Tag: skattahækkanir

Aðeins 3,8% telja skatta of lága

Í Viðskiptablaðinu 15. október er birt niðurstaða könnunar sem blaðið gerði þar sem spurt var: Þykir þér sú upphæð sem þú greiðir í skatta og lág, hæfileg eða of há? Niðurstaðan þarf ekki að koma á óvart, en 67,3% telja að skattarnir sem þeir greiða séu of háir.

Skoðanakönnun VB
En hvernig væri þá niðurstaðan ef skattgreiðendum væri raunverulega kunnugt um hversu háa skatta þeir greiða? Sýnilegar skattgreiðslur eru aðeins hluti þess sem hið opinbera tekur til sín og ráðstafar fyrir hönd okkar allra. Þannig sýslar hið opinbera með nánast helming þjóðartekna. Og skattar sem hlutdeild af vergri þjóðarframleiðslu hafa farið vaxandi síðustu þrjú ár.

Það er kappsmál fyrir skattgreiðendur að skattar verði gerðir sýnilegri og þrýstingur aukist þannig á stjórnmálamenn að fara betur með og draga út útgjöldum.

En merkasta niðurstaða þessarar könnunar er þó sú að aðeins 3,8% aðspurðra telja skatta og lága og gefur það von um að mikil samstaða sé meðal kjósenda um að skattar beri frekar að lækka en hækka. Reyndar kemur í ljós að hæsta hlutfall þeirra sem telja skatta of lága er að finna í aldurshópnum 18 – 24 ára, en stærstur hluti þess aldurshóps er við nám og greiðir því nánast enga skatta!

lesa áfram

Háir skattar og skuldavandi heimilanna

Grein eftir Ragnar Árnason, prófessor, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. apríl 2013:

Í dag, næstum fjórum og hálfu ári, eftir hið mikla áfall í fjármálakerfinu í október 2008, er fjöldi íslenskra heimila enn í alvarlegum skuldavanda. Lánaformum hefur verið kennt um þennan vanda; framan af einkum hinum svokölluðum myntkörfulánum og nú upp á síðkastið verðtryggðum lánum. Þetta eru nærtækar og ekki óeðlilegar skýringar. Fyrir liggur að gengi krónunnar féll verulega á árunum 2008 og 2009 og verðbólgan tók stökk upp á við. Hvort tveggja hlaut að valda umræddum heimilum verulegum búsifjum.

Gengislækkanir og verðbólga eru ekki nýnæmi

Á hinn bóginn má ekki gleyma því að gengislækkanir og verðbólga hafa verið landlæg fyrirbæri á Íslandi áratugum saman. Gengið hefur iðulega fallið meira og verðbólga verið hraðari á árum áður, jafnvel eftir að verðtrygging varð almenn. Eitt af mörgum dæmum um þetta eru árin rétt fyrir og um 1990 en þá var verðbólga miklu meiri en nú og gengið féll þá einnig mjög mikið. Þá kom hins vegar ekki upp svipaður skuldavandi heimila.

Því má ljóst vera að það hljóta að vera aðrir þættir en verð- eða gengistryggingin ein sem valda því að heimilin eiga nú í svona miklum skuldavanda. Augljósar ástæður eru miklar lækkanir annars vegar í ráðstöfunartekjum heimilanna og hins vegar í fasteignaverði. Í þessari grein er því haldið fram að hinar miklu skattahækkanir undanfarin ár eigi verulegan þátt í hvoru tveggja.

Ráðstöfunartekjur heimilanna

Samkvæmt opinberum gögnum Hagstofunnar hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna lækkað mjög verulega frá árinu 2008. Á árinu 2011, hinu nýjasta í gagnaröð Hagstofunnar, var kaupmáttur ráðstöfunartekna hvorki meira né minna en 24% eða næstum fjórðungi minni en hann var á árinu 2007. Á árinu 2012 er líklegt að hann hafi verið um 20% lægri (sjá meðfylgjandi línurit). Þessi lækkun ráðstöfunartekna stafar auðvitað fyrst og fremst af lækkun raunlauna og minnkaðri atvinnu, en hún stafar einnig af aukinni skattheimtu.

Hækkun skatta

Skattar hafa sem kunnugt er verið stórhækkaðir frá árinu 2008. Þessar hækkanir taka til nánast allra opinberra gjalda, allt frá útsvarinu og ýmsum sérstökum gjöldum til sveitarfélaga, til virðisaukaskatts, tekjuskatts og aragrúa sérgjalda sem renna í ríkissjóð. Þessi aukna skattheimta hefur m.a. haft tvennt í för með sér. Í fyrsta lagi hefur hún lækkað þann hluta af tekjum heimilanna sem unnt er að ráðstafa til að greiða vexti og afborganir af lánum. Hins vegar hefur hún dýpkað og framlengt kreppuna.

