Tag: skattgreiðendur

Harpa á framfæri skattgreiðenda

Um rekstur Hörpu var fjallað í Kastljósi Ríkisútvarpsins þann 2. september sl. Brynja Þorgeirsdóttir flutti þar inngang að umfjölluninni og segir frá því að á aðeins fjórum árum hafa tapast 1.900 milljónir í rekstri hússins. Þrátt fyrir það kaus hún að tala um að rekstur Hörpu sé nú „í járnum”. En um það orðasamband segir málfarsbankinn:„Orðasambandið standa/vera í járnum merkir: vega salt, vera jafnt (svo að tvísýnt er um úrslit), vera svipað.”

Þannig virðist sá skilningur flestra á orðasambandinu vera réttur að „í járnum” þýði að litlu megi muni á hvern veg fari. En rekstur Hörpu er þá engan veginn í járnum því þrátt fyrir auknar tekjur og aukinn fjölda gesta fer rekstrarkostnaðurinn líka hækkandi og bullandi tap er niðurstaðan, ár eftir ár.

Samkvæmt upplýsingum Kastljóss námu rekstrartekjurnar 941 milljón árið 2014, en útgjöldin voru gott betur hærri, eða 1.490 milljónir, eða halli upp á 549 milljónir króna. Þessi halli tekur ekki einu sinni tillit til árlegrar afborgunar lána sem tekin voru til að klára húsið, en þar er um að ræða u.þ.b. 1.000 milljónir króna árlega til ársins 2046. Hið eiginlega tap árið 2014 er því 1.549 milljónir króna. Fróðlegt er að rifja upp orð stjórnarformanns hússins árið 2010, en hann fullyrti að húsið yrði ekki baggi á skattgreiðendum og myndu standa undir rekstrarkostnaði sem og afborgunum af lánum. En kannski telja rekstraraðilar hússins árlegt framlag ríkis og Reykjavíkurborgar sem tekjur hússins þó útgjöld skattgreiðenda séu.

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, tekur undir það sjónarmið fyrrum stjórnarformanns hússins að húsið skuli og eigi að standa undir rekstrarkostnaði og að sjálfsagt sé að gera þá kröfu. Hins vegar sé það engan veginn eðlilegt að húsið greiði þá fasteignaskatta sem á það hefur verið lagt, né heldur ræðir hann afborganir af lánum. En skattgreiðendur eiga að reikna sér til tekna einhverjar ímyndaðar 5.000 milljónir króna í gjaldeyrisöflun sem beinlínis megi eigna tilvist hússins. Rétt eins og einhver geti fullyrt að þessar tekjur, eða gjaldeyrir, hefði ekki komið til án hússins. Hvergi er rætt um hversu neikvæðar afleiðingar Harpan kann að hafa haft á aðra valkosti fyrir ráðstefnur og tónleikahald.

Í umfjöllun Kastljóss er þess sérstaklega getið að árið 2014 hafi alls 1.500.000 manns komið í Hörpu. Ekki bera að draga þá tölu í efa. En er þá ekki einfalt mál að krefja hvern gest um aðeins 500 krónur í viðbót fyrir heimsóknina í þetta verðlaunahús. Er það ekki endanlegur mælikvarði á hversu mikils við virði húsið hvað gestir þess eru tilbúnir til að borga? Þessi lítilsháttar hækkun myndi auka tekjur hússins um 750 milljónir króna á ári – hallareksturinn hyrfi og húsið gæti farið að létta undir með skattgreiðendum með því að standa undir hluta afborgunar lána.

lesa áfram

Stefnir í 462 milljóna tap af rekstri Hörpu

Fréttablaðið flytur miklar og jákvæðar fréttir af rekstri Hörpu þriðjudaginn 24. september. Þannig niðurgreiddu skattgreiðendur taprekstur upp á um 584 milljónir árið 2012, en nú er útlit fyrir að tapið verði aðeins 462 milljónir á þessu ári, sem forstjórinn er vel sáttur við.

Það má jafnvel reikna sig til þess að raunverulegt tap af rekstri Hörpu sé enginn ef tekið er tillit til framlags eigenda (skattgreiðenda) upp á 160 milljónir í ár (og næstu tvö ár) og þess að af húsinu skulu greidd fasteignagjöld upp á 355 milljónir. Ef þetta tvennt er lagt saman er bara eiginlega ekkert tap af rekstri hússins!

Og auðvitað þarf ekki að geta þess að fastar leigutekjur upp á 190 milljónir koma að stærstum hluta frá skattgreiðendum og auðvitað allur byggingakostnaður hússins upp á um milljarð á ári og næstu 33 árin eða svo.

Vandamál Hörpu verða ekki leyst á forsendum hins opinbera. Nauðsynlegt er að leita einkaaðila sem vilja taka að sér reksturinn, skattgreiðendum að skaðlausu. Héðanaf er ólíklegt að endurheima megi byggingakostnaðinn. Sá myllusteinn mun hanga um háls skattgreiðenda næstu áratugina. En stöðvar verður tafarlaust fjáraustrið í reksturinn.

 

lesa áfram

Vaxtahringekjur

Grein þessi eftir Arnar Sigurðsson, fjáfesti, birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2012. Grein sem vísað er til eftir Sigríði Andersen má finna á heimsíðu Sigríðar, www.sigridurandersen.is, en upphaflega birtust greinar hennar í Fréttablaðinu 8. nóvember og  13. nóvember. Grein Arnars er hér endurbirt með leyfi höfundar.

