Fyrirsögnin er tekin úr fréttabréfi Jupiters rekstrarfélags frá því 28. júní sl, en þar er m.a. bent á að skattgreiðendur hefðu nú þegar þurft að láta af hendi 60 milljarða króna í síðasta Icesave samning, og það allt í fágætum gjaldeyri.

Hér er greinin birt í heild sinni :

„Nú þegar sumar er óneitanlega gengið í garð á landinu bláa er fátt betra en að orna sér við greiningar á greiðslujöfnuði íslenska þjóðarbúsins, mitt á milli grillveislna og golfhringja. Eitt allra súrasta þrætuepli landsmanna á síðastliðnum misserum er án efa Icesave-málið. Það mál hefur ekki verið leitt endanlega til lykta, en þinghald í máli ESA gegn íslenska ríkinu hefst í haust. Hins vegar er útséð um að íslenska ríkið semji við ríkisstjórnir Breta um Hollendinga um nokkurs konar ríkisábyrgð, en þeir samningar sem kynntir voru til sögunnar í desember 2010 voru sem kunnugt er felldir úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki er því að neita að þeir samningar voru talsvert hagstæðari en þeir sem áður höfðu litið dagsins ljós. Þrátt fyrir það er ekki þar með sagt að Icesave- samningarninar hinir síðustu hefðu verið góðir, þrátt fyrir að endurheimtur þrotabús Landsbankans gamla hafi reynst betri en áður var talið og að greiðslur til forgangskröfuhafa bankans séu komnar þokkalega á veg.

Tæpir 60 milljarðar í gjaldeyri

Uppreiknað miðað við 1.júlí 2012 væri beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna Icesave- samninganna nú orðinn tæplega 60 milljarðar króna. Þar er gert ráð fyrir útgreiðslum til kröfuhafa Landsbankans og þar með lækkun krafna forgangskröfuhafa bankans. Samkvæmt Icesave-samningunum bar íslenska ríkinu að greiða Bretum og Hollendingum þessa vexti í erlendum gjaldmiðlum. Því er í raun rangt að bera þann kostnað saman við kostnað vegna Vaðlaheiðarganga, tónlistarhússins Hörpu, afskrifta krafna Seðlabanka Íslands á fallnar fjármálastofnanir eða rekstur Landspítalans. Talsverðu máli skiptir hvort kostnaður íslenska ríkisins fellur til í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, sérstaklega í ljósi þess að gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans er skuldsettur upp í rjáfur.

Til að setja áðurnefnda 60 milljarða í samhengi má rifja upp að íslenska ríkið sótti sér einn milljarð Bandaríkjadala (um 126 milljarðar króna samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans) í skuldabréfaútboði á dögunum. Þeir peningar voru nýttir til að greiða erlend lán fyrirfram og minnka gjaldeyrisvaraforðann. Óháð því hversu skynsamleg sú aðgerð var, sjá talnaglöggir að kostnaður vegna Icesave hefði numið um helmingi þeirrar upphæðar sem ríkissjóður sótti á markað á dögunum.

Ekki á gjaldeyrisþurrðina bætandi

Það er því vægast sagt villandi að bera reiknaðan kostnað við Icesave saman við innlendan kostnað af einhverju tagi eða bera Icesave-kostnaðinn saman við verga landsframleiðslu. Ríkissjóð sárvantar gjaldeyri til að standa skil á erlendum skuldum þjóðarbúsins – tilvistgjaldeyrishaftanna er ræk sönnun þeirrar staðreyndar. Að bæta að minnsta kosti 60 milljörðum króna í erlendri mynt ofan á allt saman hefði til skamms tíma sett ennþá meiri þrýsting á

gengi íslensku krónunnar og til lengri tíma þyngt skuldabyrði ríkissjóðs í erlendri mynt þónokkuð. Fáir halda því fram að á þá skuldabyrði sé bætandi með sjálfbærum hætti. Ef síðustu

Icesave-samningar hefðu orðið að lögum, hefði þurft að nýta sem nemur um 27 milljörðum króna af gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands strax á fyrsta ársfjórðungi 2011 og síðan um nokkra milljarða á hverjum ársfjórðungi eftir það, allt til ársloka 2011 þegar fyrstu greiðslur hófust úr þrotabúi gamla Landsbankans.

Neyðarlögin tryggja B&H betri endurheimtur

Fram hefur komið í fjölmiðlum að gamli Landsbankinn hafi nú greitt tæplega 600 milljarða króna til sinna forgangskröfuhafa, sem hafa því fengið um 43% sinna krafna greidd út. Neyðarlögin sem samþykkt voru á Alþingi í október 2008 gerðu það að verkum að innlán urðu að forgangskröfum í þrotabú hinna föllnu banka. Við þetta má bæta að þó svo að heimtur upp í forgangskröfur standi nú í um 43%, þá ættu heimtur upp í 20.887 evra lágmarkstryggingu innlána samkvæmt tilskipun 94/19 að vera talsvert hærri en svo.

Hefðu neyðarlögin ekki verið samþykkt hefðu heimtur eigenda krafna vegna Icesave- innlána verið talsvert lægri en þau 43% sem þegar hafa verið gerð upp. Það eru því engar ýkjur að segja að eigendur Icesave-innlána hafi verið með stærstu sigurvegurunum þegar kemur að áhrifum neyðarlaganna, enda tryggðu þau fullar endurheimtur á höfuðstól þeirra krafna.”

Fréttabréf Jupiter má nálgast hér.