Þegar opinber stofnun brýtur lög

Reglulega berast fréttir af því að opinberar stofnanir gerist brotleg við hin ýmsu lög. Hin brotlega stofnun vísar málinu nær undantekningarlaust til dómstóla.

Ef almennur borgari verður uppvís að lögbroti þarf hann sjálfur að bera ábyrgð á því og vilji hann vísa málinu til dómstóla þarf hann að bera kostnaðinn af því. Brjóti hann af sér í starfi hjá einkafyrirtæki, þá eru allar líkur á því að hann missi starf sitt.

Í nýlegu tilfelli Landlæknis virðast viðkvæm gögn um 41.390 einstaklinga hafa legið á glámbekk, sem er bannað.

Samtök skattgreiðenda spurðu bæði Landlækni og Persónuvernd um kostnað við málareksturinn fyrir dómstólum. Báðir aðilar áætluðu að kostnaðurinn næmi um 1 milljón króna. Skattgreiðendur þurfa því ofan á það að Landlæknir brjóti á þeim, að greiða þriðju aðilum milljónir fyrir þetta brot Landlæknis. Ótalin er vinna starfsmanna beggja stofnanna, sem vafalaust hefði mátt verja í eitthvað gagnlegt, eða mögulega hefðu starfsmennirnir ekki þurft að vera svona margir?

Tillaga um ábyrgð

Eðlilegt væri að ef opinber stofnun gerist sek um jafn alvarlegt brot og Landlæknir hefur orðið vís um að fremja, að viðkomandi forstöðumaður sé áminntur eða rekinn. Skattgreiðendur eiga ekki að þurfa að greiða fyrir málarekstur þar sem sektir á milli stofnana eru ágreiningsefnið. Skattgreiðendum er sama hvað Ríkissjóður borgar Ríkissjóði margar milljónir, en að þurfa að greiða lögmönnum beggja aðila auk dómstóla fyrir alvarleg brot Landlæknis, er óásættanlegt.

Eðlilegast hefði því verið að Landlæknir hefði misst starf sitt.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is

Deila