Lífeyrissjóðir hafa tapað 22 milljörðum á veiðigjaldafrumvarpinu

Hluthafar í sjávarútvegsfyrirtækjunum þremur sem skráð eru í Kauphöll Íslands, Brimi, Ísfélaginu og Síldarvinnslunni, hafa ekki farið varhluta af áformum ríkisstjórnar hagfræðingsins Kristrúnar Frostadóttur um að stórhækka veiðigjöld á útgerðina í landinu. Hlutabréfaverð félaganna hefur lækkað mikið og þar með hafa hluthafar tapað tugum milljarða. Í ljósi þess að lífeyrissjóðir landsmanna eru meðal stærstu hluthafa í félögunum hefur almenningur á Íslandi sem greitt hefur í lífeyrissjóði tapað alls um 22 milljörðum króna frá áramótum. Það eru ekki fjórar fjölskyldur, líkt og forsætisráðherra heldur fram, heldur flestar fjölskyldur á landinu sem sitja því uppi með tjónið.

Hér má sjá sundurliðun á tapi hvers lífeyrissjóðs.

Opinberir starfsmenn tapa miklu

Alls hafa lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna, LSR og Brú, tapað um 7,3 milljörðum króna á veiðigjaldafrumvarpinu, þar af starfsmenn sveitarfélaga um 2,5 milljarði, en talið er að mörg sveitarfélög geti farið mjög illa út úr hærri veiðigjöldum.

Skattgreiðendur sitja uppi með 1,1 milljarðs króna tjón

Athygli vekur að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og R-deild Brúar, lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, hafa tapað alls um 1,1 milljarði króna. Þessar deildir þessara sjóða eru ósjálfbærar og með ríkisábyrgð svo af þessu 22 milljarða króna tjóni, sitja skattgreiðendur uppi með 1,1 milljarð.

Forsendur
Til að fá út tölurnar í ofangreindri töflu var hluthafalisti fyrirtækjanna (20 stærstu) tekinn af vefsíðum þeirra þann 27. júní 2025 og miðað við mun á dagslokagengi í kauphöllinni þann 30. desember 2024 og 27. júní 2025. Mögulega hafa einhver viðskipti átt sér stað á tímabilinu og mögulega eru einhverjir lífeyrissjóðir sem ná ekki inn á listann yfir 20 stærstu. Þá geta lífeyrissjóðir átt hlutabréf í fyrirtækjum sem síðan eiga í sjávarútvegsfyrirtækjunum eða hlutdeildarskírteini í hlutabréfasjóðum sem eiga hluti.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is

Deila