Tag: Skafti Harðarson

Þarna leynist allur sprotinn

Viðtal í Viðskiptablaði Morgunblaðsins,  21. febrúar 2012 við formann Samtaka skattgreiðenda, Skafta Harðarson:

Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Að mati Skafta Harðarsonar er margt sem gerir íslenskum smáfyrirtækjum og einyrkjum erfiðara fyrir. Hann segir að hið opinbera gæti víða rutt hindrunum úr vegi ef viljinn væri til staðar. „Þegar litið er yfir þetta svið sést að það er tilfinnanlegur skortur á hagsmunasamtökum lítilla fyrirtækja og einyrkja þvert á allar starfsgreinar. Það er því miður þannig að þessi hópur á sér ekki sterka talsmenn á opinberum vettvangi og hagsmunir bæði samtaka atvinnuveitenda og verkalýðs eru á marga vegu samtvinnaðir hagsmunum stórra fyrirtækja – stundum á kostnað þeirra litlu.”
Skafti, sem er formaður Samtaka skattgreiðenda, bendir á að litlu fyrirtækin eru mjög mikilvæg fyrir verðmæta- og atvinnusköpun, en þau eru líka lyillinn að uppbyggingu í efnahagslífinu. „Sjaldnast setjast frumkvöðlar niður og ákveða að stofna stórfyrirtæki næsta dag. Öll stærstu og stöndugustu fyrirtæki landsins eiga uppruna sinn í einstaklingum eða litlum hópi athafnamanna sem komu sér saman um að gera góða hugmynd að veruleika. Stundum verður útkoman smár en stöndugur rekstur, en stundum gerist það að úr verður stórfyrirtæki. Þarna leynist allur sprotinn sem við eigum til að byggja upp atvinnulífið og ná okkur upp úr lægð og atvinnuleysi.”
Ríkið skilur lítið eftir
Nefna má fjölmargt sem breyta mætti til batnaðar og nefnir Skafti t.d. að litlu fyrirtækin finni oft mun meira fyrir hárri skattlangingu hins opinbera en þeir stóru. „Engum hópi manna held ég að sé jafn sýnileg þessi óhóflega áþján og einyrkjum. Hjá stærri fyrirtækjum vilja menn stundum missa sjónar á því sem einyrkinn sér svo glögglega þegar hann útbýr reikninginn handa viðskiptavini sinum og ekki nema 30% sitja eftir. Restin fer í virðisaukaskatt, tryggingagjald, lífeyrisskuldbindingar og tekjuskatt,” segir Skafti en bendir á að það sé ekki bara upphæð skattanna sem gerir erfitt fyrir.
„Það væri t.d. til mikils að vinna að bjóða upp á þægilegri skil á ýmsum skattgreiðslum til ríkisins. Ef það hendir t.d. smáfyrirtæki að viðskiptavinur greiðir ekki útskrifaðan reikning þá þarf fyrirtækið samt sem áður að fjármagna allar greiðslur til ríkisins eins og þær koma fram á reikningnum. Ef VSK-tímabilin yfir árið eru fleiri eru meiri líkur á að þessi fyrirtæki þurfi að fjármagna hegðunina hjá óskilvísum viðskiptavinum. Stórfyrirtæki eiga mun auðveldara með að takast á við slík útgjöld á meðan þau geta nánast riðið litlum fyrirtækjum að fullu. Að fækka skiladögum fyrir minni aðila úr sex niður í fjóra á ári væri strax mikil framför.”
Skafti bendir líka á að hægt sé að leita leiða til að spara litlu aðilunum skriffinnsku og umstang. „Mjög væri til bóta ef að skilagreinarnar fyrir lífeyrissjóð, verkalýðsfélag og launaskatt væru sameinaðar. Það myndi spara mörgum stanslausar eyðublaðaútfyllingar og útreikninga.”

Myllusteinar á fyrstu árunum

Síðan eru reglur sem virðast hafa verið settar fyrir góðan ásetning en reynast verða þess valdandi að erfiðara er en ella að koma sprotafyrirtækjum á laggirnar. „Skyldugreiðslur í lífeyrissjóð eru gott dæmi. Frumkvöðullinn er skikkaður til að láta þessi 12% af tekjum sínum af hendi þó svo að hann væri vafalítið að fjárfesta betur með því að leggja upphæðina inn í uppbyggingu rekstrarins.”

Af sama toga eru reglurnar sem skikka aðstandendur sprota til að greiða tekjuskatt m.v. sérstök tekjuviðmið, jafnvel þó að nýstofnað fyrirtækið sé ekki farið að skila hagnaði. „Að þessu leyti er skattaumhverfið mjög ólíkt því sem þekkist t.d. í Bandaríkjunum. Á Íslandi geta frumkvöðlar og starfsmenn þeirra ekki gefið vinnu sína í reksturinn í skiptum fyrir hluti í fyrirtækinu sem síðan verða verðmætir seinna meir. Jafnvel þó að engin séu launin verða þeir samt að greiða launaskattinn.”

lesa áfram

Kostar ný byggingarreglugerð íbúðakaupendur milljarða?

