Er fjölgun íbúa hvalrekaskattur fyrir RÚV?

Nýlega ákváðu Samtök skattgreiðenda að greina hvernig fjölgun íbúa á Íslandi hefur bein  áhrif á tekjur Ríkisútvarpsins ohf. Sem kunnugt er þá er útvarpsgjaldið nefskattur sem einstaklingar og lögaðilar greiða samkvæmt vissum skilyrðum og 67% af tekjum RÚV kemur frá þessu útvarpsgjaldi. Tímabilið sem skoðað var er frá 2016 til 2024, sem skýrist helst að því að árið 2015 breytti RÚV um uppgjörstímabil.

Aðferðin til að finna út áhrif fjölgunar íbúa á rekstrartekjur RÚV er sú að teknar eru tekjur af útvarpsgjaldi og deilt í með fjárhæð útvarpsgjalds á hverju ári. Til að fá réttan fjölda íbúa sem greiða útvarpsgjald voru lögaðilar sem eru tekjuskattsskyldir dregnir frá, en þær upplýsingar liggja fyrir hjá Hagstofu Íslands.

Á tímabilinu sem um ræðir fjölgaði því einstaklingum sem greiða útvarpsgjald um ríflega 48 þúsund og í ljósi þess að útvarpsgjaldið nam 20.900 krónum í fyrra eru tekjur af fjölgun íbúa rúmlega 1 milljarður króna árið 2024.

Sérstaka  athygli vekur að einstaklingum sem greiða útvarpsgjald fækkaði töluvert tímabundið á Covid árunum. Líklega er það vegna þess að farandverkamenn hafi farið til síns heima eða að einhverjir hafi fallið undir tekjumörk útvarpsgjaldsins.

Er þetta eðlileg þróun?

Stærstur hluti nýrra greiðenda útvarpsgjalds eru erlendir einstaklingar. Það leiðir af sjálfu sér að þessi hópur skilur lítið af því sem fram fer á miðlum RÚV. Því er eðlilegt að spyrja hvort að sanngjarnt sé að þetta fólk sé látið greiða fyrir þjónustu sem það getur ekki nýtt sér?

Um leið má velta fyrir sér hvort eðlilegt sé að fjármögnun ríkisfjölmiðilsins taki mið af notendum sem hafa jafnvel ekki kost á að nýta sér þjónustuna?

Einnig er það umhugsunarvert hvort þessi skoðanamyndandi miðill hafi fjárhagslegan hvata til að hafa áhrif á umræðu um t.d. útlendingamál?

Ítarefni

Með fylgir Excel skjal með þeim útreikningum sem þessi úttekt byggir á, svo almenningur geti sjálfur með einföldum hætti myndað sér skoðun á málinu.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is

Deila