Tag: Viðskiptablaðið

Aðeins 3,8% telja skatta of lága

Í Viðskiptablaðinu 15. október er birt niðurstaða könnunar sem blaðið gerði þar sem spurt var: Þykir þér sú upphæð sem þú greiðir í skatta og lág, hæfileg eða of há? Niðurstaðan þarf ekki að koma á óvart, en 67,3% telja að skattarnir sem þeir greiða séu of háir.

Skoðanakönnun VB
En hvernig væri þá niðurstaðan ef skattgreiðendum væri raunverulega kunnugt um hversu háa skatta þeir greiða? Sýnilegar skattgreiðslur eru aðeins hluti þess sem hið opinbera tekur til sín og ráðstafar fyrir hönd okkar allra. Þannig sýslar hið opinbera með nánast helming þjóðartekna. Og skattar sem hlutdeild af vergri þjóðarframleiðslu hafa farið vaxandi síðustu þrjú ár.

Það er kappsmál fyrir skattgreiðendur að skattar verði gerðir sýnilegri og þrýstingur aukist þannig á stjórnmálamenn að fara betur með og draga út útgjöldum.

En merkasta niðurstaða þessarar könnunar er þó sú að aðeins 3,8% aðspurðra telja skatta og lága og gefur það von um að mikil samstaða sé meðal kjósenda um að skattar beri frekar að lækka en hækka. Reyndar kemur í ljós að hæsta hlutfall þeirra sem telja skatta of lága er að finna í aldurshópnum 18 – 24 ára, en stærstur hluti þess aldurshóps er við nám og greiðir því nánast enga skatta!

lesa áfram

Góður fyrirlestur Lawson

Fyrirlestur prófessor Robert Lawson um atvinnufrelsi mánudaginn 28. júlí var vel sóttur og aðeins fjallað um hann í kjölfarið. Þannig

Umfjöllun Viðskiptablaðsins

birti Viðskiptablaðið grein um fyrirlestur Lawson og Sigríður Andersen fjallaði um hann í pistli sínum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þessa umfjöllun má lesa með því að stækka myndir sem er að finna með þessum pistli.

Þá var fjallað um fyrirlesturinn heimasíðu RNH:

„Þau gögn, sem útvega má með víðtækum mælingum á atvinnufrelsi í 150 löndum og sambandi atvinnufrelsis við lífskjör og farsæld fólks í þessum löndum, styðja afdráttarlaust kenninguAdams Smiths: Auðlegð þjóðanna skapast við verkaskiptingu og frjáls viðskipti. Þegar menn keppa að eigin hag, vinna þeir um leið að almannahag, hvort sem þeir ætla sér það eða ekki. Þessu hélt bandaríski hagfræðiprófessorinn Robert Lawson, einn af höfundum árlegrar mælingar á atvinnufrelsi, index of economic freedom, fram í fyrirlestri á fjölmennum fundi RNH og Samtaka skattgreiðenda mánudaginn 28. júlí 2014. Tilefni fundarins var, að hundrað ár eru liðin, frá því að heimsstyrjöldin fyrri skall á 28. júlí 1914, en þá riðaði til falls það skipulag, sem Adam Smith hafði mælt fyrir og skilgreint, heimskapítalisminn, kerfi verkaskiptingar og frjálsra viðskipta. En þrátt fyrir að heimskapítalisminn veiktist verulega í heimsstyrjöldunum tveimur og í heimskreppunni, stóð hann þessi áföll af sér og styrktist verulega síðustu áratugi 20. aldar.