Fáir efast um að einhverjar reglur þurfi að setja um byggingar húsa, s.s. um lágmarks burðarþol, eldvarnir o.s.frv. Þetta er öðru fremur gert í gegnum byggingarreglugerð, sem er á ábyrgð Mannvirkjastofnunar, en stofnunin heyrir nú undir Umhverfisráðuneytið. Nú um áramótin tekur gildi ný byggingarreglugerð sem hljótt hefur farið nema innan þröngra faghópa. Ljóst er að með setningu nýju reglugerðarinnar mun byggingakostnaður hækka verulega. Samhliða því er frelsi neytenda til að velja sér húsnæði eftir eigin höfði hvað varðar fyrirkomulag og útlit stórlega skert.

En forstjóri Mannvirkjastofnunar, Björn Karlsson, sá ástæðu til að fagna þessar nýju byggingarreglugerð í grein í Fréttablaðinu 15. mars á þessu ári, en formaður Samtaka skattgreiðenda, svaraði Birni með grein í sama blaði þann 21. mars sl., sem lauk á þessu orðum:

„Byggingarreglugerðin hin nýja mun seinka endurreisn nýbyggingamarkaðarins og gera þeim erfiðara fyrir sem huga að fyrstu íbúðakaupum eða vilja stækka við sig. Engir gæta hagsmuna íbúðakaupenda. Ekkert heyrist frá verklýðsfélögunum, opinberum talsmönnum neytenda, Neytendastofu eða Neytendasamtökunum. Enda er þau hluti af kerfinu, ekki gagnrýnendur þess.”

Í framhaldi af þessum greinaskrifum skrifuðu Samtökin Mannvirkjastofnun og vildu fá að sjá hversu mætti búast við að kostnaður við nýbyggingar ykist við setningu reglugerðarinnar. Hér að neðan má sjá bæði bréf Samtakanna og svar Mannvirkjastofnunar. Í ljós kemur að stofnunin hefur enga tilraun gert til einföldustu útreikninga á þessu sviði. En slíkt dæmi hefur hins vegar framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Hannarr, Sigurður Ingólfsson,  komið með í grein í Morgunblaðinu 19. júlí sl. og birt var með leyfi höfundar hér á heimasíðu Samtakanna.

Loks vekur athygli að í bréfi Mannvirkjastofnunar er sagt að leitað hafi verið umsagnar Neytendasamtakanna. Þessu hafnar Jóhannes Gunnarsson í bréfi til Samtaka skattgreiðenda þann 28. ágúst sl. og segir:

„Neytendasamtökin tóku ekki þátt í samningu þessarar reglugerðar. Við könnumst heldur ekki við að hafa fengið hana til umsagnar.”

Lesið bréf Samtakanna og svar Mannvirkjastofnunar með því að smella á tenglana.

 

 

lesa áfram

Umfjöllun um Samtökin hjá Vefþjóðviljanum

Vefþjóðviljinn (www.andriki.is) fjallar um Samtökin í pistli þann 19. júlí:

Fimmtudagur 19. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 201. tbl. 16. árg.

Björn Bjarnason ræddi hinn 11. júlí við Skafta Harðarson formann Samtaka skattgreiðenda í þætti sínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Samtök skattgreiðenda voru stofnuð í þeim tilgangi að veita stjórnmálamönnum aðhald og miðla upplýsingum um skattheimtu og rót hennar, útgjöld ríkis og sveitarfélaga. Á vefnum skattgreidendur.is geta menn kynnt sér starfsemi samtakanna. Skafti lagði áherslu á þau praktísku rök fyrir alla – þar sem talið þá stjórnmálamenn sem vilja hafa nægt fé í öll góðu málin sín – að of háir skattar geta dregið úr framtakssemi manna og á endanum skatttekjum hins opinbera. Það sé því öllum í hag að stilla sköttum í hóf. Jafnframt fór hann yfir athyglisverðan árangur samtaka sænskra skattgreiðenda.

Skafti ræddi einnig um hina ósýnilegu skattlagningu, þar sem fé er tekið af fólki með reglugerðum og tilskipunum. Hann nefndi dæmi af nýrri byggingareglugerð þar sem meðal annars er kveðið á um að öll þriggja hæða fjölbýlishús skuli hafa lyftu og alls kyns nýjar kröfur eru gerðar um stærð og tegundir herbergja. Skafti segir að í raun sé verið að fara fram á að allt húsnæði henti öllum og að ekki sé gert ráð fyrir að fólk geti flutt sig milli húsa eftir efnum og aðstæðum. Lokað er á möguleika ungs fólks að eignast ódýra fyrstu íbúð í lyftulausu húsu. Í þessu sambandi hlýtur að vakna sú spurning hvers fólk á efri hæð í tvíbýlishúsum eigi að gjalda. Hvers vegna drógu stjórnmálamenn mörkin við þriggja hæða hús þegar þeir skipuðu fyrir um lyftur? Er maður sem kemst ekki upp um þrjár hæðir í stiga líklegur til að komast upp um tvær?

lesa áfram

Sjálfshól embættismanns

Eftirfarandi grein eftir Skafta Harðarson birtist í Fréttablaðinu 21. mars 2012 í tilefni af grein eftir Björn Karlsson, forstjóra Mannvirkjastofnunar. Björn skrifaði grein í tilefni af útkomu nýrrar byggingareglugerðar sem gengur í veigamiklum atriðum gegn hagsmunum neytenda bæði hvað varðar valfrelsi og kostnað.

