Fyrirlestur í Háskóla Íslands

Matthew Elliott annar stofnanda TaxPayers´ Alliance í Bretlandi (samtök skattgreiðenda) kemur til Íslands þann 19. september nk. og heldur m.a. fyrirlestur í Lögbergi, Háskóla Íslands, stofu 101, föstudaginn 20. september kl. 12 – 13. Sá fyrirlestur fjallar um viðspyrnuna sem nú er veitt gegn auknum útgjöldum hins opinbera og síhækkandi sköttum og hvernig samtökin hafa hrist upp í bresku stjórnmálum.

Frekari fundir eru fyrirhugaðir, en Matthew er Samtökum skattgreiðenda mikill fengur, eins og lesa má um hér að neðan.

Um Matthew Elliott

Matthew Elliott fæddist í Leeds á Englandi og ólst þar upp. Hann fluttist til London 1997 til að stunda nám við London Scool of Economics þaðan sem hann útskrifaðist með fyrstu einkunn í stjórnsýslu. Eftir útskrift vann hann fyrir ýmsa þingmenn bæði á Breska þinginu og Evrópuþinginu í Brussel. Hann hefur skrifað fjórar bækur í samstarfi við aðra um opinber útgjöld: The Bumper Book of Government Waste (Harriman House, 2006); The Bumper Book of Government Waste (Harriman House, 2008); The Great European Rip-Off ; How the Corrupt, Wasteful EU is Taking Control of Our Lives (Random House, 2009) og Fleeced! (Constable, 2009). Hann var kosinn Fellow of the Royal Society of Arts í júní 2007 og situr í ráðgjafanefnd fyrir The New Culture Forum.

Matthew kom á fót Samtökum Skattgreiðenda 2004 (TaxPayers’ Alliance). TPA eru óháð grasrótarsamtök sem berjast fyrir lægri sköttum og betri nýtingu skattpenings. TPA eru talin áhrifamesti þrýstihópur í Bretlandi og hefur, samkvæmt The Guardian, meira en 65,000 fylgismenn, 15 kynningarfulltrúa í fullu starfi og hafa náð að skapa sér mikinn sýnileika í fjölmiðlum. Matthew starfaði sem framkvæmdastjóri samtakanna frá upphafi þar til í júlí 2012.

Matthew stofnaði Big Brother Watch árið 2009. Samtökin berjast fyrir borgaralegum réttindum og persónufrelsi einstaklinga. BBW er nú leiðandi rödd í þeirri umræðu vegna rannsókna sinna á þessu sviði og skeleggrar baráttu. Hann var fenginn til að stýra baráttu samtakanna NO to AV gegn breytingum á kosningalöggjöfinni vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi 2011. Fóru leikar þannig að breytingunni var hafnað með afgerandi mun (67.9% gegn 32.1%). Hafði einn álitsgjafi á orði: „þessi kosningabarátta leggur grunn að nýju módeli fyrir framtíðina. Elliott leiddi hjá sér umræðu álitsgjafanna og keyrði kosningabaráttuna á rödd fólksins en ekki stórborgarelítunnar.“

Matthew er eftirsóttur sem pólitískur strategisti og hefur ferðast víða í slíkum erindagjörðum, m.a. til Hvíta Rússlands, Georgíu, Ghana og Serbíu. Hann er stjórnarmaður í Wess Digital auk þess að vera framkvæmdastjóri fyrir Business for Britain. En BfB eru samtök lobbyista sem vinna fyrir hönd breskra viðskiptajöfra sem vilja ná betri árangri í samningum sínum við Evrópusambandið.

BBC hefur kynnt Matthew Elliott sem „einn af áhrifamestu lobbyistum í Westminster“  og Tim Montgomerie hjá ConservativeHome telur Matthew „hugsanlega áhrifamesta pólitíska kosningastjórann sem fram hefur komið meðal núlifandi kynslóða í Bretlandi.“ Árið 2010 var hann á lista Total Politics sem einn af topp 25 pólitískum áhrifamönnum í Bretlandi.