Hinir hækkuðu skattar koma auðvitað mismunandi niður á heimilunum, ekki síst þegar tekið er tillit til þeirra millifærslna sem hluti þeirra er notaður í. Ekki er fjarri lagi að ætla að þau heimili sem hafa um eða yfir meðaltekjur greiði nú að jafnaði 10% hærri hluta tekna sinna í skatta. Þessir auknu skattar gætu því hæglega samsvarað hálfri til einni milljón króna á ári fyrir þessi heimili að jafnaði. Þá upphæð er með öðrum orðum ekki lengur unnt að nota til að borga af lánum og munar um minna.

Skattar og tekjur heimilanna

Kreppan sem hófst árið 2008 hefur reynst miklu langvinnari en reiknað var með í upphafi. Samkvæmt áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda frá nóvember 2008 hefði henni átt að vera á lokið árið 2012. Á því ári reyndist verg landsframleiðsla hins vegar enn 5,2% minni en hún var 2007 (sjá meðfylgjandi línurit). Jafnframt eru hagvaxtarhorfur á komandi árum nú taldar slakar.

Ástæðan fyrir þessum dapurlega árangri er öðru fremur röð mistaka í efnahagsstjórninni sem ekki var séð fyrir er hinar upphaflegu áætlanir voru gerðar. Ein þessara mistaka eru hinar miklu skattahækkanir. Skattahækkanirnar hafa dregið úr framtaki, fjárfestingum og einkaneyslu sem eru hefðbundnir aflvakar hagvaxtar. Allt þetta hefur verið í sögulegu lágmarki undanfarin ár. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er jafnvel vafasamt að þær fjárfestingar sem í hefur verið lagt undanfarin fjögur ár hafi dugað fyrir afskriftum og rýrnun þeirra fjármuna sem til eru. Þá þarf ekki að orðlengja það að framlenging kreppunnar og þar með lítill kaupmáttur og brottflutningur fólks frá landinu hefur þrýst fasteignaverði lengra niður og komið í veg fyrir að það hækkaði með eðlilegum hætti.

Lokaorð

Þannig sjáum við að skattahækkanirnar stuðla að skuldavanda heimilanna með a.m.k. þrennum hætti. Í fyrsta lagi lækka þær beinlínis ráðstöfunartekjur flestra heimila. Í öðru lagi hafa þær framlengt kreppuna og lækkað þannig raunlaun heimilanna umfram það sem að öðrum kosti hefði orðið. Í þriðja lagi hefur framlenging kreppunnar og hið dauðyflislega ástand í hagkerfinu haldið fasteignaverði lengur niðri en efni stóðu til.

Allt hefur þetta bitnað illilega á skuldugum heimilum og aukið á vanda þeirra. Erfitt er að segja til um það hversu sterk þessi skattaáhrif eru. Af ofangreindu er þó fullvíst að þau eru veruleg. Það sorglegasta er að þessi aukni vandi skuldugra heimila sem stafar af skattahækkunum var alger óþarfi. Hann er afleiðing rangrar efnahagsstefnu sem gripið var til af fyrirhyggjuleysi og að því er virðist fyrst og fremst til þess að fullnægja úreltum kreddum. Öll þjóðin borgar brúsann og því miður er hvað minnst borð fyrir báru hjá skuldugum heimilum.

lesa áfram

Fyrirlestur á vegum Skattgreiðenda og RNH

Dr. Daniel Mitchell flytur fyrirlestur um stighækkandi tekjuskatt og eignaskatt, „The Case for the Flat Tax,“ á vegum Samtaka skattgreiðenda og Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt í háskólatorgi í Háskóla Íslands, stofu HT-102, föstudaginn 16. nóvember kl. 12–13. Fundarstjóri verður Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda. Í fyrirlestrinum mun dr. Mitchell meðal annars fara yfir og ræða ýmsar skattahækkanir núverandi ríkisstjórnar Íslands.

dr. Daniel Mitchell

Dr. Daniel Mitchell lauk B. A. prófi og M. A. prófi í hagfræði frá Georgia-háskóla og doktorsprófi í hagfræði frá George Mason-háskóla í Virginíu og var eftir það hagfræðingur hjá fjárlaganefnd Öldungadeildar Bandaríkjanna og sérfræðingur hugveitunnar Heritage Foundation í Washington-borg í skattamálum. Hann er nú helsti sérfræðingur hugveitunnar Cato Institute í Washington-borg í skattamálum. Hann hefur skrifað bók um flatan tekjuskatt, en einnig margar ritgerðir og greinar, meðal annars í Wall Street Journal og New York Times. Hann hefur komið nokkrum sinnum til Íslands og skrifað um íslenska skattkerfið.

