Framkvæmdasýslu gert að afhenda Samtökunum leigusamninga vegna hælisleitenda

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU) hefur nú úrskurðað í máli Samtaka skattgreiðenda gegn Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum (FSRE). 

Með erindi, dags. 27. janúar 2025, óskuðu Samtökin eftir afriti allra húsaleigusamninga sem gerðir hefðu verið vegna umsækjanda um alþjóðlega vernd frá og með árinu 2019. FSRE synjar þessari beiðni með eftirfarandi erindi dags. 18. febrúar 2025:

,,Með vísan til 9. gr. upplýsingalaga er það mat FSRE að ekki sé heimilt að afhenda þá leigusamninga sem óskað er afrits af. Við teljum okkur ekki heldur hafa heimild til að afhenda upplýsingar um heimilisföng þess húsnæðis sem um ræðir enda um viðkvæman hóp íbúa að ræða.

Þar sem um tugi samninga er að ræða sem afar tímafrekt væri að safna saman og yfirstrika staðsetningu þess leigða sér stofnunin sér ekki fært að verða við beiðni ykkar, sbr. 4. mgr. 15. gr. fyrrnefndra laga.

Í meðfylgjandi úrskurði nefndarinnar eru synjunarrök FSRE hrakin og beiðni kæranda vísað til FSRE til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Þegar úrskurður lág fyrir, gerðu Samtökin FSRE tilboð. Í tilboðinu fólst að stjórn Samtakanna myndi skuldbinda sig til að láta engan, utan stjórnarmanna, í té upplýsingar um heimilisföng hins leigða húsnæðis. Með þessu myndi FSRE losna við að yfirstrika heimilisföng hins leigða húsnæðis. Í svari FSRE er tilboði Samtakanna hafnað en tekið fram að gögnin fáist afhent í ágúst, þegar búið verður að yfirstrika heimilisföng ,,þar sem viðkvæmur hópur býr eða hefur búið” eins og segir í svari FSRE.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is

Deila