann telur vera glæsilegan árangur í ríkisfjármálum. Nýjasta greinin í þessari röð birtist í Fréttablaðinu í fyrradag (12. des. 2012). Þar er sem fyrr miklast af árangri liðinna ára og eina ferðina enn boðuð „tímamót í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs“.

Sem betur fer þurfa landsmenn ekki að búa við túlkun Steingríms Sigfússonar á hagtölum um ríkisreksturinn. Þessi gögn liggja fyrir í greinargóðu formi í útgáfum og á heimasíðu Hagstofu Íslands. Væntanlega endurspegla þessi gögn þann veruleika sem Steingrímur biður um að í heiðri sé hafður í grein sinni. Hins vegar bregður svo við að sú saga sem þessi gögn segja er ekki í góðu samræmi við túlkun Steingríms.

Veruleikinn

Allan stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar, frá 2009 og fram á þennan dag, hefur ríkissjóður verið rekinn með mjög miklum halla. Þessi ferill er rakinn í mynd 1 sem er meðfylgjandi. Þar kemur fram að fyrstu tvö stjórnarár ríkisstjórnarinnar, 2009 og 2010, var hallinn langt yfir 100 milljörðum hvort ár eða 8-9% af vergri landsframleiðslu (sbr. mynd 2). Öfugt við það sem Steingrímur gefur í skyn í línuritinu í grein sinni er það ekki svo að hallinn hafi minnkað á árinu 2010, fyrsta heila árinu í hans ráðherratíð. Þvert á móti hækkaði hann um 20 milljarða kr. eða um meira en 1% af vergri landsframleiðslu (VLF). Halli ríkissjóðs sem hlutfall af VLF óx sömuleiðis úr 8,3% í 9,4% (sbr. mynd 2).Frá árinu 2011 hefur hallinn vissulega farið lækkandi. Sú lækkun hefur hins vegar verið fjarska hægfara. Árið 2011 var hallinn á rekstri ríkissjóðs t.d. yfir 90 milljarðar kr. og næstum 6% af VLF (myndir 1 og 2). Jafnvel á yfirstandandi ári, fjórða árinu frá hruni, mælist hallinn fyrstu þrjá ársfjórðungana um 35 milljarðar kr. og stefnir í yfir 50 milljarða á árinu í heild eða um 3% af VLF.

Öfugt við það sem gefið er í skyn í grein Steingríms eru þessar hallatölur ríkissjóðs háar í samanburði við það sem tíðkast í öðrum Evrópuríkjum. Að meðaltali frá árinu 2009 til 2011 (eða áætlunar 2012) eru þær talsvert yfir meðallagi Evrópuríkjanna (OECD, Economic Outlook 2012). Það er heldur ekki rétt sem fullyrt er í grein Steingríms að „hvergi í okkar heimshluta þar sem ríkissjóðir hafi lent í vanda vegna efnahagskreppu [hafi] náðst viðlíka árangur síðastliðið ár eins og á Íslandi“. Samkvæmt hagtölum frá OECD (Economic Outlook 2012) mun t.d. afkoma ríkissjóðs Írlands batna mun meira frá 2011 til 2012 en ríkissjóðs Íslands. Allmörg önnur lönd eru talin munu ná „viðlíka“ árangri.

Leiktöld fjárlaga

Það er eftirtektarvert að frá árinu 2010 hafa fjárlög undantekningarlaust gert ráð fyrir miklu minni halla á rekstri ríkissjóðs en í raun hefur orðið. Þessu er lýst í mynd 1, þar sem halli á rekstri ríkissjóðs samkvæmt fjárlögunum er sýndur við hliðina á rauntölunum. Eins og sjá má er munurinn ærinn – hallinn er oft meiri en tvöföld áætlun fjárlaga – og skiptir tugum milljarða og nokkrum hundraðshlutum af VLF.Spurnin er hvað valdi. Nærtækt er að túlka þetta sem aðhaldsleysi í framkvæmd fjárlaga, sem er ekki í samræmi við þá mynd sem Steingrímur vil fá okkur til að trúa. Það er einnig hugsanlegt að þetta vanmat á hallanum sé gert viljandi til að blekkja löggjafann og almenna kjósendur. Hver sem ástæðan er má ljóst vera að svona mikil frávik eru stjórnarfarslega skaðleg og geta seint talist til fyrirmyndar í ríkisrekstri.

Hættulegur hallarekstur

Það sem af er stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar, þ.e. frá árinu 2009 og út þriðja ársfjórðung 2012, nemur samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs mældur á verðlagi hvers árs um 400 milljörðum króna (Hagstofan, Þjóðhagsreikningar 2012:3 og 2012:15). Þessi uppsafnaði halli hefur eðli málsins samkvæmt bæst við mjög alvarlega skuldastöðu ríkissjóðs. Þróun hinnar hreinu skuldastöðu sem hlutfalls af VLF samkvæmt fyrrgreindum gögnum Hagstofunnar er nánar lýst í mynd 3. Eins og sjá má hefur skuldastaðan vaxið hröðum skrefum og nam í árslok 2011 yfir 55% af VLF. Vegna hallarekstrar ríkissjóðs á árinu 2012 hafa þessar skuldir enn aukist. Rétt er að taka það skýrt fram að í þessum tölum vantar ýmsar þekktar skuldbindingar ríkissjóðs, m.a. vegna lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ábyrgða á sjóðum og stofnunum, t.a.m. Íbúðalánasjóðs.Þessi mikla hækkun í hreinni skuldastöðu ríkissjóðs er mikið áhyggjuefni af a.m.k. þremur ástæðum.