Sumir telja sjálfshól betra en ekkert hól. En oftar en ekki er ástæða til þess að hrósið lætur á sér standa.

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, telur ástæðu til að skrifa grein í Fréttablaðið þann 15. mars síðastliðinn og hrósar þar eigin stofnun og umhverfisráðuneytinu fyrir nýja byggingarreglugerð. Ekki vantar sjálfshólið; „almennt má segja að hún hafi fengið góðar og jákvæðar undirtektir, enda var leitast við að vanda til smíði hennar í hvívetna.” Þá getur Björn þess að samráð hafi verið haft við fjölda fólks með sérþekkingu á ýmsum sviðum og ólíka hagsmuni.

Í engu fjallar Björn hins vegar um það sem mestu máli skiptir. Hvað mun þessi ítarlega afskiptasemi stofnunar hans og umhverfisráðuneytisins kosta íbúðakaupendur? Hversu mikið munu til dæmis íbúðir hækka í verði eftir setningu nýju reglugerðarinnar? Hvaða áhrif hefur það að nú er óheimilt að byggja þriggja hæða íbúðarhús án lyftu? Hvað kostar sú krafa fyrir væntanlega íbúðakaupendur? Eða munu þriggja hæða fjölbýlishús hverfa af markaði? Líklegt er að það verði svar markaðarins – engin þriggja hæða íbúðarhús. Hvergi er að finna neina greiningu á kostnaðaráhrifum nýrra krafna eða fullnægjandi skýringar á því hvaða aðkallandi þörf er á frekari skilgreiningu á innra fyrirkomulagi íbúða.

Hvaða ástæða er til þess að opinberir embættismenn fyrirskrifi stærð svefnherbergja? Hvaða embættismaður komst að því að ekki skuli koma annað til greina en að svefnherbergi hjóna skuli vera a.m.k. 14 m² og baðið ekki minna en 5 m² nú eða 3ja metra gangur 3,9 m²? Hvaðan kemur embættismönnunum þessi dulvitra djúpa stærðarspeki? Og hér er aðeins getið minniháttar augljósra atriða sem hækka verulega verð íbúða fyrir kaupendur húsnæðis í framtíðinni.

Embættismaðurinn sjálfumglaði getur þess auðvitað hvergi hver kostnaður kaupenda verður vegna nýjustu krafna hans, en hrósar sér sérstaklega fyrir að hafa talað við mann og annan innan kerfisins um hvað okkur er fyrir bestu. Nýja byggingareglugerðin heggur í sama knérunn og flestar reglugerðir starfsfélaga hans innanlands sem utan hin síðari ár; takmarkar valfrelsi neytenda, ákveður hvað okkur er fyrir bestu og hækkar kostnaðinn af kaupum á þeirri vöru sem um er fjallað. Nú eða tekur vöruna af markaði. En í Orwellskri orðanotkun embættismanna er þetta auðvitað gert undir formerkjum „neytendaverndar”. Valfrelsi eru þau lífsgæði sem mestu máli skipta og á þau gæði er gengið.

Neytendur eru fullfærir um að hafa eigin skoðun á stærð og fyrirkomulagi herbergja í eigin húsnæði.

Engin ástæða er heldur til þess að krefjast þess að allt nýtt húsnæði uppfylli kröfur einstakra hópa íbúðakaupenda. Neytendur skipta um húsnæði eftir breytingum á fjölskyldustærð og fjölskylduhögum. Og ekkert er eðlilegra en að svo verði áfram. En til valfrelsisins má embættismaðurinn ekki hugsa. Enda hyrfi þá réttlæting starfa hans.

Byggingarreglugerðin hin nýja mun seinka endurreisn nýbyggingamarkaðarins og gera þeim erfiðara fyrir sem huga að fyrstu íbúðakaupum eða vilja stækka við sig. Engir gæta hagsmuna íbúðakaupenda. Ekkert heyrist frá verklýðsfélögunum, opinberum talsmönnum neytenda, Neytendastofu eða Neytendasamtökunum. Enda er þau hluti af kerfinu, ekki gagnrýnendur þess.

lesa áfram

Viðtal á ÍNN við formann Samtakanna

Í viðtalsþætti Björns Bjarnasonar á sjónvarpsstöðinni ÍNN var fulltrúi Samtaka skattgreiðenda, Skafti Harðarson. Þátturinn var upphaflega sendur út miðvikudaginn 9. júlí.

Skoðið hér: Viðtal á ÍNN

lesa áfram

top