Fjórföldun í kostnaði við snjómokstur sveitarfélaga

Íbúar höfuðborgarsvæðisins urðu vafalaust flestir varir við miklar truflanir á samgöngum í síðustu viku eftir nokkra snjókomu á svæðinu. Það vakti athygli hve illa gekk að moka göturnar og því tilvalið að skoða hvernig kostnaður við snjómokstur og hálkuvarnir hefur þróast á undanförnum árum.

Samband íslenskra sveitarfélaga halda utan um sundurliðun aðalsjóðs sveitarfélaga frá árinu 2002 til 2024. Sveitarfélög bókfæra hins vegar ekki alltaf kostnað með sama hætti, en í úrtakinu sem ákveðið var að taka voru Reykjavíkurborg, Kópavogur, Garðabær, Mosfellsbær og Akureyrarbær. Hafnarfjarðarbær sundurliðar snjómokstur ekki sérstaklega í tölum Samtaka sveitarfélaga og hjá Reykjavíkurborg nær sundurliðunin ekki til áranna 2011 til 2020. Þá má geta þess að á tímabilinu sameinaðist Garðabær Álftanesi árið 2012, þó stærsta stökkið komi ekki fram fyrir nokkrum árum eftir sameininguna. Þetta allt ætti þó ekki að koma að sök því ætlunin er að sjá hvernig þróunin hefur almennt verið í þessum málaflokki.

Gögnin frá Samtökum sveitarfélaga voru uppreiknuð á verðlag ársins 2024 og fjárhæðunum deilt niður á íbúafjölda í hverju sveitarfélagi á hverju ári skv. gögnum frá Hagstofu Íslands.

Á myndinni hér að ofan má sjá að kostnaður hvers íbúa á föstuverðlagi hefur hækkað verulega. Mögulegt er að einhverjir samningar milli ríkis og sveitarfélaga hafi breytt einhverju á tímabilinu, og því er ekki tekið tillit til þess.

Þegar meðaltalið er tekið af öllum þessum sveitarfélögum sést ofangreind mynd. Með því að setja hallatölu á þróunina má sjá að kostnaður við hálkuvarnir og snjómokstur eykst að jafnaði um 400 krónur á ári á hvern íbúa á föstu verðlagi.

Hærri kostnaður, minni þjónusta

Þetta rímar við flest, ef ekki allt, sem Samtök skattgreiðenda hefur skoðað. Kostnaður er alltaf að aukast og þjónustan að minnka. Í þessum málaflokki hefur kostnaðurinn aukist um 380% að meðaltali á tímabilinu á föstu verðlagi, sem er nánast fjórföldun.

Við spyrjum okkur því, er þjónusta við hálkuvarnir og snjómokstur fjórum sinnum betri nú en hún var árið 2002?

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki einstaklinga og fyrirtækja. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is

Deila