Í fyrsta lagi fylgir henni vaxtakostnaður upp á tugi milljarða sem rýrir getu ríkissjóðs til að sinna mikilvægum málefnum samfélagsins, þar með töldum velferðarmálum í framtíðinni.

Í öðru lagi bætast hinar auknu ríkisskuldir ofan á mjög erfiða skuldastöðu þjóðarinnar í heild. Þær veikja lánstraust þjóðarinnar út á við og hækka þar með vaxtakröfuna á Ísland erlendis. Skuldasöfnun íslenska ríkisins er að áliti sérfræðinga ein af helstu ástæðunum fyrir því að alþjóðleg matsfyrirtæki hafa ekki fengist til að hækka mat sitt á lánshæfi Íslands og skuldatryggingarálagið á ríkissjóð erlendis hefur sorglega lítið lækkað.

Í þriðja lagi er þessi mikla skuldasöfnun ríkisins bein ógn við getu þjóðarinnar til að komast með sæmilega heilli há út úr þeirri fjárhagskreppu sem hún hefur verið í. Áætlun sú um endurreisn íslensks efnahags sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórnin komu sér saman um í nóvember 2008 byggðist á tveimur meginstoðum; (i) myndarlegum hagvexti og (ii) aðhaldi í ríkisrekstri og hallalausum ríkisrekstri innan fárra ára. Þetta var í áætluninni taldið forsenda fyrir því að Ísland kæmist út úr skuldakreppunni. Hagvöxtur hefur því miður reynst mun hægari en að var stefnt í þessari áætlun. Eins og rakið hefur verið hefur einnig verulega skort á að markmiðunum í ríkisfjármálum hafi verið náð.

Lokaorð

Hinn mikli hallarekstur ríkissjóðs undanfarin fjögur ár felur í sér verulega ógn við efnahagslega velferð íslensku þjóðarinnar á komandi árum. Framvinda frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2013 á Alþingi og reynslan af fjárlögum undanfarandi ár bendir því miður ekki til þess að nú séu að verða þau tímamót í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs sem Steingrímur Sigfússon hefur kynnt. Þvert á móti bendir allt til þess að þessi síðustu fjárlög núverandi ríkisstjórnar muni skerða enn frekar það svigrúm sem þjóðin hefur til að losa sig úr skuldafjötrum og skapa hér velferð á varanlegum grunni.

Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

lesa áfram

Málþing um nýja nálgun í rekstri grunnskólans

Ráðstefna Samtaka skattgreiðenda í Háskólanum í Reykjavík, stofu V102, föstudaginn 23. nóvember frá 14:00 til 17:00. Fyrir allt áhugafólk um grunnskólann okkar.

 

Minni miðstýring – betri grunnskóli ? Eru Svíar fyrirmynd?

Sjálfstætt starfandi skólar og ávísanakerfið í Svíþjóð

 

Samtök skattgreiðenda halda ráðstefnu um nýja nálgun og hugsun í rekstri grunnskólans. Kostnaður við grunnskólann er óvíða meiri en á Íslandi samkvæmt nýlegri skýrslu frá OECD. Getur önnur nálgun við rekstur grunnskólans verið skilvirkari og skilað sambærilegum eða betri árangri í kennslu?

Fyrir 20 árum var svokallað ávísanakerfi tekið upp í Svíþjóð, þar sem kostnaðurinn við skólagönguna fylgir barninu, ekki tilteknum skóla. Foreldrum er heimilt að velja grunnskóla fyrir börn sín og  greiðslan fer til þess skóla sem valinn er. Skólarnir eru mismunandi og ýmist reknir af sveitarfélögum, sjálfeignarstofnunum eða fyrirtækjum. Tryggir samkeppni betri skilvirkni og meiri framþróun í skólastarfi  nemendum til heilla?

Á Íslandi eru reknir nokkrir sjálfstætt starfandi skólar, en innan við 1% nemenda grunnskólans sækja slíka skóla.  Þessum skólum er í flestum tilvikum ekki búið sama umhverfi og skólum sem sveitarfélögin reka, en með undantekningum þó. Ráðstefnan fjallar einnig um stöðu þeirra í dag.

14:00  Setningarávarp: Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda

Fundarstjóri: Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur

 

14:10 Innleiðing ávísanakerfisins í Svíþjóð 1992. Mælanlegur árangur eftir 20 ár?

Kunskapsskolan, kennslufyrirkomulag skólans og árangur.

Odd Eiken, aðstoðarforstjóri Kunskapsskolan sem rekur 34 grunnskóla í Svíþjóð

og ráðuneytisstjóri í menntmálaráðuneyti Svíþjóðar 1991 – 1994.