Lawson skýrði, hvernig vísitala atvinnufrelsis væri sett saman, og brá upp nokkrum línuritum úr nýjustu mælingu atvinnufrelsis, sem gerð verður opinber haustið 2014. Þar er hagkerfum heims árið 2011 skipt í fjóra hluta eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er þar. Lífskjör — eins og þau mælast í vergri landsframleiðslu á mann — eru að meðaltali langbest í frjálsasta hlutanum og langlökust í ófrjálsasta hlutanum. Hið sama er að segja um lífskjör fátækustu eða tekjulægstu 10%: Þau eru þrátt fyrir allt langskást í frjálsasta hlutanum. Lífslíkur eru líka lengstar í frjálsasta hlutanum og hagvöxtur örastur. Sagan jafnt og reynslan sýndu, að hér væri ekki aðeins um að ræða fylgni, heldur líka orsakasamband: Þegar þjóðir verða

Grein Sigríðar Andersen

frjálsar, komast þær í álnir og geta fyrir vikið útrýmt margvíslegu böli, sem stafar af skorti lífsgæðanna. Lawson kvað áhyggjuefni, að atvinnufrelsi á Íslandi hefði minnkað verulega. Árið 2004 var íslenska hagkerfið hið frjálsasta á Norðurlöndum, en árið 2011 mældist það hið ófrjálsasta. Lawson benti á, að öll gögn um mælingu ársins 2013 á atvinnufrelsi árið 2010 væru aðgengileg á heimasíðu verkefnisins og að öll gögn um mælingu ársins 2014 á atvinnufrelsi árið 2011 yrðu sett þangað í haust. Fyrirlestur Lawsons var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.”

Loks fjallaði stutt blogg Skafta Harðarsonar á Eyjunni um fyrirlestur Lawson og leggur aðeins út frá mælingum á atvinnufrelsi þjóð heimsins.

lesa áfram

Bannað að byggja ódýrt og smátt

Um fátt er meira fjallað þessa dagana en skort á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega er aðkallandi þörf fyrir byggingu lítilla íbúða til útleigu eða sölu fyrir yngra fólk. En vandinn er sá að slíkar íbúðir er bannað að byggja. Byggingarreglugerðin beinlínis fyrirskrifar rýmisstærðir og kostnað við margvíslega frágang, sem lítið sem ekkert hefur með öryggi að gera, en hækkar verulega verð íbúðarhúsnæðis. Hér má sjá grein í Viðskiptablaðinu um það hvers vegna ekki er hægt að byggja IKEA íbúðir á Íslandi.

Á sama tíma hafa yfirvöld í Reykavík ákveðið að fyrst og fremst skuli byggt á dýrustu lóðum á Íslandi, í eldri hluta Reykjavíkur, og þar með hækkar íbúðaverðið enn frekar.

Engu er líkara en að kynslóð sem fyrir löngu hefur komið undir sig fótunum vilji leggja næstu kynslóðum fjötur um fót við að komast á sama stað í lífinu. Og í engu er tekið tillit til þess að yngri kynslóðin hefur ekki sömu gildi og sú eldri. Nú eignast fólk börn síðar á ævinni, eldhúsið er ekki lengur íverustaður fjölskyldunnar með sama hætti og áður var. Og yngra fólk veita varla hvað Ríkissjónvarpið er, þaðan af síður að það hangi í stofunni til að horfa á dagskrá þess.

Hvers vegna má ekki byggja upp ódýrar íbúðir fyrir þá sem þess óska. Þá sem vilja e.t.v. ekki eignast húsnæðið, en eru tilbúnir til að leigja 30 – 50 m2 miðsvæðis á Reykjavíkursvæðinu? Algild hönnun er einn þáttur sem veruleg áhrif hefur á kostnað bygginga. Ekki er það hreyfihömluðum eða fötluðum til bóta að draga úr möguleikum á að fólk geti leigt eða eignast ódýrt húsnæði, vegna kröfu um svokallaða algilda hönnun. Eðlilegast er að haldið verði í eldri kröfur hvað þetta varðar.

