Þann 5. apríl sl. sendu Samtök skattgreiðenda fyrirspurn á Fjármála- og efnahagsráðuneyti þar sem m.a. var óskað eftir lista yfir alla laungreiðendur/lögaðila undirliggjandi tölum um fjölda opinberra starfsmanna eins og þær eru kynntar á vefsvæðinu opinberumsvif.is/mannaudur. Markmið beiðnarinnar er m.a. það að fá tæmandi lista yfir stofnanir á vegum hins opinbera. Nú, rúmum fjórum mánuðum síðar, eru samtökin engu nær, ráðuneytið vísar erindinu á Fjársýslu Ríkisins sem vísar því aftur á ráðuneytið sem segist nú vera að ,,skoða beiðnina”. Tekið skal fram að þær upplýsingar sem óskað var eftir, ættu að vera hluti af gögnum sem notuð voru til að uppfæra tölur um fjölda opinberra starfsmanna einungis nokkrum vikum eða mánuðum fyrr þegar nýjustu tölur voru birtar á vefsvæðinu.
Í annarri fyrirspurn samtakanna, nú til Forsætisráðuneytis, var óskað eftir tæmandi lista yfir allar nefndir ríkisins. Í svari ráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið hafi ekki upplýsingar um nefndir annarra ráðuneyta og tekur sérstaklega fram að sá listi sem birtur er á vef Stjórnarráðsins – sem sýnir um 650 nefndir og sagður eiga að sýna nefndir á vegum ríkisins – sé ekki tæmandi. Ekkert í framsetningu á vef forsætisráðuneytis gefur lesanda til kynna að á listanum séu bara nefndir sem starfsfólk hins opinbera mundi eftir í fljótu bragði þegar listinn var tekinn saman.
Í þriðju fyrirspurn Samtakanna var óskað eftir tæmandi lista yfir fyrirtæki sem að öllu leyti eða að hluta væru í eigu hins opinbera. Hér fengust þau svör að ,,almennt” eigi að vera hægt að finna upplýsingar um slíkar eignir á sérstakri síðu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytis en í svari ráðuneytisins fylgir slóð á umrædda síðu. Af orðalagi í svari ráðuneytisins verður ekki annað ráðið en að umræddur listi sé einmitt ekki tæmandi.
Stjórnvöld eiga auðvitað að vera með tæmandi lista yfir allar stofnanir, allar nefndir, og öll fyrirtæki í sinni eigu á hverjum tíma. Það að brugðist sé við beiðnum sem þessum með því að rífast um hver eigi að svara þeim, og rjúka í það að taka saman lista einungis vegna þess að borgarasamtök hafa óskað eftir slíkum lista er ekki traustvekjandi.