Fjársýsla ríkisins birti í dag athyglisverða frétt á vefsíðu sinni byggða á launakeyrslu stofnunarinnar þann 1. júní sl. Líkt og oft þegar ríkið birtir upplýsingar, vekja þær fleiri spurningar en svör.

Samtök skattgreiðenda hafa undanfarið ár reynt að fá svör við því hve margir starfsmenn starfi hjá ríkinu, án árangurs, svo mögulega er þessi frétt birt í kjölfarið á fyrirspurnum samtakanna. Það er einkum þrennt sem vekur athygli okkar.

Hefur ríkisstarfsmönnum fjölgað um 17,5% undanfarna 17 mánuði?

Á vefnum rikisreikningur.is/mannaudur, sem er líka í umsjón Fjársýslu ríkisins, kemur fram að í lok árs 2023 hafi ríkisstarfsmenn verið 23.791. Skv. frétt Fjársýslunnar er fjöldinn nú kominn í 27.960, sem er fjölgun um 4.169 starfsmenn, eða 17,5% á aðeins 17 mánuðum. Það samsvarar 245 nýja ríkisstarfsmenn á mánuði eða 11 á hverjum virkum degi.

Eru 9% ríkisstarfsmanna í starfi hjá fleiri en einni stofnun?

Annað sem vekur spurningar er að þó fjöldi ríkisstarfsmanna sé 27.960, þá fengu þeir 30.435 launaseðla. Þýðir það að 2.475 ríkisstarfsmenn, eða um 9% ríkisstarfsmanna, starfi hjá fleiri en einni stofnun?

Hvað með alla hina ríkisstarfsmennina?

Fjársýslan segir í frétt sinni að stofnunin greiði laun allra ríkisstarfsmanna. Aftur vekur það fleiri spurningar en svör. Allavega 3 þúsund starfsmenn ríkisfyrirtækja og sjálfseignarstofnana á fjárlögum falla ólíklega undir skilgreiningu Fjársýslu ríkisins um ríkisstarfsmenn. Ríkisstarfsmenn sem starfa hjá ISAVIA ohf, Ríkisútvarpinu ohf, Landsbankanum hf. og Landsvirkjun hf., svo dæmi séu tekin, fá tæplega greidd laun frá Fjársýslu ríkisins.

Upplýsingagjöf er mikilvæg

Um leið og Samtök skattgreiðenda fagna því að Fjársýsla ríkisins auki upplýsingagjöf sína til almennings, mætti gjarnan stíga skrefi lengra og sundurliða tölurnar sem birtar voru í dag eftir ríkisstofnun og gefa út mánaðarlega.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is