Tag: RSE

Málstofa um tekjudreifingu og skatta

Föstudaginn 24. október kl. 16 verður málstofa RNH um „Tekjudreifingu og skatta“ í fundarsal Gamma á jarðhæð við Garðastræti 37. Þar mun prófessor Corbett Grainger frá Wisconsin-háskóla í Madison bera saman tvær lausnir á fiskveiðivandanum, skattlagningu eða úthlutun afnotaréttinda, prófessor Ragnar Árnason greina ýmsar mælingaskekkjur og hugsanavillur um tekjudreifingu og skattbyrði og prófessor Hannes H. Gissurarson gagnrýna kenningar franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys um sífellt breiðara bil milli ríkra og fátækra.

Málstofan er haldin í tilefni af því, að komið er út hjá Almenna bókafélaginu greinasafnið Tekjudreifing og skattar, sem sex íslenskir fræðimenn skrifa í, Ragnar Árnason, Birgir Þór Runólfsson, Axel Hall, Helgi Tómasson, Hannes H. Gissurarson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson. Einn samstarfsaðili RNH, RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, styrkti útkomu bókarinnar. Málstofan er haldin í samstarfi við Samtök skattgreiðenda. Eftir fyrirlestra og umræður verður móttaka frá 17.30 til 19.

Allt áhugafólk um tekjudreifingu og skatta er hvatt til að mæta.

lesa áfram

Ný bók um skatta og tekjudreifingu

Almenna bókafélagið hefur gefið út áhugaverða bók fyrir allt áhugafólk um skatta; Tekjudreifing og skattar. Bókin er gefin út að tilstuðlan og með tilstyrk RSE, Rannsóknarsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál.

Bókinni er skipt upp í þrjá hluta;

  • Hluti I – Tekjudreifing

Ragnar Árnason                    Ævitekjur og tekjudreifing

Birgir Þór Runólfsson           Fátæki í alþjóðlegum samanburði

Hannes H. Gissurarson         Fátækt á Íslandi 1991 – 2004

Helgi Tómasson                     Nokkur atriði um launadreifingar

  • Hluti II: Skattar og skattbyrði

Ragnar Árnason                    Raunveruleg skattbyrði

Axel Hall                                 Dansað á línunni

Axel Hall                                 Norrænt í báða enda?

  • Hluti III: Skattar og tekjujöfnun

Arnaldur S. Kristjánsson      Raunverulegur jaðarskattur og tekjudreifing

Ragnar Árnason                    Jöfnunaráhrif tekjuskatta

Bókin er góð lesning öllum þeim sem vilja taka þátt í vitrænni umræðu um skattamál og tekjudreifingu óháð því hver afstaðan er til þess hvert skattstigið skuli vera.

RNH, rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, heldur málst0fu 24. október nk. í samvinnu við Samtök skattgreiðenda um tekjudreifingu og skatta – nánari umfjöllun síðar.

 

lesa áfram

Hver er hlutur þinn í skuldum hins opinbera?

RSE, Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, hefur látið útbúa reiknivél þar sem finna má út, gróflega, hver hlutdeild þín er í skuldum hins opinbera. Að sjálfsögðu skuldar yngra fólks meira en þeir eldri.

Mörgum stjórnmálamönnum er gjarnt að tala um sjálfbærni þegar kemur að umhverfismálum. Hjá þeim sömu aðilum virðist hins vegar sjálfbærni ekki eiga upp á pallborðið þegar kemur að skuldum hins opinbera og stöðu heimilanna.

Það virðist því í lagi að ganga á framtíðartekjur komandi kynslóða og skerða lífgæði þeirra með óhóflegri eyðslu samtímans, en ekki hrófla við steini til að byggja í haginn fyrir framtíðina.

Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur, sem er einn þeirra sem standa að RSE, skrifar grein í Fréttablaðið 17. apríl, 2013, sem ber yfirskriftina Skuldir í dag eru skattar á morgun, og hann segir:

Helsta auðlind Íslands er þjóðin sjálf. Öfugt við gömlu Evrópu, þar sem fleiri verða á eftirlaunum árið 2020 en vinna, er íslenska þjóðin enn að vaxa og dafna og vinnusemi landsmanna er mikil. Framtíðin stendur og fellur með því hvort svo verði áfram.

Íslenska ríkið er mjög skuldsett og skuldar um 2.100 milljarða króna. Mikið af þessum skuldum komu til við að greiða fyrir þjónustu og framkvæmdir sem ekkert nýtast komandi kynslóðum. Það má því segja að um sé að ræða skuldir sem eldri kynslóðir tóku, á kostnað hinna yngri. Skuldir ríkisins hverfa ekki, og ríki geta ekki farið á hausinn, heldur þarf við þjóðargjaldþrot að endursemja við kröfuhafa. Þannig voru skuldir Sovétríkjanna, eftir hrun þeirra, losaðar af Eystrasaltsríkjunum, Georgíu og Aserbaídsjan og Rússland tók þær yfir, eftir að endursamið hafði verið um fjárhæð og afborganir við lánardrottna. Enn eru útistandandi skuldir Napeóleons sem franska ríkið þarf að greiða af.

Skuldir í arf

Unga fólkið á Íslandi fær skuldir í arf. Þær nema um 21 milljón króna á hvern þeirra 100 þúsund einstaklinga sem eru á aldrinum 15-25 ára. Þetta eru skuldir sem þarf að greiða af í gegnum skatta. Þessi greiðslubyrði bætist á unga fólkið sem á þegar í erfiðleikum með að verða sér úti um heimili, sem kosta um það bil sömu fjárhæð. Unga fólkið er því að borga af tveimur húsum, ef svo má segja, þegar það flytur að heiman og fer að afla tekna. En annað húsið fær það aldrei að sjá eða koma í.

Í Evrópu og eldri samfélögum er ungt fólk farið að flytja annað, frekar en að taka á sig skuldabyrði eldri kynslóða. Það þarf að fyrirbyggja þá hættu hér á landi, það er frumskilyrði hagsældar á Íslandi.

Vefsíðan rikid.is er ný vefsíða Rannsóknarseturs um samfélags- og efnahagsmál. Þar getur fólk reiknað út skattbyrði sína og hlut í að greiða niður áfallnar skuldir á næstu árum. Eins er hægt að skoða ríkisreikninginn og skera niður, eða bæta við útgjaldaflokka, til að átta sig betur á því hvað fylgir því að vera skattborgari á Íslandi.

Það er von okkar að þessi vefur sé innlegg í upplýsta umræðu um ríkisfjármál á Íslandi. Sterkasta vopnið gegn umframkeyrslu stjórnvalda er að kjósendur veiti stjórnmálamönnunum aðhald. Þá er von til þess að loks fari einhverjir stjórnmálamenn að lofa því að spara en ekki bara að eyða.

 

lesa áfram

top