Tag: Seltjarnarnes

Útsvarshækkun heimiluð

Leyfilegt hámarksútsvar sveitarfélaga á árinu 2014 var hækkað úr 14,48% í 14,52% og má sjá lista yfir úrsvarshlutfall sveitarfélaga hér. Langflest sveitarfélög nýttu sér þessa heimild, þar með talin sveitarfélög á Reykjavíkursvæðinu sem hingað til hreykt sér af lægra útsvari en gengur og gerist.

Þess þarf að geta að mörg sveitarfélög eiga erfitt um vik þegar kemur að lækkun útsvarsins. Reglur jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru með þeim hætti að nýti sveitarfélag sér ekki hámarksútsvar  missir það allan rétt til úthlutunar úr jöfnunarsjóði. Þessu hefur núverandi innanríkisráðherra lofað að breyta. Fróðlegt verður að fylgjast með hverjar efndir verða í því máli. Sveitarfélag eins og t.d. Árborg, sem tekið hefur verulega vel til í sínum fjármálum, kýs þannig frekar að lækka fasteignagjöldin en útsvarið þegar reksturinn gefur tilefni til.

En sveitarfélög eins og Garðabær og Seltjarnarnes sem hreykt hafa sér af lægri útsvarsprósentu en gengur og gerist nýttu sér bæði heimild til hækkunar. Veldur það miklum vonbrigðum.

Þess má svo geta að lokum að ríkisstjórnin sem lofaði skattalækkunum og afturhvarfi frá skattastefnu fyrri ríkisstjórnar hefur með þessu hækkað efsta þrep tekjuskattsins hjá þeim skattgreiðendum sem búa í sveitarfélögum sem hækkuðu útsvarið um þessi 0,04%.

 

 

 

lesa áfram

Vestmannaeyingar lækka líka útsvarið

Í frétt í Viðskiptablaðinu kemur fram að í fjárhagsáætlun 2014 fyrir Vestmannaeyjabæ sé gert ráð fyrir lækkun útsvars í 13,98%. Er þetta annað sveitarfélagið sem tilkynnir lækkun útsvars nú síðustu daga. Í nýlegri úttekt Viðskiptablaðsins kemur jafnframt fram að undanfarin ár hafi fjárhagsstaða margra sveitarfélaga batnað verulega og er ánægjulegt að sum þeirra nýta nú aukið svigrúm til að lækka skatta á þessu kjörtímabili.

Reykjavíkurborg, sem helst ætti að njóta stærðarhagkvæmni, hefur hins vegar hækkað skatta og gjöld verulega á kjörtímabilinu og skýtur þar skökku við. Þá hefur það sveitarfélag sem helst hefur verið litið til sem fyrirmyndar í rekstri og skattaálögum, Seltjarnarnes, einnig hækkað útsvar á kjörtímabilinu, þó ekki sé í takt við Reykjavíkurborg.

Mikilvægt er að á næstunni standi ríkisstjórnin við þá ætlun sína að afnema lægri mörk útsvars og fasteignaskatta og jafnframt sjá til þess að jöfnunarsjóður sveitarfélaga refsi ekki þeim sveitarfélögum sem taka til í rekstri sínum og veita skattgreiðendum hlutdeild í betri afkomu.

lesa áfram

Að skreyta sig með stolnum fjöðrum

Bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásgerður Halldórsdóttir, skrifar grein í Morgunblaðið í dag um eigið ágæti, annarra bæjarfulltrúa og bæjarstarfsmanna á Seltjarnarnesi. Hún segir í grein sinni: „Með samstilltu átaki bæjarstjórnar og starfsmanna Seltjarnarnesbæjar varð rekstur og afkoma árið 2011 mun betri en árið á undan. Reikningar bæjarins fyrir nýliðið ár gera ráð fyrir afgangi upp á 93 m. kr. en sambærileg tala fyrir árið 2010 var 1 m. kr.”

Sjálfshólið heldur síðan áfram í lengra máli, sem ekki er ástæða til að endurtaka hér. En í engu er getið þeirra sem stærstan þátt áttu í að bæta fjárhag bæjarins; skattgreiðenda. Bættur fjárhagur bæjarins grundvallast auðvitað á 7,3% hækkun útsvarsins sem samþykkt var í desember 2010. En þess er hvergi getið í umræddri grein. Tóku þeir ekki þátt í þessu samstillta átaki? Eða veit Ásgerður sem er að fæstir þeirra áttu von á skattahækkun frá þessum meirihluta.

Nú er Seltjarnarnesbær líklega ekki illa rekið sveitarfélag í samanburði við mörg önnur og lítt skuldsett. Yfirmenn þess telja sig e.t.v. hafa af einhverju að státa. En það er löngu kominn tími til að skattgreiðendur láta í sér heyra og bendi á að fjárhagsvandræði sveitarfélaga og ríkis er ekki tekjuvandamál. Það er útgjaldavandamál. Íslensk heimili og fyrirtæki hafa mörg hver orðið að skera niður kostnað til að standa undir eigin rekstri þegar tekjurnar hafa minnkað í kjölfar bankakreppunnar. En hið opinbera gerir hið gagnstæða; það hirðir stærri hluta tekna þessara sömu aðila og skammtar sér einfaldlega meiri tekjur. Stjórnmálamenn stæra sig síðan af bættum rekstri í kjölfarið. Það er sama hvort þeir heita Steingrímur J. eða Ásgerður. Þeir eiga ekki þakklæti skilið fyrir skattpíninguna.

Ætli rekstur heimila og fyrirtækja væri nokkuð vandamál ef þau ættu sér eilífa uppsprettu fjár úr annarra vösum?

lesa áfram

top