„Nýverið birti einn af frambærilegri frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Andersen, grein undir fyrirsögninni „Jóhönnulánin“ (http://www.sigridurandersen.is/site/?p=713). Sigríður bendir réttilega á þá hryggilegu staðreynd að þegar öllum mátti ljóst vera að framundan væri djúp verðleiðrétting á fasteignum og gengi krónunnar með tilheyrandi verðbólguskoti um mitt ár 2008 greip þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, til þess að auðvelda grunlausum að steypa sér í skuldafen hjá Íbúðalánasjóði. Því miður eru hins vegar fleiri sorglegar hliðar á inngripum stjórnmálamanna á fjármálamarkaði sem byggjast á „einföldum kosningaskilaboðum“ sem sneydd eru allri grunnhugsun. Ef vaxta- og húsaleigubætur gætu gengið upp í hagfræðilegum skilningi væri full ástæða til að taka upp Nóbelsverðlaun í greininni og veita þau fyrstu til Íslands.

Hér á landi er rekin hávaxtastefna sem ætlað hefur verið það vafasama hlutverk að halda aftur af kaupgleði almennings. Til að milda þá þensluskerðingu dælir hins vegar ríkið um þriðjungi vaxtakostnaðar heimilanna aftur til baka! Eftir sitja fyrirtækin í landinu með háa vaxtabyrði sem heldur aftur af atvinnuuppbyggingu. Til að fjármagna vaxtabæturnar gefur ríkið svo út skuldabréf sem aftur eykur eftirspurn eftir fjármagni sem einnig stuðlar að hærra vaxtastigi. Önnur vaxtahringekja fáránleikans eru s.k. húsaleigubætur. Eins og flestum ætti að vera ljóst ræðst húsaleiga af framboði og eftirspurn auk vaxtastigs. Húsaleigubætur gera ekkert annað en að valda aukinni eftirspurn í húsnæði og þar með hækkun á húsaleigu. Afleiðingin er að hinar rangnefndu „bætur“ renna til leigusala en ekki leigutaka eins og að var stefnt. Góður ásetningur stjórnmálamanna er ekki einungis til ófarnaðar fyrir þá sem njóta eiga því vaxtahringekjurnar eru jafnframt hrikalegur kostnaður fyrir skattgreiðendur.

Eins og margoft hefur verið bent á er Íbúðalánasjóður eins og sjálfsmorðssprengjuvesti á íslensku efnahagslífi. Sjóðurinn er afleitur valkostur fyrir lántakendur, með hæstu raunvexti á byggðu bóli og því algerlega óskiljanlegt hvers vegna starfseminni er haldið áfram. Þrátt fyrir vaxtaokrið hafa skattgreiðendur einnig þurft að leggja sjóðnum nú þegar til meðgjöf sem nemur andvirði útrásarhallarinnar Hörpu og furðuhljótt hefur verið um. Nú virðist hins vegar vanta vel á annað hundrað milljarða til að sjóðurinn geti staðið í skilum. Meðvirkir stjórnmálamenn allra flokka virðast ætla að taka á því vandamáli af svipaðri festu og skuldavanda Orkuveitunnar á sínum tíma og gott ef sumir myndu ekki bara vilja að sjóðurinn borgaði út arð til eiganda síns sem n.k. lýtaaðgerð á ríkisreikningnum að ekki sé nú minnst á þá hugmynd að hinn gjaldþrota sjóður geti greitt úr skuldavanda heimilanna!

Stundum er sagt að Íslendingar þurfi ráðamenn með kjark og þor til að taka á aðsteðjandi vanda. Engar slíkar forsendur þarf til að taka á vanda Íbúðalánasjóðs, einungis lítilsháttar skynsemi. Loka þarf sjóðnum í núverandi mynd með því að setja hann í hefðbundna slitameðferð eins og gert var með föllnu bankana. Nægt framboð er af lánsfé á almennum markaði auk þess sem ESA hefur nú þegar úrskurðað að núverandi rekstur sé skýrt samkeppnisbrot á fjármálamarkaði og að endurgreiða þyrfti frekari ríkisaðstoð við sjóðinn.”

 

lesa áfram

Ráðalaus Íbúðalánasjóður

Grein eftir Arnar Sigurðsson, fjárfesti, sem upphaflega birtist í Viðskiptablaðinu 19. september 2012, og er hér endurbirt með leyfi höfundar. Viðskiptablaðið hefur ítrekað fjallað um vanda Íbúðalánasjóðs, í fréttum, leiðara og umfjöllun undir nafni Óðins.

