Nýtt mælaborð ríkisreiknings kynnt í Spursmálum

Í Spursmálum í dag (hefst á mínútu 56:00) kynntu Samtök skattgreiðenda nýtt mælaborð ríkisreiknings frá og með árinu 2004 til og með ársins 2023. Mælaborðið hefur að geyma árslokastöður allra bókhaldslykla, allra ráðuneyta og stofnana A1 hluta ríkisins sem hafa komið fyrir í ríkisbókhaldinu á þessu tímabili. 

Alls er um að ræða tæplega 40 ráðuneyti auk æðstu stjórnar ríkisins og tæplega 1.100 stofnanir. Bókhaldslyklar telja 20 yfirlykla, 110 millilykla og rúmlega 1.800 undirlykla – eða tegundir eins og það er kallað í ríkisbókhaldi. Mælaborðið inniheldur einnig allar víddir sem skráðar eru í ríkisbókhald, nánar til tekið; u.þ.b. 200 málaflokka, 52 málefnasvið og rúmlega 2.700 fjárlagaviðföng. Gagnagrunnurinn sjálfur telur rúmlega tvær milljónir lína.

Því skal haldið til haga að Fjársýsla Ríkisins hefur enn ekki afhent Samtökunum færslur sem bókaðar eru á þrettánda tímabil áranna 2019, -20, og -21 þrátt fyrir ítrekaðar óskir Samtakanna um að fá þessi gögn afhent. Samtökin hafa nýlega vísað því máli til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þá hefur Fjársýslan ekki enn afhent Samtökunum gögn vegna ársins 2024 en hvoru tveggja verður bætt við gagnagrunninn um leið og þessar upplýsingar berast.

Mælaborð ríkisreiknings er og verður opið almenningi endurgjaldslaust á vef Samtaka skattgreiðenda. Þess er góðfúslega farið á leit við notendur að þeir geti heimildar þegar birtar eru niðurstöður sem byggja á efni sem fengið er úr mælaborðinu. Fjölmiðlafólki, stjórmálafólki, starfsmönnum þingflokka og öðrum sem vilja vinna gögn upp úr mælaborði ríkisreiknings er velkomið að setja sig í samband við okkur. Samtök skattgreiðenda geta boðið upp á kennslu í notkun mælaborðsins og afhent niðurstöður leitarskilyrða á excel formi þeim sem þess þarfnast.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is

Deila