Og hvers vegna er það embættismanna að ákvarða með reglugerða að: „Innan íbúðar sem er 55 m2 að stærð eða stærri, skal minnst vera eitt svefnherbergi, ekki minna en 14 m2, auk stofu, ekki minni en 18 m2″? Eða þessar gullvægu ákvarðanir sem hópur embættismanna hefur örugglega legið yfir í lengri tíma: „Þegar eldhús íbúðar er sameinað stofu er heimilt að samnýta borðkrók.” og „Í íbúðum minni en 55 m2 þarf ekki að gera ráð fyrir rými fyrir uppþvottavél.” Og einnig: „Aðkoma að snyrtingu eða baðherbergi íbúðar skal ekki vera beint úr stofu, eldhúsi eða borðstofu, nema í íbúðum sem eru 55 m2 eða minni, né frá svefnherbergi, nema annað baðherbergi eða snyrting sé í íbúðinni.” Og jafnvel svalirnar á íbúðinni þinni eru mál embættismannanna: „Veggsvalir bygginga skulu vera a.m.k. 4,0 m2 að stærð og ekki mjórri en 1,6 m.” Lengi hefur líklega verið rifist um hvort þarna ætti að standa 1,6 eða 1,7 m. Byggingarreglugerðin verður seint kölluð skemmtilestur en ber hins vegar vitni um hversu forsjárhyggjan er komin út í fullkomnar öfgar.

Næsta skref hlýtur að vera að aðeins Mannvirkjastofnun verði heimilt að hanna íbúðir, svo smásmyglisleg er nýja byggingarreglugerðin.

Svo lengi sem íbúðarhúsnæði uppfyllir kröfur um öryggiskröfur verður ekki séð að það eigi að vera hins opinbera að ákvarða stærð eða gerð íbúðarhúsnæðis. Ekki verður séð að fyrirskrifaðar rýmisstærðir eða afskipti af fyrirkomulagi íbúða hafi nokkuð með neytendavernd eða öryggi að gera.

Þá hafa afskipti hins opinbera af lánasamningum, ábyrgðum o.fl. valdið því að erfiðara er en áður fyrir ungt fólk að fá lánað fyrir fyrstu fasteignakaupum. Og verði verðtrygging lána jafnvel bönnuð verður þeim gert enn erfiðara um vik enda ljóst að greiðslubyrðin þyngist þá verulega fyrstu (og oft erfiðustu) árin.

Það er eins og oftar þegar kemur að afskiptum hins opinbera af frjálsum samningum fólks, eða það sem ætlað er sem neytendavernd kemur beint í bakið á þeim sem vernda átti.

 

lesa áfram

Vestmannaeyingar lækka líka útsvarið

Í frétt í Viðskiptablaðinu kemur fram að í fjárhagsáætlun 2014 fyrir Vestmannaeyjabæ sé gert ráð fyrir lækkun útsvars í 13,98%. Er þetta annað sveitarfélagið sem tilkynnir lækkun útsvars nú síðustu daga. Í nýlegri úttekt Viðskiptablaðsins kemur jafnframt fram að undanfarin ár hafi fjárhagsstaða margra sveitarfélaga batnað verulega og er ánægjulegt að sum þeirra nýta nú aukið svigrúm til að lækka skatta á þessu kjörtímabili.

Reykjavíkurborg, sem helst ætti að njóta stærðarhagkvæmni, hefur hins vegar hækkað skatta og gjöld verulega á kjörtímabilinu og skýtur þar skökku við. Þá hefur það sveitarfélag sem helst hefur verið litið til sem fyrirmyndar í rekstri og skattaálögum, Seltjarnarnes, einnig hækkað útsvar á kjörtímabilinu, þó ekki sé í takt við Reykjavíkurborg.

Mikilvægt er að á næstunni standi ríkisstjórnin við þá ætlun sína að afnema lægri mörk útsvars og fasteignaskatta og jafnframt sjá til þess að jöfnunarsjóður sveitarfélaga refsi ekki þeim sveitarfélögum sem taka til í rekstri sínum og veita skattgreiðendum hlutdeild í betri afkomu.

lesa áfram

Stjórnmálaflokkar á spenanum

Viðskiptablaðið fjallar um þá miklu óvirðingu sem skattgreiðendum er sýnd með niðurgreiðslu á stjórnmálaflokkum í frétt á vefnum þann 22. apríl 2013. Reiknaður er ríkisstyrkur stjórnmálaflokkanna á næsta kjörtímabili miðað við niðurstöður skoðanakönnunar MMR frá 18. apríl sl.