„Albert Einstein skilgreindi geðveilu sem háttalag þar sem sama aðgerð væri endurtekinn í sífellu í von um breytta niðurstöðu. Ef áætlanir stjórnvalda hér á landi ná fram að ganga um að sökkva 14,5 milljörðum af almannafé í óstöðvandi fjárþörf Íbúðalánasjóðs, á eftir 30 milljörðum sem brunnið hafa upp á síðustu tveimur árum, mætti ætla að einnhverskonar veila gangi laus í íslenska stjórnarráðinu. Sögnin að ráða hefur m.a. þá merkingu að stjórna og að hafa ráð tiltæk í hugtakinu úrræði ef vanda ber að höndum. Ráða-menn standa undir hvorugri skilgreiningunni ef einu úrræðin eru að ausa almannafé á vandamál og hækka skatta í stað þess að fyrirbyggja framtíðarvandamál sem þó hefur verið varað við árum saman. Löngu hefur verið vitað í hvað stefndi með Íbúðalánasjóð sem talinn er vera rekinn með ríkisábyrgð. Sem betur fer er hinsvegar hvergi til stafkrókur í lögum frá Alþingi þess efnis að skuldbindingar sjóðsins séu á ábyrgð ríkissjóðs enda hefur sjóðurinn aldrei greitt lögbundið gjald vegna ríkisábyrgðar. Í “Skýrslu nefndar um endurskoðun ríkisábyrgða og tillögur til breytinga” frá árinu 1997 kemur reyndar fram það: “…sjónarmið að ef til vill ættu aðilar í þessari stöðu að greiða ábyrgðargjald til ríkissjóðs vegna skuldbindinga sinna…… Meirihluti nefndarinnar leit hinsvegar svo á að slíkt kæmi ekki til greina þar sem með því væri óbeint verið að viðurkenna ríkisábyrgð auk þess sem grundvöll til slíkrar innheimtu skorti, væri ekki um ótvíræða ríkisábyrgð að ræða”

Einu gildir hvort vænhæfni sérfræðinga er um að kenna eða hvort illmögulegt sé að rýna í framtíðina, niðurstaðan er sú sama að ófarir skattgreiðenda virðast alltaf óvæntar. Þrátt fyrir vandlega úttekt árið 2006 sem unnin var af hópi “sérfræðinga” komst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að:

“Ólíklegt er að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs stefni niður fyrir áskilin hlutföll í fyrirsjáanlegri framtíð. Vegna þessa er líka ólíklegt að reyna muni á ríkisábyrgð á skuldbindingum sjóðsins”

Að sögn sjóðsins er talið að leiða megi almennt af íslenskri lögskipan að Íbúðalánasjóður sem stofnun í eigu ríkisins njóti ótakmarkaðrar ábyrgðar, t.d. sé kveðið á um það í gjaldþrotalögum að sjóðurinn geti ekki orðið gjaldþrota. Þannig megi ætla að ríkissjóður sem eigandi beri ótakmarkaða ábyrgð á sjóðnum.

Þessi tilvísun til gjalþrotalaganna stenst hisvegar ekki því sérstaklega er kveðið á um í 5. gr. að ekki sé hægt að taka stofnun til gjaldþrotaskipta ef ríkið ábyrgist skuldir.

Með lögum um ríkisábyrgðir er ekki almenn heimild til slíkrar afleiddar ríkisábyrgðar heldur einmitt kveðið á um að sérstaka lagaheimild þurfi til að virkja ríkisábyrgð, 1tl. 3. gr. Í lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 sem taka til ÍLS er ekkert vikið að ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Jafnframt er það ekki meginregla ísl. réttar að ríkið sé ábyrgt fyrir skuldbindingum sjálfstæðra stofnana. Á þetta hefur ekki reynt þannig að augljóslega getur ekki getur verið um meginreglu að ræða.

Samkvæmt lögum 121/1997 um ríkisábyrgðir er skýrt kveðið á um að “Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum”

Samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar frá því í janúar á þessu ári segir m.a. að”..stjórnarskráin krefst þess í reynd að lagaheimild sé fyrir ríkisábyrgðum og annars konar skuldbindingum ríkisins, eins og gildir um lántökur. Hefur framkvæmdin enda verið með þeim hætti.” Engu að síður kemst stofnunin að þeirri ályktun í úttekt á Íbúðalánasjóði að ríkisábyrgð tryggi lánveitendum sjóðsins fullar endurheimtur.

Það er því síður en svo ljóst að ófrávikjanleg ríkisábyrgð hvíli á öllum skuldbindingum sjóðsins og skiptir engu þó starfsmenn hans hafi hingað til staðið í annari trú og sett slík ákvæði inn í skráningarlýsingu skuldabréfa sjóðsins. Embættismenn geta aldrei gefið út ríkisábyrgð, einungis Alþingi. Óljóst orðalag í C hluta fjárlaga um ríkisábyrgðir byggt á útgáfuáætlun sjóðsins hverju sinni geta vart kallast skýr ríkisábyrgð á t.d. skuldbindingu um að ekki megi greiða upp útgefin skuldabréf.

Eins og áður hefur verið vikið að er rekstur Íbúðalánasjóðs slæmur kostur fyrir lántakendur því vextir sjóðsins eru þeir hæstu í heimi en afleitur kostur fyrir skattgreiðendur sem þurfa að dæla í hítina tugum milljarða til að halda stofnuninni ofanjarðar. En hvað er til ráða?

Með því að dæla stöðugt almannafé í Íbúðalánasjóð er í raun verið að tryggja lánveitendum íbúðalánasjóðs, nokkurs konar “áhyggjulaust ævikvöld” með hámarks arðsemi af glannalegri útlánastarfsemi sjóðsins. Nærtækast væri að loka fyrir ný útlán frá sjóðnum í núverandi mynd og kanna með hvaða hætti, lánveitendur tækju á sig hluta af neikvæðri afkomu sjóðsins. Fjárfestar myndu þannig uppskera eins og til hefur verið sáð með tíð og tíma þar til skuldabréf sjóðsins verða komin á gjalddaga árið 2044. Með því að taka af allan vafa um ríkisábyrgð, myndi skuldastaða ríkissjóðs batna um hátt í 1.000 milljarða og lánshæfismat ríkissjóðs batna.

