Samtök skattgreiðenda hafa nú lokið samantekt á beinum kostnaði ríkisins vegna annars vegar; Alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og hins vegar vegna Umsækjenda um alþjóðlega vernd (hælisleitenda) á tímabilinu 2004-2024.
Útgjöld til þróunarsamvinnu eru sérgreind með málaflokkanúmerum ríkisbókhaldi allt þetta tímabil, en útgjöld vegna hælisleitenda eru sérgreind með stofnananúmeri (06399) á tímabilinu 2012 til og með 2016, og með málaflokkanúmerum frá og með 2017. Gögn, brotin niður á málaflokk, liggja enn ekki fyrir vegna ársins 2024, því er farin sú leið að áætla hlutföll út frá heildarútgjöldum viðkomandi stofnana fyrir það ár. Við teljum líklegt, út frá þróun einstakra kostnaðarliða, að heildarútgjöld vegna ársins 2024 sé vanáætluð frekar en hitt.
Teknar voru saman niðurstöður fyrir eftirfarandi málaflokka:
- 0012 – Erlend efnahagsaðstoð (með stöður 2004-2016)
- 0440 – Þróunarsamvinna (með stöður 2017-2019)
- 1050 – Útlendingamál (með stöður 2017-2023)
- 2970 – Málefni innflytjenda og flóttamanna (með stöður 2017-2023)
- 3510 – Þróunarsamvinna (með stöður 2020-2023)
Fyrir árið 2024 beittum við þeirri aðferð að taka saman allar stofnanir, með færslur undir ofangreindum málaflokkum árið 2023, finna hlutfall viðkomandi málaflokka af heildarútgjöldum þess árs, og nota það hlutfall til að áætla hlutfall útgjalda málaflokks af rekstrarkostnaði ársins 2024.
Athugið að þessar tölur sýna bara beinan kostnað ríkisins. Í tilviki hælisleitenda er margskonar óbeinn kostnaður sem fellur til bæði áður en umsækjandi fær alþjóðlega vernd samþykkta og eftir að slík umsókn er samþykkt. Vilhjálmur Árnason þingmaður (D) og Ragnar Árnason, Professor emeritus hafa nýlega nefnt að heildarkostnaður geti verið um eða yfir kr. 100 milljarðar á ári vegna hælisleitenda.
Myndrit sýnir þróun útgjalda, á verðlagi hvers árs, þegar útgjöld hafa verið lögð saman í tvo flokka; 0012, 0440 og 3510 verða Þróunarmál og 1050 og 2970 verða Hælisleitendur.
Þróunarmál myndar allan kostnað í byrjun tímabils, alls kr. 890 milljónir árið 2004 en er kominn í tæpa 13,5 milljarða árið 2024. Í byrjun tímabils er kostnaður ríkisins svo óverulegur af hælisleitendum að hann er ekki sérgreindur en hann verður fyrst sérgreindur árið 2012. Þá eru bein heildarútgjöld, skv. þessum upplýsingum, kr. 220 milljónir. Þessi kostnaður rýkur upp og er kominn í kr. 20,5 milljarða árið 2024. Samanlagt fara því um kr. 34 milljarðar í þessa málaflokka árið 2024.
Í hvað fara peningarnir?
Gögn, sem sýna sundurliðun á tegund kostnaðar undir málaflokki, ná bara til ársins 2023. Samtökin hafa óskað eftir þessum gögnum vegna ársins 2024 en þau hafa enn ekki fengist afhent frá Fjársýslu Ríkisins. Samantektir hér á eftir ná því yfir tímabilið 2004-2023.
Myndrit sýnir hvernig stærstu útgjaldaliðir skiptast undir málaflokkum hælisleitenda.
Undir málaflokkum hælisleitenda hafa Launagjöld numið um 16% af heildarútgjöldum málaflokka, (aðkeypt) Þjónusta 71% og Tilfærslur 13% að meðaltali á tímabilinu.
Undir stærsta útgjaldaliðnum – Þjónusta, eru stærstu einstöku liðir þessir fjórir; Sérfræðiþjónusta l, Sérfræðiþjónusta ll, Samningsbundin kaup og leiga, og Leigugjöld. Sérfræðiþjónusta l og ll nemur um kr. 3,8 milljörðum árið 2023 en Samningsbundin kaup og leiga, og Leigugjöld tæpum kr. 5,8 milljörðum. Útgjöld vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu eru áhugaverð með hliðsjón af launagjöldum sem nema kr. 1,4 milljörðum árið 2023 samanborið við kr. 3,8 milljarða fyrir verktöku eins og áður sem er næstum þreföld sú fjárhæð sem fer í launagjöld.
Myndrit sýnir hvernig stærstu útgjaldaliðir skiptast undir málaflokkum þróunarmála.
Sé horft til tímabilsins í heild hafa Launagjöld numið 10%, Þjónusta 12% og Tilfærslur 78% að meðaltali.
Stærstur hluti tilfærslna, eða 93%, fer í gegnum tvo lykla. Til erlendra aðila (84%) og Til einstaklinga, samtaka og heimila (9%). Hér er að langmestu leyti um að ræða greiðslur til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annara einkaaðila hér heima og erlendis. Vert er að hafa í huga að greiðslur til erlendra aðila geta verið til erlendra lögaðila sem eru í eigu- eða undir stjórn íslendinga. Í einhverjum tilfellum er um að ræða greiðslur til sjálfseignastofnana með rekstrareiningar bæði hér á landi og í því landi sem peningar eru sendir til. Eftirlit með ráðstöfun fjár sem flutt er úr ríkissjóði, yfir til einkaaðila í gegnum þessa tilfærslulykla, er almennt ekki gott hjá ríkinu að okkar mati.
Í meðfylgjandi excel skrám er að finna hráar samantektir rekstrarsögu þróunarmála og hælisleitenda. Áhugasamir geta þá skoðað þróun útgjalda á öllum yfir-, milli-, og undirlyklum. Samtökin munu á næstu misserum halda áfram að kanna einstaka þætti í þessum upplýsingum, auk þess að reyna að kortleggja óbeinan kostnað, og birta niðurstöður eins og tilefni er til.
Hælisleitendur – rekstur
Þróunarsamvinna – rekstur
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is