Flokkarnir yrðu á spenanum upp á minnst 41,8 milljón (Dögun) og mest 319 milljónir (Framsókn). Frétt Viðskiptablaðsins má lesa í heild sinni hér. Ekki er nema von að ný framboð eigi erfitt uppdráttar þegar flokkar á þingi hafa úthlutað sjálfum sér hundruði milljóna króna á kjörtímabilinu og takmarka jafnframt hámark þess sem ný framboð geta sótt sér í fjárstyrk til stuðningsaðila sinna. Ef þetta væru fyrirtæki á markaði væri fyrir löngu búið að siga Samkeppniseftirlitinu á markaðsráðandi flokka.

lesa áfram

Ráðalaus Íbúðalánasjóður

Grein eftir Arnar Sigurðsson, fjárfesti, sem upphaflega birtist í Viðskiptablaðinu 19. september 2012, og er hér endurbirt með leyfi höfundar. Viðskiptablaðið hefur ítrekað fjallað um vanda Íbúðalánasjóðs, í fréttum, leiðara og umfjöllun undir nafni Óðins.

„Albert Einstein skilgreindi geðveilu sem háttalag þar sem sama aðgerð væri endurtekinn í sífellu í von um breytta niðurstöðu. Ef áætlanir stjórnvalda hér á landi ná fram að ganga um að sökkva 14,5 milljörðum af almannafé í óstöðvandi fjárþörf Íbúðalánasjóðs, á eftir 30 milljörðum sem brunnið hafa upp á síðustu tveimur árum, mætti ætla að einnhverskonar veila gangi laus í íslenska stjórnarráðinu. Sögnin að ráða hefur m.a. þá merkingu að stjórna og að hafa ráð tiltæk í hugtakinu úrræði ef vanda ber að höndum. Ráða-menn standa undir hvorugri skilgreiningunni ef einu úrræðin eru að ausa almannafé á vandamál og hækka skatta í stað þess að fyrirbyggja framtíðarvandamál sem þó hefur verið varað við árum saman. Löngu hefur verið vitað í hvað stefndi með Íbúðalánasjóð sem talinn er vera rekinn með ríkisábyrgð. Sem betur fer er hinsvegar hvergi til stafkrókur í lögum frá Alþingi þess efnis að skuldbindingar sjóðsins séu á ábyrgð ríkissjóðs enda hefur sjóðurinn aldrei greitt lögbundið gjald vegna ríkisábyrgðar. Í “Skýrslu nefndar um endurskoðun ríkisábyrgða og tillögur til breytinga” frá árinu 1997 kemur reyndar fram það: “…sjónarmið að ef til vill ættu aðilar í þessari stöðu að greiða ábyrgðargjald til ríkissjóðs vegna skuldbindinga sinna…… Meirihluti nefndarinnar leit hinsvegar svo á að slíkt kæmi ekki til greina þar sem með því væri óbeint verið að viðurkenna ríkisábyrgð auk þess sem grundvöll til slíkrar innheimtu skorti, væri ekki um ótvíræða ríkisábyrgð að ræða”

Einu gildir hvort vænhæfni sérfræðinga er um að kenna eða hvort illmögulegt sé að rýna í framtíðina, niðurstaðan er sú sama að ófarir skattgreiðenda virðast alltaf óvæntar. Þrátt fyrir vandlega úttekt árið 2006 sem unnin var af hópi “sérfræðinga” komst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að:

“Ólíklegt er að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs stefni niður fyrir áskilin hlutföll í fyrirsjáanlegri framtíð. Vegna þessa er líka ólíklegt að reyna muni á ríkisábyrgð á skuldbindingum sjóðsins”

Að sögn sjóðsins er talið að leiða megi almennt af íslenskri lögskipan að Íbúðalánasjóður sem stofnun í eigu ríkisins njóti ótakmarkaðrar ábyrgðar, t.d. sé kveðið á um það í gjaldþrotalögum að sjóðurinn geti ekki orðið gjaldþrota. Þannig megi ætla að ríkissjóður sem eigandi beri ótakmarkaða ábyrgð á sjóðnum.