 

15: 00  Fyrirspurnir (á ensku)

 

15:15  Stutt hlé

 

15:30  Rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi skóla

Sölvi Sveinsson, skólastjóri Landakotsskóla

 

15:45  Frjálst val um skóla – gildi þess og áhrif

Margrét Björk Svavarsdóttir, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar

 

16:00  Almennar fyrirspurnir og umræður

 

16:30  Málþingi lýkur

 

Málþingið er öllum opið meðan húsrúm leyfir.

Ráðstefnugestum og öðru áhugafólki  býðst að fá sendar greinar sem Samtök skattgreiðenda hafa látið þýða úr greinasafninu The Profit Motive in Eduction: The Ongoing Revolution. Greinarar eru m.a. eftir frumkvöðla í rekstri sjálfstætt starfandi skóla í Svíþjóð. Sendið okkur ósk um gögnin á uppl@skattgreidendur.is.

lesa áfram

Há útgjöld ríkisins hamla hagvexti

Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður, skrifar athyglisverða grein í Viðskiptablað Morgunblaðsins þann 28. júní 2012 og er greinin hér birt í heild sinni með leyfi höfundar:

Á kolröngum stað á Rahn-kúrfunni

Líklega hafa ekki margir lesendur heyrt um Rahn-kúrfuna, en hana mætti kalla systurkúrfu Laffer-kúrfunnar frægu.

Rahn-kúrfan, kennd við bandaríska hagfræðinginn Richard W. Rahn, skoðar útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu og á að sýna að ef útgjöld ríkisins eru úr hófi mikil eða of lítil þá komi það hratt niður á landsframleiðslu.

Rahn vill meina að ríkið þurfi að standa straum af ákveðnum lágmarksútgjöldum til að stuðla að sem mestum og bestum vexti hagkerfisins. Ríkið verði að reka ákveðna innviði, s.s. dómstóla og lögreglu, sem leyfa samfélagi og atvinnulífi að dafna.

Þegar útgjöld ríkisins eru mikið minni en 15% eða meiri en 25% af landsframleiðslu þá verður afleiðingin sú að hagvöxtur verður minni en ella. Of lítil útgjöld og nauðsynlega innviði skortir. Of mikil útgjöld og skattheimta og afskipti eru farin að verða myllusteinn um háls fyrirtækjanna og fólksins í landinu svo dregur úr verðmætasköpun.

Töpum miklu til lengri tíma litið

Fjöldamargar rannsóknir styðja þá niðurstöðu Rahns að ákjósanlegasta stærðin á útgjöldum ríkisins sé á bilinu 15-25% af landsframleiðslu.

Ein þeirra er rannsókn James Gwartney og samstarfsmanna frá árinu 1998, sem gerð var fyrir efnahagsnefnd Bandaríkjaþings. Þar voru skoðuð 23 aðildarríki OECD á tímabilinu 1960-96, og hvaða samband var milli ríkisútgjalda og hagvaxtar. Leiðrétt var fyrir ýmsar breytur sem kynnu að hafa áhrif, s.s. menntunarstig, verndun eignarréttarins og fjárfestingu.

Gwartney og félagar fundu það út að fyrir 10% aukningu i ríkisútgjöldum, sem hlutfall af landsframleiðslu, mátti vænta þess að landsframleiðsla minnkaði um u.þ.b. eitt prósentustig.

Í þeim löndum þar sem ríkisútgjöld voru undir 25% af landsframleiðslu var meðalhagvöxtur 6,6% en þegar útgjöldin voru komin upp í 40-49% af landsframleiðslu mátti ekki vænta nema 2,8% hagvaxtar að meðaltali.

Þessar tölur smellpassa við Ísland, þar sem stærð útgjalda hins opinbera hefur verið að meðaltali 42% af landsframleiðslu síðustu tvo áratugina, og meðalhagvöxtur rétt tæplega 2,6% á sama tímabili.

Mikilvægt er að skilja hvað nokkur prósentustig í hagvexti skipta miklu máli til lengri tíma litið: Löndin A og B byrja með sömu landsframleiðslu, A með stöðugan 2,8% hagvöxt en B með stöðugan 6,6% hagvöxt. Land B er, mælt í landsframleiðslu, orðið tvöfalt ríkara að 11 árum liðnum, en íbúar lands A þurfa að biða í 26 ár eftir sömu bót á lífskjörum.

Það sem meira er, að eftir 26 ár er land B orðið meira en 5 sinnum ríkara en í upphafi. Að aðeins 26 árum liðnum er hlutskipti þess fátæka í landi B orðið svipað og hlutskipti þess efnaða í landi A.

Löngu tímabært er að Íslendingar, og stjórnmálamennirnir okkar þó alveg sérstaklega, hugi að því hvort landið sé ekki á kolröngum stað á Rahn-kúrfunni.

Dýrir eru skattarnir í dag, en að 26 árum liðnum geta þeir hafa reynst miklu dýrari en okkur hafði nokkurntíma grunað.

lesa áfram

top