 

 

 

 

 

 

 

lesa áfram

Skuldir ríkisins á rauðu ljósi

Sigurður Már Jónsson, blaðamaður, skrifaði þessa grein á mbl.is þann 22. október sl. Hann er ekki einn um það að hafa áhyggjur af skuldsetningu ríkis og sveitarfélaga, en víkur hér einnig að umræðu um stjórnarskrá. En í tillögum stjórnlagaráðs er ríkinu engin takmörk sett í hallarekstri og skuldsetningu en margar greinar sem skuldbinda ríkið um stórkostlega útgjöld. En látum Sigurð tala:

„Þeir finnast sem töldu það verðskulda svo sem eina spurningu í kosningu um stjórnarskrá að víkja að rekstri ríkissjóðs. Þá hugsanlega með það í huga að vernda almenning fyrir miskunnarlausri skattaáþján samfara gengdarlausri skuldasöfnun og hallarekstri hins opinbera. Nokkuð sem við sjáum glögglega eiga sér stað í dag. Engum blöðum er um það að fletta að mesta áhyggjuefnið er hvernig skuldir hafa hlaðist upp hjá ríkssjóði samhliða umtalsverðum skattahækkunum. Þegar síðasta áfall dundi yfir kom það okkur til góða að ríkissjóður var hallalaus. Nú getur hann ekki þolað nein áföll. Því miður er það svo að einkaskuldir hafa breyst í opinberar skuldir þrátt fyrir fyrirheit um annað.

 

Sigurður Már Jónsson

Margir stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafa undanfarið haldið því fram að kreppan sem hófst 2008 sé liðin hjá. Þeir eru hins vegar fjölmargir sem halda því fram að bólan hafi í raun ekki sprungið, heldur hafi hún aðeins færst til. Þetta hafi gerst með hækkandi skuldsetningu ríkja samhliða björgun banka. Ísland í dag er skýrt dæmi um þetta. Margt í skuldastöðu hins opinbera hlýtur að vekja áhyggjur.

Lánshæfismatsfyrirtækin með viðvaranir

Fyrir skömmu upplýstist að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs mun lækka í bókum lánshæfismatsfyrirtækisins Standard & Poor´s (S&P) og fara niður í spákaupmennskuflokk ef skuldir hins opinbera aukast. Að mati S&P gæti það gerst í kjölfar óhagstæðrar niðurstöðu Icesave málaferlanna eða ef kostnaður vegna endurreisnar fjármálakerfisins þ.m.t. Íbúðalánasjóðs fari úr böndunum, en S&P telur ljóst að ríkið þurfi að setja aukið fé inn í Íbúðarlánasjóð sem þegar er búin að fá 30 milljarða framlag frá ríkissjóði. Þá hefur S&P einnig áhyggjur af veikingu krónunnar í kjölfar haftaafléttingar en slíkt myndi hindra efnahagsbatann, stöðva vöxt innlendrar eftirspurnar og verða til þess að vanskil myndu aukast í bönkunum. Þetta er í samræmi við álit annarra matsfyrirtækja.

Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs hefur um skeið verið á stöðugum horfum, hjá bæði S&P og Fitch Ratings. Moody´s er eina matsfyrirtækið sem er með lánshæfismat ríkissjóðs á neikvæðum horfum, en lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs hjá fyrirtækinu fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri og erlendri mynt eru Baa3 og P-3 fyrir skammtímaskuldbindingar. Allt hefur þetta áhrif til þess að ríkissjóður sæki ekki svo glatt lánsfé á skaplegum kjörum.

Ólíklegt að skuldir verði greiddar niður

Ekkert bendir til þess að ríkissjóður geti farið að greiða niður skuldir á næstunni eins og einstaka greiningaraðilar hafa verið að gæla við. Ekki nema þá með sölu á eignum en ekkert hefur verið upplýst um hvernig því verður háttað. Pólitísk stemmning fyrir slíku virðist ekki mikil.

Ein af hverjum sex krónum sem fóru úr ríkiskassanum á fyrri hluta ársins voru notuð til að þjónusta lán. Því miður virðist ríkissjóður vera að festast í eftirhrunsstöðu sem felur í sér að stöðugt hallar undan fæti. Þó að skuldir margra ríkja séu meiri en skuldir Íslands þá skapar gjaldmiðillinn og uppgjör bankahrunsins mikla óvissu sem mun hafa áhrif á greiðslugetu  ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðlum.

Vandanum vísað á næstu ríkisstjórn

Gert er ráð fyrir að verulegur halli verði á ríkissjóði á árinu 2012, eða um 21 milljarðar króna og handbært fé frá rekstri verði neikvætt um 42 milljarða króna. Stefnt var að því samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 að frumjöfnuður ársins verði jákvæður, sem er mikilvægt skref í átt til sjálfbærra ríkisfjármála, þótt frumjöfnuðurinn dugi ekki enn fyrir nettó fjármagnsgjöldum eins og greiningardeild Arion banka benti á nýlega. Kosningafjárlög eru framundan og ekki verður séð að ríkisstjórnin ætli að hefja aðlögun útgjalda að tekjum. Líklega er hugmyndin sú að láta næstu ríkisstjórn glíma við slíkt. Það þarf ekki að taka fram hve miklu skiptir að safna afgangi af ríkisrekstrinum sem fyrst og greiða niður skuldir; annars er hætta á að vaxtagreiðslurnar haldi áfram vaxa, éti upp stóran hluta ríkisútgjaldanna og þau verði á endanum ósjálfbær. “

lesa áfram

top