Þessi tilvísun til gjalþrotalaganna stenst hisvegar ekki því sérstaklega er kveðið á um í 5. gr. að ekki sé hægt að taka stofnun til gjaldþrotaskipta ef ríkið ábyrgist skuldir.

Með lögum um ríkisábyrgðir er ekki almenn heimild til slíkrar afleiddar ríkisábyrgðar heldur einmitt kveðið á um að sérstaka lagaheimild þurfi til að virkja ríkisábyrgð, 1tl. 3. gr. Í lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 sem taka til ÍLS er ekkert vikið að ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Jafnframt er það ekki meginregla ísl. réttar að ríkið sé ábyrgt fyrir skuldbindingum sjálfstæðra stofnana. Á þetta hefur ekki reynt þannig að augljóslega getur ekki getur verið um meginreglu að ræða.

Samkvæmt lögum 121/1997 um ríkisábyrgðir er skýrt kveðið á um að “Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum”

Samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar frá því í janúar á þessu ári segir m.a. að”..stjórnarskráin krefst þess í reynd að lagaheimild sé fyrir ríkisábyrgðum og annars konar skuldbindingum ríkisins, eins og gildir um lántökur. Hefur framkvæmdin enda verið með þeim hætti.” Engu að síður kemst stofnunin að þeirri ályktun í úttekt á Íbúðalánasjóði að ríkisábyrgð tryggi lánveitendum sjóðsins fullar endurheimtur.

Það er því síður en svo ljóst að ófrávikjanleg ríkisábyrgð hvíli á öllum skuldbindingum sjóðsins og skiptir engu þó starfsmenn hans hafi hingað til staðið í annari trú og sett slík ákvæði inn í skráningarlýsingu skuldabréfa sjóðsins. Embættismenn geta aldrei gefið út ríkisábyrgð, einungis Alþingi. Óljóst orðalag í C hluta fjárlaga um ríkisábyrgðir byggt á útgáfuáætlun sjóðsins hverju sinni geta vart kallast skýr ríkisábyrgð á t.d. skuldbindingu um að ekki megi greiða upp útgefin skuldabréf.

Eins og áður hefur verið vikið að er rekstur Íbúðalánasjóðs slæmur kostur fyrir lántakendur því vextir sjóðsins eru þeir hæstu í heimi en afleitur kostur fyrir skattgreiðendur sem þurfa að dæla í hítina tugum milljarða til að halda stofnuninni ofanjarðar. En hvað er til ráða?

Með því að dæla stöðugt almannafé í Íbúðalánasjóð er í raun verið að tryggja lánveitendum íbúðalánasjóðs, nokkurs konar “áhyggjulaust ævikvöld” með hámarks arðsemi af glannalegri útlánastarfsemi sjóðsins. Nærtækast væri að loka fyrir ný útlán frá sjóðnum í núverandi mynd og kanna með hvaða hætti, lánveitendur tækju á sig hluta af neikvæðri afkomu sjóðsins. Fjárfestar myndu þannig uppskera eins og til hefur verið sáð með tíð og tíma þar til skuldabréf sjóðsins verða komin á gjalddaga árið 2044. Með því að taka af allan vafa um ríkisábyrgð, myndi skuldastaða ríkissjóðs batna um hátt í 1.000 milljarða og lánshæfismat ríkissjóðs batna.

Raunsætt verður líklega að líta sem svo á að þrátt fyrir hrakfarirnar með Íbúðalánasjóð og þá staðreynd að flestir lántakendur kvarti undan hinu verðtryggða útlánakerfi hins opinbera, mun pólitískur rétttrúnaður tryggja að áfram verði ástundaður ríkisrekstur á þessu sviði. Nærtækt væri að stofna nýjan heildsölubanka án ríkisábyrgðar sem þjónusta myndi bankastofnanir sem afgreiddu lánin gegn fyrsta veðrétti en framseldu svo veð í útlánasöfnum sínum til hins nýja heildsölubanka. Þar með yrði líka komist hjá brotum á EES samningnum en núverandi rekstur Íbúðalánasjóðs er skýrt samkeppnisbrot samkvæmt niðurstöðu ESA. Hugsanlega yrði eigendum þeirra skuldabréfa sem sjóðurinn hefur gefið út boðið að skipta út eldri bréfum fyrir hin nýju á lægri kröfu eða sæta uppgreiðslu ella miðað við nafnvexti bréfana 3,75%. Hér væri því um afar áþekka aðgerð að ræða og þegar húsbréfakerfinu var breytt í íbúðabréf.

