Úttekt á ritlaunum listamanna undanfarin 25 ár

Samtök skattgreiðenda hafa gert úttekt á ritlaunum listamanna undanfarin 25 ár. Í úttektinni má sjá fjölda mánaða sem hver rithöfundur hefur fengið úthlutað, fjárhæðir miðað við fjárhæð ritlauna í dag og greiningu á þeim 10 rithöfundum sem mest hafa fengið. Samtökunum berast reglulega ábendingar um ýmis atriði og var úttektin gerð eftir ábendingu frá skattgreiðanda í tilefni þess að þann 1. október nk. rennur út umsóknarfrestur fyrir listamannalaun ársins 2026.

Guðrún Eva trónir á toppnum

Athygli vekur að Guðrún Eva Mínervudóttur hefur fengið flesta mánuði í ritlaun listamanna undanfarin 25 ár, eða alls 294 mánuði af 300 mögulegum. Það skýrist af því að árin 2018 og 2025 fékk hún aðeins 9 mánuði greidda hvort ár. Á eftir henni koma Jón Kalman Stefánsson, Bragi Ólafsson og Kristín Ómarsdóttir með 276 til 278 mánuði.

Háar fjárhæðir

Til að gera sér grein fyrir umfangi ritlauna listamanna í fjárhæðum var núverandi fjárhæð ritlauna, 560 þúsund krónur á mánuði, notuð til að uppreikna heildarfjárhæðir. Sú fjárhæð er notuð þar sem gera má ráð fyrir að fjárhæð ritlauna hafi breyst í samræmi við launaþróun í landinu. Á þessu 25 ára tímabili hafa með þessari aðferðafræði verið greidd ritlaun fyrir um 7,5 milljarð króna, en alls hafa 300 höfundar fengið greidd ritlaun á tímabilinu.

Mismikil afköst rithöfunda

Sem gefur að skilja er erfitt að setja mælikvarða á gæði þess efnis sem rithöfundar senda frá sér og þessi úttekt snýst ekki um það. Við leyfum okkur þó að sækja vísbendingu með  því að skoða metsölulista hvers árs. Á toppi þess lista má ætla að rithöfundar á borð við Ragnar Jónasson (0 mánuðir), Yrsu Sigurðardóttur (0 mánuðir) og Arnald Indriðason (18 mánuðir) trjóni, enda hafa þau verið með söluhæstu rithöfundum landsins. Annar mælikvarði gæti verið að telja fjölda bóka og blaðsíður. Sá mælikvarði er sem gefur að skilja ekki nákvæmur enda er umbrot mismunandi, sumar bækur með myndum eða prentað öðru megin á á hverja blaðsíðu. Við tókum til upplýsingar saman þessi afköst fyrir þá 10 sem flesta mánuði hafa fengið í ritlaun. Um leið setjum við fram fyrirvara á þá aðferðafræði, ljóðabókahöfundar koma til dæmis illa út í þeim samanburði.

Andri Snær með sérstöðu 

Í töflunni hér að ofan má sjá að rithöfundurinn og loftslagsbaráttumaðurinn Andri Snær Magnason hefur aðeins gefið út 5 bækur á tímabilinu þrátt fyrir að hafa fengið 246 mánuði greidda. Í ítarefni má sjá upptalningu á bókum þessara 10 höfunda ásamt blaðsíðufjölda. Við gagnasöfnun fyrir úttektina voru notaðar heimildir frá Wikipedia-síðum rithöfunda, Bókmenntavefnum, vef Forlagsins, leitir.is og vefsíður höfunda. Ef um endurútgáfur eða þýðingar var að ræða var þeim bókum sleppt. Sama á við þegar margir höfundar eru um sömu bókina og þegar bækur komu út í takmörkuðu upplagi. Til að taka saman fjölda mánaða nýttum við vef Rannís sem sýnir listamannalaun frá 1993. Tölfræðina má sjá myndrænt hér að neðan.

Hringamyndun í úthlutun?

Athygli vekur að sömu höfundar virðast vera í áskrift að ritlaunum listamanna líkt og sjá má á ofangreindum upplýsingum. Vekur það upp spurningar um tilgang listamannalauna sem margir telja að ætti að vera til að hjálpa ungum og efnilegum rithöfundum til að stíga sín fyrstu skref, í stað þess að veita til þess að gera þröngum hópi höfunda háar fjárhæðir í áskrift.

Hér má finna Excel skjal með allri tölfræði sem notuð eru í úttektinni.

UPPFÆRT 27. september 2025 kl 10:20: Andri Snær Magnason hafði samband við Samtök skattgreiðenda og vildi koma því á framfæri að hann sé með ókláraðar bækur í vinnslu og hafi skrifað handrit að fjórum leikritum á þeim tíma sem um ræðir. Þá hafi hann gefið út bókina Neðanjarðar krókódílarnir árið 2017, en hana er ekki að finna í þeim heimildum sem við leituðum í og vísuðum til. Þess vegna var hana ekki að finna í upptalningu okkar. Þá er rétt að taka fram að um verktakagreiðslur er að ræða eins og aðrir styrkir Rannís.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki einstaklinga og fyrirtækja. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is

Deila