Erlendir ríkisborgarar 5 sinnum líklegri til að vera á atvinnuleysisbótum

Í úttekt Samtaka skattgreiðenda á lýðfræði þeirra sem þiggja atvinnuleysisbætur kemur í ljós að erlendir ríkisborgarar eru næstum 5 sinnum líklegri en íslenskir ríkisborgarar til að þiggja atvinnuleysisbætur. Skv. upplýsingum frá Vinnumálastofnun eru 4.243 erlendir ríkisborgarar atvinnulausir, eða 55% atvinnulausra, á meðan íslenskir ríkisborgarar eru 3.452 eða 45% atvinnulausra.

Skv. gögnum Hagstofu Íslands er mannfjöldi á aldrinum 20-69 ára um 248 þúsund, þar af um 196 þúsund íslenskir ríkisborgarar og um 52 þúsund erlendir ríkisborgarar. Tölurnar eru frá janúar 2024, en m.v. tölur Vinnumálastofnunar hefur hlutfallslega lítil breyting orðið á fjölda íbúa eða innbyrðis skiptingu þeirra. Þetta þýðir að atvinnuleysi hjá íslenskum ríkisborgurum er um 1,8% en 8,1% hjá erlendum ríkisborgurum.

Íbúar frá Palestínu líklegastir til að vera atvinnulausir – Filippseyingar ólíklegastir

Vinnumálastofnun birtir gögn um ríkisfang atvinnulausra séu 10 eða fleiri atvinnulausir frá hverju landi. Þegar þessar tölur eru bornar saman við ofangreind gögn frá Hagstofu Íslands kemur í ljós að fólk frá Palestínu (18%) og Grikklandi (17%) er líklegast til að þiggja atvinnuleysisbætur á Íslandi en ríkisborgarar Filippseyja (1%) og Íslands (1,8%) ólíklegastir.

Yfir 25 milljarðar á ári í kostnað vegna atvinnuleysis erlendra ríkisborgara?

Atvinnuleysisbætur í dag nema 364.895 kr. á mánuði. Með launatengdum gjöldum og rekstrarkostnaði Vinnumálastofnunar má áætla að hver atvinnulaus kosti um 500 þúsund krónur á mánuði eða 6 milljónir á ári. Það þýðir að atvinnuleysi íslenskra ríkisborgara kosti um 20,7 milljarða á ári og atvinnuleysi erlendra ríkisborgara um 25,5 milljarða króna.

Ísland sker sig úr meðal norðurlandaþjóða

Réttur til atvinnuleysisbóta á Íslandi gildir í 30 mánuði frá atvinnumissi. Það er umtalasvert lengri tími en í nágrannalöndunum þar sem hámarkið er oftast í kringum 24 mánuði.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is

Deila