Á vef Alþingis má sjá launagreiðslur og annan kostnað sem þingmenn fá greiddan. Kostnaðinum er skipt í tvennt, annars vegar fastar kostnaðargreiðslur og hins vegar annan kostnað. Á vef Alþingis segir:

“Fastar kostnaðargreiðslur eru húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslur, fastur starfskostnaður og fastur ferðakostnaður. Annar kostnaður er m.a. kostnaður vegna ferða innan og utan lands, símakostnaður og starfskostnaður skv. reikningum.”

Þegar tekinn er saman listi fyrir fyrstu 8 mánuði ársins kemur í ljós að á toppnum tróna þingmenn landsbyggðarinnar. Listanum er raðað eftir öðrum kostnaði en launagreiðslum.

Í veruleika flestra skattgreiðenda er kostnaður upp á um milljón á mánuði í húsnæðis-, ferða- og símakostnað líklega hátt yfir meðallagi. Það er sjálfsagt að benda þingmönnum, sem margir vilja hvetja almenning til að nota almenningssamgöngur, á að Strætó gengur nú víða um land og að mestu á kostnað skattgreiðenda.

Samtök skattgreiðenda hafa óskað eftir afriti af reikningum allra þingmanna sem mynda þennan kostnað frá 1. janúar 2023 til dagsins í dag.