Miðað við ávöxtunarkröfu á markaði í dag mætti ætla að nýr heildsölubanki myndi geta boðið mun hagstæðari lán en áður og því ætti breytingin að ganga vel í lántakendur auk þess sem girt væri fyrir tugmilljarða meðgjöf með sjóðnum í framtíðinni.

Vissulega munu hagsmunaaðilar reka upp ramakvein enda hafa núverandi skuldabréf verið gulls ígildi fyrir fjárfesta árum saman og tryggt mönnum auðvelda ávöxtun. Um það bil 70% af verðtryggðum skuldabréfum íbúðalánasjoðs eru í eigu lífeyrissjóða sem líklega myndu ekki tapa á breytingunni. Það littla tap sem slíkir aðilar myndu þurfa að taka á sig með framangreindri breytingu væri þó ekki nema brot af þeirri áhyggjulausu ávöxtun sem þeir hafa fengið á silfurfati á undangengnum árum.

Samandregið hefðu ofangreindar breytingar eftirfarandi afleiðingar í för með sér:

  • Tugmilljarða sparnaður fyrir skattgreiðendur.
  • Tæplega 1000M minni skuldabyrði á efnahagsreikningi ríkissjóðs (vegna óljósrar ábyrgðar).
  • Bætt lánshæfismat ríkissjóðs.
  • Vaxtalækkun á nýjum fasteignalánum.
  • Samkeppnisárekstrar milli ÍLS og viðskiptabanka úr sögunni sem og kærumál vegna brota á EES samningnum.
  • Góður grunnur til að minnka vægi verðtryggingar.
  • Svigrúm fyrir lægri stýrivexti og betra miðlunarferli peningastefnu Seðlabankans.
  • Hefðbundin útlánastarfsemi fjármálafyrirtækja yrði með eðlilegri og líklega hagkvæmari hætti fyrir neytendur.

Verðtryggð velferðarstefna fjármagnseigenda á kostnað skattgreiðenda hlýtur að vera komin á leiðaranda.”

lesa áfram

Fer rekstrarfélag Hörpunnar í mál ?

Í pistli á Huginn og Muninn í Viðskiptablaðinu er bent á kaldhæðnina í kvarti stjórnarformanns rekstrarfélags Hörpunnar undan fasteignaskattinum sem lagður hefur veirð á félagið:

„Stjórnendur ríkistónlistarhússins Hörpu eiga nú í deilum við stærsta eiganda sinn, ríkið, eftir að kynnt var nýtt fasteignamat. Pétur j. Eiríksson, stjórnarformaður Hörpu, viðurkenndi í samtali við RÚV í vikunni að fasteignagjöldin væru í dag greidd með lánum þar sem rekstur hússins stæði ekki undir þeim. Það má því segja að útilokað sé að Harpa standi undir þeim hækkandi fasteignagjöldum sem eru í farvatninu og forsvarsmenn Hörpu íhuga nú að fara með málið fyrir dómstóla enda vilja þeir að virði hússins sé metið lægra en það er í dag. Það verður óneitanlega fyndið þegar ríkistónlistarhúsið kærir ríkisákvörðun til ríkisins af því að það vill ekki greiða til ríkisins.”

Næst hlýtur að koma fram ósk um að starfsmenn verði undanþegnir tekjusköttum, félagið undanþegið tryggingagjaldi o.s.frv., o.s.frv. Enda hafa reiknimeistarar fundið út að tap er gróði og skattleysi skilar sköttum bara ef skilgreina má starfsemina sem „skapandi atvinnugrein”.

lesa áfram

top