Raunsætt verður líklega að líta sem svo á að þrátt fyrir hrakfarirnar með Íbúðalánasjóð og þá staðreynd að flestir lántakendur kvarti undan hinu verðtryggða útlánakerfi hins opinbera, mun pólitískur rétttrúnaður tryggja að áfram verði ástundaður ríkisrekstur á þessu sviði. Nærtækt væri að stofna nýjan heildsölubanka án ríkisábyrgðar sem þjónusta myndi bankastofnanir sem afgreiddu lánin gegn fyrsta veðrétti en framseldu svo veð í útlánasöfnum sínum til hins nýja heildsölubanka. Þar með yrði líka komist hjá brotum á EES samningnum en núverandi rekstur Íbúðalánasjóðs er skýrt samkeppnisbrot samkvæmt niðurstöðu ESA. Hugsanlega yrði eigendum þeirra skuldabréfa sem sjóðurinn hefur gefið út boðið að skipta út eldri bréfum fyrir hin nýju á lægri kröfu eða sæta uppgreiðslu ella miðað við nafnvexti bréfana 3,75%. Hér væri því um afar áþekka aðgerð að ræða og þegar húsbréfakerfinu var breytt í íbúðabréf.

Miðað við ávöxtunarkröfu á markaði í dag mætti ætla að nýr heildsölubanki myndi geta boðið mun hagstæðari lán en áður og því ætti breytingin að ganga vel í lántakendur auk þess sem girt væri fyrir tugmilljarða meðgjöf með sjóðnum í framtíðinni.

Vissulega munu hagsmunaaðilar reka upp ramakvein enda hafa núverandi skuldabréf verið gulls ígildi fyrir fjárfesta árum saman og tryggt mönnum auðvelda ávöxtun. Um það bil 70% af verðtryggðum skuldabréfum íbúðalánasjoðs eru í eigu lífeyrissjóða sem líklega myndu ekki tapa á breytingunni. Það littla tap sem slíkir aðilar myndu þurfa að taka á sig með framangreindri breytingu væri þó ekki nema brot af þeirri áhyggjulausu ávöxtun sem þeir hafa fengið á silfurfati á undangengnum árum.

Samandregið hefðu ofangreindar breytingar eftirfarandi afleiðingar í för með sér:

  • Tugmilljarða sparnaður fyrir skattgreiðendur.
  • Tæplega 1000M minni skuldabyrði á efnahagsreikningi ríkissjóðs (vegna óljósrar ábyrgðar).
  • Bætt lánshæfismat ríkissjóðs.
  • Vaxtalækkun á nýjum fasteignalánum.
  • Samkeppnisárekstrar milli ÍLS og viðskiptabanka úr sögunni sem og kærumál vegna brota á EES samningnum.
  • Góður grunnur til að minnka vægi verðtryggingar.
  • Svigrúm fyrir lægri stýrivexti og betra miðlunarferli peningastefnu Seðlabankans.
  • Hefðbundin útlánastarfsemi fjármálafyrirtækja yrði með eðlilegri og líklega hagkvæmari hætti fyrir neytendur.

Verðtryggð velferðarstefna fjármagnseigenda á kostnað skattgreiðenda hlýtur að vera komin á leiðaranda.”

lesa áfram

Íbúðalánasjóður sekkur

Arnar Sigurðsson, fjárfestir, hefur ítrekað vakið athygli á vanda Íbúðlánasjóðs, en það var fyrst í lok árs 2012, sem fjölmiðlar almennt fóru að fjalla um risavaxinn vanda sjóðsins. Búið er að plástra stöðu hans lítilsháttar, en fyrirsjáanlegt að skattgreiðendur verði í framtíðinni látnir axla miklar byrgðar af slælegum rekstri sjóðsins.

Arnar skrifaði í Morgunblaðinu 31. maí 2012 þessa grein um Íbúðalánasjóð:

„Ronald Reagan sagði eitt sinn að níu hræðilegustu orðin í enskri tungu væru „I‘m from the government and I‘m here to help.“ Líklega eiga þau orð hvergi betur við en með „hjálp“ þá sem Íbúðalánasjóður veitir Íslendingum.

Viðskiptablaðið hafði nýverið eftir nýjasta fjármálaráðherranum, Oddnýju Harðardóttur, undarlega frétt sem lítið fór fyrir, þess efnis að „Ekki væri búið að ákveða hvenær Íbúðalánasjóði verður lagt til aukafé, sem sjóðurinn þarf á að halda.“ Á heimasíðu sjóðsins kemur hinsvegar fram að hann „er fjárhagslega sjálfstæður og stendur undir lánveitingum og rekstri með eigin tekjum“.

Framangreind lýsing um sjálfstæði er því ámóta trúverðug og að forsetaframboð Þóru og Svavars sé óháð Fréttastofu RÚV, svo dæmi sé tekið af handahófi.

Ef svonefndur „tilgangur“ sjóðsins er skoðaður kemur í ljós að starfsmenn hans hyggjast „stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

Arnar Sigurðsson, mynd úr Viðskiptablaðinu

Leið Íbúðalánasjóðs til heljar er vitaskuld vörðuð góðum ásetningi eins og „öryggi, jafnrétti, möguleika og viðráðanleg kjör“. Íbúðalánasjóður er hinsvegar ekkert annað en millilag, n.k. heildsala sem tekur peninga að láni og lánar út aftur, rétt eins og venjulegir bankar gera. Ef vaxtaþóknun sjóðsins er skoðuð mætti ætla að reksturinn ætti að vera vel „viðráðanlegur“ fyrir bankamenn hins opinbera en svo er hins vegar ekki. Vextir þeir sem sjóðurinn borgar eru u.þ.b. 2% en útlánin, þ.e. hin (ó)viðráðanlegu kjör“ til almennings eru hinsvegar 4,7%. Vaxtamunurinn samsvarar því ekki minna en 100% álagningu!

