Með góðfúslegu leyfi höfundar, Sigurðar Ingólfssonar, framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar Hannarr ehf., birtum við hér grein hans um einn þátt nýju byggingareglugerðarinnar sem mun leggja miklar birgðar á húsbyggjendur. Hvorki öryggis-, gæða- eða umhverfissjónarmið geta átt við um þessar auknu kröfur um einangrun, enda hús á Íslandi hituð upp með endurnýjanlegri orku. Og ekki er það neytendavernd. Kostnaðurinn við þessar auknu kröfur er langt umfram þann sparnað sem þær gefa af sér, jafnvel til langs tíma litið. Eðlileg krafa er að gildistöku þessarar nýju reglugerðar verði frestað þar til frekari almenn umræða hefur farið fram um einstaka þætti hennar.

En grein Sigurðar, upphaflega birt í Morgunblaðinu 19. júlí 2012 hljóðar svo:

„Vegna aðkomu minnar að ýmsum útreikningum sem snerta byggingarframkvæmdir finnst mér rétt að vekja athygli á grein 13.3.2 í nýrri byggingarreglugerð, en þar er fjallað um „hámark U-gildis – nýrra mannvirkja og viðbygginga”. Þær kröfur sem koma fram í þessari grein, kalla meðal annars á aukna einangrun útveggja, þaka og gólfa í nýbyggingum, um u.þ.b. 50 mm.

Hvað þýðir þetta í auknum kostnaði fyrir húsbyggjendur?

Ef húsbyggjandi vill byggja sér einbýlishús getur hann reiknað með að útveggjaflötur sé álíka og brúttóflötur hússins og ef húsið er á einni hæð þá er gólf- og þakflötur álíka stór og brúttóflötur hússins, hvor fyrir sig. Aukakostnaður við að byggja 200 m² hús á einni hæð vegna þessara auknu einangrunar er um 1 milljón króna.

En þetta hefur fleira í för með sér

Húsið hefur annaðhvort bólgnað út um þessa 5 cm í allar áttir, eða innra rými þess skroppið saman sem þessu nemur. Til að halda sama nettófleti hússins þarf þannig að stækka það um uþ.b. 3 m², til að halda sama rými innanhúss. Kostnaður vegna þessarar stækkunar er u.þ.b. 1 milljón króna og eykst því kostnaður við húsið um alls 2 milljónir króna til að fá sama nýtanlega rýmið, eða sem svarar til rúmlega 3% af byggingarkostnaði.

Og hvað sparar þetta húsbyggjandanum?

Reiknað er með að hús sem hafa verið byggð samkvæmt síðustu byggingarreglugerð noti um 0,8-1,0 rúmmetra af heitu vatni á ári til upphitunar á hvern rúmmetra húss (ekki neysluvatn) og þar af fari umtalsverður hluti í að hita lotfskipti hússins. 200 fermetra hús er um 660 rúmmetrar og sé reiknað með verði Orkuveitunnar á heitu vatni, sem er í dag um 125 kr/m{+3} (OR 119,91), er kostnaður við upphitun hússins fyrir breytingu u.þ.b. 83.000 kr. á ári. Aukin einangrun skilar húsbyggjandanum á bilinu 15-20% sparnaði, eftir því hversu mikið tapast af hita hússins með loftskiptum. Það gerir 12-17.000 í krónur í sparnað á ári.

Hafi húsbyggjandinn fengið þennan viðbótarpening sem aukin einangrun kostar, að láni, þarf hann að greiða vexti af honum sem eru 4,1% auk verðtryggingar í dag, eða um 82.000 kr. á ári, og lánið stendur þá áfram í sömu upphæð, verðtryggðri. Sé litið á þennan vaxtakostnað sem hluta af upphitunarkostanði hússins og dreginn frá sparnaður í upphitun þess vegna aukinnar einangrunar hækkar þessi aukna krafa um einangrun upphitunarkostnað þessa húsbyggjanda um allt að helming, í stað þess að spara honum pening. Hér virðist eitthvað hafa gleymst í útreikningunum, eða að þeir hafi e.t.v. aldrei verið gerðir.

Útkoman er sú sama í öðrum gerðum af húsum, að öðru leyti en því að tölur þar eru oftast lægri, bæði kostnaður og sparnaður, en hlutfallið er það sama og því um kostnað að ræða en ekki sparnað í öllum tilvikum. Húsbyggjandinn greiðir þennan aukakostnað og fær hann aldrei til baka í lækkuðum upphitunarkostnaði. Því má líta á þetta sem skatt á húsbyggjandann.

Skattur þessi er samtals um það bil 1 milljarður króna á ári á landinu öllu sé miðað við eðlilegan fjölda nýbygginga á hverjum tíma. Fyrir þann pening mætti t.d. byggja 16 einbýlishús af ofangreindri stærð eða 43 íbúðir sem væru um 100 m² að stærð.

Hver tekur svona ákvarðanir og hversu löglegar eru þær?

Hverjir taka svona ákvaðranir og á hvaða forsendum? Gleymdist að reikna dæmið til enda? Er e.t.v. verið að taka upp erlenda staðla án skoðunar á áhrifum þeirra hér? Er eðlilegt og heimilt að leggja þennan skatt á húsbyggjendur? Er of seint að leiðrétta þessa reglugerð?

Hér virðast vera gerðar meiri kröfur í reglugerð en er að finna í mannvirkjalögum nr. 160/2010, en þar segir um hitaeinangrun húsa:

„6. Orkusparnaður og hitaeinangrun.Hita-, kæli- og loftræsingarkerfi bygginga og mannvirkja skulu hönnuð og byggð á þann hátt að nauðsynleg orkunotkun sé sem minnst með tilliti til veðurfars á staðnum en án þess að til óþæginda sé fyrir íbúana.”

Það skal tekið fram að þessi niðurstaða var kynnt fyrir Mannvirkjastofnun, Orkustofnun og Orkuveitu Reykjavíkur fyrir nokkru og hafa þessir aðilar ekki gert athugasemdir við þessa niðurstöðu.”