Eitt stærsta efnahagslega vandamálið á Íslandi er hallarekstur ríksins. Afleiðing hans er verðbólga og háir vextir sem birtist meðal annars í því að 60 þúsund heimili eiga erfitt með að ná endum saman. Þegar fjármálaráðherra er spurður út í niðurskurð segir hann að slíkt myndi leiða af sér „massíft atvinnuleysi“ og að hann vilji frekar verja kaupmátt og atvinnu í landinu. En kaupmátt og atvinnu hverra?
Á undanförnum áratug hafa um 50 þúsund manns flutt til landsins til að starfa hér og aðeins um 1.400 manns eru skilgreindir langtímaatvinnulausir.
Má skilja orð fjármálaráðherra þannig að ríkisstarfsmenn geti hvergi annars staðar fengið vinnu og því þurfi að verja kaupmátt og atvinnu þeirra á kostnað allra annarra?