Þrátt fyrir vaxtaokrið er rekstur sjóðsins hinsvegar svo galinn að skattgreiðendur þurfa að leggja sjóðnum til tugi milljarða að auki. Verðtryggð útlán sem sjóðurinn veitir almenningi bera verðbólguáhættu, sem almenningur hefur enga forsendu til að meta, í ofanálag við hæstu raunvexti í heimi. Ein afleiðing er að vanskil við sjóðinn nema nú hvorki meira né minna en 160 milljörðum!

Þetta lánaform kennir sjóðurinn við „öryggi“ en lætur þess ógetið að um öryggi fjármagnseigenda sem lána sjóðnum er að ræða. Þegar öllu er á botninn hvolft kemur í ljós að Íbúðalánasjóður er slæmur kostur fyrir lántakendur en afleitur kostur fyrir skattgreiðendur en reksturinn einn og sér kostar yfir 2 milljarða á ári.

Sirkus fáránleikans nær þó fyrst hámarki þegar framkvæmd markmiðsins um að auðvelda fólki að kaupa fasteignir er skoðað. Sjóðurinn berst hatramlega gegn lækkun fasteigna- og leiguverðs með því að kaupa sjálfur u.þ.b. 2000 fasteignir þeirra sem ekki hafa staðið í skilum. Markmiðið með þessum uppkaupum er að halda uppi fasteignaverði og gengur sjóðurinn svo langt að leigja ekki út íbúðir á þeim stöðum þar sem „offramboð“ gæti verið til staðar að mati spákaupmanna sjóðsins.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að fasteignir vega um þriðjung í vísitölu neysluverðs og að hver prósenta í verðbólgu kostar almenning, beint og óbeint um 20 milljarða á ári. Gera má ráð fyrir að uppgreiðslur hjá sjóðnum aukist. Það kemur sjóðnum afar illa því til að tryggja velferð fjármagnseigenda er sjóðnum óheimilt að uppgreiða sín lán samsvarandi. Varlega áætlað þyrfti um 100 milljarða til að geta staðið straum af því misræmi sem framundan er.

Íbúðalánasjóður hefur nú þegar siglt á ísjaka eins og Titanic forðum. Almenningur getur treyst á að stjórnmálamenn munu fumlaust endurraða þilfarsstólunum eins og sést í hinni nýju fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar þar sem áætlað er að leggja sjóðnum til 2 milljarða í eigið fé en breyta engu að því er starfsemina varðar.”

 

lesa áfram

Ekkert seður botnlausar fjárhirslur ríkisins

Bloggarinn og verkfræðingurinn Geir Ágústsson sendi Samtökunum og skattgreiðendum almennt þarfa áminningu:

Skattgreiðendur eru, eðli málsins samkvæmt, sundruð hjörð. Skattgreiðendur eru allir sem eru ekki á spena hins opinbera og af öllu tagi: Launþegar, fyrirtækjaeigendur, seljendur þjónustu, innflytjendur, útflytjendur, kaupmenn, iðnaðarmenn og svona mætti lengi telja. Ríkisvaldið hefur þá alla í vasa sínum ef svo mætti að orði komast. Allar tekjur allra eru hugsanlegur „tekjustofn“ hins opinbera, ef marka má orðræðu margra stjórnmálamanna, og jafnvel „ónýttur tekjustofn“ ef lögbundin hámörk á skattheimtu eru ekki „fullnýtt“.

Þeir sem eru ekki í sigti skattheimtumanna eru því fegnastir að vera lausir við áreitið hverju sinni. Skammtímahugsunin er hins vegar engum til hagsbóta, því það eina sem ríkisvaldið upplifir er lítil skipulögð andspyrna þegar skattaskrúfan er hert á einhverju fórnarlambinu. Ríkisvaldið passar sig líka vel á að herða bara að einum „hópi“ í einu, og helst nógu fámennum til að andspyrnan sé sem veikust.

Geir Ágústsson

Vegna sundurleitni skattgreiðenda er oft erfitt að fá þá til að standa saman gegn ofríki hins opinbera gagnvart hinum og þessum „hópum“. Hins vegar bregðast „hóparnir“ oft við þegar skattavendinum er sveiflað á þá. En mjó er rödd hinna fámennu hópa, og samstaðan við þá er oft lítil. Nýjasta dæmið er rúm þreföldun á virðisaukaskatti á gistinóttum. Ýmis „samtök“ aðila í ferðaþjónustu á Íslandi hafa brugðist ókvæða við þessari gríðarlegu skattahækkun, og bent á mörg góð mótrök við henni, t.d. þeim að ríkisvaldið muni sennilega hafa minna úr krafsinu þegar á hólminn er komið vegna fækkunar á seldum gistinóttum.

En hvað með aðra skattgreiðendur? Þeir þegja upp til hópa. Þeir hugsa með sér að þorsta ríkisvaldsins megi svala með blóði gistinæturseljenda að þessu sinni, og að langt verði í næsta blóðbað. Sennilega er það rétt þegar til skemmri tíma litið, en reynslan ætti að hafa kennt okkur fyrir löngu síðan að blóðbaðið mun halda áfram.

Það er áríðandi að skattgreiðendur standi saman þegar ríkisvaldið er á veiðum. Öllum skattahækkunum á allt þarf að mótmæla. Ríkisvaldið mun aldrei hætta að hækka skatta ef andspyrnan er veik og dreifð. Ríkisvaldið mun aldrei fá „nóg“. Það stækkar alltaf jafnhratt eða hraðar en skatttekjur þess. Talsmenn fyrirtækja í ferðaþjónustu verða að fá liðsauka, og þeir verða svo að verða öðrum liðsauki þegar ríkisvaldið snýr sér að öðrum fórnarlömbum. Og jafnframt láta það eiga sig að krefjast látlaust liðsinnis ríkisvaldsins.

Sameinaðir stöndum vér gegn ofríki hins opinbera, og sundraðir föllum vér, í gin hinnar botnlausu fjárhirslu ríkisvaldsins.

lesa áfram

Á kostnað komandi kynslóða

Frábær grein eftir Óla Björn Kárason, blaðamann, sem birtist í Morgunblaðinu 1. ágúst 2012, og einnig á vef Óla Björns, T24:

“Gömul kona, sem hafði alla tíð unnið hörðum höndum og komið fjórum börnum til manns, sagði að ekki væri tímabært að gefa upp öndina og var hún þó ánægð en södd lífdaga. Hún þyrfti nokkra mánuði til að leggja örlítið meira fyrir til að eiga fyrir útförinni. Fyrr ætlaði hún ekki að kveðja. Í huga þessarar gömlu heiðurskonu kom ekki til greina að skilja við þennan heim og láta börnin greiða reikninginn.

Við sem höfum fengið að njóta verka hinna eldri verðum að tileinka okkur hugsun gömlu konunnar. Við getum ekki slegið víxla til að reka hið opinbera kerfi og látið börnunum okkar og barnabörnum eftir það erfða verkefni að greiða. Með því rýrum við lífskjör og velferð þeirra sem á eftir koma. Engin kynslóð hefur siðferðilegan rétt á því að velta vanda samtímans yfir á afkomendur. Þess vegna verður að fara í róttæka uppstokkun á rekstri og skipulagi hins opinbera.

Metnaður hverrar kynslóðar hefur staðið til þess að byggja upp samfélagið og búa þannig í haginn fyrir þá sem á eftir koma. Kapp hefur verið lagt á að tryggja afkomendum betra líf og fjölbreyttari tækifæri.

Tækifæri úr greipum

Í kjölfar falls íslenska fjármálakerfisins fékk ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna einstakt tækifæri til þess að beita sér fyrir umfangsmikilli endurskoðun og -skipulagningu hins opinbera. Engin ríkisstjórn í sögu lýðveldisins hefur fengið annað eins ráðrúm til að skera upp ríkiskerfið með það að markmiði að styrkja velferðarkerfið en um leið tryggja að reikningur samtímans verði ekki sendur til barna og barnabarna. Í stað þess að nýta tækifærið ákvað ríkisstjórnin að halda áfram á sömu braut en var neydd til niðurskurðar vegna samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Kannski var ekki við öðru að búast. Það er einfaldara og pólitískt auðveldara að beita hníf niðurskurðar en beita sér fyrir róttækri endurskipulagningu á öllum rekstri hins opinbera. Um leið og hnífnum er brugðið á loft eru gefin loforð um betri tíma – aukin ríkisútgjöld þegar betur árar.

Vandinn í búskap hins opinbera (ríki og sveitarfélaga) er miklu víðtækari en svo að hægt sé að beita niðurskurðarhnífnum og vona síðan það besta í framtíðinni.

Frá árinu 1980 hafa útgjöld hins opinbera nær þrefaldast að raunvirði (mælt á verðvísitölu landsframleiðslu samkvæmt útreikningi Hagstofunnar). Fyrir 32 árum námu útgjöld ríkis og sveitarfélaga um 258 milljörðum króna á verðlagi ársins 2011. Á síðasta ári voru útgjöldin um 751 milljarður króna, þrátt fyrir nokkurn niðurskurð. Árið 1981 var meðalfjöldi Íslendinga rétt liðlega 228 þúsund en á síðasta ári 319 þúsund. Útgjöld á hvern Íslending voru því 1,1 milljón árið 1980 en tæpar 2,4 milljónir króna 2011. Þannig tvöfölduðust útgjöldin að raungildi á hvert einasta mannsbarn.

Ef stjórnmálamenn á Alþingi og í sveitarstjórnum hefðu staðið á bremsunni frá árinu 1980 og haldið raungildi útgjalda á mann óbreyttu hefðu gjöldin verið 390 milljörðum króna lægri á síðasta ári en raun varð á. Þetta jafngildir 4,9 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu eða liðlega 400 þúsund krónum á mánuði.

Hægt er að færa rök fyrir því að ekki sé óeðlilegt að útgjöld hins opinbera aukist ár frá ári umfram vísitölu landsframleiðslu. En jafnvel með slíkum rökum er með engum hætti hægt að réttlæta þá gríðarlegu hækkun útgjalda sem orðið hefur á síðustu þremur áratugum. Draga verður í efa að margar fjölskyldur telji að þær fái aukna þjónustu og betri frá ríki og sveitarfélögum sem er rúmlega 400 þúsund króna virði á mánuði.

Meginreglan hefur verið sú að útgjöld hins opinbera hafi verið hærri en tekjur eða í 22 ár af 32 frá árinu 1980. Samtals nemur hallinn rúmlega 525 milljörðum króna. Þennan halla verða skattgreiðendur framtíðarinnar að greiða með einum eða öðrum hætti. Í raun er hallinn enn meiri því með skipulegum hætti hafa ýmsar skuldbindingar verið faldar og það sem er verra; skatttekjur framtíðarinnar verið færðar til að standa undir rekstri samtímans líkt og gert var þegar samið var við álfyrirtækin um fyrirframgreiðslu skatta. Þannig er verið að svindla á komandi kynslóðum.

Innleiðum samkeppni

Sú stund er fyrir löngu runnin upp að almenningur átti sig á því að Íslendingar hafa ekki efni á að reka það umfangsmikla kerfi sem byggt hefur verið upp á umliðnum áratugum. Liðlega 300 þúsund manna þjóð hefur ekki efni á því að halda úti 15 sendiráðum eða halda úti fjölmörgum eftirlitsstofnunum, sem eru sumar hverjar a.m.k. í besta falli óþarfar. Íslendingar hafa ekki efni á því að halda úti flókinni og fjölmennri stjórnsýslu en reyna á sama tíma að tryggja gott heilbrigðiskerfi.

Þjóð sem telur sig neydda til að skera niður í löggæslu hefur ekki efni á því að reka forsætisráðuneyti sem kostar 1,2 milljarða króna á ári. Draga verður í efa að réttlætanlegt sé að greiða liðlega 400 milljónir í laun til listamanna, sem flestir eru fullfrískir, á sama tíma og menntastofnanir líða skort og nemendur þurfa að taka afleiðingunum. Sú spurning vaknar hvort ekki sé hægt að reka velferðarráðuneytið fyrir lægri fjárhæð en 920 milljónir á sama tíma og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þurfa að sæta stórkostlegum niðurskurði. Varla munu himinn og jörð farast þótt tekið sé til hendinni í umhverfisráðuneytinu sem kostar í heild 8,5 milljarða og þar af 327 milljónir vegna rekstrar aðalskrifstofu. Getur verið að eitthvað sé að í forgangsröðun þegar ekki er hægt að endurnýja lífsnauðsynleg tæki á sjúkrahúsum en talið er rétt að reka Umhverfisstofnun fyrir 922 milljónir króna?

Þannig verður að fara í gegnum hvern einasta útgjaldalið, hverja einustu stofnun og hvert ráðuneyti. Spyrja verður gagnrýnna spurninga. Ekki aðeins hvort landsmenn hafi efni á standa undir kostnaði heldur ekki síður hvort hægt sé að réttlæta útgjöldin. Hið sama á við um sveitarfélögin.

En það þarf fleira að koma til. Með skipulegum hætti á að innleiða samkeppni innan hins opinbera, þar sem því verður komið við. Gera verður greinarmun á því hver veitir þjónustuna og hver greiðir fyrir hana. Það er skynsamlegt fyrir þann sem greiðir að efna til samkeppni milli þeirra sem hafa áhuga á að veita þjónustuna, hvort heldur um er að ræða heilbrigðisþjónustu eða rekstur menntastofnana. Slík samkeppni tryggir að öðru jöfnu lægra verð. Fátt er betra fyrir þann sem nýtir sér þjónustuna en að keppt sé um viðskiptin – að fleiri en einn og fleiri en tveir berjist um að fá viðkomandi í viðskipti. Þjónustan verður betri og nær því að uppfylla þær þarfir sem fyrir hendi eru með ódýrari hætti en áður. Við höfum reynsluna úr heilsugæslunni sem rennir stoðum undir þessa fullyrðingu.

Þeir sem veljast til setu í sveitarstjórnum eða á Alþingi eru trúnaðarmenn almennings – gæslumenn sameiginlegra fjármuna landsmanna. Þeim ber því að gæta aðhalds og verja fjármunum af skynsemi. Þeir eiga að gera allt til að koma í veg fyrir að eyðsla samtímans kalli á aukna skattheimtu og lakari lífskjör í framtíðinni. Metnaðurinn á að vera sá að byggja upp og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir en skilja ekki eftir reikninginn. Þess vegna eiga stjórnmálamenn samtímans að strengja sameiginlegt eitt heit: Okkar arfleifð verður aldrei sú að hafa veðsett framtíð afkomenda okkar.”

lesa áfram

Stjórnmálaflokkar á framfæri ríkisins

Grein eftir Óla Björn Kárason, blaðamann. Áður birt í Morgunblaðinu og á vef Óla, T24.is.

„Íslenskir stjórnmálaflokkar eru á framfæri hins opinbera. Frá árinu 2007 hafa íslenskir skattgreiðendur verið látnir standa undir a.m.k. 2.300 milljónum króna vegna starfsemi stjórnmálaflokka. Fyrir sömu fjárhæð væri hægt að reka Heilbrigðisstofnunina Vestmannaeyjum í rúmlega þrjú ár, Menntaskólann á Akureyri í tæp fimm ár eða Landgræðslu ríkisins í fjögur ár.

Samkvæmt yfirliti Ríkisendurskoðunar fengu þeir stjórnmálaflokkar sem átt hafa fulltrúa á Alþingi liðlega tvö þúsund milljónir króna úr ríkissjóði frá árinu 2007 til 2011. Þetta jafngildir því að hver einstaklingur með atkvæðisrétt í alþingiskosningunum 2009, hafi þurft að greiða um 9.900 krónur. Þessu til viðbótar fengu stjórnmálaflokkarnir yfir 220 milljónir króna í styrki frá sveitarfélögunum á árunum 2007 til 2010 samkvæmt ársreikningum flokkanna.

Alþingi samþykkti í desember 2006 lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda [nr. 162/2006]. Með lögunum voru stjórnmálaflokkar settir á jötu ríkisins, þó þeir hafi fram að þeim tíma fengið töluverðan stuðning frá ríkinu.

Í 3. gr. laganna segir að árlega skuli „úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni“.  Hver stjórnmálaflokkur fær greitt í hlutfalli við atkvæðamagn. Því meira fylgi því hærri er ríkisstyrkurinn. Þá geta stjórnmálasamtök sem bjóða fram í öllum kjördæmum sótt um sérstakan styrk úr ríkissjóði.

Auk þessa er árlega veitt fé úr ríkissjóði til starfsemi þingflokka á Alþingi. Greidd er jöfn fjárhæð fyrir hvern þingmann. Þá fá flokkar í stjórnarandstöðu sérstaka greiðslu.

Lögin skylda sveitarfélög með fleiri en 500 íbúa til að styrkja stjórnmálasamtök sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða a.m.k. 5% atkvæða í kosningum.

Dregið úr áhrifum

Lögin setja stjórnmálaflokkum miklar skorður. Komið er í veg fyrir að flokkar afli sér fjárhagsstuðnings með sama hætti og áður, en þess í stað er þeim tryggður aðgangur að sameiginlegum sjóði landsmanna – ríkiskassanum og sveitarsjóðum.

Ákvæði laganna styrkja stöðu starfandi stjórnmálaflokka en gera nýjum flokkum erfiðara fyrir og jafnvel útiloka ný stjórnmálasamtök.  Um leið eru stjórnmálaflokkarnir (eða réttara sagt forystumenn þeirra) gerðir óháðari eigin flokksmönnum. Með öðrum orðum; dregið er úr áhrifum almennra flokksmanna.

Lögin ganga gegn hugmyndum um skoðanafrelsi. Kjósandi sem berst gegn Sjálfstæðisflokknum er skyldaður til að greiða til flokksins og fjármagna starfsemi hans. Kjósandi Sjálfstæðisflokksins, sem telur hugmyndafræði Vinstri grænna hættulega, er einnig gert að styrkja starfsemi VG.  Það er eitthvað öfugsnúið við það að neyða mann til að styrkja félagsskap sem gengur gegn öllu því sem hann trúir. Þeir fjölmörgu sem nú standa að stofnun nýrra stjórnmálasamtaka sem stefna að framboði til Alþingis, eru með lögunum neyddir til að tryggja fjárhag þeirra flokka sem eru þegar með fulltrúa á þingi.

Vörn valdsins

Ríkisrekstur stjórnmálanna er mikilvæg vörn valdsins. Hér gildir sama lögmálið og á markaði. Einkarekin fyrirtæki eiga litla möguleika í samkeppni við ofurvald ríkisins sem getur stöðugt gengið í vasa skattgreiðenda. Ríkisrekstur stjórnmálanna kemur í veg fyrir eða torveldar að til verði ný samtök sem skora sitjandi stjórnmálaflokka á hólm. Og þegar það tekst að stofna ný stjórnmálasamtök, er staðan ójöfn – jafnvel óvinnandi.

Stjórnmálaflokkar keppa á markaði hugmynda. Fyrir frjálst samfélag er lífsnauðsynlegt að sú samkeppni sé heiðarleg og sanngjörn. Lög um fjármál stjórnmálasamtaka ganga þvert á jafnræði. En fáir eru til að gagnrýna ríkjandi fyrirkomulag. Mér segir svo hugur að eitthvað yrði sagt ef svipuð staða væri uppi í atvinnulífinu. Tökum dæmi:

Fjórir aðilar skipta með sér matvörumarkaðinum. Þeir keppa sín á milli en árlega fá þeir greiddan sérstakan styrk frá skattgreiðendum. Styrkurinn skiptist á milli keppinautanna í réttu hlutfalli við markaðshlutdeild. Því stærri sem hlutdeildin er, því hærri er styrkurinn.

Ungur fullhugi, með hugmyndir um nýja þjónustu á lægra verði, vill hasla sér völl í samkeppninni við þá sem fyrir eru á markaði. Vegna ríkisstyrkja er nær vonlaust að fara í samkeppnina – til þess er forgjöf þeirra sem fyrir eru á markaði of mikil. En í æðum hans rennur kaupmannsblóð og hann vill starfa við að selja almenningi matvöru. Hann á þann eina kost að ráða sig sem verslunarstjóra hjá einni matvörukeðjunni og sætta sig við það skipulag og starfshætti sem þar tíðkast. Afleiðingin er sú að neytendur fá aldrei að njóta nýrrar þjónustu eða lægra verðs. Þeir fjórir matvörurisar sem fyrir eru þurfa heldur ekki að huga að því bjóða upp á nýjungar  – þeir eru áhyggjulausir í vernduðu umhverfi.

Hið sama gerist þegar stjórnmálastarfsemi er sett á jötu hins opinbera. Samkeppni hugmynda er takmörkuð og kjósendur sitja uppi með sárt enni.”

 

lesa áfram

top